Sýnir færslur með efnisorðinu útivera. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu útivera. Sýna allar færslur

fimmtudagur, 5. júní 2014

Innlit: Hamptons strandkofi í skandinavískum stíl



Það er nú ekki oft sem maður rekst á innlit frá Hamptons-svæðinu sem er jafn hlýlegt og þetta því yfirleitt er verið að sýna glæsivillur ríka fólksins þar sem íburður virðist vera kjörorðið. Félagarnir sem reka hönnunarfyrirtækið Heiberg Cummings Design eru eigendur þessa strandkofa sem þeir hafa innréttað af smekkvísi í skandinavískum stíl. Hlutlausir tónar eru brotnir upp hér og þar með mildum litum, eins og sjá má í eldhúsinu þar sem stendur grænmáluð gamaldags eyja. Svæðið allt um kring er dásamlega fallegt og ekki amalegt að sitja úti á verönd og fylgjast með bátsferðum. Það er nokkuð ljóst að heir félagar eiga ekki í vandræðum með að hlaða batteríin á þessum stað þegar borgarlífið í New York verður aðeins of stressandi.


myndir:
Anastassios Mentis + Elisabeth Sperre Alnes fyrir Interiør Magasinet

miðvikudagur, 9. apríl 2014

West Midlands | The Granary - kofi til leigu



Hafið þið áhuga á að skoða West Midlands svæðið? Í sveitinni austan við borgina Birmingham er hægt að leigja endurgerðan kofa sem kallast The Granary og er í lokuðum einkagarði sem tilheyrir sveitabýlinu Dove House, sem var byggt í kringum 1350. Svefnherbergin eru þrjú (svefnaðstaða fyrir 5) og það er rúmgott eldhús/borðstofa og setustofa. Allt er smekklega innréttað og öll heimilistæki eru til staðar. Rétt hjá er þorpið Shustoke og bærinn Coleshill.

The Granary er í norðurhluta Warwickshire og það er stutt í hraðbrautir og út á Birmingham-flugvöll. Ef haldið er í suðurátt er komið inn í Shakespeare's Country, eins og svæðið kallast, en þar er að finna ákaflega fallega bæi eins og Stratford-upon-Avon, Leamington Spa og Warwick.
(Sjá einnig The Lodge sem er með einu svefnherbergi (svefnaðstaða fyrir 4)).



myndir:
Lísa Hjalt

fimmtudagur, 3. apríl 2014

Perluliljur til vorskreytinga



Það er kominn fimmtudagur sem merkir að á blogginu fögnum við vori (ég þarf virkilega á svona innblæstri að halda í dag því hér á West Midlands svæðinu er sólarlaus, kaldur og grár dagur). Næstar í röðinni eru tvær hæfileikaríkar konur sem mynda öflugt teymi, ljósmyndarinn Lisa Warninger og stílistinn Chelsea Fuss af Frolic! blogginu. Þær hafa sett saman fjöldann allan af ljósmyndaþáttum fyrir þekkta viðskiptavini eins og HGTV, Kinfolk, Once Wed og Rue, til að nefna nokkra. Í þessum tiltekna fyrir Project Wedding (ég fékk bara nokkrar myndir lánaðar) voru það perluliljurnar sem fönguðu athygli mína. Einnig skærin sem sjást á efstu myndinni; mig langar svo í svona skæri.


Fyrir okkur sem erum alin upp á Íslandi þá eru perluliljur (Muscari armeniacum) kannski ekki týpískur vorboði þó að margir gróðursetji laukana í görðum sínum og noti blómin til skreytinga. En eftir að hafa verið búsett erlendis í nokkur ár þá eru þessi fagurbláu blóm, sem virðast skjóta upp kollinum svo til út um allt, einn af þessum dásamlegu vorboðum. Perluliljur uxu einmitt villtar í garðinum okkar í Luxembourg. Fyrir ykkur sem búið erlendis er óþarfi að skunda út í næstu blómabúð eða á blómamarkað til að verða ykkur út um perluliljur, ef þið búið nálægt skóglendi þá er nóg að grípa bastkörfuna og fara í góðan göngutúr í náttúrunni. Þið getið fyllt körfuna áður en heim er haldið.

Fill a glass full of these beauties to enjoy their clusters of tiny, urn-shaped flowers in finely drawn hues of blue at home. Though they bloom in April, their spicy-grape fragrance has been described as "the perfume of clove and sun-warmed Concord grapes of late September."
úr bókinni Bringing Nature Home eftir Ngoc Minh Ngo


myndir:
Lisa Warninger fyrir Project Wedding | stílisering: Chelsea Fuss af Frolic!
(birt með leyfi)

miðvikudagur, 2. apríl 2014

Innlit: Í glæstum garði ítalskrar villu



Þetta er eitt af þessum innlitum þar sem ég dvel aðallega utandyra enda garðurinn glæsilegur og auk þess eru fáar innanhússmyndir í umfjölluninni um húsið. Þessi landareign er í Piedmont á Ítalíu (í nágrenni Turin) og það var arkitektinn Paolo Pejrone, sem sérhæfir sig í landslagsarkitektúr, sem hannaði húsið og er einnig eigandi less. Það þarf ekki að hafa mörg orð um þessar myndir; þær segja allt sem segja þarf en mig langar að benda á að steinarnir sem mynda gangstíginn sem sést á fyrstu tveimur myndunum koma úr ánni Ticino.
Í megin forstofunni er textíll áberandi rauður: stólarnir eru bólstraðir með rauðri
og fjólublárri indverskri bómull, gluggatjöld (utandyra) eru rauð og á gólfinu
er rauð tyrknesk Smyrna-motta breidd yfir terracotta-flísar
Pejrone ræktar plöntur sínar án nokkurra óæskilegra efna eða skordýraeiturs
sem kannski útskýrir heilbrigt útlit þeirra



myndir:
Oberto Gili fyrir House & Garden af AD DesignFile

fimmtudagur, 1. ágúst 2013

Sumar: afslöppun og einfaldleiki




Ef þessar myndir fanga ekki hina einu sönnu sumarstemningu þá veit ég ekki hvað! Miðað við fréttir frá Íslandi þá á ég von á því að sumarið leiki við ykkur þessa dagana. Við fengum nokkra skýjaða daga með rigningu inn á milli sem var kærkomið eftir mikil hlýindi. Ég notaði þá til að sinna heimilinu á meðan eiginmaðurinn smíðaði nýtt garðborð fyrir okkur. Sólin kom aftur í gær þannig að núna þarf ég að setja á mig garðhanskana og vera dugleg áður en við setjumst út á svalir að borða í kvöld - vonandi við nýja borðið.

En fyrst er það einn bolli af latte og einn kafli af skrifum Karen Blixen. Kannski tveir. Þá meina ég bollar og kaflar.

myndir:
01, 02, 03, 04, 05, 06: af vefsíðu Brigitte (uppgötvað af síðunni This Ivy House)

miðvikudagur, 19. júní 2013

Garðhönnun: frönsk áhrif í garði í Alabama


Það var ást við fyrstu sýn þegar ég sá þennan franska glugga með útsýni út í garðinn á vefsíðu Traditional Home. Ég hugsaði um þessa mynd og þennan garð í allan dag á meðan ég var að vinna í mínum eigin, sem er heldur tilþrifaminni og ekki eins litríkur (kemur allt rólega, núna eru rósirnar fyrir framan hús loksins byrjaðar að blómstra!).


Í hinu sögulega hverfi Redmont í Birmingham, Alabama stendur hús frá árinu 1926 sem er í eigu innanhússhönnuðarins Mary Finch og eiginmanns hennar. Þau keyptu húsið árið 2004 og leituðu til garðyrkjumeistarans Norman Kent Johnson til að fá aðstoð við að hanna garðinn upp á nýtt. Hann var berangurslegur og í honum var aðallega gamalt og ofvaxið bláregni sem sárlega þurfti að klippa til og snyrta. Áður en þau keyptu húsið þá hafði Mary ekki verið mikil garðyrkjukona en eins og segir í greininni „stóðst hún ekki mátið að vinna með ómálaðan striga.“ Franskir garðar voru henni innblástur eftir að hafa skoðað vínekrur í Frakklandi og ferðast um Provence-hérað. Hún er einlæg þegar hún segir hlæjandi: „Sennilega er það franskasta við þennan garð allt það magn af frönsku víni sem hér hefur verið deilt.“


Að ofan sjáið þið fjólubláa salvíu og glæsilegar svalir þar sem þau njóta þess að drekka kaffið sitt á morgnana á meðan þau dást að garðinum og útsýninu. Í dag hljómar Mary eins og sannur garðunnandi þegar hún segir: „Það eru alltaf einhverjar breytingar ... Það er spennandi að sjá nýtt lauf myndast, blöð breytast eða blóm sem er við það að blómstra.“


Plantan hér að ofan er rauð verbena, sem ég hef aldrei séð áður. Hún gengur einnig undir nafninu ,Voodoo Star' eða 'Vúdú-stjarna' og laðar að sér fiðrildi, fulga og býflugur. Rauða blómið fyrir ofan hana kallast Schizanthus.

Hér fyrir neðan má sjá plöntu sem kallast ,Purple Flame' eða ,Fjólublár logi' (Cyclamen hederifolium) og englastyttur í miðju formlega garðsins (enska: parterre).


Útsýnið baka til er stórkostlegt, en frá svölunum má njóta formlega garðsins og hinum megin við dalinn blasir við Appalachian-fjallgarðurinn. Það voru Mary og garðyrkjumeistarinn Norman Kent Johnson sem bættu formlega garðinum við, svona til að halda franskri hönnun á lofti. Horn hans mynda fjórir stórir vasar sem um leið afmarka garðinn.


Í garðinum er opin verönd sem þau nota gjarnan þegar gesti ber að garði því í húsinu sjálfu er ekki formleg borðstofa. Á frístandandi vegg hanga luktir sem gefa frá sér milda birtu þegar sólin sest.


Ég notaði ekki allar myndirnar úr greininni í þessa færslu en ég lýk þessu með steinlögðum stíg og gömlu járnhliði sem hefur yfir sér franskan blæ.


myndir:
Jean Allsopp fyrir Traditional Home