Sýnir færslur með efnisorðinu ráð. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu ráð. Sýna allar færslur

fimmtudagur, 1. maí 2014

Notaður batik-vefnaður úr indígó



Í síðastu færslu í seríunni náttúruleg efni fjallaði ég um malíska textílhönnuðinn Aboubakar Fofana, umhverfisvæna framleiðlu hans og jurtalitun með indígó. Ég hef verið haldin nettu indígóæði og í möppum mínum er að finna nóg af efni, eins og þennan notaða etníska vefnað sem Clubcu selur. Fyrirtækið sérhæfir sig í hvers kyns endurunnum efnum og notuðum hlutum. Það eru smáatriðin í mynstri textílsins sem heilla mig; þetta er batik-vefnaður sem er litaður með indígó.

Jurtalitun með batik-aðferð fer þannig fram að vax er notað til þess að búa til mynstur. Það er borið á hluta efnisins sem ekki á að jurtalita. Ferlið má endurtaka en endanlega er vaxið fjarlægt og þá er varan tilbúin. Þessi forna hefð á uppruna sinn á eyjunni Jövu í Indónesíu.


Ástæða þess að mig langaði að halda áfram að fjalla um indígó er sennilega sú að benda á hið augljósa, að það sé engin ástæða til þess að nota ekki liti þegar kemur að því að skapa heimili með náttúrlegum stíl. Hlutlausir tónar einkenna gjarnan stíl slíkra heimila. Það er stíll sem ég er að vísu hrifin af svo lengi sem notaður er viður, vefnaður og skrautmunir með ólíkri áferð, sem gerir stílinn áhugaverðan. Notkun textíls er leið til þess að gera náttúruleg heimili litríkari, við þurfum bara að gæta að því að nota umhverfisvæn efni, úr t.d. bómull, líni og ull, sem eru jurtalituð án kemískra efna sem skaða umhverfið.



Ég minntist á bók um indígó í fyrrnefndri bloggfærslu og það eru tvær aðrar bækur sem mig langar að benda ykkur á: Indigo: Egyptian Mummies to Blue Jeans eftir Jenny Balfour-Paul og Indigo: The Colour that Changed the World eftir Catherine Legrand. Þær eru án efa innblástur fyrir þá sem vilja skreyta náttúrleg heimili sín með jurtalituðum indígótextíl.


myndir:
Clubcu

fimmtudagur, 3. apríl 2014

Perluliljur til vorskreytinga



Það er kominn fimmtudagur sem merkir að á blogginu fögnum við vori (ég þarf virkilega á svona innblæstri að halda í dag því hér á West Midlands svæðinu er sólarlaus, kaldur og grár dagur). Næstar í röðinni eru tvær hæfileikaríkar konur sem mynda öflugt teymi, ljósmyndarinn Lisa Warninger og stílistinn Chelsea Fuss af Frolic! blogginu. Þær hafa sett saman fjöldann allan af ljósmyndaþáttum fyrir þekkta viðskiptavini eins og HGTV, Kinfolk, Once Wed og Rue, til að nefna nokkra. Í þessum tiltekna fyrir Project Wedding (ég fékk bara nokkrar myndir lánaðar) voru það perluliljurnar sem fönguðu athygli mína. Einnig skærin sem sjást á efstu myndinni; mig langar svo í svona skæri.


Fyrir okkur sem erum alin upp á Íslandi þá eru perluliljur (Muscari armeniacum) kannski ekki týpískur vorboði þó að margir gróðursetji laukana í görðum sínum og noti blómin til skreytinga. En eftir að hafa verið búsett erlendis í nokkur ár þá eru þessi fagurbláu blóm, sem virðast skjóta upp kollinum svo til út um allt, einn af þessum dásamlegu vorboðum. Perluliljur uxu einmitt villtar í garðinum okkar í Luxembourg. Fyrir ykkur sem búið erlendis er óþarfi að skunda út í næstu blómabúð eða á blómamarkað til að verða ykkur út um perluliljur, ef þið búið nálægt skóglendi þá er nóg að grípa bastkörfuna og fara í góðan göngutúr í náttúrunni. Þið getið fyllt körfuna áður en heim er haldið.

Fill a glass full of these beauties to enjoy their clusters of tiny, urn-shaped flowers in finely drawn hues of blue at home. Though they bloom in April, their spicy-grape fragrance has been described as "the perfume of clove and sun-warmed Concord grapes of late September."
úr bókinni Bringing Nature Home eftir Ngoc Minh Ngo


myndir:
Lisa Warninger fyrir Project Wedding | stílisering: Chelsea Fuss af Frolic!
(birt með leyfi)

fimmtudagur, 27. febrúar 2014

Náttúrulega bastkistan mín


Þessa náttúruleg efni færslu skrifa ég í samvinnu við Wovenhill, enskt fyrirtæki í Stratford-upon-Avon sem sérhæfir sig í garðhúsgögnum úr basti. Þau sendu mér þessa bastkistu sem ég nota sem hliðarborð í setustofunni.


Ég hafði verið að leita að hliðarborði fyrir setustofuna, einhverju sem væri praktískt og létt og helst einhverju sem væri um leið góð hirsla. Þessi bastkista var akkúrat það sem mig vantaði. Eins og sést á myndinni þá er hún ansi stór. Ég get geymt í henni teppi og aðrar vefnaðarvörur og líka hluti sem við erum ekki að nota dagsdaglega. Ofan á lokinu geymi ég lampa og bækur (ekki með á myndinni er bakki sem ég tylli á lokið þegar ég fæ mér kaffi í setustofunni).

Wovenhill býður upp á fjórar gerðir af bastkistum, Hatton, Marlow, Twyford og Walton, sem eru fáanlegar í þremur stærðum: mið, stór og extra-stór (þau eru með fleiri tegundir af kistum, ekki bara úr basti). Málin á kistunum eru mismunandi eftir hvaða tegund er valin og allar þær upplýsingar er að finna á vefsíðu þeirra. Kisturnar eru líka seldar í settum. Fáanlegir litir eru náttúrulegur, brúnn, mokka og hvítþveginn - fer bara eftir því hvaða tegund er valin.

• höldur í hliðunum og lok sem hægt er að fjarlægja
• beinhvítt bómullaráklæði sem hægt er að fjarlægja
• náttúrulegt efni: bast (rattan)
Ég tók þessa mynd til að sýna ykkur áferðina á bastkistunni.

WOVENHILL
Wovenhill er fyrirtæki með aðsetur í bænum Stratford-upon-Avon (fæðingarstaður William Shakespeare) í Warwickshire, sem sérhæfir sig í garðhúsgögnum úr basti og býður líka upp á gott úrval af hirslum og öðrum vörum sem hjálpa til við skipulag á heimilinu - körfur, einingar og þvottakörfur sem unnar eru úr basti, sægrasi eða vatnahýasintum (water hyacinth).

Wovenhill | Unit 17, Goldicote Business Park, Banbury Road, Stratford upon Avon, Warwickshire, CV37 7NB
Sími: +44 1789 741935 | Netfang: sales@wovenhill.co.uk

myndir:
Lísa Hjalt | í samvinnu við Wovenhill (orð og skoðanir alfarið mín eigin)

þriðjudagur, 4. febrúar 2014

Veggvasi frá Herman Cph


Velkomin á nýja seríu á blogginu þar sem ég kem til með að einblína á hvers kyns muni fyrir heimilið sem eru framleiddir úr náttúrulegum efnum. Ég hef safnað efni í töluverðan tíma og nýja serían verður blanda af heimilismunum, ráðum um stíliseringu, stuttum viðtölum við hönnuði (ég er þegar með þrjá í takinu) og bókaumfjöllunum, til að gefa ykkur einhverjar hugmyndir um það sem koma skal. Skandinavísk hönnun er mér að skapi og það er ánægjulegt að hefja seríuna með veggvasa (wall pocket) frá Herman Cph, sem er danskt hönnunarfyrirtæki með aðsetur í Frederiksberg í Kaupmannahöfn. Hugmyndafræði þeirra er mér að skapi.


Veggvasinn er stílhrein lausn til að koma í veg fyrir uppsöfnun hluta á heimilinu eða til að geyma muni sem eiga ekki að vera sýnilegir. Vasinn er gerður úr húsgagnaáklæði (60% bómull og 40% lín) og hefur leðuról með koparhnöppum. Hann er festur á vegg með viðarbita úr eik og skrúfum (áklæðið felur skrúfurnar sem fylgja með).
breidd 36 cm x hæð 47 cm

Veggvasinn er frábær lausn fyrir þröng eða lítil rými þar veggpláss fyrir hillur er takmarkað. Minn áhugi á vasanum vaknaði með nýju forstofunni okkar. Hún er sæmilega rúmgóð en frá henni er gengið inn í önnur rými hússins og beggja megin við útidyrahurðina eru gluggar. Það er sem sagt ekki gert ráð fyrir fataskáp, bara fatastandi. Ég sé veggvasann fyrir mér á einum vegg til að geyma vettlinga og aðra aukahluti. Yngri dóttirin spurði hvort hún mætti raða mörgum veggvösum á vegg í sínu herbergi undir alla bangsana. Mér finnst sú hugmynd að vísu frábær en miðað við hvað hún á marga þá þarf ég að byrja að leggja til hliðar.


HUGMYNDAFRÆÐI HERMAN CPH
Við höfum þá sýn að hanna og framleiða einföld gæðahúsgögn og fylgja hönnuninni eftir frá teikniborðinu til fullunninnar vöru.
Hjá Herman Cph eru þau bæði hönnuðir og framleiðendur vörunnar; ferlið hefst á vinnustofu þeirra í Frederiksberg. Framleiðslan sjálf er í samvinnu við danska undirverktaka en þau hjá Herman Cph hafa yfirumsjón með öllu, alveg niður í minnstu smáatriði. Hugmyndafræði þeirra endurspeglast í fallegu handbragðinu.

Herman Cph | Rahbeks Allé 6, 1801 Frederiksberg, Danmörk
Sími: +45 26 22 21 54 | Netfang: jonas@hermancph.dk

myndir:
Herman Cph

miðvikudagur, 7. nóvember 2012

Góð skilaboð



Ég held mikið upp á þessa mynd því það er ekki bara prófíllinn á persanum sem er óborganlegur heldur finnst mér skilaboðin á plakatinu alltaf eiga vel við.

mynd:
af Facebook síðu Food Inc