þriðjudagur, 4. febrúar 2014

Veggvasi frá Herman Cph


Velkomin á nýja seríu á blogginu þar sem ég kem til með að einblína á hvers kyns muni fyrir heimilið sem eru framleiddir úr náttúrulegum efnum. Ég hef safnað efni í töluverðan tíma og nýja serían verður blanda af heimilismunum, ráðum um stíliseringu, stuttum viðtölum við hönnuði (ég er þegar með þrjá í takinu) og bókaumfjöllunum, til að gefa ykkur einhverjar hugmyndir um það sem koma skal. Skandinavísk hönnun er mér að skapi og það er ánægjulegt að hefja seríuna með veggvasa (wall pocket) frá Herman Cph, sem er danskt hönnunarfyrirtæki með aðsetur í Frederiksberg í Kaupmannahöfn. Hugmyndafræði þeirra er mér að skapi.


Veggvasinn er stílhrein lausn til að koma í veg fyrir uppsöfnun hluta á heimilinu eða til að geyma muni sem eiga ekki að vera sýnilegir. Vasinn er gerður úr húsgagnaáklæði (60% bómull og 40% lín) og hefur leðuról með koparhnöppum. Hann er festur á vegg með viðarbita úr eik og skrúfum (áklæðið felur skrúfurnar sem fylgja með).
breidd 36 cm x hæð 47 cm

Veggvasinn er frábær lausn fyrir þröng eða lítil rými þar veggpláss fyrir hillur er takmarkað. Minn áhugi á vasanum vaknaði með nýju forstofunni okkar. Hún er sæmilega rúmgóð en frá henni er gengið inn í önnur rými hússins og beggja megin við útidyrahurðina eru gluggar. Það er sem sagt ekki gert ráð fyrir fataskáp, bara fatastandi. Ég sé veggvasann fyrir mér á einum vegg til að geyma vettlinga og aðra aukahluti. Yngri dóttirin spurði hvort hún mætti raða mörgum veggvösum á vegg í sínu herbergi undir alla bangsana. Mér finnst sú hugmynd að vísu frábær en miðað við hvað hún á marga þá þarf ég að byrja að leggja til hliðar.


HUGMYNDAFRÆÐI HERMAN CPH
Við höfum þá sýn að hanna og framleiða einföld gæðahúsgögn og fylgja hönnuninni eftir frá teikniborðinu til fullunninnar vöru.
Hjá Herman Cph eru þau bæði hönnuðir og framleiðendur vörunnar; ferlið hefst á vinnustofu þeirra í Frederiksberg. Framleiðslan sjálf er í samvinnu við danska undirverktaka en þau hjá Herman Cph hafa yfirumsjón með öllu, alveg niður í minnstu smáatriði. Hugmyndafræði þeirra endurspeglast í fallegu handbragðinu.

Herman Cph | Rahbeks Allé 6, 1801 Frederiksberg, Danmörk
Sími: +45 26 22 21 54 | Netfang: jonas@hermancph.dk

myndir:
Herman Cph

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.