Sýnir færslur með efnisorðinu hrá efni. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu hrá efni. Sýna allar færslur

miðvikudagur, 8. október 2014

Handmáluð viskustykki frá Bertozzi


Í vikunni uppgötvaði ég vefsíðu AllÓRA, sem er verslun í London sem selur hvers kyns ítalskt handverk. Ítalska orðið allóra þýðir ,í fortíðinni' og kjörorð fyrirtækisins eru ,oggi come AllÓRA' sem mætti þýðast 'í dag sem þá'. Hjá AllÓRA hafa þau myndað náið samband við handverksfólkið og þau leggja áherslu á gæði vörunnar og að hún sé ekta, að handverkið sé fallegt og unnið með ástríðu. Verslunin, sem er einnig netverslun, býður upp á gott úrval en það sem aðallega fangaði athygli mína voru handmáluðu viskustykkin frá ítalska fyrirtækinu Stamperia Bertozzi.
Handmáluð viskustykki frá Bertozzi · Lísa Hjalt


Stamperia Bertozzi er ítalskt fjölskyldufyrirtæki sem var stofnað árið 1920. Þau nota fornar handverksaðferðir til að búa til handmáluð og handprentuð efni með ástríðu. Þau blanda litina sjálf og nota blöndur sem hafa varðveist innan fjölskyldunnar, frá einni kynslóð til annarrar.

Þessi stílhreinu viskustykki - línan kallast Gradation - eru unnin úr 100% líni. Efnið sem er notað í viskustykkin er lífrænt og ofið í vefstól sem skilar efni sem er mjúkt viðkomu. Með tímanum tekur það breytingum og verður bara fallegra í útliti.

Þegar efnið er málað er það ekki bara sett til hliðar og látið þorna heldur er línið unnið þrisvar sinnum og málað með mismunandi litatón í hvert sinn. Að lokum nota þau sérstaka Bertozzi handverksaðferð til að festa litinn sem felst í því að nota gufu sem er drifin með sólarorku. Útkoman er skær eða sterkur litur sem endist lengur.

Ég féll kylliflöt fyrir viskustykkjunum í bláu (indigo) og brúnu (cacao) og myndi gjarna vilja sjá þau í mínu eldhúsi, en Gradation-línan er einnig fáanleg í grænu og bleiku.

- stærð – 70 x 55 cm - má fara í þvottavél - þarf ekki að strauja


AllÓRA | 66 Oxford Gardens | London W10 5UN
Sími: +44 (0)20 3701 4076 | Netfang: info@allorashop.com

myndir:
af vetsíðu AllÓRA

þriðjudagur, 9. september 2014

Rýmið 72



- stofa á Majorca á Spáni í eigu Brenda og Paul van Berg
- húsið er uppgert og situr í fjallshlíð nálægt borginni Palma

Ég hef sagt það áður en eitt uppáhaldstímaritið mitt um innanhússhönnun er Elle Decoration UK. Það kemur inn um lúguna í hverjum mánuði og ég er alltaf jafn spennt þegar ég tek það úr plastinu og sest niður til að fletta því með lattebolla í hendi. Þetta rými er hluti af innliti í júlítölublaði þessa árs og það var að sjálfsögðu hrái stíllinn sem höfðaði til mín. Eigendurnir, sem líka reka jógastöð við heimili sitt, hafa ferðast um Afríku og Asíu og keypt ýmsa muni, einkum á mörkuðum í norðurhluta Afríku. Heimilið ber að sjálfsögðu keim af því.

mynd:
Sunna & Marc van Praag fyrir Elle Decoration UK

fimmtudagur, 4. september 2014

Merci: litrík rúmföt úr 100% líni



Þegar kemur að rúmfötum er ég týpan sem vel hlutlausa liti eða þá mjög milda tóna. Kannski vegna þess að það getur verið ansi erfitt að finna litrík rúmföt sem auk þess eru unnin úr náttúrulegum textíl. Það er staðreynd að mikið af þessum mynstruðu og litríku rúmfötum á markaðnum eru lituð með kemískum efnum sem mér finnst ekki eiga erindi í svefnrými fólks. En ef þið eruð mikið fyrir liti þá er hægt að fá náttúruleg og smekkleg rúmföt í versluninni Merci í París sem eru úr 100% líni. Þeir voru að bæta níu litum í flóruna, meðal annars þessum tónum sem sjást á myndinni, sem heldur betur  minna á haustið. Mér finnst graskersliturinn sérstaklega fallegur; það væri gaman að brjóta upp með honum. Þau hjá Merci er með vefverslun líka og senda til Íslands.

mynd:
Merci • af Facebook síðu


miðvikudagur, 30. júlí 2014

Hönnuðurinn Urte Tylaite hjá Still House í spjalli


Ef þið eruð búsett í eða á leiðinni til New York þá gæti það verið góð hugmynd að rölta um East Village hverfið og kíkja í hönnunarbúðina Still House, sem er í eigu skartgripahönnuðarins Urte Tylaite. Hún fæddist í Litháen en flutti til New York þegar hún var 18 ára og lærði í Pratt. Í búðinni er að finna fallega handgerða muni frá hinum og þessum hönnuðum og listafólki - til dæmis keramik, glervörur, skartgripi og bréfsefni - og hennar eigin skartgripalínu. Urte var svo væn að samþykkja stutt viðtal fyrir náttúruleg efni bloggseríuna mína og að sjálfsögðu spurði ég hana hvað væri að finna í kaffibollanum hennar!


Hvað varð til þess að stelpa fædd í Litháen endaði sem hönnuður í New York?
Fjölskylda mín flutti til Bandaríkjanna þegar ég var á síðasta ári í menntaskóla. Þó svo ég talaði varla ensku þá var ég staðráðin í að fara beinustu leið í háskóla. Upprunalega, þegar ég bjó enn í Litháen, ætlaði ég að verða lögfræðingur, jafnvel pólitíkus, en með enga ensku virtist það vera tímasóun. Í staðinn valdi ég listaskóla. Í mörg ár hafði ég sótt listanámskeið og hafði sett saman möppu þrátt fyrir að hafa aldrei hugsað mér að starfa við list. Þannig endaði ég í Pratt þar sem ég nam listmálun. Foreldrar mínir voru ekki sáttir við þessa ákvörðun.

Að námi loknu reyndi ég að fá vinnu í listaheiminum en það virtist ekki henta mér. Til að ná endum saman starfaði ég fyrir nokkra skartgripahönnuði í Brooklyn og féll fyrir iðninni. Ég vann eins mikið og ég gat til þess að læra allt um geirann og heildsöluna og á kvöldin sótti ég tíma í skartgripahönnun. Það kom að því að vinnan var ekki að kenna mér neitt nýtt. Ég var tilbúin fyrir nýjar áskoranir. Ég sá tvær leiðir, annaðhvort að fá vinnu hjá mun stærra fyrirtæki eða að fara út í minn eigin rekstur. Það síðarnefnda átti betur við mig.


Hvað var þér efst í huga, hverjir voru draumar þínir, þegar þú útskrifaðist frá Pratt?
Það er skrýtið að viðurkenna það, en ég hafði ekki skýra sýn á það sem ég vildi gera. Hugmyndir mínar voru meira almenns eðlis. Ég vissi að ég var tilbúinn að leggja hart að mér. Ég vildi líka finna fyrir ástríðu gagnvart vinnunni og virklega njóta hennar, og starfa með fólki sem mér líkaði við og dáði. Ég var bara í leit að spennu og gleðilegum augnablikum því í slíkum aðstæðum fékk ég alltaf nýjar hugmyndir. Ein hugmynd leiddi til annarrar og hér er ég í dag - eigandi búðar og skartgripahönnuður.

Hvaða 3 lykilorð myndirðu nota til að lýsa hönnun þinni?
Lítt áberandi, einföld, tímalaus.


Af hverju að opna búð, Still House, í East Village?
Ég var alltaf svo hrifin af East Village. Ég endaði í þessu hverfi á mínum fyrstu dögum í New York og það togaði strax í mig. Þetta er frábært hverfi til að fara út á kvöldin, en ég naut þess alltaf að koma aftur að degi til og rölta um. Og ég hafði alltaf ástæðu til að koma aftur. Ég þjónaði til borðs á veitingastað hér rétt hjá þegar ég var í skóla, ég var að hitta strák sem bjó í hverfinu, og nokkrir af mínum bestu vinum bjuggu hér. Þegar ég byrjaði að leita að húsnæði fyrir búð þá sjálfkrafa spurðist ég fyrir um rými í East Village því það var hverfið sem ég þekkti best.



Hvað er eiginlega með þig og grjót og steina?
Undarlega er það ástríða sem ég þróaði með mér á fullorðinsárum. Ég vann fyrir skartgripulínu Swallow í Brooklyn. Þau eru með úrval af fallegum hálsmenum með gimsteinum. Ég lagði nöfnin á minnið til þess að vita hvað ég væri að selja. Þegar ég byrjaði að hanna mína eigin skartgripi þá sótti ég sölusýningar með steinum og perlum, og uppgötvaði söluaðila sem buðu einnig upp á náttúrulega steina og grjót og ég féll kylliflöt fyrir þessu. Fyrir mér er þetta áminning um hversu heillandi, fallegur og dularfullur þessi heimur er. Ég elska litina, sem geta komið á óvart, og formin. Grjót og steinar eru munir sem vekja eftirtekt og viðskiptavinir mínir eru einstaklega hrifnir af því að skreyta heimili sín með þeim.

Geturðu nefnt hönnuði sem hafa haft áhrif á verk þín og af hverju?
Ég verð að segja að það er aðallega fólk sem veitir mér innblástur, ekki endilega verk þess. Þetta er ástæða þess að ég elska New York svo mikið. Við erum stöðugt umkringd ástríðufullu og sterku fólki sem elskar lífið.


Hvert ferðu til að sækja innblástur?
Ég tek frídag og slaka á. Nýju munirnir í Still House skartgripalínunni urðu til þar sem ég lá á ströndinni á Long Island fyrir nokkrum helgum síðan. Flestar hugmyndirnar að megin vörulínu minni urðu til í göngutúrum norðar í New York-fylki. Hönnun mín er ekki innblásin af náttúrunni, en ég er það. Þegar ég er úti í náttúrunni fyllist hugurinn af nýjum og ferskum hugmyndum. Strax eftir frídaga reyni ég alltaf að eyða nokkrum dögum á vinnustofunni til þess að vinna úr þessum hugmyndum.

Urte, drekkurðu kaffi, og ef já, hvað er í kaffibollanum þínum?
Ó já! Ég byrja hvern morgun á sterku uppáhelltu kaffi með smá mjólk út í. Og ég fæ mér meira kaffi þegar ég nálgast búðina mína. Við erum svo heppin að það er fullt af kaffihúsum í East Village. Abraco er langbesta kaffihúsið. Ég mæli með að þið kíkið þangað næst þegar þið eruð í grenndinni.


Still House búðin er staðsett á 117 East 7th street. Ef þið komist ekki til New York til að kíkja í búðina þá er engin ástæða að örvænta því það er líka netverslun.


myndir:
Urte Tylaite + Still House

föstudagur, 9. maí 2014

Línvörur í Merci í París


Í stað þess að óska ykkur góðrar helgar með föstudagsblómum birti ég færslu í náttúruleg efni seríunni. Síðasta föstudag vorum við að dást að kirsuberjatrjám í París og því er eðal að halda þangað aftur. Ég vildi stundum að ég byggi í París bara svo ég gæti verslað borðbúnað hvenær sem mér hentaði í Merci, yndislegu concept-búðinni á Boulevard Beaumarchais í 3. hverfi, (muniði eftir þessari færslu?). Þau eru með netverslun en það er allt önnur stemning að rölta um búðina og snerta efnin. Ég er svo hrifin af línvörunum þeirra og hef sett margar á óskalistann. Ef þið eruð að leita að náttúrlegum efnum fyrir heimilið þá er Merci rétta verslunin.

Tauservíettur, 100% lín, blá (French blue) + fölbleik (blush pink)

Ég á nokkrar tauservíettur frá Merci í hlutlausum tónum. Þær eru framleiddar úr þvegnu líni og eru náttúrulega krumpaðar í útliti. Fyrir sumarið langar mig í liti eins og bláan (French blue), mjög ljósbláan tón (blue lagoon), fölbleikan (blush pink), og jafnvel skærbleikan (bright pink), sem lítur út fyrir að vera kóralrauður.


Síðasta sumar eyðilagðist því miður uppáhaldsborðdúkurinn minn, bómull-lín blanda í blá-gráum lit, þegar vax frá flugnafælukerti helltist niður á hann. Ég keypti hann þegar við bjuggum í Antwerpen og hef ekki fundið þennan sama lit hér í Englandi. Ég man þegar ég skoðaði dúkana í Merci hvað ég varð hrifin af gráa litnum (graphite grey) og beinhvíta (off-white). Ég er líka svolítið skotin í fjólubláa (violet) dúknum.

Svuntur með rönd, 100% lín, kóralrauð (light coral) + dökkblá (dark navy blue)

Önnur vara frá Merci sem mig langar í er svunta með rönd í svo til hvaða lit sem er. Þær eru einnig úr þvegnu líni sem er náttúrlega krumpað. Svunturnar eru fáanlegar í einni stærð og maður getur notað hálsbandið eða brotið þær saman og bundið um mittið.


myndir:
Merci

fimmtudagur, 1. maí 2014

Notaður batik-vefnaður úr indígó



Í síðastu færslu í seríunni náttúruleg efni fjallaði ég um malíska textílhönnuðinn Aboubakar Fofana, umhverfisvæna framleiðlu hans og jurtalitun með indígó. Ég hef verið haldin nettu indígóæði og í möppum mínum er að finna nóg af efni, eins og þennan notaða etníska vefnað sem Clubcu selur. Fyrirtækið sérhæfir sig í hvers kyns endurunnum efnum og notuðum hlutum. Það eru smáatriðin í mynstri textílsins sem heilla mig; þetta er batik-vefnaður sem er litaður með indígó.

Jurtalitun með batik-aðferð fer þannig fram að vax er notað til þess að búa til mynstur. Það er borið á hluta efnisins sem ekki á að jurtalita. Ferlið má endurtaka en endanlega er vaxið fjarlægt og þá er varan tilbúin. Þessi forna hefð á uppruna sinn á eyjunni Jövu í Indónesíu.


Ástæða þess að mig langaði að halda áfram að fjalla um indígó er sennilega sú að benda á hið augljósa, að það sé engin ástæða til þess að nota ekki liti þegar kemur að því að skapa heimili með náttúrlegum stíl. Hlutlausir tónar einkenna gjarnan stíl slíkra heimila. Það er stíll sem ég er að vísu hrifin af svo lengi sem notaður er viður, vefnaður og skrautmunir með ólíkri áferð, sem gerir stílinn áhugaverðan. Notkun textíls er leið til þess að gera náttúruleg heimili litríkari, við þurfum bara að gæta að því að nota umhverfisvæn efni, úr t.d. bómull, líni og ull, sem eru jurtalituð án kemískra efna sem skaða umhverfið.



Ég minntist á bók um indígó í fyrrnefndri bloggfærslu og það eru tvær aðrar bækur sem mig langar að benda ykkur á: Indigo: Egyptian Mummies to Blue Jeans eftir Jenny Balfour-Paul og Indigo: The Colour that Changed the World eftir Catherine Legrand. Þær eru án efa innblástur fyrir þá sem vilja skreyta náttúrleg heimili sín með jurtalituðum indígótextíl.


myndir:
Clubcu

þriðjudagur, 29. apríl 2014

Rýmið 62



- stofa með hvítum veggjum, gólfborðum og viðarbitum í lofti
- endurgert sumarhúsi/kofi á Long Island frá árinu 1840
- hönnuður Tricia Foley

mynd:
William Abranowicz fyrir Elle Decor

fimmtudagur, 24. apríl 2014

Malíski textílhönnuðurinn Aboubakar Fofana


Upp á síðkastið hef ég verið sérstaklega hrifin af blálituðum munum fyrir heimilið, einkum textíl unnum úr indígó. Í hvert sinn sem ég fletti tímaritum þá stend ég sjálfa mig að því að leita að þessum litum, sem innblástur fyrir þá hugmynd að nota þá til þess að gera breytingar á heimaskrifstofunni. Einn morgun sat ég við skrifborðið að drekka latte þegar að ég allt í einu mundi eftir malíska textílhönnuðinum Aboubakar Fofana og gullfallega textílnum sem hann framleiðir á umhverfisvænan máta úr indígó jurtinni.


Aboubakar Fofana fæddist árið 1967 í Bamako í Malí og hefur eytt mestum hluta ævinnar í Frakklandi. Þegar hann sneri aftur til Malí uppgötvaði hann að sú hefð að nota indígó sem litunarefni var að falla í gleymsku þannig að hann leitaði uppi gömlu meistarana til að læra listina. Það er Fofana að þakka að þekking þeirra - náttúruleg jurtalitun með indígó plöntunni - hefur varðveist. Síðar meir hlaut hann styrk til þess að læra af hinum japanska Akiyama Masakazu, sem er meistari á sviði jurtalitunar. Það var í Japan sem Fofana vann að því að þróa og bæta tækni sína.

Núna eyðir hann tíma sínum á milli Bamako, þar sem hann er með vinnustofu, París og Tokyo, og hann ferðast um allan heim til að deila þekkingu sinni og tækni með öðrum. Hann er auk þess skrautskrifari, en þá list nam hann í Japan.


Grænu lauf indígó plöntunnar eru notuð til að framleiða mismunandi bláa litatóna, bæði ljósa og dökka, sem sést vel í verkum Fofana. Hér að neðan má sjá skilkiklút sem hefur verið litaður náttúrulega með indígó. Efsta myndin sýnir hvar hann dýfir efni ofan í náttúrulegan gerjunarlög. Fyrst tekur efnið grænan lit þar til það kemst í snertingu við súrefni. Það er oxunin sem rólega kallar fram bláa litinn. (Ef þetta er eitthvað sem þið hafið áhuga á þá getið þið lesið bókina Indigo: In Search of the Colour that Seduced the World eftir Catherine E. McKinley.)


Hver einasti munur sem Aboubakar Fofana hannar er unninn úr náttúrulegum efnum og í þeim sameinast vestur-afrískar hefðir og nútímaleg hönnun. Hönnun Fofana er sjálfbær, hann notar engin kemísk efni sem eru skaðleg náttúrunni. Hann notar lífræn efni og þræði, þá helst lífræna malíska bómull, sem er handspunnin og handofin. Hann er bæði vefari og jurtalitari, og notar bæði malíska og japanska tækni. Fyrir utan að vinna með indígó þá notar hann einnig aðra malíska jurtalitunarhefð sem kennd er við svæðið Bogola, en í henni felst að nota gerjaða mold til litunar.



Það er eitthvað andlegt og dulspekilegt við hönnun Fofana, þar sem menningar Vestur-Afríku og Japans mætast. Hann ræðir þetta í viðtali við tímaritið Selvedge (ég læt þetta standa óþýtt):
He … likens the approach to natural indigo dyeing in Japan and west Africa as remarkably similar considering the physical distance separating the cultures. 'Japanese culture has Shinto and west Africa animism; they are exactly the same … In west Africa you say a prayer to the indigo gods to bless a new born indigo vat, in Japan you offer sake to the indigo god to bless a new vat,' he explains of the rituals that inform the process. (Jessica Hemmings)


myndir:
1, 6-9: Lauren Barkume Photography / 2-3: François Goudier af vefsíðu Atelier Courbet / 4-5: af vefsíðu Selvedge

miðvikudagur, 19. mars 2014

Hönnuðurinn Lotta Jansdotter í spjalli


Það er komið að fyrsta viðtalinu í náttúruleg efni seríunni á blogginu, spjall við sænska hönnuðinn Lotta Jansdotter sem er búsett í Brooklyn. Í fullkomnum heimi hefði ég kíkt í heimsókn á vinnustofu hennar í Gowanus-hverfinu og svo setið með henni á kaffihúsi þar sem við hefðum rætt um hönnun hennar og hvernig það að alast upp í Svíþjóð hefur mótað hönnunina. En Atlantshafið aðskilur okkur og auk þess er Lotta mjög upptekin. Í staðinn sendi hún mér form með tilbúnum spurningum og svörum og þar var að finna allt sem mig langaði að fá svör við, fyrir utan eina spurningu, þá síðustu sem hún að sjálfsögðu sendi mér svar við.



Rætur hennar eru skandinavískar. Hún fæddist á Álandseyjum (á milli Svíþjóðar og Finnlands) og hún var alin upp í Stokkhólmi. Öllum sumrum eyddi hún með föður sínum og ömmu á Álandi. Að dvelja þar er í hennar huga næring fyrir sálina. Hún er höfundur bókarinnar Lotta Jansdotter's Handmade Living: A Fresh Take on Scandinavian Style og annarra bóka. Hún er sjálflærð, aðallega með tilraunum og mistökum. Þannig nam hún iðnina.

Við skulum kynnast henni betur!

Hver er sagan á bak við þinn listræna feril og þann sess sem þú hefur skapað þér?
Mér hefur alltaf þótt gaman að teikna. Sem krakki elskaði ég að teikna blóm og mynstur og það hefur fylgt mér allar götur síðan. Ég var 20 ára þegar ég flutti frá Svíþjóð til Bandaríkjanna í leit að því sem ég vildi verða þegar ég yrði stór. Ég sótti alls kyns kúrsa í tómstundaskólum í Kaliforníu: skartgripahönnun, skúlptúr, teikningu, keramik og silkiprentun ... ég ELSKAÐI silkiprentun. Ég ákvað að hætta í skóla og stofna mitt eigið fyrirtæki, sem ég gerði árið 1996. Ég prentaði myndirnar sem ég teiknaði og mótífin á lín og bjó til púða og töskur sem seldust í Ameríku og Japan. Stíll minn var einfaldur, stílhreinn og mjög innblásinn af náttúrunni og sumrunum sem ég eyddi sem barn í skandinavískri náttúru.


Ég elskaði að teikna og klippa pappír, að nota blek og gúmmísement og penna ... og lærði aldrei að nota tölvuforrit fyrir þessa list ... þannig að mitt mjög svo lífræna ferli þróaðist með þeim hætti að ég hannaði aldrei neitt í tölvu, það sem ég skapaði var ójafnt, svolítið „wabi sabi“-legt ... ófullkomlega fullkomið. Slíkan stíl var ekki að finna á ameríska gjafa/innanhússmarkaðnum á þeim tíma ... og þannig byrjaði þetta allt.

Hvernig lýsirðu hönnunarferli þínu?
Ég teikna svo til alla mína hönnun í teikniblokkir eða á lausablöð, umslög o.s.frv. Ég nota venjulegan gamlan penna (aldrei blýant - þoli þá ekki - línurnar þurfa að vera stöðugar, þykkar og sterkar) eða blek. Ég nota svo ljósritunarvél til að leika mér með stærðir og endurtekningar. Ég kann ekki að nota tölvu og vil heldur ekki nota hana. Ég elska að meðhöndla, að klippa, líma og festa - að snerta pappírinn og verða aðeins klístruð á fingrunum. Ferlið er mjög skemmtilegt.



Því miður er ég oftast svo upptekin við reksturinn að ég á erfitt með að finna tíma til að teikna og skapa. En til allrar lukku þá tel ég það skapandi ferli að vera með sinn eigin rekstur, það er bara öðruvísi sköpunarferli.

Er eitthvað í hönnunarferlinu í uppáhaldi?
Ég elska þá tilfinningu þegar ég dett niður á góða hönnun. Ég teikna og rissa alls kyns hluti og svo allt í einu er ég komin með mótíf sem einhvern veginn er hið rétta. Það gerir mig spennta og ég veit að það mun koma vel út. Það er næstum því eins og að leita að fjársjóði í manns eigin listræna heila. Stundum hefur maður ekki hugmynd um hver útkoman verður. Það hljómar abstrakt, ég veit - það getur verið erfitt að lýsa ferlinu.

Ánægjulegasti hlutinn?
Ég elska að snerta og finna pappírinn, að klippa og leika mér með mynstrin, að fá lím á fingurna. Það er þessi áþreifanlega upplifun sem mér finnst svo mikilvæg þegar ég er að skapa; að finna hlutina sem ég skapa með höndunum, sem er ástæða þess að ég nota ekki tölvu fyrir prenthönnun mína.


Hvaða hlutverki gegna litir í hönnuninni?
Þeir eru undirstöðuatriði í hönnun minni. Mjög mikilvægir. Ég hanna allt í svörtu og hvítu og svo geri ég tilraunir með mismunandi liti. Hönnunin verður mjög ólík með notkun mismunandi lita. Að finna „rétta“ litinn skiptir sköpum - það er það sem gefur hönnuninni tóninn.

Hvað heldurðu að það sé við stíl þinn sem laðar að viðskiptavini?
Fólk skrifar mér og segir að hönnun mín veiti þeim innblástur, sem gerir mig glaða - það er ótrúlega gefandi fyrir hönnuð að veita öðrum innblástur. Því finnst hönnunin róandi (þann hluta skil ég ekki því ég lít ekki á mig sem róandi manneskju), hrein og einföld. Stíll minn er ekki drifinn áfram af tískustraumum. Hann er tímalaus. Ég held að fólk kunni að meta einfalda og náttúrlega eiginleikann. Hönnunin er ekki flókin eða íburðarmikil.

mánudagur, 17. mars 2014

Rýmið 57



- setustofa á heimili danska ljósmyndarans Kristian Septimus Krogh og konu hans Lise í nágrenni Preggio í Umbria-héraði á Ítalíu
- arkitekt Marco Carlini
- það er innlit á heimilið í apríl 2014 tölublaði Elle Decoration UK en þessi tiltekna mynd birtist ekki í blaðinu

mynd:
Kristian Septimus Krogh fyrir Elle Decoration UK af Facebooksíðu þeirra

fimmtudagur, 27. febrúar 2014

Náttúrulega bastkistan mín


Þessa náttúruleg efni færslu skrifa ég í samvinnu við Wovenhill, enskt fyrirtæki í Stratford-upon-Avon sem sérhæfir sig í garðhúsgögnum úr basti. Þau sendu mér þessa bastkistu sem ég nota sem hliðarborð í setustofunni.


Ég hafði verið að leita að hliðarborði fyrir setustofuna, einhverju sem væri praktískt og létt og helst einhverju sem væri um leið góð hirsla. Þessi bastkista var akkúrat það sem mig vantaði. Eins og sést á myndinni þá er hún ansi stór. Ég get geymt í henni teppi og aðrar vefnaðarvörur og líka hluti sem við erum ekki að nota dagsdaglega. Ofan á lokinu geymi ég lampa og bækur (ekki með á myndinni er bakki sem ég tylli á lokið þegar ég fæ mér kaffi í setustofunni).

Wovenhill býður upp á fjórar gerðir af bastkistum, Hatton, Marlow, Twyford og Walton, sem eru fáanlegar í þremur stærðum: mið, stór og extra-stór (þau eru með fleiri tegundir af kistum, ekki bara úr basti). Málin á kistunum eru mismunandi eftir hvaða tegund er valin og allar þær upplýsingar er að finna á vefsíðu þeirra. Kisturnar eru líka seldar í settum. Fáanlegir litir eru náttúrulegur, brúnn, mokka og hvítþveginn - fer bara eftir því hvaða tegund er valin.

• höldur í hliðunum og lok sem hægt er að fjarlægja
• beinhvítt bómullaráklæði sem hægt er að fjarlægja
• náttúrulegt efni: bast (rattan)
Ég tók þessa mynd til að sýna ykkur áferðina á bastkistunni.

WOVENHILL
Wovenhill er fyrirtæki með aðsetur í bænum Stratford-upon-Avon (fæðingarstaður William Shakespeare) í Warwickshire, sem sérhæfir sig í garðhúsgögnum úr basti og býður líka upp á gott úrval af hirslum og öðrum vörum sem hjálpa til við skipulag á heimilinu - körfur, einingar og þvottakörfur sem unnar eru úr basti, sægrasi eða vatnahýasintum (water hyacinth).

Wovenhill | Unit 17, Goldicote Business Park, Banbury Road, Stratford upon Avon, Warwickshire, CV37 7NB
Sími: +44 1789 741935 | Netfang: sales@wovenhill.co.uk

myndir:
Lísa Hjalt | í samvinnu við Wovenhill (orð og skoðanir alfarið mín eigin)

fimmtudagur, 20. febrúar 2014

Needthrow-ecru ábreiða frá Tine K Home


Eins og ég sagði ykkur í síðustu viku þá er búið að vera ansi skýjað. Mig langaði að sýna ykkur horn á mínu eigin heimili en ég þarf meiri birtu til að taka myndir af því. Það bara gengur ekki að birta hálf dimmar myndir af nýjum hlut sem mig langaði að deila með ykkur. Kannski verður heppnin með mér í næstu viku. Þessa dagana er ég að hugsa um vorið og þegar ég sá Tine K Home kynna nýjar needthrow-ábreiður í vikunni þá vissi ég að ég yrði að deila einni í náttúruleg efni seríunni.


Needthrow-ábreiðurnar frá Tine K Home eru úr bómull sem er ofin á sérstakan máta. Ég kann ekki að útskýra það á íslensku en á ensku kallast það jacquard weave. Ég er sérstaklega hrifin af ábreiðunni í ljósa eða hvíta litnum sem kallast Needthrow-ecru. Ábreiðan er einnig fáanleg í bláum og gráum lit.

stærð 140 x 200 cm

Ég hef ekki meðhöndlað needthrow-ábreiðurnar og veit því ekki hver áferðin er, en af myndunum að dæma líta þær út fyrir að vera léttar, sem er kjörið fyrir vorið og sumarið. Mig langar að kaupa nokkra nýja hluti fyrir heimilið í vor og ég hafði hugsað mér ábreiður í hlutlausum lit sem passa við púðana sem ég á nú þegar.

TINE K HOME
Tine K Home er danskt merki, stofnað árið 1999 af Tine Kjeldsen og eiginmanni hennar Jacob Fossum. Aðsetur fyrirtækisins er í Óðinsvéum en vörur þeirra eru seldar í mörgum löndum. Þið getið kynnt ykkur söguna hér.

Línurnar frá Tine K Home samanstanda af
ástríðu Tine fyrir fallegum munum, ljúfum minningum, ólíkum menningarheimum, og góðum sögum. [Þær innihalda] textíl, húsgögn og muni fyrir heimilið sem eru þeirra eigin hönnun eða eitthvað sem þau finna á ferðum sínum um Víetnam, Marokkó, Indland, o.s.frv. Ástríðu sína á ,köldum' litum sameinar hún skandinavískum einfaldleika í handgerðum munum og heillandi hlutum frá ólíkum menningarheimum sem saman skapa hlýlegt og notalegt andrúmsloft.
Tine segir að sér líki „munir sem hafa sögu, sem eru handgerðir og öðruvísi,“ en slíka hluti finni hún yfirleitt ekki í Danmörku.

mynd:
Tine K Home

fimmtudagur, 13. febrúar 2014

Chevron Grande sængurver frá AURA


Í dag í nýju bloggseríunni, náttúruleg efni ætlaði ég að leyfa ykkur að gægjast inn á mitt eigið heimili, sýna ykkur hlut sem ég eignaðist nýverið. Það er bara búið að vera svo skýjað undanfarið að ég var engan veginn sátt við birtuna í myndunum sem ég tók. Í staðinn ætla ég að sýna ykkur sængurver með chevron-mynstri frá AURA, áströlsku fyrirtæki sem sérhæfir sig í rúmfötum og annarri vefnaðarvöru fyrir heimilið.


Ef sængurver úr náttúrulegum efnum höfða til ykkar en þið viljið líka hafa vissan stíl á hlutunum, þ.e. ekki bara velja einlit ver og hlutlaus, þá ættuð þið að skoða úrvalið á vefsíðu AURA. Sængurver sem þau kalla Chevron Grande í svörtu (chevron má lýsa sem aflöngu v-laga mynstri) er faldað með sterkum svörtum borða og því er einnig hægt að snúa á rönguna og hafa alveg svart. Sængurverið er úr 55% líni og 45% bómull og eins og sést á myndinni er hliðin með chevron-mynstrinu með mildum hlutlausum tón á móti þessum svarta. Verið er einnig fáanlegt í lit sem kallast neon kóral, en ég kýs að nota hlutlausa liti í svefnherberginu.

HUGMYNDAFRÆÐI OG STEFNA AURA
Tracie Ellis er stofnandi AURA. Í hennar huga þá er ekki nóg að falleg hönnun gleðji augað heldur þarf áferð vörunnar að vera þægileg viðkomu. Hver lína frá AURA er innblásin af ferðalögum hennar um framandi menningarheima. AURA selur vörur sem eru hannaðar með siðferðilegri ábyrgð og sjálfbærni í huga. AURA-teymið vinnur náið með birgjum og samstarfsaðilum og gengur úr skugga um að starfsfólk þeirra búi við góð vinnuskilyrði, sé ekki undir aldri og að því sé sýnd virðing í starfi.

mynd:
AURA by Tracie Ellis

miðvikudagur, 5. febrúar 2014

Rýmið 52



Ég vildi að ég gæti sagt ykkur nánar frá þessu baðherbergi en því miður veit ég ekkert um það nema það litla sem birtist í myndatextanum. Mig langar í þessa þykku eikarplötu!

mynd:
Elle Decor Italia, apríl 2011 af Tumblr

þriðjudagur, 4. febrúar 2014

Veggvasi frá Herman Cph


Velkomin á nýja seríu á blogginu þar sem ég kem til með að einblína á hvers kyns muni fyrir heimilið sem eru framleiddir úr náttúrulegum efnum. Ég hef safnað efni í töluverðan tíma og nýja serían verður blanda af heimilismunum, ráðum um stíliseringu, stuttum viðtölum við hönnuði (ég er þegar með þrjá í takinu) og bókaumfjöllunum, til að gefa ykkur einhverjar hugmyndir um það sem koma skal. Skandinavísk hönnun er mér að skapi og það er ánægjulegt að hefja seríuna með veggvasa (wall pocket) frá Herman Cph, sem er danskt hönnunarfyrirtæki með aðsetur í Frederiksberg í Kaupmannahöfn. Hugmyndafræði þeirra er mér að skapi.


Veggvasinn er stílhrein lausn til að koma í veg fyrir uppsöfnun hluta á heimilinu eða til að geyma muni sem eiga ekki að vera sýnilegir. Vasinn er gerður úr húsgagnaáklæði (60% bómull og 40% lín) og hefur leðuról með koparhnöppum. Hann er festur á vegg með viðarbita úr eik og skrúfum (áklæðið felur skrúfurnar sem fylgja með).
breidd 36 cm x hæð 47 cm

Veggvasinn er frábær lausn fyrir þröng eða lítil rými þar veggpláss fyrir hillur er takmarkað. Minn áhugi á vasanum vaknaði með nýju forstofunni okkar. Hún er sæmilega rúmgóð en frá henni er gengið inn í önnur rými hússins og beggja megin við útidyrahurðina eru gluggar. Það er sem sagt ekki gert ráð fyrir fataskáp, bara fatastandi. Ég sé veggvasann fyrir mér á einum vegg til að geyma vettlinga og aðra aukahluti. Yngri dóttirin spurði hvort hún mætti raða mörgum veggvösum á vegg í sínu herbergi undir alla bangsana. Mér finnst sú hugmynd að vísu frábær en miðað við hvað hún á marga þá þarf ég að byrja að leggja til hliðar.


HUGMYNDAFRÆÐI HERMAN CPH
Við höfum þá sýn að hanna og framleiða einföld gæðahúsgögn og fylgja hönnuninni eftir frá teikniborðinu til fullunninnar vöru.
Hjá Herman Cph eru þau bæði hönnuðir og framleiðendur vörunnar; ferlið hefst á vinnustofu þeirra í Frederiksberg. Framleiðslan sjálf er í samvinnu við danska undirverktaka en þau hjá Herman Cph hafa yfirumsjón með öllu, alveg niður í minnstu smáatriði. Hugmyndafræði þeirra endurspeglast í fallegu handbragðinu.

Herman Cph | Rahbeks Allé 6, 1801 Frederiksberg, Danmörk
Sími: +45 26 22 21 54 | Netfang: jonas@hermancph.dk

myndir:
Herman Cph

miðvikudagur, 29. janúar 2014

Rýmið 51




- eldhús í Marrakesh í Marokkó
- hönnuðir Karl Fournier og Olivier Marty hjá Studio KO

mynd:
Philippe Garcia fyrir franska AD, n°120, nóvember 2013

miðvikudagur, 15. janúar 2014

Rýmið 49



Því miður veit ég ekkert um þessa borðstofu annað en að ljósmyndarinn Debi Treloar tók myndina. Rýmið er greinilega hluti af sveitasetri ef við skoðum það litla sem sést út um gluggann en mér hefur ekki tekist að finna hvaða sveitasetur það er. Ég verð því að láta rómantísku stemninguna í myndinni nægja í dag.

mynd:
Debi Treloar af blogginu La Cocina de Tina