þriðjudagur, 16. júní 2015

Heltekin af strandarstílÉg er heltekin af strandarstíl. Í allan dag hefur hugurinn reikað á ströndina og mig langar bara að finna sand á milli tánna og dýfa þeim í sjóinn. Þetta byrjaði þegar eiginmaðurinn sendi mér mynd frá þeim stað sem hann dvelur á í augnablikinu. Hann er fjarverandi vegna vinnu og gistir í einum af þessum litlu bæjum sem eru með strönd og bátahöfn. Á morgun, á þjóðhátíðardaginn, eigum við brúðkaupsafmæli (17 ár) og ef börnin væru ekki enn í skólanum þá hefðum við getað verið þar með honum og fagnað. Kannski einn daginn.

Sem sárabót með lattebollanum í morgun keypti ég júlítölublað Country Living UK, en það vill svo til að það er stútfullt af strandarstíl. Það var einn ljósmyndaþáttur sem fangaði athygli mína, Shades of the Shoreline, sem er fallega stíliseraður af Hester Page og ljósmyndaður af Catherine Gratwicke. Ef ég ætti strandarhús þá væri þetta horn með veðraða skrifborðinu í því. Ég er að hugsa um að apa eftir hluta af stíliseringunni í forstofunni í sumar. Ég er með hvítt borð þar og ég þyrfti bara að verða mér út um skeljar og grænar glervörur. Ég sá einmitt grænar glerflöskur og -krukkur í búð um daginn.Það er hellingur af öðrum áhugaverðum ljósmyndaþáttum og greinum í tímaritinu og ein fjallar um eyjuna Guernsey og endar með þessu sæta myndskreytta korti hér að neðan (elska svona kort!). Eftir að hafa lesið bókina The Guernsey Literary and Potato Peel Pie Society eftir Mary Ann Shaffer (sjá þessa færslu) hefur það verið draumur minn og æskuvinkonu minnar að ferðast þangað saman.


Undanfarið hef ég verið með nett æði fyrir laufblöðum bananatrjáa og í umfjölluninni las ég að Seigneur Peter de Sausmarez sem á Sausmarez Manor-setrið í St. Martin "umbreytti fimm ökrum af skóglendi í suðræna paradís þar sem bambus- og bananatré standa meðfram göngustígum, þar sem má finna meira en 300 kamellíu-runna og fullkominn skúlptúrgarð" (bls. 64). Annar staður sem ég myndi vilja skoða er Hauteville-húsið, með Victor Hugo-garðinum, þar sem rithöfundurinn bjó þegar hann var í útlegð á eyjunni frá 1856 til 1870.

Gleðilegan þjóðhátíðardag á morgun!


myndir mínar | heimild: Country Living UK, júlí 2015, Shades of the Shoreline, bls. 92-98 · Catherine Gratwicke · stílisering: Hester Page

mánudagur, 1. júní 2015

Stílhreinn bóhemískur blær á Ibiza

Bóhemískur stíll á Ibiza · Lísa Hjalt


Á laugardaginn barst nýjasta tölublað Elle Decoration UK í hús og innlitið sem ég féll kylliflöt fyrir var 300 ára gamalt stílhreint hús með bóhemískum blæ á afskekktu svæði á Ibiza. Það gerist ekki oft að mér líki svo til öll rými í innlitum tímarita en ég hef verið kannski full heltekin af þessu (efsta myndin skreytir núna tölvuskjáinn), sem kallast ,Where the cicadas sing' (ljósmyndarar Sunna og Marc Van Praag). Ég varð að smella af nokkrum myndum og deila með ykkur, af þeim rýmum í húsinu sem fá hjartað til að syngja.Það er hrái stíllinn í húsinu sem sérstaklega höfðar til mín, eins þessir innbyggðu setkrókar næst eldhúsinu (ekki sýnt í tímaritinu) sem virka svo kósí og notalegir. Borðstofan tengist setustofunni og er einnig með innbyggðum setkrók. Í báðum setkrókunum má sjá fallegan textíl, púða og sessur í einlit eða með mynstri. Skrautmunir eru flestir eitthvað sem eigendurnir hafa keypt á ferðalögum um heiminn. Ég er einstaklega hrifin af þessum mynstraða lampa á milli setkrókanna en það kemur ekki fram í greininni hvaðan hann kemur.

Setustofa í hráum stíl með arni og innbyggðum setkrók

Aðrir munir á heimilinu sem fönguðu athygli mína voru skreyttu vasarnir á borðinu hér að neðan og í stiganum, og einnig fallegar mottur sem er að finna í öllum rýmum.


Á baðherberginu eru bogadregnu veggirnir upprunalegir og flísarnar eru spænskar. Þessi motta á gólfinu er alveg í mínum stíl! Ég varð að láta fylgja með svæðið utandyra með sundlauginni, en til að sjá meira þá verðið þið bara að næla ykkur í eintak af tímaritinu!Ég held að flestir Íslendingar kannist við Ibiza, sem er hluti af balerísku eyjunum í Miðjarðarhafinu. Eyjan hefur alltaf verið tengd við fjörugt næturlíf, sem er ekki aðdráttarafl fyrir mig á ferðalögum. En ég hef alltaf verið hrifin af smáþorpum eyjunnar, afskekktum stöðum og ólíkum menningarstraumum, sem er ástæða þess að Ibiza komst á langar-að-heimsækja listann minn. Það er gömul bloggfærsla sem kallast Colours of Ibiza eftir Maríu bloggvinkonu mína á EclecChic sem sýnir akkúrat hvað það er sem laðar mig að eyjunni.


Það er ein önnur grein í júlíhefti Elle Decoration UK í ár sem mig langar að nefna. Hún er um arkitektinn og hönnuðinn Alexander Girard (1907-1993). Vitra Design Museum í Weil am Rhein verður með heilmikla sýningu á verkum hans árið 2016 (staðsetning safnsins er í horninu þar sem Þýskaland, Sviss og Frakkland mætast.) Hér er tengill á það sem Alexander Girard hefur hannað fyrir Vitra - eldspýtustokkarnir finnst mér æðislegir.


myndir mínar | heimild: Elle Decoration UK, júlí 2015, Where the cicadas sing, bls. 98-107 · Sunna + Mark Van Praag