Sýnir færslur með efnisorðinu innlit. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu innlit. Sýna allar færslur

miðvikudagur, 11. apríl 2018

Schuyler Samperton Textiles: bláir og rauðir tónar

Schuyler Samperton Textiles: bláir og rauðir tónar · Lísa Stefan


Þegar ég er ekki með andlitið grafið ofan í bók þá má líklega sjá mig dásama mynstraðan textíl með heillandi mótífum (ég óska þess oft að hafa stundað nám í skreytilist). Í vikunni komst ég að því að bráðum bætist ný hönnun í línu Schuyler Samperton Textiles, sem kom á markað í fyrra. Ég bíð spennt. Á blogginu hef ég nú þegar kynnt nokkur af mynstrum hennar og í dag eru það blá og rauð efni sem ég lék mér að því að raða saman, með áherslu á mynstrin Overlea, Cordoba og Nellcote. Einnig langaði mig að sýna ykkur lítið brot úr innliti í Lamb's House í Leith, sem er í eigu íslensks arkitekts og birtist í House & Garden UK árið 2016.

En fyrst er það textíllinn. Bláa og rauða blómamynstrið er Overlea og þessi litur kallast Vermillion. Ég ætla að nota hann til að skreyta einn krók á heimilinu þegar ég er búin að kaupa nokkrar nauðsynjar. Ég held að efnið í þessum sama lit sómdi sér vel sem borðdúkur. Mynstrið í bláum tón kallast Marine, sem sést við hliðina á myndinni af herberginu. Hitt samanbrotna, bláa efnið er Cordoba í Indigo; hönnunin er með paisley-mótífi. Röndótta efnið er Pendleton í litnum Brighton.

Mynstrið Nellcote er hönnun sem ég hef þegar deilt og fæ ekki nóg af. Efnaprufan með spjaldinu sýnir það í bláum tón sem kallast Montego. Efst í hægra horninu sést glitta í það í litnum Apricot, sem er minn uppáhalds í fáanlegum litum þessa mynsturs (bláa efnið undir því er Firefly í litnum Deep End). Í eldri bloggfærslum þar sem textílhönnun Samperton hefur verið til umfjöllunar hef ég alltaf sýnt mynstrið Doshi; það sést undir lattebollanum í bláa tóninum Lake. Vinsamlegast fylgið hlekkjunum á mynstrin til að skoða fáanlega liti á vefsíðu Schuyler Samperton Textiles.

Lamb's House stofa, House & Garden UK · Davide Lovatti
Úr tímaritinu House & Garden UK: stofan í Lamb's House/Davide Lovatti

Svefnherbergið á myndinni minni tilheyrir Lamb's House í Leith (Edinborg), sem var byggt árið 1610 og hefur verið uppgert. Eigendurnir eru arkitektar sem sérhæfa sig í húsfriðun og það vill svo til að eiginkonan er íslensk, Kristín Hannesdóttir. Ég man eftir því að hafa kolfallið fyrir þessu rými, textílnum og viðarbitunum í loftinu, þegar ég sá innlitið í fyrsta sinn í tímaritinu House & Garden UK (desember 2016, ljósmyndari Davide Lovatti). Hér má einnig sjá stofuna og vinnustofu Kristínar, en tunnulaga loftið í henni er unnið úr lerki frá Síberíu. Smellið á hlekkinn ef þið hafið áhuga á því að lesa um endurbæturnar á húsinu og til að sjá fleiri myndir.

Lamb's House vinnustofa, House & Garden UK · Davide Lovatti
Vinnustofa Kristínar Hannesdóttur arkitekts í Lamb's House/Davide Lovatti



miðvikudagur, 2. mars 2016

Casa No Name - hús Deborah Turbeville

Casa No Name - hús Deborah Turbeville · Lísa Stefan


Á föstudaginn lofaði ég að birta síðar nokkrar myndir sem ég smellti af innliti í hús í Mexíkó. Umfjöllunin, sem kallast Destination unknown, birtist í desembertöluhefti 2015 af The World of Interiors (ljósmyndari Ricardo Labougle). Húsið átti Deborah Turbeville heitin (1932-2013), en hún var þekktur tískuljósmyndari og lifði eins konar hirðingjalífi. Hún skírði húsið Casa No Name, en það er staðsett í hinni sögulegu borg San Miguel de Allende í mexíkóska ríkinu Guanajuato. Þegar Turbeville keypti húsið var það í hræðilegu ásigkomulagi, en ef þið þekkið til verka hennar þá skiljið þið út af hverju það heillaði hana. Vinur hennar sem hafði umsjón með framkvæmdunum, sem tóku tvö ár, sagði vinnumönnunum að gera þetta ekki of fullkomið, „Senjorídan vill hafa það þannig“ (bls. 190). Það er ekkert eitt sem dregur mig að húsinu heldur er það mikilfengleikinn sem hrífur mig; glæsilegt safn af mynstruðum textíl, litir, gifsveggir, þakverönd . . . þetta er það sem meint er þegar talað er um að gera hús að heimili.


Árið 2009 kom út á vegum Rizzoli bókin Casa No Name eftir Turbeville sjálfa. Ég hef séð nokkrar myndir úr henni og hún er ekki allra. Við skulum bara orða það þannig að hún sé öðruvísi bók um innanhússhönnun og innihaldi margar hreyfðar myndir. Eldheitir Turbeville-aðdáendur verða ekki fyrir vonbrigðum.

Ég fann stutt viðtal við Turbeville á YouTube, sem var tekið í húsinu hennar Casa No Name þegar Toast var að ljósmynda þar línuna sína fyrir vor/sumar 2010.


Fyrir alla sem hafa áhuga á tískuljósmyndun get ég mælt með bókinni Deborah Turbeville: The Fashion Pictures. Hún er einnig gefin út af Rizzoli og í henni er að finna hinar frægu en umdeildu baðhúsmyndir sem hneyksluðu margar þegar þær birtust í Vogue árið 1975.
Casa No Name í tímaritinu The World of Interiors · Lísa Stefan


myndir teknar af síðum The World of Interiors, des. 2015, Destination unknown, bls. 182-191

mánudagur, 1. júní 2015

Stílhreinn bóhemískur blær á Ibiza

Bóhemískur stíll á Ibiza · Lísa Stefan


Á laugardaginn barst nýjasta tölublað Elle Decoration UK í hús og innlitið sem ég féll kylliflöt fyrir var 300 ára gamalt stílhreint hús með bóhemískum blæ á afskekktu svæði á Ibiza. Það gerist ekki oft að mér líki svo til öll rými í innlitum tímarita en ég hef verið kannski full heltekin af þessu (efsta myndin skreytir núna tölvuskjáinn), sem kallast ,Where the cicadas sing' (ljósmyndarar Sunna og Marc Van Praag). Ég varð að smella af nokkrum myndum og deila með ykkur, af þeim rýmum í húsinu sem fá hjartað til að syngja.



Það er hrái stíllinn í húsinu sem sérstaklega höfðar til mín, eins þessir innbyggðu setkrókar næst eldhúsinu (ekki sýnt í tímaritinu) sem virka svo kósí og notalegir. Borðstofan tengist setustofunni og er einnig með innbyggðum setkrók. Í báðum setkrókunum má sjá fallegan textíl, púða og sessur í einlit eða með mynstri. Skrautmunir eru flestir eitthvað sem eigendurnir hafa keypt á ferðalögum um heiminn. Ég er einstaklega hrifin af þessum mynstraða lampa á milli setkrókanna en það kemur ekki fram í greininni hvaðan hann kemur.

Setustofa í hráum stíl með arni og innbyggðum setkrók

Aðrir munir á heimilinu sem fönguðu athygli mína voru skreyttu vasarnir á borðinu hér að neðan og í stiganum, og einnig fallegar mottur sem er að finna í öllum rýmum.


Á baðherberginu eru bogadregnu veggirnir upprunalegir og flísarnar eru spænskar. Þessi motta á gólfinu er alveg í mínum stíl! Ég varð að láta fylgja með svæðið utandyra með sundlauginni, en til að sjá meira þá verðið þið bara að næla ykkur í eintak af tímaritinu!



Ég held að flestir Íslendingar kannist við Ibiza, sem er hluti af balerísku eyjunum í Miðjarðarhafinu. Eyjan hefur alltaf verið tengd við fjörugt næturlíf, sem er ekki aðdráttarafl fyrir mig á ferðalögum. En ég hef alltaf verið hrifin af smáþorpum eyjunnar, afskekktum stöðum og ólíkum menningarstraumum, sem er ástæða þess að Ibiza komst á langar-að-heimsækja listann minn. Það er gömul bloggfærsla sem kallast Colours of Ibiza eftir Maríu bloggvinkonu mína á EclecChic sem sýnir akkúrat hvað það er sem laðar mig að eyjunni.


Það er ein önnur grein í júlíhefti Elle Decoration UK í ár sem mig langar að nefna. Hún er um arkitektinn og hönnuðinn Alexander Girard (1907-1993). Vitra Design Museum í Weil am Rhein verður með heilmikla sýningu á verkum hans árið 2016 (staðsetning safnsins er í horninu þar sem Þýskaland, Sviss og Frakkland mætast.) Hér er hlekkur á hönnun Alexanders Girard fyrir Vitra - eldspýtustokkarnir finnst mér æðislegir.


myndir af tölublaði Elle Decoration UK, júlí 2015, Where the cicadas sing, bls. 98-107 · Sunna og Mark Van Praag

fimmtudagur, 16. október 2014

Innlit: fyrrum textílverksmiðja í Como



Það þarf ekki að hafa mörg orð um þetta innlit. Ítalski arkitektinn og listamaðurinn Marco Vido endurgerði þetta ris í Como á Ítalíu en á 3. áratugnum var húsið textílverksmiðja. Ég er í einhvers konar haltu mér-slepptu mér sambandi við iðnaðarstíl því stundum finnst mér hann of kaldur og fráhrindandi. Hérna finnst mér hafa vel tekist til því það er nóg af hlýjum viði sem skapar jafnvægi. Auk þess finnst mér svörtu gluggarnir svakalega flottir.


myndir:
Nathalie Krag fyrir Interior Design, ágúst 2014

fimmtudagur, 2. október 2014

Innlit: þakíbúð með verönd í East Village, NY



Á fimmtudögum á ensku útgáfu bloggsins er ég með seríu þar sem ég birti veröndir og önnur útisvæði. Í dag var ég með stóra verönd virklega fallegrar þakíbúðar í East Village hverfinu í New York og hugsaði með mér, því ekki að deila innri rýmunum hér á íslensku útgáfunni. Það var arkitektinn Michael Neumann sem hjálpaði eigendunum að ráðast í endurnýjun og miklar breytingar á húsnæðinu. Glerhurðirnar með svörtu römmunum og bogadregnu gluggarnir sem einkenna rýmið finnst mér hafa heppnast ákaflega vel, en samtals fimm hurðir opnast út á veröndina. Stíllinn er hrár en samt hlýlegur, mikið er um muni úr náttúrulegum efnum og brúnir tónar eru einkennandi.


Einn eigandanna er einn af yfirmönnum hjá Ralph Lauren veldinu og því er að finna mikið af húsgögnum og munum fyrir heimilið frá Ralph Lauren Home, til dæmis sófann og stólana í stofunni. Rammaða prentverkið fyrir ofan arininn er eftir Richard Serra.


Persónulega langaði mig að sleppa að nota þessa mynd af borðstofunni því mér finnst borðskreytingin svo yfirdrifin eða, svo ég segi það bara hreint út, forljót. En hin myndin sem ég fann var bara of lítil. Ég vildi samt sýna ykkur rýmið því þaðan sést vel út á veröndina og myndin sýnir hurðirnar og gluggana vel. Það er annars alveg merkilegt hvað þetta er algeng stílisering í innlitum í amerískum tímaritum, eins og það þurfi alltaf að vera einhver svakalegur vasi með risastórum blómum eða greinum ofan á hringborði sem gnæfir yfir allt annað. Þess má geta að stólarnir í iðnaðar- eða verksmiðjustílnum eru gamlir Tolix stólar og eru líka notaðir við borðið á veröndinni.


myndir:
Miguel Flores-Vianna fyrir Architectural Digest, apríl 2012

mánudagur, 15. september 2014

Innlit: heimili listakonunnar Pepa Poch á Spáni



Þegar ég rekst á heimili listamanna sem eru jafn falleg og þetta þá fæ ég allt að því skjálfta í hnén. Hið vinsæla tímarit Lonny er ókeypis á netinu og septemberútgáfan er öll hin glæsilegasta. Þau heimsóttu katalónsku listakonuna Pepa Poch sem býr í hvítmáluðu húsi á Costa Brava á Spáni með útsýni út á Miðjarðarhaf. Ég allt að því slefaði þegar ég sá pússuðu gólfborðin, svo ég minnist nú ekki á loftbitana sem hafa verið málaðir í bláum tón. Það eru einmitt þessir bláu tónar hér og þar um húsið og í listaverkum Poch sem heilla mig. Ég er auk þess ákaflega hrifin af svona hráum stíl þar sem steinn og viður leika aðalhlutverk, sérstaklega þegar hann er hlýlegur eins og á þessu heimili. Það eru fleiri myndir á vefsíðu Lonny ef þið viljið sjá meira og að sjálfsögðu smá viðtal við listakonuna.


myndir:
Albert Font fyrir Lonny, september 2014

mánudagur, 8. september 2014

Innlit: ljóst, grænt og hlýlegt á Spáni



Ég var að fá í hendurnar svo fallega bók með nútímalegum sveitasetrum, sem ég ætla að segja ykkur frá síðar, og varð eiginlega að kafa aðeins ofan í möppurnar mínar í leit að nútímalegum rómantískum stíl. Þetta hús á Spáni finnst mér fallegt og hlýlegt; rómantíski stíllinn er ekki yfirgnæfandi eða of væminn eins og oft vill verða. Ég er svolítið skotin í flísunum á gólfinu þó ég myndi ekki nota þær sjálf á svona stóran flöt.

Ég man ekki eftir að hafa farið í gegnum grænt innanhússtímabil í lífinu en ég hef alltaf verið hrifin af flöskugrænum vösum og stórum grænum glervösum. En að blanda þessu saman við hvítt hefur mér hingað til þótt full Breiðablikslegt (ég vona að ég móðgi engan með þessari samlíkingu). Ég held að þessi litasamsetning gangi upp hér vegna þess að hún er brotin upp með náttúrulegum mottum ásamt munum úr basti, og húsgögnin eru ekki öll eins heldur hafa þau mismunandi áferð og ljósa/hvíta og jafnvel gráa tóna. Það er sennilega trikkið.