miðvikudagur, 28. ágúst 2013

TískuþátturinnEinu sinni voru hlutirnir bara nokkuð einfaldir í tískuheiminum þar sem hönnuðir sýndu tvær fatalínur á ári með hálfsárs millibili: vor- og sumartískuna og haust- og vetrartískuna, fyrir utan tískuhúsin sem bjóða upp á hátísku (haute couture), sem var jú uppruninn að þessu öllu saman. Í dag kynna flest tískuhús tvær aðrar línur sem á ensku nefnast „Pre-Fall/Pre-Autumn“ og „Resort“ og margir spyrja til hvers og hvað þýðir þetta eiginlega? Ég hef ákaflega gaman af fallegum flíkum en persónulega finnst mér þetta stundum fullmikið og virkar gjarnan eins og ekkert rúm sé til þess að anda á milli þessara tískuvikna eða kynninga.

Þetta á sér samt eðlilega skýringu: Resort-línurnar berast í verslanir í nóvember og eru hugsaðar til þess að brúa bilið á milli hausttískunnar sem berst í september og vortískunnar í febrúar. Pre-Fall línurnar koma í verslanir í maí og brúa bilið sem skapast á milli febrúar og september. Á mannamáli kallast þetta einfaldlega að selja meira, sem er ekkert slæmt svo lengi sem það er markaður fyrir allar þessar fatalínur.

Resort-línurnar eða „cruise“ hafa ekki beint með dvalarstaði eða siglingar að gera heldur voru upphaflega hugsaðar fyrir auðuga viðskiptavini sem gjarnan dvelja á hlýrri slóðum yfir köldustu mánuðina og því bera heitin keim af því. Gjarnan var verið að kynna baðföt og léttar flíkur. Nú til dags eru línurnar tímalausari, eins og sést á flottu dragtinni hér að ofan sem er ein af mörgum flíkum í Louis Vuitton Resort 2014 línunni sem kynnt var fyrr í sumar. Kjóllinn að neðan er úr Resort-línu tískuhússins Bottega Veneta.


Á ensku útgáfu bloggsins í dag birti ég Notes à la mode færslu sem ég hafði ekki gert síðan í júní. Um tíma var þetta vikuleg sería á blogginu og því ákvað ég að gefa skýringu á þessu í færslunni sem ég skal endurtaka hér:
Ég fékk eiginlega nóg af tísku eða því hvernig fjallað er um tísku í fjölmiðlum, og ég fékk nóg af umfjöllun um fræga fólkið, sem ég tengi við tísku. Ég fékk líka nóg af því að skoða tískublogg þar sem skilaboðin voru þau að ég þyrfti að eignast þetta og hitt. Ég þarf ekki að eignast eitt né neitt í fataskápinn nema að flíkin höfði til mín og fari mér og ef hún gerir það þá samt þarf ég ekki að eignast hana. Annaðhvort vantar mig flíkina eða ekki.

Önnur ástæða þess að ég fékk nóg af tísku var það sem ég kalla tískuvikusirkusinn; sú sýning sem ákveðnir einstaklingar „setja á svið“ þegar þeir mæta á tískuvikur (ekki minnast á þá meðal áhorfenda sem tvíta stöðugt á meðan sýningu stendur í stað þess að njóta þess sem fyrir augu ber og meðtaka það áður en þeir deila því með umheiminum). Það sem ég er í raun að segja er að ég fékk nóg af götustíl eða götustíl sem snýst um að draga að sér athygli. Ég hef alltaf gaman að því að sjá fallegan fatastíl sem veitir mér innblástur en mér gæti ekki verið meira sama hverju fólk klæðist þegar það mætir á tískusýningar. Þegar tískuvikurnar standa yfir þá hef ég aðallega áhuga á því að sjá hvað er kynnt á tískupöllunum og hvaðan hönnuðirnir sóttu innblásturinn. Hver eru skilaboð tískuhönnuðarins fyrir komandi tíð? Eru skilaboðin sterk eða veik?

Ég vildi svo gjarnan vilja sjá heiðarlegri ritdóma um fatalínur. Væri það virkilega svo slæmt að segja að tískuhönnuð hafi skort allan metnað? Af hverju þurfa þeir sem fjalla um tísku alltaf að stíga einhvern meðvirknidans með hönnuðum? Það er ekkert annað en klisja að halda því fram að þetta snúist um auglýsingatekjur og að það megi ekki reita tískuhönnuði til reiði því það er fullt af hönnuðum sem auglýsa aldrei.
Svo mörg voru þau orð og ég deildi svo nokkrum myndum úr haust- og vetrarlínu Haider Ackermann.


Áður en ég enda þetta þá langar mig að kynna fyrir ykkur tvær nýjar haustlínur frá Mary Jo Matsumoto sem hannar og framleiðir fallegar töskur í Los Angeles. Ég kynnti ykkur fyrir henni í tveimur Eftirminnilegt sumar færslum og sagði ykkur að ég væri ekki hlutlaus því hún er vinkona mín. Ég kynntist henni í gegnum bloggskrifin og hún heimsótti mig í byrjun árs og þá fékk ég tækifæri til þess að skoða hönnunina. Allt er framleitt úr gæðaefnum og handverkið og saumaskapurinn er til fyrirmyndar (það er maður sem saumar töskurnar fyrir hana í LA).

Í haust kynnti Mary Jo Matsumoto línu af rauðum töskum sem hún kallar því skemmtilega nafni Scandalous Lover og shopper-taskan rataði strax á óskalistann minn. Í gær kynnti hún svo gráa töskulínu sem ber jafnvel enn skemmtilegra heiti: Cloudy With Chance of Surfing. Taskan til hægri er úr þeirri línu, svo falleg og tímalaus.

myndir:
1: Louis Vuitton Resort 2014 af vefsíðu Vogue US / 2: Bottega Veneta Resort 2014 af Vogue US / 3: Mary Jo Matsumoto

þriðjudagur, 27. ágúst 2013

mánudagur, 26. ágúst 2013

Eftirminnilegt sumarMér finnst svolítið skrýtið að birta þessa síðustu Eftirminnilegt sumar færslu og get ekki sagt að ég hafi verið að flýta mér að deila henni í dag, aðallega því mér líður eins og ég sé að tilkynna lok sumarsins. Það er enn næstum heill mánuður eftir af því en í mínum huga markar byrjun septembermánaðar haustið og þess vegna lýkur þessari seríu í dag.

Myndirnar sem birtast hér endurspegla mína eigin sumarstemningu. Ég fór að vísu ekki í lautarferð eins og þá sem sést á fyrstu myndinni en það tekur okkur bara nokkrar mínútur að hjóla á stað með nákvæmlega sama landslagi. Við byrjuðum sumarið á göngutúr á því svæði og þessi mynd gæti allt að því verið hluti af þeim myndum sem ég tók þá.


Ég held að ég hafi aldrei verið jafn iðin í garðinum eins og þetta sumar, ef ég tel ekki með sumrin sem ég eyddi í garðinum með afa og ömmu sem lítil stelpa. Ef ég var ekki að sinna garðinum þá var ég úti á svölum eða verönd að lesa.


Ef ég ætti að velja plöntu sumarsins þá yrði það lavender; ég var bókstaflega með lavender á heilanum en þið vissuð það svo sem nú þegar.Við fórum ekki neitt í sumar heldur virkilega nutum þess hér heima við og á svæðunum í kringum okkur en í næstu viku ætlum við í smá ferðalag áður en skólarnir hefjast að nýju. Ég vona að þið hafið notið sumarsins og að þið hafið náð að gera það eftirminnilegt.

myndir:
1: Vero Suh Photography af síðunni Style Me Pretty / 2: Micasa / 3: High vor/sumar 2011 auglýsingaherferð af blogginu Lovingly Simple / 4: Patrick Cline fyrir Lonny, september 2012 bls. 174 / 5: Angus McRitchie fyrir Decormag (franska útg.) af My Scandinavian Home | stílisering: Nicola Marc / 6: Giulia Bellato af Nicole Franzen/Pinterest / 7-8: Adrian Brown + Vivian Yeo fyrir Country Living / 9: Christopher Price (Snowshill Lavender Farm, Gloucestershire, UK)

fimmtudagur, 22. ágúst 2013

tískuþátturinn: Sonia Rykiel haust 2013


Ég var inni í borg áðan með syninum og þegar ég rölti fram hjá Sonia Rykiel búðinni þá mundi ég eftir auglýsingaherferð haustsins sem heiðrar verk Bernard Villemot og Raymond Savignac, sem voru báðir franskir og þekktir grafískir hönnuðir. Þetta er fyrsta auglýsingaherferðin sem sýnir hönnun Geraldo da Conceicao en hann var ráðinn til tískuhússins í fyrra og sýndi fyrstu línuna sína á tískuvikunni í París í mars síðastliðnum.

Þetta gerist varla franskara.

myndir:
Mert & Marcus fyrir Sonia Rykiel haust 2013 auglýsingaherferð af síðunni Fashion Gone Rogue | módel: Sam Rollinson, stílisering: Marie Chaix

miðvikudagur, 21. ágúst 2013

Rýmið 39- gestaherbergi í 18. aldar steinhúsi í Connecticut í eigu arkitektsins Daniel Romualdez

mynd:
Oberto Gili fyrir Vogue US

þriðjudagur, 20. ágúst 2013

Garðhönnun: bleikir og fjólubláir tónar í Derbyshire

The inspiration for all my garden designs is this search for harmony between house and garden. My passion is creating a sense of place. A sense of place is the soul of the garden. It is the intangible and harmonious atmosphere that stems from the perfect balance between the house, garden, landscape, plants and the dreams of the owners.
Arne Maynard (PDF, bls. 70)

Ég vil láta ensku tilvitnunina standa en í íslenskri þýðingu hljómar þetta nokkurn veginn svona: „Innblásturinn fyrir alla mína garðhönnun er leitin að samhljómi á milli húss og garðs. Ástríða mín er að skapa tilfinningu fyrir rými. Tilfinning fyrir rými er sál garðsins. Það er hið óáþreifanlega og samhljóma andrúmsloft sem stafar af hinu fullkomna jafnvægi á milli hússins, garðsins, landslagsins, plantnanna og drauma eigendanna.“

Þessi garður í Derbyshire, sem tilheyrir enska sveitasetrinu Haddon Hall, hlýtur að hafa verið draumur sem rættist fyrir eigendurna þegar garðhönnuðurinn Arne Maynard hafði tekið hann í gegn. Saga Haddon Hall nær aftur til miðalda en landeignin liggur við ána Wye í Bakewell og er í eigu lávarðarins Edward Manners og fjölskyldu hans. Húsið og stallaðir garðar þess, sem eru frá tímum Elísabetar fyrstu, eru opnir almenningi og hafa verið notaðir sem tökustaðir kvikmynda.

Þessi tiltekni garður á landeigninni er einkagarður fjölskyldunnar en er stundum opinn almenningi. Bleikir og fjólubláir tónar blómanna fylla mig innblæstri og ég væri heldur betur til í að ganga þarna um og njóta þess sem fyrir augu bæri.

Stórar ilmandi rósir og ýmsar jurtkenndar plöntur standa við húsið.

Kassaklippt skógarbeyki með fjólubláum blöðum (enska: copper beech) gefur opnu rými garðsins áberandi strúktúr og er mótvægi við frjálslega vaxnar plöntur í ferköntuðum beðum til hliðar.

myndir:
Arne Maynard Garden Design

mánudagur, 19. ágúst 2013

Eftirminnilegt sumarUndanfarið virðist ég laðast að bleikum og fjólubláum tónum og hef verið að hugsa um það hvað íslenskan er í raun fátæk þegar kemur að heitum á litum. En hvað um það, þetta byrjaði held ég þegar ég var að skoða vefsíðuna John Robshaw Textiles (ég hef bloggað um fyrirtækið á ensku síðunni) og rakst á handprentaðan púða sem kallast Bindi Brinjal, hvítur með mynstri í fjólumbláum tón sem líkist eggaldini (í ensku heitir liturinn bara „eggplant“ eða „aubergine“ - mjög einfalt). Ég pinnaði púðann í morgun. Á föstudaginn var ég að lesa Style Court bloggið sem er skrifað af Courtney Barnes þar sem hún talaði um „rich eggplant and soft amethyst mixed with blue" (ógerlegt að þýða þetta yfir á íslensku nema að umorða heitin á litunum). Pósturinn hennar leiddi mig á aðrar vefsíður með textíl í fallegum bleikum og fjólubláum tónum sem minntu mig á myndir í möppunum mínum.

Þegar ég var að skoða textíl á vefsíðu Carolina Irving þá mundi ég eftir myndinni hér að neðan af verönd húss í Grosseto í Toscana héraði. Svo opnaði ég blogg ljósmyndarans Georgianna Lane og var þá stödd innan um bleik hús (efsta myndin) á eyjunni Burano rétt utan við Feneyjar. Á þeirri stundu varð þessi bloggfærsla til.


Frá Ítalíu höldum við til bæði Frakklands og Danmerkur til að skoða fleiri dásamlega litatóna. Hversu fallegur er reiturinn fyrir framan þennan gamla glugga í þorpinu Sarlat? Myndin er tekin að vori til en fyrir okkur Íslendinga þá minnir svona litadýrð bara á sumarið. Ég féll alveg fyrir stílnum á þessum danska garðkofa út til hægri. Meira að segja stígvélin eru í stíl við litapalettuna!


Og frá Frakklandi og Danmörku höldum við til Spánar og skoðum handmálaða muni í dökkum bleikum tón. (Í ensku kallast liturinn „fuchsia“ og það er spurning hvort heitið fúksía sé til í íslensku. Ég man ekki eftir að hafa heyrt nokkurn nota það.) Það sem ég er í raun að lýsa hérna er hvernig bloggfærsla verður til, þar sem mynd eða litur leiðir til netflakks; ein ástæða þess að ég elska að blogga.


Síðasta myndin er tekin í glæsilegum enskum garði að vori til. Garðurinn virðist innihalda liti allra árstíðanna. Bleiku tónarnir minna mig á sumarið sem senn er á enda og fjólubláu tónarnir minna mig á komu haustsins, þá aðallega á tískuvörur og fylgihluti. Svo eru þarna sígrænar plöntur sem veturinn bítur ekki á og ljósgrænu tónarnir sem fyrir mig boða komu vorsins.


myndir:
1: Georgianna Lane (Burano, Feneyjar, Ítalía) / 2: Andrea Vierucci fyrir AT Casa / 3: Carolina Irving (Amazon aubergine) / 4: Carolina Irving (Andaluz rose) / 5: Yvan Lemeur (Sarlat, Frakkland) / 6: Anders Schønnemann fyrir Bo Bedre / 7: Frederikke Heiberg fyrir Bo Bedre / 8: Nuevo Estilo / 9: Four Seasons Garden

fimmtudagur, 15. ágúst 2013

Rýmið 38- borðstofa í Antwerpen í eigu belgíska arkitektsins Vincent Van Duysen
- úr bókinni Interiors eftir ljósmyndarann Martyn Thompson

mynd:
Martyn Thompson af bloggi Mark D. Sikes

þriðjudagur, 13. ágúst 2013

lavender veisla á 1 árs bloggafmælinu

Það er eitt ár síðan ég póstaði fyrstu bloggfærslunni á íslensku útgáfu bloggsins (mikið svakalega er tíminn fljótur að líða!) og ég skellti að sjálfsögðu í pönnukökur af því tilefni. Ég lét það nú vera að fara út í stórbrotnar borðskreytingar og læt því þessar fallegu lavender-myndir nægja.

Ég er oft spurð að því hvernig ég hafi tíma fyrir bloggin og svar mitt er einfalt: ég horfi ekki á sjónvarp. Og þá meina ég aldrei. Ég fylgist með engum þáttum og horfi ekki á fréttir, nema þá einhverjar alveg sérstakar heimsfréttir og ég nálgast þær þá bara á netinu. Ég hætti að horfa á sjónvarp fyrir nokkrum árum síðan og áttaði mig fljótt á því að ég hafði grætt nokkra klukkutíma í sólarhringinn. Þá nota ég í staðinn í eitthvað sem veitir mér innblástur.

myndir:
KT Merry af síðunni Style Me Pretty, stílisering: Dreamy Whites