Sýnir færslur með efnisorðinu gamlir munir. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu gamlir munir. Sýna allar færslur

fimmtudagur, 5. júní 2014

Innlit: Hamptons strandkofi í skandinavískum stíl



Það er nú ekki oft sem maður rekst á innlit frá Hamptons-svæðinu sem er jafn hlýlegt og þetta því yfirleitt er verið að sýna glæsivillur ríka fólksins þar sem íburður virðist vera kjörorðið. Félagarnir sem reka hönnunarfyrirtækið Heiberg Cummings Design eru eigendur þessa strandkofa sem þeir hafa innréttað af smekkvísi í skandinavískum stíl. Hlutlausir tónar eru brotnir upp hér og þar með mildum litum, eins og sjá má í eldhúsinu þar sem stendur grænmáluð gamaldags eyja. Svæðið allt um kring er dásamlega fallegt og ekki amalegt að sitja úti á verönd og fylgjast með bátsferðum. Það er nokkuð ljóst að heir félagar eiga ekki í vandræðum með að hlaða batteríin á þessum stað þegar borgarlífið í New York verður aðeins of stressandi.


myndir:
Anastassios Mentis + Elisabeth Sperre Alnes fyrir Interiør Magasinet

fimmtudagur, 1. maí 2014

Notaður batik-vefnaður úr indígó



Í síðastu færslu í seríunni náttúruleg efni fjallaði ég um malíska textílhönnuðinn Aboubakar Fofana, umhverfisvæna framleiðlu hans og jurtalitun með indígó. Ég hef verið haldin nettu indígóæði og í möppum mínum er að finna nóg af efni, eins og þennan notaða etníska vefnað sem Clubcu selur. Fyrirtækið sérhæfir sig í hvers kyns endurunnum efnum og notuðum hlutum. Það eru smáatriðin í mynstri textílsins sem heilla mig; þetta er batik-vefnaður sem er litaður með indígó.

Jurtalitun með batik-aðferð fer þannig fram að vax er notað til þess að búa til mynstur. Það er borið á hluta efnisins sem ekki á að jurtalita. Ferlið má endurtaka en endanlega er vaxið fjarlægt og þá er varan tilbúin. Þessi forna hefð á uppruna sinn á eyjunni Jövu í Indónesíu.


Ástæða þess að mig langaði að halda áfram að fjalla um indígó er sennilega sú að benda á hið augljósa, að það sé engin ástæða til þess að nota ekki liti þegar kemur að því að skapa heimili með náttúrlegum stíl. Hlutlausir tónar einkenna gjarnan stíl slíkra heimila. Það er stíll sem ég er að vísu hrifin af svo lengi sem notaður er viður, vefnaður og skrautmunir með ólíkri áferð, sem gerir stílinn áhugaverðan. Notkun textíls er leið til þess að gera náttúruleg heimili litríkari, við þurfum bara að gæta að því að nota umhverfisvæn efni, úr t.d. bómull, líni og ull, sem eru jurtalituð án kemískra efna sem skaða umhverfið.



Ég minntist á bók um indígó í fyrrnefndri bloggfærslu og það eru tvær aðrar bækur sem mig langar að benda ykkur á: Indigo: Egyptian Mummies to Blue Jeans eftir Jenny Balfour-Paul og Indigo: The Colour that Changed the World eftir Catherine Legrand. Þær eru án efa innblástur fyrir þá sem vilja skreyta náttúrleg heimili sín með jurtalituðum indígótextíl.


myndir:
Clubcu

þriðjudagur, 25. mars 2014

Rýmið 58



- borðstofa í úthverfi Madrid á Spáni
- í eigu skartgripahönnuðarins Anton Heunis

mynd:
Pablo Zuloaga fyrir ELLE.es af síðu SoupDesign á Pinterest

fimmtudagur, 13. mars 2014

Innlit: strandhús listakonu í East Hampton



Innlitið að þessu sinni er bjart og fallegt strandhús í East Hampton á Long Island sem er í eigu listakonunnar Anh Duong. Hún eyddi fyrsta sumrinu sínu á eyjunni árið 1988 með þáverandi kærasta sínum í húsi sjálfs Andy Warhol í Montauk, en þá var hún nýkomin frá París og starfaði sem fyrirsæta. Þar málaði hún sína fyrstu sjálfsmynd og hún hefur málað margar síðan. Þær eru eitt af einkennum hennar sem listakonu. Strandhúsið notar hún bæði sem heimili og vinnustofu. Hún hefur innréttað það smekklega með gömlum munum sem hún hefur aðallega fundið á flóamörkuðum.


Eldhúsið er vægast sagt sumarlegt í útliti, einfalt og fallegt.


Það er eitthvað við litapalettuna í þessu svefnherbergi sem heillar mig - bláir og brúnir tónar eiga vel saman. Gaman líka að sjá að það er opið inn í stofuna, ekki lokað af með hurð, sem gefur báðum rýmunum enn meiri birtu. Á neðri myndinni sjáið þið eina af sjálfsmyndum Anh Duong.


Í svefnherbergi listakonunnar er að finna afskaplega fallegt rúmteppi og verk eftir Julian Schnabel (til vinstri (hann er gamli kærastinn sem ég minntist á í innganginum)) og McDermott & McGough. Myndin að neðan er tekin í vinnustofunni.


myndir:
Oberto Gili fyrir Architectural Digest, október 2012 af AD DesignFile

fimmtudagur, 6. mars 2014

Stílisering: írskt brúðkaup í náttúrulegum stíl



Ég held að það sé óþarfi að hafa mörg orð um þennan myndaþátt, best að leyfa bara myndunum að tala. Ég rakst á þá efstu á Pinterest og hrár og náttúrulegur stíllinn minnti mig svolítið á myndaþátt sem ég deildi á ensku útgáfunni um daginn. Ég pósta ekki oft einhverju brúðkaupstengdu á bloggin en ég hef alltaf gaman af fallegri, náttúrulegri stíliseringu. Það er einhver einfaldleiki og friður í þessum myndum sem heillar mig, umhverfið er líka svo skemmtilegt og maturinn virkilega girnilegur. Stílisti var Alise Taggart og Paula O'Hara tók myndirnar, einhvers staðar á Írlandi.


myndir:
Paula O'Hara af síðunni 100 Layer Cake | stílisering: Alise Taggart

miðvikudagur, 15. janúar 2014

Rýmið 49



Því miður veit ég ekkert um þessa borðstofu annað en að ljósmyndarinn Debi Treloar tók myndina. Rýmið er greinilega hluti af sveitasetri ef við skoðum það litla sem sést út um gluggann en mér hefur ekki tekist að finna hvaða sveitasetur það er. Ég verð því að láta rómantísku stemninguna í myndinni nægja í dag.

mynd:
Debi Treloar af blogginu La Cocina de Tina

þriðjudagur, 7. janúar 2014

Rýmið 48



Stundum vildi ég að ég byggi í Ástralíu svo ég gæti skotist út í búð og gripið eintak af Vogue Living þegar mér hentar. Ég hef séð myndir úr hinum ýmsu umfjöllunum í blaðinu og allar eiga þær það sameiginlegt að vera smekklegar. Því miður veit ég engin nánari deili á þessu eldhúsi því ég hef bara þessa einu mynd. Mér þykir líklegt að þetta sé umfjöllun um sumarbústað eða sveitabæ, en það sem vakti áhuga minn voru fallegu hvítu og bláu eldhúsmunirnir. Ég er alltaf svolítið veik fyrir svona mynstrum og mig dauðlangar í þessar könnur þarna í efstu hillunni. Ég verð að finna flóamarkað fljótlega og sjá hvort ég hafi heppnina með mér.

mynd:
Jonny Valiant fyrir Vogue Living af Pinterest

þriðjudagur, 17. desember 2013

Rýmið 47



Því miður veit ég engin nánari deili á þessari borðstofu en myndin er hluti af innliti á bloggi finnska ljósmyndarans Krista Keltanen. Ég væri alveg til í að eiga skápinn.

mynd:
Krista Keltanen af Pinterest/Krista Keltanen

miðvikudagur, 4. desember 2013

Nivôse eftir Romme



Ég varð að fá jólalegan tískuskammt á bloggið í dag því ég hef áhyggjur af því að finna hreinlega ekki jólaandann í ár, sem er mjög óvenjulegt ástand fyrir mig. Ég er ein af þeim sem bókstaflega elska desember; elska komu jólanna. Ég þóttist viss um að þegar Last Christmas með Wham hljómaði í útvarpinu í dag að þá myndi þetta koma. En nei, það gerðist ekki neitt.

Kannski ef ég horfi nógu lengi á þessa fallegu tískuteikningu frá árinu 1919, Nivôse eftir Marthe Romme, fer eitthvað að bærast hið innra. Vonandi! Verð annars að fá að benda á eitt í teikningunni fyrst ég er að birta hana. Nú er kápan í öndvegi en takið eftir hvernig glittir í rendur þarna vinstra megin.

*Vantar þig hugmyndir fyrir jólin? Kíktu á jólaborðið mitt á Pinterest.

mynd:
Marthe Romme af Pinterest (uppgötvað í gegnum bloggið Classiq)

þriðjudagur, 10. september 2013

Rýmið 41



- eldhús í uppgerðu 18. aldar sveitasetri í Bordeaux í Frakklandi
- hönnuðir Michael Coorengel og Jean-Pierre Calvagrac

mynd:
William Waldron fyrir Elle Decor

þriðjudagur, 13. ágúst 2013

lavender veisla á 1 árs bloggafmælinu

Það er eitt ár síðan ég póstaði fyrstu bloggfærslunni á íslensku útgáfu bloggsins (mikið svakalega er tíminn fljótur að líða!) og ég skellti að sjálfsögðu í pönnukökur af því tilefni. Ég lét það nú vera að fara út í stórbrotnar borðskreytingar og læt því þessar fallegu lavender-myndir nægja.

Ég er oft spurð að því hvernig ég hafi tíma fyrir bloggin og svar mitt er einfalt: ég horfi ekki á sjónvarp. Og þá meina ég aldrei. Ég fylgist með engum þáttum og horfi ekki á fréttir, nema þá einhverjar alveg sérstakar heimsfréttir og ég nálgast þær þá bara á netinu. Ég hætti að horfa á sjónvarp fyrir nokkrum árum síðan og áttaði mig fljótt á því að ég hafði grætt nokkra klukkutíma í sólarhringinn. Þá nota ég í staðinn í eitthvað sem veitir mér innblástur.

myndir:
KT Merry af síðunni Style Me Pretty, stílisering: Dreamy Whites

miðvikudagur, 31. júlí 2013

Innlit: gistihús í hjarta Bruxelles




Er einhver á leiðinni til Belgíu á næstunni? Chambre en Ville er gistihús (,bed & breakfast') í hjarta Bruxelles - fyrirgefið en ég bara get ekki skrifað Brussel eins og gert er í íslensku; þegar maður hefur búið í Belgíu þá er ekkert sem heitir Brussel, bara Bruxelles eða Brussels.

Gistihúsið er í uppgerðri 19. aldar byggingu sem áður hýsti speglaverksmiðju. Gistirýmin eru vægast sagt listræn en um leið vinaleg og snotur. Gistirýmið neðar í færslunni kallast La Vie d'Artiste, en skoðið endilega heimasíðuna þeirra til að sjá þau öll.



Kannski kannist þið við myndina hér að ofan því ég hef póstað henni áður undir Rýmið.



Chambre en Ville, 19, rue de Londres, 1050 Bruxelles

myndir:
af síðu Maire Claire Maison