miðvikudagur, 31. júlí 2013

Innlit: gistihús í hjarta Bruxelles




Er einhver á leiðinni til Belgíu á næstunni? Chambre en Ville er gistihús (,bed & breakfast') í hjarta Bruxelles - fyrirgefið en ég bara get ekki skrifað Brussel eins og gert er í íslensku; þegar maður hefur búið í Belgíu þá er ekkert sem heitir Brussel, bara Bruxelles eða Brussels.

Gistihúsið er í uppgerðri 19. aldar byggingu sem áður hýsti speglaverksmiðju. Gistirýmin eru vægast sagt listræn en um leið vinaleg og snotur. Gistirýmið neðar í færslunni kallast La Vie d'Artiste, en skoðið endilega heimasíðuna þeirra til að sjá þau öll.



Kannski kannist þið við myndina hér að ofan því ég hef póstað henni áður undir Rýmið.



Chambre en Ville, 19, rue de Londres, 1050 Bruxelles

myndir:
af síðu Maire Claire Maison

þriðjudagur, 30. júlí 2013

mánudagur, 29. júlí 2013

Eftirminnilegt sumar



Ég er hrifin af hugmyndinni að færa sumarið innandyra, þá meina ég að láta eitthvert rými eða horn líta alveg sérstaklega sumarlega út. Rýmið hér að ofan er í sumarhúsi á The Hamptons svæðinu og lýsir vel því sem ég tala um: Það er bjart með náttúrulegan sjarma (karfan og fersku blómin). Það er allt sumarlegt við þetta.

Það eru margir sem skipta út heimilismunum (púðum og slíku) yfir sumartímann en þegar ég horfi á þessa kommóðu þá velti ég því fyrir mér hvort einhverjir, sem eiga ekki sumarhús, gangi svo langt að skipta út húsgögnum í einstaka rýmum. Það gæti verið áhugavert að skipta út borði/kommóðu í inngangi eða holi (fyrir þá sem hafa geymslupláss).


Hvað er það eiginlega með hvíta kjóla og sumarið? Eða hvítar skyrtur? Þegar ég horfi á þessa mynd þá liggur við að ég fari út í gerð og hengi hvítar flíkur í trén!


Myndirnar hér að neðan eru teknar á spænsku eyjunni Formentera, suður af Ibiza. Ég hef aldrei komið þangað sjálf en hef séð svo mikið af fallegum sumarhúsum þar sem hægt er að leigja. Lítur út fyrir að vera staður sem er vel þess virði að skoða síðar meir.


myndir:
1: Eric Josjö fyrir Sköna hem / 2 + 5 + 6: Bikini Birdie af síðunni Style Me Pretty (Formentera, Spánn) / 3: Miguel Varona af Style Me Pretty / 4: Anna Westerlund Ceramics af Pinterest / 7: Nuevo Estilo (Formentera, Spánn)

fimmtudagur, 25. júlí 2013

Garðhönnun: Old South-sjarmi í Charleston


Sumarið flýgur áfram og mig langar að reyna að deila öllum görðunum sem ég hef safnað í summarmöppuna mína. Í dag varð þessi Old South-sjarmi í borginni Charleston fyrir valinu, einn af þeim mörgu glæsilegu görðum sem hafa birst á síðum Traditional Home. Ég kaus að byrja færsluna á formlega garðinum, einkum vegna gamla múrsteinshússins í bakgrunni og hvítu klifurrósanna - þetta er svo fallegt. Upp við múrsteinshúsið er lítið garðhús sem sést á næstu mynd.

Húsið er í eigu Ben og Cindy Lenhardt; uppgert hús frá 1743 sem er í sögulega hverfinu í Charleston. Ben, sem er kominn á eftirlaun, var bara tíu ára gamall þegar hann plantaði fyrstu fræjunum af morgunfrú og síðan þá hefur garðyrkja verið ástríða. Hann er stjórnarformaður Garden Conservancy en hlutverk stofnunarinnar er að varðveita framúrskarandi garða. Þeir skipuleggja einnig daga þar sem almenningi gefst færi á að skoða garða í einkaeigu.


Þegar Ben hannaði garðinn var hann undir áhrifum Loutrel Briggs, frægs landslagsarkitekts í Charleston og þar í kring, sem byrjaði ferilinn í kringum 1930. Hans hugmynd var að skipta görðum niður í svæði þannig að þeir virtust stærri.

Ben er hógvær og sækist ekki eftir hrósi fyrir garðinn, en í greininni talar hann af eldmóði um garða sem lifandi list:
It’s the most difficult art form because it changes. It takes an appreciation of balance, color, and different kinds of plant materials with strong -architectural components—all of which must be coordinated with the changing seasons to create a symphony of color, beauty, and -tranquility.
Það þarf varla að snara þessu yfir á íslensku en hann er í raun að segja að þetta erfiðasta listformið því plöntur taka stöðugum breytingum og eru háðar árstíðum.


Í þessum hluta garðsins má finna vasa með blómum eins og tóbakshornum, geraníum, fjólum og rósum, sem gefa garðinum smá lit því aðallega eru hvít blóm í honum. Þarna má einnig sjá garðbekk í Lutyens-stíl.


Girðing fremri formlega garðsins er í nýlendustíl og þarna er að finna gróður eins og bergfléttu, lim (boxwood) og eitthvað sem á ensku kallast ,dwarf mondo grass' sem ég veit ekki hvað er á íslensku.

Sjáið þið steinsúluna þarna handan innkeyrslunnar? Hún fannst þegar húsið var endurgert. Á einhverjum tímapunkti stóð húsið upp við læk sem rann saman við Cooper-ána og súlan var notuð til þess að festa árabáta.

Svo sannarlega sögulegt!


myndir:
Brie Williams fyrir Traditional Home

miðvikudagur, 24. júlí 2013

Rýmið 35



Ég var að segja það á ensku útgáfu bloggsins í morgun hversu mikið ég hef saknað innanhússmynda í sumar. Ég ætlaði aðallega að vera úti við og birta myndir af veröndum eða slíku í Rýmið-seríunni, en verð aðeins að færa mig inn. Þessi mynd er tilvalin því vegna stórra glugga má segja að garðurinn sé nánast því hluti af fallegri stofunni. Ég vildi gjarnan geta sagt ykkur hver hannaði hana en því miður er þetta ein af þeim myndum sem ég veit ekki hvaðan kemur upprunalega; hef leitað árangurslaust í meira en ár. Það sem dregur mig að rýminu er ekki bara öll þessi náttúrulega birta heldur lofthæðin, svörtu gluggarammarnir, mottan, litavalið og jafnvægið í uppröðun húsgagna. Þarna er ekkert óþarfa prjál heldur einfaldeiki í öndvegi sem skapar kyrrð.

Það er gott að byrja að blogga aftur eftir frí. Ég hef notið sólarinnar og þess að lesa nýju bækurnar mínar. Ég eignaðist svo eina nýja í síðustu viku sem ég ætla að segja ykkur frá síðar.

mynd:
ljósmyndari óþekktur, af Dear Designer's Blog

miðvikudagur, 10. júlí 2013

Nýjar bækur, bleikar bóndarósir og bloggfrí

Nýjar bækur, bleikar bóndarósir og bloggfrí · Lísa Hjalt


Á morgun á ég afmæli og ákvað í dag að deila með ykkur innihaldi afmælisbókapakkans míns (árleg hefð) og svo er ég farin í bloggfrí. Börnin eru að klára skólann og kominn tími til að njóta sólarinnar sem skín svo glatt á okkur þessa dagana. Kvöldunum kem ég til með að eyða út á svölum með bækur og ef það rignir þá verð ég á legubekknum (nýju bækurnar líta vel út á borðinu í setustofunni).


Í pakkanum voru þrjár innbundnar bækur sem voru efstar á óskalistanum og sóma sér vel á stofuborðum. Ég ljómaði þegar ég tók þær upp úr kassanum og hreinlega faðmaði þær að mér - hverja einustu bók í kassanum.

· Interiors Atelier AM eftir Alexandru & Michael Misczynski - sjá nánar neðar
· Country eftir Jasper Conran - ég sagði ykkur aðeins frá þessari bók í bloggfærslunni ,vorið er komið'. Það er heilmikill texti í bókinni sem ég hlakka til að lesa og svo eru afskaplega fallegar ljósmyndir eftir Andrew Montgomery, sem er einn af mínum uppáhaldsljósmyndurum
· Travels with Myself and Another eftir Mörthu Gellhorn - undirtitill bókarinnar er Five Journeys from Hell en Gellhorn ákvað að deila sínum bestu hryllingsferðasögum. Kannski eru einhverjir sem þekkja hana bara sem eina af eiginkonum Ernest Hemingway en hún var frábær ferðasöguritari. Í ritdómi The Times stendur: „She is incapable of writing a dull sentence.“ Á íslensku: hún er ófær um að skrifa leiðinlega setningu.
· Cheerful Weather for the Wedding eftir Juliu Strachey - ég uppgötvaði þessa nóvellu í gegnum bloggið Style Court sem er skrifað af Courtney Barnes, þegar hún talaði um kvikmyndina sem gerð var eftir sögunni
· Out of Africa eftir Karen Blixen - þarf varla að segja meira um hana, ég minntist á hana í einni 'eftirminnilegt sumar' færslu og ef þið fylgist með ensku útgáfu bloggsins þá hef ég minnst á Blixen og bókina oftar
· Bringing Nature Home eftir Ngoc Minh Ngo - sjá nánar neðar
· Little White Lies (2010) - ég varð að fá eitthvað að horfa á og langaði í þessa frönsku mynd í leikstjórn Guillaume Canet í safnið mitt


Mér finnst eins og mér beri skylda til að segja ykkur örlítið frá bókinni Interiors Atelier AM eftir tvo af mínum uppáhaldshönnuðum, en það eru hjónin Alexandra og Michael Misczynski. Það er ekki mikill texti í bókinni, aðallega myndatextar; François Halard ljósmyndaði fimm heimili. Þetta er stór innbundin bók (248 síður) þar sem „ljóðrænar“ myndir Halard, sem sýna ýmist rými eða smáatriði, virkilega fá að njóta sín. Það er mikið um hráan stíl sem heillar mig en það sem ég hjó sérstaklega eftir var hversu persónuleg þessi fimm heimili eru.

Í formála að bókinni eftir belgíska antíkgripasalann og hönnuðinn Axel Vervoodt - einnig í miklu uppáhaldi hjá mér - stendur (ég er ekkert að þýða þetta yfir á íslensku):
Michael and Alexandra Misczynski have an eye for discovery. Often before anyone else, they see the intrinsic value of certain pieces of furniture and art that I, too, love very much—for their authenticity, humility, and discreet, honest strength. This includes art from all genres, from all parts of the world, and from all sorts of periods, as long as it is honest and real.


Síðar í formálanum skrifar Vervoodt:
A sense of proportion dominates my taste, and that's also what drives Michael and Alexandra. I try as much as possible to avoid the purely decorative, but I do want to achieve an effect of harmony among the architectural environment, the furnishings, and the works of art and antique objects. A house and a collection of art are always a portrait of the owners, and in the end, the people living in the house must be able to find more of themselves.



Ef ykkur langar að skoða fleiri myndir úr bókinni þá hef ég deilt nokkrum á bæði bloggin: útistofa og eldhús á heimili hönnuðanna í Los Angeles og nokkrar myndir úr bókinni. Það má einnig finna myndir á borðum mínum á Pinterest. Opnan að neðan sýnir lestrarherbergi á heimili í Las Vegas (hef póstað innliti á íslenka bloggið) og þessi sófi heillar mig upp úr skónum.


Ég hef þegar sagt ykkur frá bókinni Bringing Nature Home eftir Ngoc Minh Ngo en ég varð að deila þessari opnu. Ég hef sagt það áður að þessi bók er svo falleg. Blómaskreytingarnar eftir Nicolette Owen fanga mann og Ngo festir þær fallega á filmu. Ég fæ ekki nóg af þessari bók; hún er endalaus uppspretta innblásturs.


Ég ætla að segja ykkur síðar frá Country eftir Jasper Conran. Ég vona að sumarið leiki við ykkur. Ég á eftir að pinna með kaffinu en ég verð svo aftur hér á blogginu miðvikudaginn 24. júlí.

À bientôt!

myndir mínar | úr bókunum Interiors Atelier AM eftir François Halard og Bringing Nature Home eftir Ngoc Minh Ngo

þriðjudagur, 9. júlí 2013

Uppskrift: sveppasalat



Í dag póstaði ég uppskrift að sveppasalati á matarbloggið sem er afskaplega einfalt að útbúa og hentar vel með grillmat. Ég fann uppskriftina í franska blaðinu Saveurs sem ég var að blaða í um daginn.

Ég veit ekki hvort ég megi segja þetta en ég sit núna í bongóblíðu úti á svölum í sól og góðum 27 gráðum. Við krakkarnir vorum að ræða það að kannski væri bara best að hafa bananasplitt í kvöldmatinn. Ég var annars að tilraunast fyrr í dag með polenta-stöppu með kryddjurtum og smá hvítlauk og við borðuðum hana í hádeginu með köldum kjúklingi og ávaxtasalati. Svo gott! Ég ætla að tilraunast frekar áður en ég deili uppskrift.

mynd:
Lísa Hjalt

mánudagur, 8. júlí 2013

Eftirminnilegt sumar



Ef ég ætti að velja lykilorð sem lýsa best skapi mínu í dag þá veldi ég sjávarsíða, siglingar og ljósblár tónn. Hugurinn virðist stöðugt reika til bátahafnar í Hollandi þar sem við höfum eytt ófáum stundum eða á einhverja strönd, þá helst á grískri eyju. Þið kannski takið eftir því að flestar þessar myndir fyrir utan þá efstu tengjast tísku en það hefur ekkert með fötin eða aukahlutina að gera heldur söguna sem þær segja.

Fyrir mér er þetta það sem sumarið snýst um.


myndir:
1: West Elm sumar 2011 af blogginu Bright.Bazaar (minnkuð) / 2: John Balsom fyrir GQ España, júní 2012 af Like the Sky | fyrirsæta: Cedric Bihr / 3: Sperry Top-Sider bátaskór / 4-5: Blumarine vor 2013 af Vogue US / 6: Alasdair McLellan fyrir Louis Vuitton, auglýsingaherferð vor 2013 | módel: Jacey Elthalion, stílisering: Katy England / 7: Thomas Northcut fyrir Free People, apríl 2013 bæklingur (á bakvið tjöldin) / 8: Guy Aroch fyrir Free People, apríl 2013 bæklingur af Fashion Gone Rogue | módel: Ieva Laguna / 9: Daniel Řeřicha (Oia, Santorini, Grikkland)