Sýnir færslur með efnisorðinu frakkland. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu frakkland. Sýna allar færslur

fimmtudagur, 17. október 2013

París: fyrir ári síðan við Palais Royal

París: fyrir ári síðan við Palais Royal · Lísa Hjalt


Ég var með París í huganum þegar ég vaknaði í morgun og þegar ég leit á dagatalið áttaði ég mig á því með bros á vör að ég var í París á þessum degi fyrir akkúrat ári síðan. Ég átti enn nokkrar myndir úr ferðinni sem ég hafði ekki deilt á blogginu. Myndin hér að ofan sýnir stemninguna fyrir utan Le Nemours kaffihúsið, sem er við Palais Royal í 1. hverfi. Við settumst ekki niður til að fá okkur kaffi þar sem við höfðum verið að borða hádegisverð og eftirrétt á veitingastað hinum megin við Signu. En það var grenjandi rigning og göng Palais Royal veittu skjól.
París: fyrir ári síðan við Palais Royal · Lísa Hjalt


mánudagur, 5. nóvember 2012

París: stemningin á Café de Flore

París: stemningin á Café de Flore í 6. hverfi · Lísa Hjalt


Er ekki í góðu lagi að skreppa aftur til Parísar í huganum? Þið sem fylgist með ensku útgáfu bloggsins hafið væntanlega séð þessar myndir fyrr í dag. Ég var að horfa á rigninguna út um gluggann í morgun og fannst þá tilvalið að deila myndum sem teknar voru á milli skúra í París.

Við vorum að rölta um 6. hverfi, rólega að fikra okkur í áttina að kaffihúsinu Café de Flore, þegar það fór að rigna eins og hellt væri úr fötu. Við hinkruðum og náðum svo á leiðarenda áður en það fór að rigna aftur. Við fengum borð úti þar sem við sátum í skjóli og hlýju og fylgdumst með mannlífinu á horni Boulevard Saint-Germain og Rue Saint-Benoît. Þetta kaffihús er með þeim þekktustu í París, oft tengt við Jean-Paul Sartre og Simone de Beauvoir því þarna áttu þau til að sitja og ræða heimspekileg málefni eða sinna skrifum. Þau mátti líka finna á Les Deux Magots, sem er nokkrum skrefum frá þessu.
París: stemningin á Café de Flore í 6. hverfi · Lísa Hjalt


Það hefur ekkert breyst á Café de Flore. Í áratugi hefur stíllinn verið sá sami og maður fær á tilfinninguna að tíminn hafi hreinlega staðið í stað. Þetta er hin fullkomna Parísarklisja; þjónar með hvítar síðar svuntur ganga á milli borða og heimamenn drekka kaffið sitt innan um ferðalanga. Ég skrapp inn til þess að kíkja á böku dagsins og aðrar kræsingar og veitti því athygli sem fram fór innandyra. Mikið af fólki sat einsamalt við borð og það var meira eins og það væri heima hjá sér. Það var búið að koma sér þægilega fyrir með allt sitt dót og virtist ekki upptekið af því hvað var að gerast í kringum sig. Ég valdi mér maison tarte sem var sítrónubaka og hugsaði með mér að líklega sæi ég þetta fólk við sama borð ef ég kæmi aftur daginn eftir.

Eins og ég sagði, hin fullkomna Parísarklisja.



miðvikudagur, 24. október 2012

París: sjarmi í fjórða hverfi

París: sjarmi í fjórða hverfi · Lísa Hjalt


Ef þið hafið rölt um stræti Parísar með myndavél þá kannist þið örugglega við tilfinninguna að vilja hreinlega mynda allt sem í vegi ykkar verður. Þetta var bara eitt af þeim augnablikum á Rue François Miron götunni í 4. hverfi.

þriðjudagur, 23. október 2012

París: Le Café Chinois í 3. hverfi




Ég deildi myndum frá torginu Place des Vosges í færslu fyrr í dag og lofaði að deila með ykkur þessu huggulega te- og kaffihúsi sem er að finna í 3. hverfi Parísar. Það heitir Le Café Chinois og stendur í götunni Rue du Béarn, sem liggur út frá torginu. Við gengum fram hjá því á leið okkar í Merci búðina en þá var ekki búið að opna þannig að við ákváðum að kíkja aftur. Við þurftum að bíða eftir borði í svolítinn tíma og karrílyktin sem barst út á götu ætlaði að fara með okkur. En biðin var þess virði.


Staðurinn er frekar lítill og nokkuð hrár í útliti en er samt hlýlegur. Þetta er sem sagt te- og kaffihús og handan eins veggjar er lítil búð með asískum munum og vefnaðarvöru. Hádegisverður - „slow lunch“ - er í boði á milli klukkan 12 og 15 og á töflunni má finna nokkra grænmetisrétti. Mér sýndist vera einn túnfisksréttur líka, en það er ekkert kjöt. Fyrir utan kaffi og te má fá alls kyns ferska safa og við fengum okkur engifer- og hibiscus drykk (held að hibiscus kallist stokkrós á íslensku) sem var ljómandi ferskur og góður. Ég pantaði karrí- og baunarétt með grænmeti á grjónabeði sem var virkilega bragðgóður. Fram til þessa höfðum við ekki borðað neitt nema ekta franskan mat og því var þetta gott mótvægi; bragðaðist svo vel og var alls ekki dýrt. Maturinn fyllti okkur auk þess orku.

Stemningin á staðnum var heimilisleg og um leið alþjóðleg því það mátti heyra frönsku í bland við ensku, spænsku og önnur tungumál. Ef þið eigið leið um þetta svæði í Mýrinni í París þá mæli ég hiklaust með þessum stað. Hann er líka vænn fyrir budduna.

Le Café Chinois, 7 rue du Béarn, 75003 Paris
opið þriðjudaga - laugardaga frá 12-18:30
'slow lunch' frá 12-15

París: Place des Vosges torgið



Ég lofaði Parísarstemningu á blogginu næstu daga og ætla að byrja á Place des Vosges torgi. Ég deili svo huggulegu te- og kaffihúsi í sér færslu á eftir en það stendur rétt við torgið. Place des Vosges liggur við línuna sem skiptir 3. og 4. hverfi. Svæðið í kring kallast Le Marais eða Mýrin og það er afskaplega skemmtilegt að rölta um og skoða byggingar og mannlíf og alls kyns sætar handverksbúðir. Við röltum frá Saint Paul metróstöðinni við Rue de Rivoli götuna (líka hægt að koma frá Bastille stöðinni) þar sem borgin iðaði af lífi og héldum í austurátt. Þetta er bara smá spölur og með hverju skrefi varð allt hljóðlegra. Þegar við gengum inn í Rue de Birague þá var það næstum því eins og að stíga inn í annan heim því kyrrðin var svo notaleg. Við enda götunnar lágu bogagöngin inn á torgið en þau sjást á myndinni hér að ofan.



Ég hafði lesið mig til um torgið áður en ég fór til Parísar og saga þess, sem verður ekki sögð hér, er ansi skemmtileg. Þetta er elsta skipulagða torg Parísar og margir tala um að þarna megi upplifa hina „gömlu“ París. Hvað er til í því hef ég enga hugmynd um en torgið var blessunarlega laust við ágang ferðamanna, alla vega á þessum árstíma. Hönnun torgsins og húsanna sem umlykja það er symmetrísk þannig að það er svo til eins í hvaða átt sem litið er. Það sem mér fannst einna dásamlegast var kyrrðin.


Margir vilja meina að tíminn hafi staðið í stað á torginu og kannski er það rétt. Ég myndi kannski frekar orða það þannig að umhverfið er hreinlega laust við ys og þys. Það virðist enginn vera að stressa sig og fólk greinilega kemur þarna til þess að njóta kyrrðar. Victor karlinn Hugo bjó þarna um tíma og þar er núna safn sem við slepptum að skoða í þessari ferð.

För okkar var næst heitið í skemmtilega búð í 3. hverfi sem heitir Merci, en hún er það sem kallast 'concept store' á ensku og hvað slíkt er best að kalla á íslensku hreinlega veit ég ekki. Við fórum út af torginu við bogagöngin í hinum endanum og inn í götuna Rue du Beárn í 3. hverfi. Þar fundum við Le café chinois.

myndir:
Lísa Hjalt