mánudagur, 5. nóvember 2012

París: stemningin á Café de Flore

París: stemningin á Café de Flore í 6. hverfi · Lísa Hjalt


Er ekki í góðu lagi að skreppa aftur til Parísar í huganum? Þið sem fylgist með ensku útgáfu bloggsins hafið væntanlega séð þessar myndir fyrr í dag. Ég var að horfa á rigninguna út um gluggann í morgun og fannst þá tilvalið að deila myndum sem teknar voru á milli skúra í París.

Við vorum að rölta um 6. hverfi, rólega að fikra okkur í áttina að kaffihúsinu Café de Flore, þegar það fór að rigna eins og hellt væri úr fötu. Við hinkruðum og náðum svo á leiðarenda áður en það fór að rigna aftur. Við fengum borð úti þar sem við sátum í skjóli og hlýju og fylgdumst með mannlífinu á horni Boulevard Saint-Germain og Rue Saint-Benoît. Þetta kaffihús er með þeim þekktustu í París, oft tengt við Jean-Paul Sartre og Simone de Beauvoir því þarna áttu þau til að sitja og ræða heimspekileg málefni eða sinna skrifum. Þau mátti líka finna á Les Deux Magots, sem er nokkrum skrefum frá þessu.
París: stemningin á Café de Flore í 6. hverfi · Lísa Hjalt


Það hefur ekkert breyst á Café de Flore. Í áratugi hefur stíllinn verið sá sami og maður fær á tilfinninguna að tíminn hafi hreinlega staðið í stað. Þetta er hin fullkomna Parísarklisja; þjónar með hvítar síðar svuntur ganga á milli borða og heimamenn drekka kaffið sitt innan um ferðalanga. Ég skrapp inn til þess að kíkja á böku dagsins og aðrar kræsingar og veitti því athygli sem fram fór innandyra. Mikið af fólki sat einsamalt við borð og það var meira eins og það væri heima hjá sér. Það var búið að koma sér þægilega fyrir með allt sitt dót og virtist ekki upptekið af því hvað var að gerast í kringum sig. Ég valdi mér maison tarte sem var sítrónubaka og hugsaði með mér að líklega sæi ég þetta fólk við sama borð ef ég kæmi aftur daginn eftir.

Eins og ég sagði, hin fullkomna Parísarklisja.



Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.