fimmtudagur, 8. nóvember 2012

hugað að jólaundirbúningi


Hvað segið þið gott á þessum fimmtudegi? Ég veit ekki með ykkur en ég er smám saman að komast í jólaskap og er farin að nóta hjá mér eitt og annað sem viðkemur undirbúningi jólanna. Í Luxembourg kemur jólasveinninn 6. desember og það er frídagur í skólum. Við bjuggum áður í Antwerpen í Belgíu og jólasveinninn kom á sama degi en þar var að vísu ekki gefið frí. Hvað um það, jólahaldið breyttist örlítið þegar við kynntumst þessari hefð Benelux-landanna og við erum því tilbúin fyrir jólin í byrjun desember. Jólatréð fer upp áður en sveinki og hans fylgdarlið mætir á svæðið því okkur finnst það eiga vel við og gera þennan dag hátíðlegri.

Það er því í nóvember sem ég byrja smám saman að undirbúa jólin og ég nota svo desember til þess að slaka á og njóta komu þeirra. Ég er ekki týpan sem missir úr svefn þó það sé þvottur í þvottabalanum á aðfangadag en með því að undirbúa jólin svona snemma þá er einhvern veginn allt hreint og fínt í desember og þetta snýst meira um að leitast við að halda því þannig með lítilli fyrirhöfn. Nóvember er því tíminn sem ég legg meiri áherslu á að heimilisfólk gangi frá hlutunum í stað þess að færa þá til. Ég nota líka tækifærið til þess að grynnka á ýmsu dóti, hendi því sem er úr sér gengið og gef nýtanlega hluti og föt til góðgerðarmála.

Ég held að það hafi ekki fram hjá neinum sem les bloggin mín að ég er mikil bókakona og þessa dagana er ég að grynnka á stöflunum á stofuborðunum til að rýma fyrir nýjum bókum sem án efa bætast í safnið í desember. Sumar fara upp í hillu en ég nota aðrar til skrauts eins og á myndinni hér að ofan. Ég var einmitt að stilla nokkrum upp með ramma og kertum þegar ég mundi eftir þessari mynd. Nú vantar mig bara fersk blóm líka til að gera þetta enn huggulegra.

Eigið góðan dag!

mynd:
Rue, 2. tölublað, nóv/des 2010, bls. 105

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.