föstudagur, 25. september 2015

Iznik-leirmunir | Perumöffins

Perumöffins · Lísa Hjalt


Það má gleðjast yfir nokkrum atriðum í þessum septembermánuði. Í næsta bæ hefur nýtt kaffihús opnað og hönnunin kom mér skemmtilega á óvart; hrár stíll í bland við iðnaðarstíl. Ég finn mér afsökun til að hjóla oftar út á pósthús til þess að setjast niður með bók og latte áður en ég held heim. Svo er það umfjöllun um Iznik-leirmuni í nýjasta tölublaði The World of Interiors með mótífum og litum sem hafa heltekið mig. Downton Abbey þættirnir hafa snúið aftur á skjáinn hérna megin hafs með áhugaverðan söguþráð og glæsilega búningahönnun. Þið sem hafið séð þáttinn, tókuð þið eftir bláa kimono-sloppinum hennar Lady Mary? Jæja, hvað meira? Himneskur ilmur af perumöffinsum að bakast í ofninum. Það eru litlu hlutirnir ...
Iznik-leirmunir · Lísa Hjalt


Byrjum á umfjölluninni í októbertölublaði The World of Interiors, þar sem listasögufræðingurinn John Carswell gagnrýnir doðrantinn The Ömer Koç Iznik Collection eftir Hülya Bilgi (600 síður, vegur 5 kíló, fáanlegur hjá John Sandoe Books). Þetta er bæklingur í bókaformi sem sýnir safn Iznik-leirmuna í eigu Koç-fjölskyldunnar, sem er ein sú auðugasta í Tyrklandi. Í sinni áhugaverðu rýni kemur Carswell stuttlega inn á sögu Iznik-leirmunaiðnaðarins frá byrjun 15. aldar til endalokanna 300 árum síðar. Til forna var fyrrum býsanski bærinn Iznik, 100 km suðaustur af Istanbul, í blóma vegna legu hans á helstu viðskiptaleið Anatólíuskagans (Litla-Asía) frá Austurlöndum. Í dag er hann „lítill svefnbær“ en á síðari hluta 13. aldar var hann „einn af fyrstu höfuðstöðunum sem Ottóman-veldið lagði undir sig“.

Myndirnar í umfjölluninni sýna heillandi mótíf á flísum, krúsum og diskum sem máluð eru í líflegum litum. Samkvæmt Carswell eru aðalsmerki Iznik-hönnunar kóbalt-blár, túrkis, mangan-fjólublár, ólífugrænn og rauður. „Í hönnuninni eru ósnortin tyrknesk mótíf sameinuð staðfærðum eiginleikum innflutts kínversks postulíns í bláu og hvítu“ og hann bætir við síðar að „[v]ið höfum enga hugmynd um af hverju þeir völdu þessi ákveðnu sett af mótífum og sameinuðu þau með svo sérkennandi og sérstökum hætti.“


Ef þið eruð á leið til Tyrklands þá getið þið skoðað Iznik-flísar í Topkapi-höllinni í Istanbul. Verðið á fyrrnefndum doðranti er hærra en það sem ég eyði í bækur þessa dagana en fyrir þá sem hafa áhuga þá fann ég tvær ódýrari bækur á netinu sem ég myndi gjarnan vilja skoða og jafnvel finna sess á stofuborðinu mínu: Iznik Pottery and Tiles: In the Calouste Gulbenkian Collection eftir Maria d'Orey Capucho og Iznik: The Artistry of Ottoman Ceramics eftir Walter B. Denny.


Ég er ekki alveg búin með tal um mynstur. Sýningar eru hafnar á sjöttu þáttaröð Downton Abbey og ég er bálskotin í bláa kimono-sloppnum hennar Lady Mary sem leikkonan Michelle Dockery bar svo vel í nokkrum senum í fyrsta þættinum. Ég reyndi að finna myndir af honum á netinu til að sjá smáatriði mynstursins en hafði ekki heppnina með mér þannig að ég setti bara þáttinn á pásu í ITV-spilaranum í spjaldtölvunni og smellti af myndum (afsakið léleg gæði).

Ég veit ekki hvort kimono-sloppurinn sé notuð flík eða sérstaklega hannaður fyrir þættina en ég er heilluð af sniðinu og litnum. Ég held að búningahönnuðurinn Anna Robbins sé að gera frábæra hluti og mér finnst flott hvernig hún sýnir tísku þriðja áratugar síðustu aldar. Ég verð að viðurkenna að ég hafði næstum því gefist upp á Downton Abbey eftir síðustu seríu, sem mér fannst full af þreyttum, endurteknum söguþráðum, en ég er glöð að ég gaf þáttunum annað tækifæri á sunnudaginn. Fyrsti þátturinn lofar góðu ... alla vega búningarnir.


Í myndunum má sjá prufur af Benaki-veggfóðri í litnum blue mink frá Lewis & Wood
og Wild Thing-efninu í copper cobalt

Nú líður að október og hérna er rétt aðeins farið að hausta. Það er kominn tími til að fagna árstíðinni og gera möffins úr öllum þessum perum. Þið hefðuð átt að sjá hamingjusvipinn á andlitum barnanna þegar þessi möffins biðu þeirra hér á borðinu eftir skóla um daginn.
Perumöffins · Lísa Hjalt


Þessi möffins eru hóflega sykruð og stútfull af perum. Ég var spurð að því um daginn í gegnum ensku útgáfu bloggsins út af hverju ég notaði glútenlaust lyftiduft þegar ég virðist baka með mjöli sem inniheldur glúten. Málið er að í ensku eigum við ekki orðið vínsteinslyftiduft heldur er slíkt lyftiduft bara merkt glútenlaust og hjá mér er glútenlausa lyftiduftið frá Doves Farm í uppáhaldi. Mér líkar ekki hefðbundið lyftiduft því það virðist hafa eftirbragð sem truflar mig (notið helmingi minna í uppskriftina ef þið notið hefðbundið). Nokkur orð um valið á milli „buttermilk“ (ekki ósvipuð súrmjólk en meira fljótandi) og perumauks í eggjablönduna: Það veltur á því hvort perurnar séu vel þroskaðar eða mátulega. Ef þær eru enn svolítið harðar þá nota ég gjarnan perumauk (ég kaupi Hipp Organic-maukið fyrir ungbörn) sem gefur möffinsunum ríkara perubragð. Ef perurnar eru vel safaríkar þá bý ég til mína eigin „buttermilk“ með mjólk og sítrónusafa (sjá aðferð neðst). Ég veit að sumir nota gjarnan súrmjólk í uppskriftir sem innihalda „buttermilk“ en ég hef aldrei bakað perumöffinsin með súrmjólk.

PERUMÖFFINS

3 meðalstórar perur
1 stórt (hamingju)egg
75 g lífrænn hrásykur
1-1½ matskeið lífrænt hunang (eða hreint hlynsíróp)
1½ matskeið kókosolía
60 ml „buttermilk“ (sjá inngang) eða lífrænt perumauk
200 g fínmalað spelti (eða lífrænt hveiti)
50 g grófmalað spelti
2½ teskeið vínsteinslyftiduft
¼ teskeið fínt sjávar/Himalayasalt
½ teskeið kardamoma
¼ teskeið múskat
má sleppa: klípa negull

Flysjið og kjarnhreinsið perurnar og skerið þær svo í smáa bita. Setjið þær til hliðar.

Hrærið saman eggi, sykri, hunangi, buttermilk/perumauki og kókosolíu í skál (ef olían er í föstu formi setjið þá lokaða krukkuna í skál með heitu vatni fyrir notkun). Ef þið notið heimagerða „buttermilk“ geymið hana þá í mælikönnunni í nokkrar mínútur og hrærið út í þegar hún hefur þykknað.

Blandið saman spelti, vínsteinslyftidufti, salti og kryddum í stórri skál.

Hellið eggjablöndunni út í stóru skálina og blandið hráefnunum rólega saman með sleif. Bætið fínskornum perubitunum saman við og veltið deiginu til með sleif án þess að hræra mikið. Til að byrja með kann deigið að virka þurrt en perurnar gefa því raka.

Smyrjið 12 möffinsform úr silíkoni með örlítilli kókosolíu (ef notuð eru stök silíkonform er þægilegt að setja þau ofan í stálform og baka þannig). Bakið við 200°C (180°C á blæstri) í 22-25 mínútur. Bíðið með það í nokkrar mínútur að taka möffinsin úr silíkonformunum og látið þau svo kólna á kæligrind.

Recipe in English.

Ef þið viljið nota „buttermilk“ í uppskriftina í staðinn fyrir perumauk þá er aðferðin auðveld: Hellið 60 ml af mjólk í litla mælikönnu og bætið 1 teskeið af nýkreistum sítrónusafa út í. Hrærið rólega og látið mjólkina standa í nokkrar mínútur uns hún hefur þykknað.



Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.