Sýnir færslur með efnisorðinu sjónvarp. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu sjónvarp. Sýna allar færslur

föstudagur, 6. janúar 2017

Bækur og kaffi | Gleðilegt ár

Bækur og kaffi · Lísa Stefan


Gleðilegt ár! Ég vona að þið hafið slakað vel á yfir hátíðarnar og að ykkar bíði eitthvað skemmtilegt á árinu 2017. Við erum enn í hátíðargír, fyrir utan veislumatinn. Að springa úr seddu eftir gamlárskvöld stakk eitt barnanna upp á því að hafa bara epli og gulrætur á matseðli vikunnar, sem mér fannst helst til öfgafullt. Við vorum bara heima um jólin og röltum stundum í Waterstones til að fá okkur latte á kaffihúsinu þeirra. Það var nóg að skoða bara í bókabúðinni því nóg var um bækur undir jólatrénu. Muniði eftir því fyrir um mánuði síðan þegar ég minntist á að lesa aftur Little Women ef ég ætti innbundnu útgáfuna frá Penguin? Haldiði að eiginmaðurinn hafi ekki gefið mér hana í jólagjöf og tvö önnur klassísk verk. Þessar útgáfur eru svo fallegar. Ég hef ekki klárað verkin á síðasta bókalista en fór lesandi Louisu May Alcott inn í nýja árið. Þessa dagana er ég að nóta hjá mér hugmyndir fyrir þann næsta og eftir ferð okkar á bókasafnið á miðvikudaginn eru nokkrar sem bara bíða lesturs. Til að gefa ykkur vísbendingu: Á borðinu mínu sjáið þið The Golden Notebook eftir Doris Lessing. Ég deili listanum síðar.

Í desember horfði ég aðeins á sjónvarp (í meiningunni að ná nokkrum dagskrárliðum á BBC iPlayer - ég horfi ekki á sjónvarp, ég les). Maggie Smith og Alex Jennings voru frábær í myndinni The Lady in the Van (2015). Hvernig Alan Bennett hélt út fimmtán ár með Mrs Shepherd í innkeyrslunni er ofar mínum skilningi. Á BBC var sýnd heimildarmyndin Alan Bennett's Diaries (2016) eftir Adam Low sem var gaman að sjá. Ég er að hugsa um að lesa dagbækur Bennett eftir að hafa skoðað nýjasta bindið, Keeping On Keeping On, í bókabúð. Og já, ég var yfir mig hrifin af kvikmyndinni NW, í leikstjórn Saul Dibb, handritsgerð Rachel Bennette, sem er byggð á samnefndri bók eftir Zadie Smith. Ég kláraði bókina áður en ég horfði á hana og leikhópurinn var frábær, sérstaklega Nikki Amuka-Bird sem heldur betur á verðlaun skilið fyrir túlkun sína á Natalie/Keisha Blake. Hún var stórkostleg. Það eina sem olli mér vonbrigðum var að þau slepptu hinni tragísku og fyndnu Annie, úr „guest“-kaflanum um Felix, en ég skil vel út af hverju það var gert.

Jæja, tími til kominn að klára að gera fínt fyrir helgina. Fljótlega deili ég ritdómi mínum um Map Stories eftir Francisca Mattéoli, sem til stóð að gera fyrir jól, og ég er með nokkar kaffiborðsbækur í sjónmáli.



miðvikudagur, 11. maí 2016

Vor á veröndinni

Vor á veröndinni, kirsuberjatré í blóma · Lísa Stefan


Skoska vorið lét bíða eftir sér en mætti svo fyrir tveimur dögum síðan í allri sinni dýrð, sólríkt og hlýtt. Veröndin var sópuð, garðborðið skrúbbað og baststólarnir settir út. Það var kominn tími á fyrstu máltíð þessa vors undir berum himni. Síðustu dagar hafa verið himneskir, með notalegum stundum úti á verönd þar sem setið er undir kirsuberjatré í fullum blóma. Ég sit þar einmitt núna, með kaffibolla, bækur og tímarit. Í nýlegri bloggfærslu var tréð að undirbúa að blómstra og einn morguninn sá ég það í gegnum herbergisglugga sonarins og það var sem það hefði hreinlega sprungið. Stórfenglegt!


Þessa dagana er ég að lesa The Great Railway Bazaar: By Train Through Asia eftir bandaríska rithöfundinn Paul Theroux, sem er þekktur fyrir ferðaskrif og skáldsögur. Þetta er fyrsta ferðasagan hans, sem kom fyrst út árið 1975. Ég ætlaði að lesa Dark Star Safari: Overland from Cairo to Cape Town en hugsaði svo með mér að það væri best að lesa ferðsögur hans í tímaröð - sennilega óviturleg ákvörðun þar sem hin síðarnefnda er tólfta í röðinni! Í The Great Railway Bazaar ferðumst við með Theroux í lestum yfir Asíu, en ferðalagið hefst með Austurlandahraðlestinni frá París til Istanbúl. Ritstíll hans er dásamlegur og hnyttinn. Ég var alltaf að skella upp úr og að nóta hjá mér tilvísanir í minnisbókina. Áður en ég komst í gegnum annan kafla hafði ég gert mér grein fyrir því að ég yrði að ýta minnisbókinni til hliðar ef ég ætlaði að ljúka bókinni fyrir jól.
[Uppfærsla: Kláraði ekki bókina og get því miður
ekki mælt með henni - sjá lestrarkompu.]


Talandi um Istanbúl. Í gegnum netið er ég að ferðast þangað frá Kína með aðstoð sagnfræðingsins Sam Willis og BBC-spilarans. Á BBC Four-sjónvarpsstöðinni er verið að sýna þáttaröðina Silkileiðin (The Silk Road), þar sem Willis fer með okkur yfir Mið-Asíu til Istanbúl og Feneyja. Á heimasíðu þáttarins má skoða myndræna ferðadagbók. Í síðasta þætti var hann á Registan-torginu í fornu borginni Samarkand, í Úsbekistan, þar sem hann hitti handverksmenn sem voru að búa til mynsturflísar sem eru notaðar til viðgerðar á Bibi Khanum-moskunni. Þetta var heillandi. Í borginni Khiva, sem er vestar, settist hann að snæðingi með leiðsögumanni sínum og borðbúnaðurinn var fallega mynsturmálaður. Meira að segja flatbrauðið var mynstrað!


Ég nota ekki Instagram-myndirnar mínar í bloggfærslur en í dag varð ég að gera undantekningu, til þess að varðveita ljúfa minningu. Myndina hér að neðan tók ég í gær með spjaldtölvunni þegar ég og dóttir mín vorum að setjast niður til að njóta hádegisverðar - langur lönsj á veröndinni (hún er að læra heima þessa dagana; er í lokaprófum). Myndin fangaði augnablikið fullkomlega. Ég elska hvernig myndin er yfirlýst og hvernig það sýnist vera autt svæði handan verandarinnar í stað steinveggjar sem er þakinn bergfléttu.

Njótið dagsins!

Hádegisverður undir berum himni (af @lisastefanat frá því í gær)



fimmtudagur, 21. apríl 2016

Carrington og Strachey | Gleðilegt sumar

Carrington og Strachey | Gleðilegt sumar · Lísa Stefan


Þessi uppsetning eða stemning er orðin kunnugleg; ég á púða á gólfinu umvafin bókum (málverkið í bókinni er eftir Vassily Kandisky, Capricious Forms, 1937) og tímaritum, stundum með kvikmynd eða dramaþáttaröð í spilaranum. Það vantar bara kaffibollann. Á breska Netflix voru þeir að bæta við spennuþáttaröðinni The Honourable Woman frá BBC, sem mér fannst gaman að sjá aftur (var held ég sýnd á RÚV í fyrra). Leikaravalið er frábært en að mínu mati ber Stephen Rea af. Einnig má finna þar eina af mínum uppáhaldsmyndum, Testament of Youth (2014), sem gerist á tímum Fyrri heimsstyrjaldarinnar og skartar Alicia Vikander í aðalhlutverki. Myndin er byggð á æviminningum Veru Brittain sem bera sama heiti. Leikmyndin er glæsileg; einnig búningarnir. Ein af mínum eigin myndum sem ég hef látið rúlla í spilaranum undanfarið er Carrington (1995), sem fjallar um sérstakt samband listakonunnar Doru Carrington (1893-1932) og rithöfundarins Lytton Strachey (1880-1932).

Carrington og Strachey, sem leikararnir Emma Thompson og Jonathan Pryce túlka, tilheyrðu Bloomsbury-hópnum. Strachey var samkynhneigður en samband hans og Carrington var afar sérstætt og þau bjuggu saman. (Ef þið eruð stödd í London og langar á safn þá getiði séð mynd sem hún málaði af honum í National Portrait Gallery.) Saga þeirra er svo sannarlega ástarsaga, en annars eðlis, með harmrænum endalokum. Carrington tók sitt eigið líf stuttu eftir að Strachey andaðist eftir baráttu við krabbamein. Thompson er dásamleg í sínu hlutverki en þar sem Strachey var afar hnyttinn og orðheppinn þá stelur Pryce oft senunni. Penelope Wilton (Isobel Crawley úr Downton Abbey) í hlutverki Lady Ottoline Morrell er einnig senuþjófur. Hún er einfaldlega frábær. Í öllu sem hún leikur í.

Bókalistinn minn lengist sífellt og á honum er að finna Strachey. Mig langar að lesa Lytton Strachey: The New Biography eftir Michael Holroyd og einnig The Letters of Lytton Strachey í ritstjórn Paul Levy, sem er líklega bara hægt að fá notaða. Ég á bara eftir að ákveða hvora ég les fyrst. Hafiði lesið þær?

Gleðilegt sumar!



mánudagur, 11. janúar 2016

Bækur og Bowie



Ég vona að nýja árið leiki við ykkur! Eins og ég naut þess að eiga náðuga daga yfir hátíðarnar þá er ég vel sátt við hina daglegu rútínu. Þið hafið kannski tekið eftir því á Instagram að ég fékk bók um jólin sem ég hef varla getað slitið mig frá, Textiles of the Islamic World eftir John Gillow. Ég ætla að segja ykkur frá henni síðar en ef þið hafið áhuga á textílhönnun þá veldur þessi ekki vonbrigðum. Mótífin og smáatriðin eru heillandi. Ég endurlas líka Hobbitann eftir Tolkien bara mér til gamans og er að lesa aftur War and Peace, eða Stríð og frið eins og hin klassíska skáldsaga eftir Tolstoy kallast á íslensku. Ég kenni nýrri þáttaröð á BBC um það. Eftir fyrsta þáttinn varð ég að taka bókina upp aftur. (Fyrir ykkur sem hafið ekki aðgang að þáttaröðinni þá er hægt að panta BBC's War & Peace (2015) fyrirfram.)

Mig grunar að mörg ykkar hafið hlustað töluvert á David Bowie í dag - megi hann hvíla í friði! Það er erfitt að velja uppáhaldslagið en Heroes og Space Oddity koma sterk inn. Þau ykkar sem ólust upp með lögum Bowie eigið örugglega eins og eina minningu. Einn af bræðrum mínum málaði 'Bowie' með stærðarinnar hástöfum á einn vegginn í herberginu sínu, í svörtu. Ef ekki var dregið fyrir gluggatjöldin þá gátu gangandi vegfarandur sem litu upp séð dýrðina. Þetta þýddi náttúrlega að ég átti svalasta stóra bróður á jarðríki!

Now it's time to leave the capsule
if you dare
...
I'm stepping through the door
And I'm floating
in a most peculiar way
And the stars look very different today

föstudagur, 25. september 2015

Iznik-leirmunir | Perumöffins

Perumöffins · Lísa Stefan


Það má gleðjast yfir nokkrum atriðum í þessum septembermánuði. Í næsta bæ hefur nýtt kaffihús opnað og hönnunin kom mér skemmtilega á óvart; hrár stíll í bland við iðnaðarstíl. Ég finn mér afsökun til að hjóla oftar út á pósthús til þess að setjast niður með bók og latte áður en ég held heim. Svo er það umfjöllun um Iznik-leirmuni í nýjasta tölublaði The World of Interiors með mótífum og litum sem hafa heltekið mig. Downton Abbey þættirnir hafa snúið aftur á skjáinn hérna megin hafs með áhugaverðan söguþráð og glæsilega búningahönnun. Þið sem hafið séð þáttinn, tókuð þið eftir bláa kimono-sloppinum hennar Lady Mary? Jæja, hvað meira? Himneskur ilmur af perumöffinsum að bakast í ofninum. Það eru litlu hlutirnir ...
Iznik-leirmunir · Lísa Stefan


Byrjum á umfjölluninni í októbertölublaði The World of Interiors, þar sem listasögufræðingurinn John Carswell gagnrýnir doðrantinn The Ömer Koç Iznik Collection eftir Hülya Bilgi (600 síður, vegur 5 kíló, fáanlegur hjá John Sandoe Books). Þetta er bæklingur í bókaformi sem sýnir safn Iznik-leirmuna í eigu Koç-fjölskyldunnar, sem er ein sú auðugasta í Tyrklandi. Í sinni áhugaverðu rýni kemur Carswell stuttlega inn á sögu Iznik-leirmunaiðnaðarins frá byrjun 15. aldar til endalokanna 300 árum síðar. Til forna var fyrrum býsanski bærinn Iznik, 100 km suðaustur af Istanbul, í blóma vegna legu hans á helstu viðskiptaleið Anatólíuskagans (Litla-Asía) frá Austurlöndum. Í dag er hann „lítill svefnbær“ en á síðari hluta 13. aldar var hann „einn af fyrstu höfuðstöðunum sem Ottóman-veldið lagði undir sig“.

Myndirnar í umfjölluninni sýna heillandi mótíf á flísum, krúsum og diskum sem máluð eru í líflegum litum. Samkvæmt Carswell eru aðalsmerki Iznik-hönnunar kóbalt-blár, túrkis, mangan-fjólublár, ólífugrænn og rauður. „Í hönnuninni eru ósnortin tyrknesk mótíf sameinuð staðfærðum eiginleikum innflutts kínversks postulíns í bláu og hvítu“ og hann bætir við síðar að „[v]ið höfum enga hugmynd um af hverju þeir völdu þessi ákveðnu sett af mótífum og sameinuðu þau með svo sérkennandi og sérstökum hætti.“


Ef þið eruð á leið til Tyrklands þá getið þið skoðað Iznik-flísar í Topkapi-höllinni í Istanbul. Verðið á fyrrnefndum doðranti er hærra en það sem ég eyði í bækur þessa dagana en fyrir þá sem hafa áhuga þá fann ég tvær ódýrari bækur á netinu sem ég myndi gjarnan vilja skoða og jafnvel finna sess á stofuborðinu mínu: Iznik Pottery and Tiles: In the Calouste Gulbenkian Collection eftir Maria d'Orey Capucho og Iznik: The Artistry of Ottoman Ceramics eftir Walter B. Denny.


Ég er ekki alveg búin með tal um mynstur. Sýningar eru hafnar á sjöttu þáttaröð Downton Abbey og ég er bálskotin í bláa kimono-sloppnum hennar Lady Mary sem leikkonan Michelle Dockery bar svo vel í nokkrum senum í fyrsta þættinum. Ég reyndi að finna myndir af honum á netinu til að sjá smáatriði mynstursins en hafði ekki heppnina með mér þannig að ég setti bara þáttinn á pásu í ITV-spilaranum í spjaldtölvunni og smellti af myndum (afsakið léleg gæði).

Ég veit ekki hvort kimono-sloppurinn sé notuð flík eða sérstaklega hannaður fyrir þættina en ég er heilluð af sniðinu og litnum. Ég held að búningahönnuðurinn Anna Robbins sé að gera frábæra hluti og mér finnst flott hvernig hún sýnir tísku þriðja áratugar síðustu aldar. Ég verð að viðurkenna að ég hafði næstum því gefist upp á Downton Abbey eftir síðustu seríu, sem mér fannst full af þreyttum, endurteknum söguþráðum, en ég er glöð að ég gaf þáttunum annað tækifæri á sunnudaginn. Fyrsti þátturinn lofar góðu ... alla vega búningarnir.


Í myndunum má sjá prufur af Benaki-veggfóðri í litnum blue mink frá Lewis & Wood
og Wild Thing-efninu í copper cobalt

Nú líður að október og hérna er rétt aðeins farið að hausta. Það er kominn tími til að fagna árstíðinni og gera möffins úr öllum þessum perum. Þið hefðuð átt að sjá hamingjusvipinn á andlitum barnanna þegar þessi möffins biðu þeirra hér á borðinu eftir skóla um daginn.
Perumöffins · Lísa Stefan


Þessi möffins eru hóflega sykruð og stútfull af perum. Ég var spurð að því um daginn í gegnum ensku útgáfu bloggsins út af hverju ég notaði glútenlaust lyftiduft þegar ég virðist baka með mjöli sem inniheldur glúten. Málið er að í ensku eigum við ekki orðið vínsteinslyftiduft heldur er slíkt lyftiduft bara merkt glútenlaust og hjá mér er glútenlausa lyftiduftið frá Doves Farm í uppáhaldi. Mér líkar ekki hefðbundið lyftiduft því það virðist hafa eftirbragð sem truflar mig (notið helmingi minna í uppskriftina ef þið notið hefðbundið). Nokkur orð um valið á milli „buttermilk“ (ekki ósvipuð súrmjólk en meira fljótandi) og perumauks í eggjablönduna: Það veltur á því hvort perurnar séu vel þroskaðar eða mátulega. Ef þær eru enn svolítið harðar þá nota ég gjarnan perumauk (ég kaupi Hipp Organic-maukið fyrir ungbörn) sem gefur möffinsunum ríkara perubragð. Ef perurnar eru vel safaríkar þá bý ég til mína eigin „buttermilk“ með mjólk og sítrónusafa (sjá aðferð neðst). Ég veit að sumir nota gjarnan súrmjólk í uppskriftir sem innihalda „buttermilk“ en ég hef aldrei bakað perumöffinsin með súrmjólk.

PERUMÖFFINS

3 meðalstórar perur
1 stórt (hamingju)egg
75 g lífrænn hrásykur
1-1½ matskeið lífrænt hunang (eða hreint hlynsíróp)
1½ matskeið kókosolía
60 ml „buttermilk“ (sjá inngang) eða lífrænt perumauk
200 g fínmalað spelti (eða lífrænt hveiti)
50 g grófmalað spelti
2½ teskeið vínsteinslyftiduft
¼ teskeið fínt sjávar/Himalayasalt
½ teskeið kardamoma
¼ teskeið múskat
má sleppa: klípa negull

Flysjið og kjarnhreinsið perurnar og skerið þær svo í smáa bita. Setjið þær til hliðar.

Hrærið saman eggi, sykri, hunangi, buttermilk/perumauki og kókosolíu í skál (ef olían er í föstu formi setjið þá lokaða krukkuna í skál með heitu vatni fyrir notkun). Ef þið notið heimagerða „buttermilk“ geymið hana þá í mælikönnunni í nokkrar mínútur og hrærið út í þegar hún hefur þykknað.

Blandið saman spelti, vínsteinslyftidufti, salti og kryddum í stórri skál.

Hellið eggjablöndunni út í stóru skálina og blandið hráefnunum rólega saman með sleif. Bætið fínskornum perubitunum saman við og veltið deiginu til með sleif án þess að hræra mikið. Til að byrja með kann deigið að virka þurrt en perurnar gefa því raka.

Smyrjið 12 möffinsform úr silíkoni með örlítilli kókosolíu (ef notuð eru stök silíkonform er þægilegt að setja þau ofan í stálform og baka þannig). Bakið við 200°C (180°C á blæstri) í 22-25 mínútur. Bíðið með það í nokkrar mínútur að taka möffinsin úr silíkonformunum og látið þau svo kólna á kæligrind.

Ef þið viljið nota „buttermilk“ í uppskriftina í staðinn fyrir perumauk þá er aðferðin auðveld: Hellið 60 ml af mjólk í litla mælikönnu og bætið 1 teskeið af nýkreistum sítrónusafa út í. Hrærið rólega og látið mjólkina standa í nokkrar mínútur uns hún hefur þykknað.



fimmtudagur, 13. ágúst 2015

Þáttaröðin Ferkantað líf

Þáttaröðin Ferkantað líf · Lísa Stefan


Nú veit ég ekki hvort byrjað er að sýna seríuna Ferkantað líf (Life in Squares) á Íslandi en síðasti þátturinn var sýndur á BBC í vikunni. Hún var kynnt sem dramaþáttaröð í þremur hlutum um sambandið á milli ensku listakonunnar Vanessu Bell og systur hennar, rithöfundarins Virginiu Woolf. Mér fannst sagan fjalla meira um sambandið á milli Bell og listamannsins Duncans Grants. Ekki það að ég sé að kvarta, ég hafði virklega gaman af þáttunum, fallegri sviðsmyndinni og búningunum. Leikkonan Phoebe Fox leikur hina yngri Bell og Eve Best þá eldri. Ég hafði ekki séð Fox leika áður og mér þótti hún standa sig vel. Hún smellpassaði við þá mynd sem ég hef af Bell í huganum. James Norton skilar sínu hlutverki sem yngri Grant vel (ég sá hann fyrst sem Tommy í seríunni Happy Valley) og það gerir einnig Rupert Penry-Jones sem leikur eldri Grant. Ég vil bæta því við að allir leikararnir eiga lof skilið. Þarna eru saman komnir frábærir breskir leikarar sem vekja hinn þekkta Bloomsbury-hóp til lífs á skjánum og bóhemískan lífsstílinn. Handrit skrifar Amanda Coe og hinn sænski Simon Kaijser leikstýrir.
Lavender · Lísa Stefan


Ef þið hafði ekki horft á þættina þá verð ég eiginlega að vara ykkur smá við fyrsta þættinum. Það er mjög miklu efni komið til skila í honum - ástarsambönd og andlát - sem fólk tengir betur við ef það þekkir þegar sögu þeirra einstaklinga sem kenndir eru við Bloomsbury-hópinn. Það er mín skoðun að þættirnir hefðu átt að vera fjórir í stað þriggja til að kynna betur þessa einstaklinga. Í öðrum þætti er sagan farin að flæða mun betur og auðveldara að fylgja henni.


Kannski er það klisja að kalla lífsstíl Bloomsbury-hópsins bóhemískan, eins og ég gerði hér að ofan, en leikmyndin (mise en scène) er það svo sannarlega. Sjáið fyrir ykkur listaverk, tæki og tól listamanna, skrifborð, bækur, bréf, o.s.frv. Þegar fyrri heimsstyrjöldin stóð yfir kom Vanessa Bell upp heimili í Charleston House í Sussex, þar sem meginhluti þáttanna gerist. Þið getið skoðað myndir af listamannalegum stíl setursins á heimasíðu House & Garden.

To the Lighthouse eftir Virginia Woolf · Lísa Hjalt


Fyrir mig er tímasetning þáttanna athyglisverð því í byrjun sumars tók ég úr hillunni bókina To the Lighthouse (Út í vitann á ísl.) eftir Woolf, en ég á það til að lesa hana á sumrin. Á meðan lestrinum stóð var ég að hugsa um þær systur, Virginiu og Vanessu, horfði á myndina The Hours (2002) í hundraðasta sinn og pantaði ævisöguna Vanessa Bell eftir Frances Spalding. Ég áttaði mig nefnilega á því að minn fókus var alltaf á Woolf og hennar sögu. Ég vissi minna um Bell en þættirnir gáfu mér innsýn í hennar lífshlaup.

The World of Interiors, september 2014, bls. 146

Í langan tíma hef ég verið heilluð af Virginiu Woolf. Ég man ekki hvenær sá áhugi gerði fyrst vart við sig eða hvaða verk hennar ég las fyrst. Svo margt hefur verið skrifað um ævi hennar. En ég get mælt með bókinni Moments Of Being, sem er safn af hennar sjálfsævilegu skrifum (las hana í kúrsi í háskólanum á sínum tíma) . Frændi hennar Quentin Bell (sonur Vanessu og Clive Bell) skrifaði ævisögu hennar sem spannar tímabilið 1912 til 1941, Virginia Woolf: A Biography. Eiginmaður hennar, Leonard Woolf, ritstýrði dagbókunum og gaf út eftir andlát hennar, A Writer's Diary: Being Extracts from the Diary of Virginia Woolf.

Eftir að hafa horft á Ferkantað líf þá er ég í stuði til að dýfa mér aðeins ofan í Bloomsbury-hópinn. Ég hlakka til að lesa fyrrnefnda ævisögu um Bell og svo langar mig að horfa aftur á myndina Carrington (1995), en tveir af mínum uppáhalds leikurum fara með aðalhlutverk í henni, Emma Thompson sem Dora Carrington og Jonathan Pryce sem Lytton Strachey (sjáið stikluna). Í gerð er kvikmynd eftir hollenska leikstjórann Sacha Polak sem kallast Vita & Virginia og er um samband Woolf og Vitu Sackville-West. Ég býð spennt.




miðvikudagur, 22. janúar 2014

Rýmið 50



Þetta er fimmtugasti rýmispósturinn á blogginu og ég ákvað að halda áfram með stemninguna frá því í gær. Þessi stofa, sem kallast Brodsworth Hall, er á ensku sveitasetri sem kallast Angelfield House. Húsið var tökustaður breskrar sjónvarpsmyndar, Thirteenth Tale, sem var sýnd á BBC um jólin. Því miður missti ég af henni, sennilega vegna þess að ég horfi aldrei á sjónvarp. En ég hefði alveg verið til í að kveikja á því fyrir þessa mynd, það er nokkuð ljóst. Frábærir leikarar og söguþráðurinn greinilega spennandi! Myndin var byggð á samnefndri bók eftir Diane Setterfield.

mynd:
Brodsworth Hall, Angelfield House af síðu English Heritage á Twitter