Um bloggið



Ég heiti Lísa og er bókaunnandi mikill, fagurkeri og sælkeri. Eftir flakk á milli landa í rúman áratug hef ég komið mér fyrir í Austurríki. Síðastliðin ár hef ég verið ódugleg að blogga en hef í hyggju að bæta úr því, þó aðallega með umfjöllun um bækur. Ég hef einnig áhuga á menningu og listum, einkum skrautlist og textíl frá framandi menningarheimum, innanhússhönnun, stíliseringu, ljósmyndun, mat ...
Ég á það til að leika mér með uppskriftir og búa til mínar eigin. Ég deili gjarnan bókamyndum á Instagram yfir kaffibollanum á meðan ég hlusta á ljúfa jazztóna, Jessye Norman eða Laufeyju.

Ég er fædd og uppalin í Reykjavík en sem krakki eyddi ég flestum sumrum með fjölskyldunni á laxveiðisvæðum í Borgarfirði eða í húsi ömmu og afa í Vogahverfinu þar sem dönsk áhrif föðurættarinnar voru ríkjandi. Ég nam enskar bókmenntir og málvísindi við HÍ og skrifaði BA-ritgerð um sjálfsævisöguleg skrif. Löngu síðar fór ég í meistarnám í safnafræði en Covid-faraldurinn kom í veg fyrir útskrift. Kannski næ ég að taka upp þráðinn síðar, taka starfsnám á safni og skrifa meistararitgerð í framhaldi.

Uppfært í febrúar 2025.
Hafðu samband: netfang



© Lísa Stefan | Lestur & Latte