Um bloggið



Ég er Lísa Hjalt, alin upp á Íslandi, en hef flakkað á milli landa í rúman áratug. Nú hef ég komið mér fyrir í Austurríki og hef einnig hafið meistaranám í safnafræðum, sem kennt er í fjarnámi í Háskóla Íslands. Covid-19 faraldurinn hefur sett smá strik í reikninginn þannig að ég mun víst útskrifast seinna en ég ætlaði mér. Ég hef bloggað minna síðan ég byrjaði í náminu en ég deili gjarnan bókamyndum á Instagram.

Það var í belgísku borginni Antwerpen árið 2010 sem ég byrjaði með ensku útgáfu bloggins, Books & Latte (breytti nýverið heitinu sem áður byrjaði á orðinu Lunch). En eðli þess hefur breyst og smám saman varð það aðallega bókablogg. Reglulegar færslur eru bókalistarnir mínir og lestrarkompan, nýjar skáldsögur og almenn rit, nýjar kaffiborðsbækur sem ég hef í augsýn, og litlu hlutirnir í lífinu. Ég hef mikinn áhuga á textíl, einkum framandi mynstrum og skreytilist - oft glittir í textílprufu undir kaffibollanum mínum. Yfirleitt verða færslurnar til yfir löngum hádegisverði, gjarnan undir áhrifum bóklesturs og tvöfalds latte.

Ég fæddist í Reykjavík og eyddi flestum sumrum með fjölskyldunni á laxveiðisvæðum í Borgarfirði eða í húsi ömmu og afa í Vogahverfinu þar sem dönsk áhrif föðurættarinnar voru ríkjandi. Ég nam enskar bókmenntir og málvísindi við HÍ og skrifaði BA-ritgerð um sjálfsævisöguleg skrif. Efnistök bloggsins mótast af áhuga mínum á bókum og textíl, eins og ég nefndi áðan, innanhússhönnun og stíliseringu, ljósmyndun, listum, mat ... Önnur ástríða er að tilraunast með uppskriftir sem innihalda ferskar og óunnar vörur.

Lísa Hjalt
Hafðu samband: netfang



© Lísa Hjalt | Lestur & Latte

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.