mánudagur, 24. desember 2012

gleðileg jólJæja, nú eru jólin heldur betur að fara að koma. Bóndinn er búinn að setja hangikjötið í pottinn og lyktin berst um allt hús. Börnin koma reglulega niður og taka einn hring í eldhúsinu - þau bókstaflega elska hangikjöt og við borðum það jú bara einu sinni á ári. Ég er búin að gera grautinn fyrir risalamande-ið og kirsuberjasósuna, sem við berum fram með grautnum.

Við vorum alltaf með kalkúnamáltíð á aðfangadag og vorum þá meira og minna í eldhúsinu allan daginn að undirbúa. Svo gerðist það ein jól þegar við fjölskyldan vorum í Kaupmannahöfn að ofninn í íbúðinni sem við vorum í reyndist bilaður og því ekki hægt að elda kalkún. Það var ekkert annað í stöðunni en að fá sent hangikjöt frá Íslandi. Þennan dag fannst okkur við eiga allan tímann í heiminum því þetta var svo einföld eldamennska. Við ákváðum síðar að taka upp þennan sið, nota aðfangadag til að slaka á í eldhúsinu og stússast meira yfir pottum og pönnum á jóladag.

Hjá mér verða þetta bókajól. Eftir matinn í kvöld hyggst ég koma mér þægilega fyrir á legubekknum og á borðinu bíður mín sæmilegur stafli af bókum. Hluti af þeim er á myndinni. Ég er að vísu búin að lesa appelsínugula doðrantinn, sjálfsævisögu Grace Coddington, sem ég talaði um fyrr á blogginu (er í raun ekki doðrantur því letrið í bókinni er stórt.) Hún var skemmtileg aflestrar en mér fannst vanta meiri dýpt í hana. Hún fer hratt yfir sögu og eyðir yfirleitt ekki mörgum orðum í erfið tímabil í lífi sínu. Hún lýsir vel starfi sínu innan tískugeirans og hún lætur það eiga sig að segja slúðursögur, sem ég kann vel að meta. Mér leiðist það ógurlega að lesa ævisögur fólks sem eru fullar af slúðri um aðra. En eins og ég sagði, það vantar dýpt í bókina.

Bókin sem ég ætla að byrja á eftir matinn og pakkana í kvöld heitir Balenciaga and Spain og er rituð af Hamish Bowles (sá sami og skrifar fyrir Vogue US). Mig hefur lengi langað til að lesa um tískuhönnuðinn Cristóbal Balenciaga (1895-1972) en ég vissi eiginlega ekki hvaða bók ég ætti að velja. Það var svo góð bloggvinkona mín, Ada sem heldur úti blogginu Classiq, sem mælti sérstaklega með þessari. Ég lét eiginmanninn gefa mér hana í jólagjöf og mér líst mjög vel á hana. Hún er stútfull af spænskri menningu og list, akkúrat eins og ég vil hafa tískubækur. Ég ætla svo að klára að lesa Anna Karenina eftir Tolstoy og á bókasafninu um daginn rak ég augun í The Great Gatsby eftir Fitzgerald og ákvað að lesa hana aftur. Ég hugsa að ég komist varla yfir meira þessi jól.

Ég óska ykkur öllum gleðilegra jóla og enda færsluna á einu af mínum uppáhaldsjólalögum, hér í flutningi Coldplay.mynd:
Lísa Hjalt

You Tube: Coldplay / Have yourself a merry little Christmas

fimmtudagur, 20. desember 2012

Rólegur dagur í borginni

Rólegur dagur í Luxembourg · Lísa Hjalt


Ég þurfti aðeins að skreppa inn í borg í gær og smellti af einni mynd á Rue du St. Esprit þar sem það voru svo fáir á ferli. Það er alltaf jafn fallegt að horfa þarna yfir. Það var töluvert af fólki á verslunargötunum en ég varð ekki vör við neitt jólastress. Þetta eru fyrstu jólin okkar hér og mér sýnist Lúxarar vera nokkuð spakir í desember.

mynd:
Lísa Hjalt

mánudagur, 17. desember 2012

luxembourg: jólamarkaður á place d'armes


Ég fór inn í borg á laugardaginn og ætlaði að festa jóladýrðina á filmu en áttaði mig á því að ég hafði gleymt að hlaða batteríið. Ég náði því ekki að taka nema þessar fjórar myndir áður en vélin fór að hætta að vinna eðlilega. En hvað um það, þær fanga stemninguna á Place d'Armes torgi. Það er torgið sem er í kjarna borgarinnar og út frá því liggja hellulagðar götur með verslunum. Kosturinn við borgarkjarnann í Luxembourg er sá að bílaumferð er mjög takmörkuð og engin í helstu verslunargötunum. Fyrstu myndina tók ég fyrir utan blómabúð á Rue Philippe II, sem er rétt hjá torginu. Það eru alltaf svo sætar skreytingar fyrir utan þessa búð og á laugardaginn var einstaklega jólalegt hjá þeim. Þessi tré með gervisnjó heilluðu mig einna helst.

Ef þið eruð að ferðast um Evrópu á þessum árstíma þá mæli ég með að fara til Luxembourg. Borgin er svo fallega skreytt og allt er frekar lítið og kósí í sniðum.

Þetta var annars notaleg helgi. Þarna á laugardeginum fórum við á bókasafnið og svo kippti ég með sushi á leiðinni heim og át á mig gat. Í gær fórum við að sjá The Hobbit: An Unexpected Journey (2012) og við urðum ekki fyrir vonbrigðum. Þetta var ekkert annað en 3D veisla fyrir augað; Peter Jackson og allir þeir sem komu að þessari mynd eru ekkert annað en helv... bölv... snillingar, eins og bóndinn myndi orða það. Nú er ég ekki mikið fyrir svona ævintýramyndir en við erum miklir aðdáendur Lord of the Rings myndanna og vorum búin að bíða spennt eftir þessari. Núna bíðum við enn þá spenntari eftir framhaldinu.

myndir:
Lísa Hjalt

laugardagur, 15. desember 2012

Súkkulaðibitakökur með möndlum og haframjöli

Uppskrift að súkkulaðibitakökum með möndlum og haframjöli · Lísa Hjalt


Í gær lofaði ég ykkur aukafærslu og hér er uppskriftin sem ég minntist á, súkkulaðibitakökur með möndlum og haframjöli. Ég setti þessa saman á fimmtudaginn og bakaði svo kökurnar aftur í gær til að vera alveg viss um að uppskriftin væri skotheld. Í öllu þessu sykursulli sem dynur á fólki fyrir jólin þá er oft ágætt að huga að innihaldinu í því sem við erum að baka. Þessar eru ekki lausar við sykur, alls ekki, en sykurmagnið er hóflegt og það er ekkert smjör í þeim. Þær eru samt dásamlega bragðgóðar.

þriðjudagur, 11. desember 2012

rómantísk og sveitarleg jól


Þessar rómantísku og sveitarlegu myndir eru hluti af auglýsingaherferð H&M Home fyrir jólin í fyrra en eru tímalausar. Ef þessi sæta stofa á fyrstu myndinni væri mín þá myndi ég bara henda út þessari galvaniseruðu fötu og nota fallega viðarfötu eða -kassa í staðinn. Ég þoli ekki galvaniseraðar vörur innandyra. Ég set þær í sama flokk og bækur raðaðar eftir litum; mér verður beinlínis illt í augunum þegar ég sé svoleiðis.

Eruð þið ekki annars komin í jólaskap? Ég er að byrja að undirbúa afmælisveislu fyrir yngstu dótturina sem er ellefu ára í dag. Hún ætlar að koma með tvær vinkonur heim eftir skóla og ég er náttúrlega búin að lofa að baka allt sem hún bað um. Ég er voðalega fegin að eiga ekki von á öllum stelpunum í bekknum í hús. Ég er lítið fyrir risastór barnaafmæli og sem betur fer eru börnin á sömu skoðun.

myndir:
H&M Home jól 2011 auglýsingaherferð

mánudagur, 10. desember 2012

vetrarstemning + vinningshafi í lesendaleik


Ég tók þessar myndir á laugardaginn þegar ég skrapp í göngutúr með dætrunum. Það hafði snjóað og sólin skein þannig að náttúran skartaði sínum fallegasta vetrarbúningi. Þessi helgi hefði ekki getað verið jólalegri, það var dásamlegur matur á borðum, bóndinn sá um hátíðlega jólatónlist og við nutum þess að drekka jólaglögg, bæði áfengt og óáfengt.

Nú skal tilkynna sigurvegarann í BESOTTED BRAND LESENDALEIKNUM.

Ég er búin að draga nafn úr pottinum og fallegu, handprentuðu 'thank you' kortin eru á leiðinni til Íslands. Sú heppna er:

Þorbjörg, sem skráði sig í leikinn á íslensku útgáfu LatteLísa, en leikurinn var á báðum síðunum.

Til hamingju Þorbjörg! Vinsamlegast sendu mér heimilisfangið þitt í tölvupósti svo ég geti áframsent það til Tristan B hjá Besotted Brand.

BESOTTED BRAND er vefverslun fyrir alla sem hafa áhuga á fallegri hönnun, bréfsefnum og hreinlega öllu til að gera handrituð skeyti og bréf persónulegri. Besotted Brand býður upp á póstsendingu um allan heim og ef þú ert að panta meira en eitt stykki þá er öllu pakkað í einn kassa þannig að þú borgar bara eitt sendingargjald miðað við þá þyngd (þú færð mismuninn af sendingargjaldinu endurgreiddan).

myndir:
1-4: Lísa Hjalt / 5: Besotted Brand

fimmtudagur, 6. desember 2012

rýmið 16


- stofa í Upper West Side, NY
- hönnuður og eigandi Susan Becher

mynd:
Patrick Cline fyrir Lonny, nóvember/desember 2011, bls. 203


miðvikudagur, 5. desember 2012

holmegaard jólastemning


Ein af mínum uppáhaldsborgum í desember er án efa Kaupmannahöfn. Ég var svo heppin að búa í borginni um tíma og upplifði því danska jólastemningu til hins ítrasta. Það jafnaðist fátt á við það að rölta um skreyttar götur og taka einn hring í Illums Bolighus til að dást að fallegri skandinavískri hönnun. Jólavörurnar frá Holmegaard voru í miklu uppáhaldi og eru enn. Ég fann þessar myndir á síðunni þeirra. Þær eru frá því í fyrra en hönnunin er klassísk.

myndir:
af vefsíðu Holmegaard

miðvikudagur, 28. nóvember 2012

tískuþátturinn: ELLA vetur 2012


Ég er hrifin af nýju auglýsingunum frá ELLU - skemmtileg stemning í fallegum svarthvítum myndum. Ég er sérstaklega hrifin af kápunni og alveg viss um að ég myndi dansa um göturnar ef ég ætti þennan flotta hatt.

Vel gert hjá Elínrós Líndal og hennar teymi.

myndir:
ELLA Vetur 2012 auglýsingaherferð af ELLA heimasíðunni og Facebook síðunni

þriðjudagur, 27. nóvember 2012

Rýmið 14- stofa í Greenwich Village, NY
- stór skemill úr geitaskinni þjónar sem borð
- hönnuður Christine Markatos Lowe

mynd:
William Waldron fyrir Architectural Digest

mánudagur, 26. nóvember 2012

Uppskrift: heitt súkkulaði með heimagerðum vanillusykriÞetta telst nú varla til uppskrifta en ég var að setja inn á matarbloggið mína blöndu af heitu súkkulaði með heimagerðum vanillusykri, sem er ansi vinsælt á þessu heimili. Það er nú enginn vetur í Luxembourg enn þá en það er jú kaldara úti og gott að ylja sér með eins og einum bolla. Á virkum dögum notum við yfirleitt engan rjóma út í heldur berum súkkulaðið fram með nýbökuðu brauði. En um helgar förum við alla leið, notum rjóma eða lífrænan vanilluís og bökum helst eplaköku líka.

mynd:
Lísa Hjalt

fimmtudagur, 22. nóvember 2012

kaffi & lestur


Fyrir utan bardagahljóðin í sjö ára syninum sem berast frá efri hæðinni þá er ákaflega notalegt í kotinu núna. Skólinn er búinn snemma hjá krökkunum á fimmtudögum þannig að við erum búin að gera allt sem þarf að gera, erum komin í þægilegu fötin og búin að skella í brauð. Á meðan það bakast gæðum við okkur á mandarínum - og kaffi fyrir mig - og ýmist lesum eða horfum á mynd.

Nýjustu tímaritin í staflanum eru Travel + Leisure, þýska Vogue og franska Art & Décoration. Það er góður skammtur. Bækurnar eru nokkrar. Ég er nýbyrjuð að lesa Gielgud's Letters sem er samansafn bréfa sem breski leikarinn John Gielgud (1904-2000) skrifaði um ævina. Þetta er ágætis doðrantur, vel yfir 500 síður. Ég tók svo á bókasafninu um daginn kvikmyndina Tinker Tailor Soldier Spy (2011) með Gary Oldman og fleiri frábærum leikurum. Ég skelli henni vonandi í tækið í kvöld.

Ég veit að þeir sem fylgjast með þessu bloggi eru kannski ekki þeir allra duglegustu að skrifa ummæli við færslurnar en mér finnst alltaf gaman að heyra hvað fólk er að lesa.


myndir:
Lísa Hjalt

þriðjudagur, 20. nóvember 2012

rýmið 13


Ég veit því miður ekki nánari deili á því hver hannaði þetta eldhús. Það birtist í tímaritinu Maisons Côte Sud.

mynd:
Henri Del Olmo fyrir Maisons Côté Sud af blogginu My Paradissi

miðvikudagur, 14. nóvember 2012

parís í rigningu


Ég hef verið aðeins upptekin og sleppti því að pósta færslum síðustu tvo daga. Ég birti þessar myndir á ensku útgáfu bloggsins á laugardaginn, en ég vil birta þær hér líka.

Efsta myndin er tekin á Montmartre hæðinni þar sem Sacré Coeur kirkjan stendur. Við vorum nýbúin að skoða kirkjuna og vorum að dást að útsýninu yfir borgina. Við fórum svo með metró út í 6. hverfi og þegar þangað var komið byrjaði heldur betur að rigna. Það var ágætt að flýja inn á veitingahús og njóta góðrar máltíðar á meðan mestu skúrirnar gengu yfir.

Ef þið eruð stödd í París í rigningu og nennið ekki á safn þá get ég mælt með því að rölta undir bogagöngunum í Palais Royal garðinum. Þar má finna alls kyns búðir og til að fara inn í sumar þarf að banka. Það borgar sig ekki að vera of túristalegur ef þið ætlið inn í eina slíka; starfsfólkið hefur nákvæmlega enga þolinmæði fyrir túristum, sem ég skil mjög vel. Passið að setja upp sparibrosið og segja bonjour madame eða monsieur um leið og ykkur er hleypt inn.


myndir:
Lísa Hjalt

París, 17. október 2012 - 1: útsýni frá Square Louise Michel (græna svæðið fyrir neðan Sacré Coeur) / 2 + 4: Tuileries garðurinn / 3: Palais Royal garðurinn; Daniel Buren hannaði strípuðu súlurnar / 5: Louvre pýramídinn

fimmtudagur, 8. nóvember 2012

hugað að jólaundirbúningi


Hvað segið þið gott á þessum fimmtudegi? Ég veit ekki með ykkur en ég er smám saman að komast í jólaskap og er farin að nóta hjá mér eitt og annað sem viðkemur undirbúningi jólanna. Í Luxembourg kemur jólasveinninn 6. desember og það er frídagur í skólum. Við bjuggum áður í Antwerpen í Belgíu og jólasveinninn kom á sama degi en þar var að vísu ekki gefið frí. Hvað um það, jólahaldið breyttist örlítið þegar við kynntumst þessari hefð Benelux-landanna og við erum því tilbúin fyrir jólin í byrjun desember. Jólatréð fer upp áður en sveinki og hans fylgdarlið mætir á svæðið því okkur finnst það eiga vel við og gera þennan dag hátíðlegri.

Það er því í nóvember sem ég byrja smám saman að undirbúa jólin og ég nota svo desember til þess að slaka á og njóta komu þeirra. Ég er ekki týpan sem missir úr svefn þó það sé þvottur í þvottabalanum á aðfangadag en með því að undirbúa jólin svona snemma þá er einhvern veginn allt hreint og fínt í desember og þetta snýst meira um að leitast við að halda því þannig með lítilli fyrirhöfn. Nóvember er því tíminn sem ég legg meiri áherslu á að heimilisfólk gangi frá hlutunum í stað þess að færa þá til. Ég nota líka tækifærið til þess að grynnka á ýmsu dóti, hendi því sem er úr sér gengið og gef nýtanlega hluti og föt til góðgerðarmála.

Ég held að það hafi ekki fram hjá neinum sem les bloggin mín að ég er mikil bókakona og þessa dagana er ég að grynnka á stöflunum á stofuborðunum til að rýma fyrir nýjum bókum sem án efa bætast í safnið í desember. Sumar fara upp í hillu en ég nota aðrar til skrauts eins og á myndinni hér að ofan. Ég var einmitt að stilla nokkrum upp með ramma og kertum þegar ég mundi eftir þessari mynd. Nú vantar mig bara fersk blóm líka til að gera þetta enn huggulegra.

Eigið góðan dag!

mynd:
Rue, 2. tölublað, nóv/des 2010, bls. 105

miðvikudagur, 7. nóvember 2012

Góð skilaboðÉg held mikið upp á þessa mynd því það er ekki bara prófíllinn á persanum sem er óborganlegur heldur finnst mér skilaboðin á plakatinu alltaf eiga vel við.

mynd:
af Facebook síðu Food Inc

mánudagur, 5. nóvember 2012

París: stemningin á Café de Flore

París: stemningin á Café de Flore í 6. hverfi · Lísa Hjalt


Er ekki í góðu lagi að skreppa aftur til Parísar í huganum? Þið sem fylgist með ensku útgáfu bloggsins hafið væntanlega séð þessar myndir fyrr í dag. Ég var að horfa á rigninguna út um gluggann í morgun og fannst þá tilvalið að deila myndum sem teknar voru á milli skúra í París.

Við vorum að rölta um 6. hverfi, rólega að fikra okkur í áttina að kaffihúsinu Café de Flore, þegar það fór að rigna eins og hellt væri úr fötu. Við hinkruðum og náðum svo á leiðarenda áður en það fór að rigna aftur. Við fengum borð úti þar sem við sátum í skjóli og hlýju og fylgdumst með mannlífinu á horni Boulevard Saint-Germain og Rue Saint-Benoît. Þetta kaffihús er með þeim þekktustu í París, oft tengt við Jean-Paul Sartre og Simone de Beauvoir því þarna áttu þau til að sitja og ræða heimspekileg málefni eða sinna skrifum. Þau mátti líka finna á Les Deux Magots, sem er nokkrum skrefum frá þessu.
París: stemningin á Café de Flore í 6. hverfi · Lísa Hjalt


Það hefur ekkert breyst á Café de Flore. Í áratugi hefur stíllinn verið sá sami og maður fær á tilfinninguna að tíminn hafi hreinlega staðið í stað. Þetta er hin fullkomna Parísarklisja; þjónar með hvítar síðar svuntur ganga á milli borða og heimamenn drekka kaffið sitt innan um ferðalanga. Ég skrapp inn til þess að kíkja á böku dagsins og aðrar kræsingar og veitti því athygli sem fram fór innandyra. Mikið af fólki sat einsamalt við borð og það var meira eins og það væri heima hjá sér. Það var búið að koma sér þægilega fyrir með allt sitt dót og virtist ekki upptekið af því hvað var að gerast í kringum sig. Ég valdi mér maison tarte sem var sítrónubaka og hugsaði með mér að líklega sæi ég þetta fólk við sama borð ef ég kæmi aftur daginn eftir.

Eins og ég sagði, hin fullkomna Parísarklisja.fimmtudagur, 1. nóvember 2012

Innlit: klassískt og hlýlegt heimili í Las VegasFyrir nokkrum árum ákváðu eldri hjón í Las Vegas að byggja sér nýtt heimili eftir að börnin voru farin að heiman. Þau höfðu ferðast töluvert um Ítalíu og vildu eignast hús sem minnti á ítalska villu en hefði auk þess þann hlýleika sem einkennir sveitasetur í Toscana héraði. Þau sneru sér til arkitektsins William Hablinski sem teiknaði fyrir þau húsið og um innanhússhönnun sáu Alexandra og Michael Misczynski, sem reka saman fyrirtækið Atelier AM (þið munið kannski eftir færslu minni um nýútkomna bók þeirra hjóna). Eins og sjá má á myndunum einkenna fallegir antíkmunir heimilið en það var belgíski antíksalinn Axel Vervoordt sem sá um að útvega þá. Þess má geta að málverkið á myndinni hér að ofan er eftir Willem de Kooning og í öðru herbergi er til dæmis að finna verk eftir Marc Chagall.

Það var árið 2009 þegar húsið var enn óklárað að eiginmaðurinn féll skyndilega frá. Framkvæmdir voru stöðvaðar og óljóst var með framhaldið. Það voru börnin sem síðar hvöttu móður sína til þess að klára húsið. Í fyrra flutti hún inn og Michael Misczynski lýsir því sem tilfinningaþrunginni stund. Þetta hafði jú verið draumahús þeirra hjóna og hann bætir við að andi eiginmannsins svífi yfir vötnum. Til að gera langa sögu stutta þá er konan alsæl með að hafa látið klára verkið. Húsið hefur fært henni mikla gleði og börnin og þeirra fjölskyldur eru tíðir gestir enda nóg pláss.Smellið á tengilinn hér að neðan til þess að sjá fleiri myndir.

myndir:
Pieter Estersohn fyrir Architectural Digest, september 2012

miðvikudagur, 31. október 2012

Rýmið 11

- gestaherbergi í Pottersville, New Jersey
- hönnuðir Andrea Filippone og William Welch / Tendenze Design

mynd:
William Waldron fyrir Elle Decor, maí 2012

þriðjudagur, 30. október 2012

parís: luxembourg garðurinn


Enn og aftur fer ég með ykkur til Parísar enda fæ ég ekki nóg af því að skoða myndirnar og dásama þessa borg. Án efa var ein af notalegustu stundum ferðarinnar sú sem við eyddum í Luxembourg garðinum í dásamlegu haustveðri. Garðurinn er í 6. hverfi og í honum er að finna fallegar styttur - Medici styttan á efstu myndinni er sú allra þekktasta - og gróður. Við norðurenda garðsins er glæsileg höll sem hýsir öldungadeild franska þingsins, Le Sénate. Eftir góðan göngutúr um garðinn settumst við á stóla og nutum kyrrðarinnar og umhverfisins. Það er greinilegt að Parísarbúar kunna að meta þennan garð og mátti sjá ansi marga á ferli eða sitjandi
á bekk að lesa.


myndir:
Lísa Hjalt