miðvikudagur, 27. apríl 2016

Fjólubláir tónar og upprunalegar gólfflísar

Fjólubláir tónar og upprunalegar gólfflísar · Lísa Hjalt


Ég veit ekki með ykkur en ég fæ gjarnan síður úr tímaritum á heilann og get skoðað þær aftur og aftur. Þessi er ein þeirra. Svefnherbergið er í eigu hönnuðarins Stefano Guidotti, á heimili hans við Lake Como-vatnið á Ítalíu, sem var til umfjöllunar í aprílhefti Elle Decoration UK (,Como in Colour' bls. 160-169, ljósmyndari Mads Mogensen). Hann segist vera heltekin af litum og þegar hann var að innrétta heimilið þá hugsaði hann upprunalegu mynsturflísarnar sem risastórar mottur. Fjólubláu tónarnir í svefnherberginu eru fallegir, rétt eins og safnið sem hann á af skrautmunum fyrir heimilið. Ef þið komist yfir tölublaðið þá skuluð þið kíkja á leðursófann í stofunni og litinn á borðstofunni. Þetta innlit veitir innblástur!

mynd mín | heimild: Elle Decoration UK, apríl 2016, bls. 167 · Mads Mogensen

mánudagur, 25. apríl 2016

Linsubaunasúpa | Vegan í húsinu

Linsubaunasúpa (vegan) · Lísa Hjalt


Matarmiklar súpur eru ekki það fyrsta sem mér dettur í hug að setja á vormatseðilinn en hér á miðri vesturströnd Skotlands steig vorið á bremsuna; skyndilega komu kaldari dagar með rigningu. Í síðustu viku lét sólin loksins sjá sig að nýju þannig að nú virðist vorið framundan og brumin kætast. Mig langaði að deila þessari uppskrift að linsubaunasúpu áður en það verður of seint. Þá meina ég úr takt við árstíðina, sérstaklega fyrir þá sem búa sunnar á hnettinum og njóta veðurblíðu og blómstrandi trjáa. Í garðinum okkar er risastórt kirsuberjatré sem er alveg að springa út. Greinar þess teygja sig yfir veröndina og sumar snerta meginþak hússins. Ef ég hefði gluggann í svefnherbergi sonarins opinn myndu þær finna sér leið inn. Mér stæði á sama en líklega ekki honum. Ég bíð spennt eftir því að sjá kirsuberjatréð í allri sinni dýrð.


Aftur að súpunni. Í janúar ákvað yngri dóttirin, 14 ára unglingur, að gerast vegan. Við hjónin ræddum það okkar á milli að þetta væri bara einhver bóla, eitthvað sem hún yrði að fá að kanna. Í sannleika sagt héldum við að hún entist í 1-2 vikur. Fyrir utan hangikjötið á jólunum þá hefur hún verið lítið fyrir kjöt. Sá þáttur yrði henni því auðveldur. En að hætta að borða egg var allt annað og hún gæfist fljótt upp. Eða svo héldum við. Okkar dama elskaði ommilettur og útbjó þær sjálf þegar ég var að gera t.d. fajitas eða eitthvað sem henni fannst ekki gott. Senn líður að maí og okkar kona hefur hvergi beygt af. Er enn þá vegan.

Vegna þessa hef ég að einhverju leyti aðlagað mína eldamennsku - sem dæmi eggjabakstur snarminnkað - og ég hef breytt sumum grænmetisuppskriftunum mínum og gert þær vegan, og þróað nýjar. Það sem gleður mig í þessu ferli er það að hún er að lesa sig heilmikið til um næringarfræði og að fikra sig áfram í eldamennsku. Hún borðar líka orðið sumt grænmeti sem hún vildi ekki borða áður. Mér finnst gaman að sjá hvað hún er að verða örugg í eldhúsinu; hvernig hún útbýr óflókna, næringarríka rétti án aðstoðar. Stundum erum við tvær saman í eldhúsinu að undirbúa máltíð sem þarf að aðlaga fyrir hana. Fyrir móður, sem er matgæðingur, eru þetta gæðastundir. Þegar kaldara var í veðri þá gerði ég gjarnan fyrir mig í hádeginu chillibaunarétt eða aðra baunarétti eða matarmiklar súpur, sem svo biðu á hellunni þegar okkar staðráðna vegankona kom heim úr skólanum. Þessi linsubaunasúpa er einmitt ein þeirra.

[Textíllinn sem sést á súpumyndunum, fyrir utan servíettuna, er hannaður af Lisa Fine: Baroda 1 í indígó (fuglamynstrið), Lahore í aprikósulit (blóma-), og Chiara í himinbláu (mynstrið lengst til hægri). Meira um Lisa Fine Textiles síðar.]
Linsubaunasúpa | vegan · Lísa Hjalt


Hvort sem þið eruð vegan eða ekki þá eru linsubaunir góðar fyrir ykkur (nánar um hollustu þeirra); mér finnst að allir ættu að eiga í kollinum eina góða grunnuppskrift með linsum til að grípa í. Linsubaunir eru ríkar af próteinum, trefjum og járni, og gefa til dæmis B1- og B6-vítamín. Linsubaunir og krydd eru dásamleg blanda því linsurnar draga í sig kryddbragðið. Að mínu mati passa líka jurtir eins og lárviðarlauf og tímían vel með linsum. Gætið þess bara að ofsjóða þær ekki heldur leyfa þeim að halda lögun sinni. Mjúkar linsur, já takk. Mauksoðnar, nei takk. Í grænmetissoðið nota ég lífrænan, vegan grænmetiskraft frá Marigold (inniheldur líka minna salt), en það má að sjálfsögðu nota grænmetisteninga.

LINSUBAUNASÚPA

1 matskeið kókosolía eða létt ólífuolía
1 lítill laukur
2 gulrætur
1-2 sellerístilkar
3 hvítlauksrif
1 rautt chilli aldin (eða ¼ teskeið chillipipar)
1 bolli (250 ml) grænar linsubaunir
1 teskeið broddkúmen (ground cumin)
½ teskeið mulinn kóríander
½ teskeið mulin kúrkúma / túrmerik
1250 ml lífrænt grænmetissoð (5 bollar)
1 lárviðarlauf
1 teskeið þurrkað tímían eða 1-2 heilar tímíangreinar
má sleppa: 1-2 tómatar
smakkið til með sjávarsalti og svörtum pipar

Skolið linsubaunirnar og látið vatnið renna af þeim (hafið í huga að sumar linsur er gott að sjóða fyrst í 2 mínútur og skola svo). Setjið þær til hliðar á meðan þið útbúið grænmetissoðið. Sjóðið vatn og hellið í hitaþolna mælikönnu ásamt grænmetiskrafti eða -teningum. Fyrir 1250 ml af vatni ættuð þið að þurfa 5 teskeiðar af krafti eða 2¼ teninga (veltur á tegund; lesið merkingar á umbúðum).

Afhýðið laukinn og saxið. Sneiðið gulræturnar og selleríið. Fræhreinsið og fínsaxið chilli aldinið (ef notað). Hitið olíuna í meðalstórum potti við meðalhita. Léttsteikið laukinn og grænmetið þar til það fer að mýkjast. Afhýðið hvítlauksrifin, pressið og bætið út í pottinn. Eldið í 1-2 mínútur til viðbótar og hrærið rólega.

Blandið næst linsum og kryddum saman við. Hellið svo grænmetissoðinu í pottinn ásamt lárviðarlaufi og tímían. Hækkið hitann og látið suðuna koma upp, lækkið þá hitann og leyfið súpunni að malla í 25-30 mínútur, eða þar til linsubaunirnar eru mjúkar en ekki mauksoðnar. Tillið loki á pottinn þannig að gufan sleppi í gegn. Ef þið notið tómata í súpuna fræhreinsið þá fyrst og skerið í bita.

Áður en súpan er borin fram skuluð þið veiða lárviðarlaufið og tímíangreinarnar (ef notaðar) upp úr pottinum. Smakkið til með svörtum pipar og sjávarsalti, ef ykkur finnst þurfa meira salt. Berið súpuna fram með (heimabökuðu) grófu brauði, og kannski einu glasi af góðu rauðvíni . . . bara hugmynd.

Recipe in Englishfimmtudagur, 21. apríl 2016

Carrington og Strachey | Gleðilegt sumar

Carrington og Strachey | Gleðilegt sumar · Lísa Hjalt


Þessi uppsetning eða stemning er orðin kunnugleg; ég á púða á gólfinu umvafin bókum (málverkið í bókinni er eftir Vassily Kandisky, Capricious Forms, 1937) og tímaritum, stundum með kvikmynd eða dramaþáttaröð í spilaranum. Það vantar bara kaffibollann. Á breska Netflix voru þeir að bæta við spennuþáttaröðinni The Honourable Woman frá BBC, sem mér fannst gaman að sjá aftur (var held ég sýnd á RÚV í fyrra). Leikaravalið er frábært en að mínu mati ber Stephen Rea af. Einnig má finna þar eina af mínum uppáhaldsmyndum, Testament of Youth (2014), sem gerist á tímum Fyrri heimsstyrjaldarinnar og skartar Alicia Vikander í aðalhlutverki. Myndin er byggð á æviminningum Veru Brittain sem bera sama heiti. Leikmyndin er glæsileg; einnig búningarnir. Ein af mínum eigin myndum sem ég hef látið rúlla í spilaranum undanfarið er Carrington (1995), sem fjallar um sérstakt samband listakonunnar Doru Carrington (1893-1932) og rithöfundarins Lytton Strachey (1880-1932).

Carrington og Strachey, sem leikararnir Emma Thompson og Jonathan Pryce túlka, tilheyrðu Bloomsbury-hópnum. Strachey var samkynhneigður en samband hans og Carrington var afar sérstætt og þau bjuggu saman. (Ef þið eruð stödd í London og langar á safn þá getiði séð mynd sem hún málaði af honum í National Portrait Gallery.) Saga þeirra er svo sannarlega ástarsaga, en annars eðlis, með harmrænum endalokum. Carrington tók sitt eigið líf stuttu eftir að Strachey andaðist eftir baráttu við krabbamein. Thompson er dásamleg í sínu hlutverki en þar sem Strachey var afar hnyttinn og orðheppinn þá stelur Pryce oft senunni. Penelope Wilton (Isobel Crawley úr Downton Abbey) í hlutverki Lady Ottoline Morrell er einnig senuþjófur. Hún er einfaldlega frábær. Í öllu sem hún leikur í.

Bókalistinn minn lengist sífellt og á honum er að finna Strachey. Mig langar að lesa Lytton Strachey: The New Biography eftir Michael Holroyd og einnig The Letters of Lytton Strachey í ritstjórn Paul Levy. Ég á bara eftir að ákveða hvora ég les fyrst. Hafiði lesið þær?

Gleðilegt sumar!miðvikudagur, 13. apríl 2016

Textiles of the Islamic World eftir John Gillow

Ritdómur: Textiles of the Islamic World eftir John Gillow · Lísa Hjalt


Á jólunum fékk ég bókina Textiles of the Islamic World eftir John Gillow, sem er þekktur höfundur, fyrirlesari og safnari í textílheiminum. Fyrst fletti ég henni fram og til baka með helst til miklum ákafa, aðallega til þess að dást að myndum af glæsilegum mótífum og mynstrum, en smám saman hægði ég á mér og leyfði yfirgripsmiklu upplýsingunum að síast inn. Fyrir allt áhugafólk um textílhönnun er bókin fjársjóður, sérstaklega ef viðkomandi hefur áhuga á íslamskri menningu og dreifingu trúarinnar til ýmissa heimshorna. Textinn er ríkur af smáatriðum, til dæmis um útsaum og tækni í vefnaði, en Gillow kemst ágætlega frá of miklu upplýsingaflóði. Fyrir ólærða á sviði textílhönnunar, eins og mig, er bókin skemmtileg aflestrar og ég vona að mér takist að gefa henni sanngjarnan dóm í einni bloggfærslu. Myndirnar mínar sýna bara lítið brot þeirra efna og mynstra sem ég var sífellt að skoða á meðan lestrinum stóð. Bara lítið brot.

[Kápumynd: 17. aldar bróderaður textíll frá Ottóman-tímabilinu. Úr einkasafni. New York]

Hægri: Brúðarteppi ofið af Fulani-fólkinu fyrir Tuareg-fólkið, Vestur-Afríka, bls. 302

Textiles of the Islamic World, gefin út af Thames & Hudson árið 2013, hefur að geyma 638 myndir og skiptist í 8 hluta, eða landsvæði: 1) Ottóman-veldið, 2) Íslam á Spáni og í Norður-Afríku, 3) Arabaheimurinn, 4) Persnesku svæðin, 5) Mið-Asía, 6) Mógúlsvæðin, 7) Austur og Suðaustur-Asía, og 8) Afríka sunnan Sahara. Löndin innan hvers mynda kafla sem Gillow byrjar með stuttri kynningu áður en hann ræðir landsvæði, búninga, tækni o.s.frv. Hverjum kafla lýkur hann með stöðu textílframleiðslunnar á okkar dögum. Það bæði vekur mann til umhugsunar og gerir sorgmæddan að lesa um þá verðmætu þekkingu í vissum löndum sem er að falla í gleymsku. Áhrifanna gætir einna helst á stríðshjáðum svæðum.

Bróderaður pottahanski úr leðri og bróderað rúmteppi, Kyrgyzstan, bls. 216-7

Fyrir utan söguleg atriði í bók Gillow hef ég mestan áhuga á því að skoða mótíf og fræðast um merkingu þeirra. Það er viðfangsefni sem heillar mig. Persónulega hefði mér fundist mega vera meira um slíkar upplýsingar í bókinni; um táknræna merkingu mótífa.

Í múslimaheiminum er póst-íslamskur textíll ríkulega skreyttur og hönnunin er gjarnan abstrakt. Mynstrin eru geómetrísk, blóm eða jurtir, og á sumum textíl má sjá skrautskrifaðar áletranir, einkum í Egyptalandi. Hinn póst-íslamski textíliðnaður forðaðist hvers kyns notkun á mannlegum og guðlegum formum. Einnig dýraformum, þó með undantekningum. Í Írak má til dæmis finna úlfalda-, hana- og ljónamótíf, þar sem úlfaldinn táknar auð og hamingju, ljónið styrk og haninn sigur og dýrð (bls. 120). Svo eru það klútar fyrir afganska veiðimenn í Herat sem voru skreyttir dýrum og veiðimönnum.

Tjaldbútur með ásaumi (e. appliqué) frá Khiyammiya - Götu tjaldgerðarmannanna -
í elsta hluta Kaíró í Egyptalandi, bls. 93

Í Sádi-Arabíu hafa hinar tvær heilögu borgir Mekka og Medína mikla þýðingu fyrir múslima. Mekka var fæðingarborg Múhameðs spámanns (ca. 570-622 e.Kr.), föður íslamstrúar, sem lést í Medína. Í bókinni bendir Gillow á mikilvægi klæða í tengslum við Ka'bah-steininn, heilagasta hlutann í Mekka:
Ka'bah, betur þekkt sem ,Bait Allah' („Hús Guðs“), kallast risastór kubbur af svörtu grjóti. Á sögulegum tímum hefur steinninn fengið nýja ábreiðu á hverju ári sem nefnist „Kiswa“ („sloppur“ í bókstaflegri merkingu), sem er úr ofnu efni prýddu skrautrituðum áletrunum á arabísku og með nafni guðs bróderuðu með silfurþráðum. Sú var venjan að hún væri gjöf frá kalífanum, og á tímum Ottóman-veldsins var hún gerð í Kaíró eða Damaskus og send með mikilli viðhöfn með hinni árlegu fylkingu úlfalda sem flutti hóp pílagríma frá þessum stöðum yfir eyðimörkina til Mekka og Medína. (bls. 122)

Blokkprentað sjal frá 19. öld, Deccan-sléttan, Indland, bls. 244

Fyrir manneskju eins og mig sem er heilluð af blokkprentun (útkoman verður svo fullkomlega ófullkomin) voru kaflarnir um Indland og Bangladesh mjög áhugaverðir. Að ofan minntist ég á stríðshjáð svæði. Sýrland er eitt þeirra og ég held að sú eyðilegging sem hefur átt sér stað í fornu borginni Palmýra hafi ekki farið fram hjá neinum sem fylgist með fréttum þessa dagana. Það sem ég vissi ekki, og fannst merkilegt, er að notkun blokkprentaðra klæða í Sýrlandi megi rekja til tíma Rómaveldisins hins forna. Í Palmýra hafa fundist blokkprentuð klæði frá Indlandi sem eru frá tímum Zenóbíu drottningar. „Mynstrin á þessum forngripum eru nákvæmlega eins og mynstrin á samtíma blokkprentuðum klæðum frá Rajasthan-héraði“ (bls. 106). Hugsið ykkur, mynstrin sem notuð voru í rómversku nýlendunni Palmýra á 3. öld eru enn í notkun á Indlandi ca. 1750 árum síðar!

Vinstri: Gluggatjöld unnin úr ofnum silkiræmum, Djerba, Túnis, Norður-Afríka, bls. 73.
Hægri: Ábreiða ofin úr ræmum, Mende-fólkið, Sierra Leone og slá,
Hausa-fólkið, Nígería, bls. 295

Austur-Afríka hefur lengi verið á lista mínum yfir áfangastaði (Kenya, Tansanía, Rwanda og Úganda eru lönd sem mig langar að heimsækja) og augljóslega las ég þann kafla af miklum áhuga. Mér fannst líka gaman að bera saman textílinn í Afríku sunnan Sahara-eyðimerkurinnar við hönnunina í löndum Norður-Afríku (myndirnar tvær hér að ofan ættu að gefa ykkur mynd af þeim samanburði). Óman, á suðausturströnd Arabíuskagans, er einnig á listanum mínum. Ómanar höfðu heilmikil áhrif á menningu og klæðaburð í Austur-Afríku. Kryddeyjan Zanzibar var „um aldir útvörður Óman-veldisins“ (bls. 299) og „þegar á 10. öld e.Kr. mikilvæg miðstöð múslima“ (bls. 296). Á sjóleið viðskiptaveldis Ómana voru einnig borgin Mombasa í Kenya og eyjan Pemba (Tansanía). (Ég tók ekki myndir af textílnum (aðallega fatnaður) í kaflanum um Austur-Afríku; mér fannst textíllinn í þeim um Vestur-Afríku höfða betur til mín.)

Suzani með endurteknu bróderuðu mynstri af blómum innan um höfuð ungra hana,
Urgut, Úsbekistan, bls. 185

Suzani, Lakhai-fólkið, snemma á 19. öld, suðurhluti Úsbekistan, Mið-Asía, bls. 191

Kafli Gillow um Úsbekistan í Mið-Asíu var annar sem höfðaði til mín, sérstaklega myndirnar af suzani-veggtjöldunum, sem eru bróderuð með blómum og vínviði. Ég hefði getað ljósmyndað allan kaflann! Ég verð að bæta því við að það getur verið kúnst að taka myndir af mynstrum; stundum er svo mikil hreyfing í mynstrinu að það reynist erfitt að finna punkt sem hægt er að fókusa á. Eitt mynstranna sem allt að því dáleiddi mig var suzani frá 19. öld eftir Lakhai-fólkið, sem sést á myndinni hér að ofan (það er líka á mynd sem ég deildi einu sinni á Instagram). Lakhai-fólkið býr í Surxondaryo-héraði (einnig ritað Surkhandarya), í suðausturhluta landsins, og það „segist vera komið af Karamysh, eina bróður Ghenghis Khan sem komst lífs af" (bls. 190). Lakhai var yngsti sonur Karamysh og þaðan kemur nafnið. (Þið getið séð annað dæmi um Lakhai-suzani á Tumblr-síðunni minni.)

Hægri: Hvít chyrpy (bróderuð kápa/slá) fyrir gamla konu, Tekke-fólkið, Túrkmenistan
og málaður „veiðiklútur“, Herat, Afganistan, bls. 183

Ég hefði getað skrifað bloggfærslu um hvern hluta í bók Gillow en kaus að halda öllu í einni og hafa hana ekki of langa. Sjónræni hluti færslunnar gæti gefið ykkur ranga mynd af bókinni. Þar sem ég er hrifnari af mynstrum og mótífum í, til dæmis, mottum og veggtjöldum þá tók ég svo til engar myndir af flíkum. Í bókinni er að finna fjölmargar myndir af flíkum og aukahlutum, bæði fyrir menn og konur, sem ættu að fullnægja þeim sem hafa áhuga á íslamskri tísku og stíl.

Næstar á textílbókalistanum mínum eru tvær eftir Gillow, African Textiles: Colour and Creativity Across a Continent (hún er á vorbókalistanum mínum) og Indian Textiles (meðhöfundur Nicholas Barnard), einnig gefnar út af Thames and Hudson. Í ljósi þess hversu mikið ég naut þess að lesa þessa bók hef ég það á tilfinningunni að hinar komi til með að rata á bloggið síðar meir.

Brot af ásaumi, Molesalaam-fólkið, Kathiawar, Indland, bls. 242

myndir mínar | heimild: myndir úr bókinni sem birtast hér eru eftir Luke Gillow og Tamsin Beedle, fyrir utan: kápumynd · Clive Loveless, London | suzani bls. 191 · Longevity Studio , London | V-Afríka teppi bls. 302 · James Austinfimmtudagur, 7. apríl 2016

Óvænt gjöf: gjafabox frá Green & Black'sÉg sat hérna við skrifborðið á þriðjudaginn að undirbúa aðra bloggfærslu þegar dyrabjallan hringdi og það reyndist vera sending til mín. Ég kom af fjöllum; átti ekki von á neinum pakka. Ég opnaði kassann og í honum reyndist vera gjafabox með lífrænu súkkulaði frá Green & Black's og flaska af lífrænu rauðvíni. Enn var ég engu nær og hafði ekki hugmynd um hvaðan þetta kom þar til ég fann merkispjald. Þetta var óvænt gjöf frá Sigrúnu vinkonu. (Þið þekkið hana sem CafeSigrun ef þið notið síðuna hennar, eða kannist við fyrstu uppskriftabókina hennar sem kom út á Íslandi í fyrra.) Þetta var svo dásamlega óvænt gjöf sem heldur betur lífgaði upp á daginn.

Við erum þegar byrjuð að gæða okkur á súkkulaðinu en rauðvínið verður með föstudagspizzunum á morgun.