Sýnir færslur með efnisorðinu lisa fine textiles. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu lisa fine textiles. Sýna allar færslur

mánudagur, 10. apríl 2017

Samtal við textílhönnuðinn Lisa Fine

Samtal við textílhönnuðinn Lisa Fine · Lísa Stefan


Þessi orð eru höfð eftir bandaríska ljósmyndaranum, Ansel Adams heitinum: „You don't make a photograph just with a camera. You bring to the act of photography all the pictures you have seen, the books you have read, the music you have heard, the people you have loved.“ Orð hans eiga við hvers kyns skapandi listir og ég notaði þau til að hefja samræður við textílhönnuðinn Lisa Fine í gegnum tölvupóst. Á blogginu hef ég þegar lýst henni sem hönnuði með skilning á sögu og stend við þau orð. Hún er lagin með liti og mynstur; það virðist sem hvert efni frá Lisa Fine Textiles segi sögu. Hún er fædd og uppalin í Mississippi. Nú býr hún í New York ásamt hundunum sínum og ferðast víða, oft til Indlands eða annarra framandi staða. Smálistaverk hafa innblásið feril hennar, einnig listmálarinn Henri Matisse.

Þar sem umræðuefnið er ekki flókið finnst mér óþarfi að þýða svör hennar yfir á íslensku. Þar sem það er mögulegt, einnig í beinum tilvísunum, hef ég sett inn tengla á t.d. stuttar ritgerðir á vefsíðum listasafna sem mér fannst áhugaverðar og fræðandi. Fyrir utan málverkin eftir Matisse valdi ég myndirnar í færslunni.

[Mynstur frá Lisa Fine Textiles sem sjást á efstu myndinni (smellið fyrir nánari
upplýsingar): Cairo, Kashgar, Luxor, Malabar, Malula, Mandalay, Pasha og
Rajkot. Sjá bækur neðar í færslunni]

Persneskt smálistaverk: Mir Sayyid 'Ali, Night-time in a City,
ca. 1540, Tabriz, Íran, Safavíd-tímabilið

Svo við víkjum aftur að orðum Adams, hvað hefur sett mark sitt á hönnuðinn Lisa Fine (í ljósi alls sem hún hefur uppgötvað í gegnum vinnu sína og ferðalög).
LF: My life is very much about people, however, books and art not only inspire and teach but are the best refuge.

My favorite painter is Matisse. I love his mix of color and pattern, especially in his orientalist portraits. Irving & Fine [samstarf við textílhönnuðinn Carolina Irving] peasant blouses were very much inspired by his work. I also love the Fauvism movement.
Tveir aðrir listamenn eru einnig í uppáhaldi hjá henni, Kees Van Dongen og Amedeo Modigliani.

Henri Matisse, Zorah on the Terrace, 1912

Hún á ekki eitt uppáhaldsverk eftir Matisse en sagði: „I love his Moroccan period most, especially the portraits.“ Síðar fann ég verk hans Zorah on the Terrace í pósthólfinu mínu með orðunum: „Love Moroccan portraits.“ Hin tvö verkin eftir Matisse fylgdu á eftir, verkið hér að neðan með orðunum: „Love odalisque series.“

laugardagur, 1. apríl 2017

Litrík efni frá Lisa Fine Textiles

Litrík efni frá Lisa Fine Textiles · Lísa Stefan


Mótíf, mynstur, textíll, litir. Nýverið barst mér dágóður skammtur af prufum frá Lisa Fine Textiles og hef því eytt latte-stundum mínum með handprentuð, litrík efni breidd yfir skrifborðið mitt ásamt textílbókum, eins og myndirnar mínar sýna. Hérna höfum við þrjú mynstur sem Lisa Fine kynnti í fyrra, Kalindi, Cochin og Ayesha Paisley, sem eru falleg viðbót í safn hennar af framandi efnum, sem öll eru innblásin af ferðalögum hennar. Bráðum hyggst ég deila með ykkur stuttum samræðum sem ég átti við Lisa Fine sjálfa í gegnum tölvupóst, um bækur, list og hvaðan hún sækir innblástur.

Litrík efni frá Lisa Fine Textiles · Lísa Stefan
Litrík efni frá Lisa Fine Textiles · Lísa Stefan
Litrík efni frá Lisa Fine Textiles · Lísa Stefan
Cochin frá Lisa Fine Textiles, litur í forgrunni: rose

Af þessum þremur efnum er Cochin með blómamynstrinu sú hönnun sem nú þegar á hjarta mitt og sál, einkum í litnum rose sem hefur saffrangulan bakgrunn. Mynstrið er handprentað á 90% náttúrulegt lín með 10% næloni, fáanlegt í fjórum litum: rose, cinnabar (þetta rauða og bláa, sjá mynd að ofan, efst til hægri), burnt sugar og saffron (með bleikum blómum). Hönnun Lisa Fine ber gjarnan indversk nöfn. Cochin er nýlenduheiti indversku borgarinnar Kochi, á suðvesturströndinni í Kerala-héraði.

Litrík efni frá Lisa Fine Textiles · Lísa Stefan
Ayesha Paisley, litur í forgrunni: ruby

Mynstrið Ayesha Paisley er handprentað á 100% náttúrulegt lín, fáanlegt í fjórum litum: ruby, sapphire, coral og spinel (ég á ekki prufu af þessu síðastnefnda).

Ayesha Paisley, í forgrunni: sapphire

Litrík efni frá Lisa Fine Textiles · Lísa Stefan
Í forgrunni: Kalindi í öllum fáanlegum litum (undir bollanum mínum
eru tvær prufur af mynstrinu Luxor)

Efnið Kalindi er með blómamynstri ásamt doppum, handprentað á 90% náttúrulegt lín með 10% næloni. Það er fáanlegt í fimm ríkum litum: monsoon (þetta ljósbláa), indigo, saffron, dusty rose og lipstick. Ég geri ráð fyrir að mynstrið sé nefnt eftir ánni Kalindi í West Bengal héraði í austurhluta Indlands.

Til að skoða öll efnin kíkið þá á heimasíðu Lisa Fine Textiles.
Litrík efni frá Lisa Fine Textiles · Lísa Stefan


Kannski eru einhverjir lesendur í þeim hugleiðingum að gefa einu rými upplyftingu eða jafnvel að hugsa um að endurhanna heimilið. Í viðtali sem birtist í tímaritinu Lonny, þegar gestaíbúð hennar á Vinstri bakka Parísar var til umfjöllunar, gaf Lisa Fine eitt mjög gott ráð: „Never be a victim of trends. If modern is in style and you love Victorian, go Victorian. Style is an expression of yourself and not what fashion dictates“ (Inspiration India, des/jan 2010). Forðist sem sagt tískusveiflur og látið ykkar eigin persónulega stíl ráða för. Í sömu umfjöllun deildi hún nokkrum hugmyndum um hönnun og hér er ein sem gæti komið ykkur á byrjunarreit: „Similar to how many designers will start with a rug and then build a room, choose a fabric to inspire the space and work from there.“ Val mitt á efni væri augljóst.



föstudagur, 24. febrúar 2017

Ár af lestri - 1. hluti

Lestarkompan: ár af lestri - 1. hluti · Lísa Stefan


Hérna kemur hún, færslan sem ég velti fyrir mér hvort ég ætti að skrifa eða ekki, með athugasemdum um nokkrar bækur á bókalistunum mínum árið 2016. Fyrst ætlaði ég að setja þessa punkta í athugasemdakerfi umræddrar bókalistafærslu en svo fannst mér betra að halda þessu aðskildu. Ég sé enga ástæðu til að endurtaka það sem ég hef þegar sagt um ákveðnar bækur eða að minnast á þær sem ég endurlas; einu bækurnar sem ég les aftur eru þær sem mér líkar eða eiga sérstakan sess í hjartanu.

Talandi um endurlestur: Skoski rithöfundurinn Ali Smith var nýlega í By the Book dálki dagblaðsins NYT og ég fann samhljóm með einu sem hún sagði:
[A] rereading can feel like a first-time read in itself, which is another great thing about books and time; we think we know them, but as we change with time, so do they, with us. (Sunday Book Review, 12. feb. 2017)
Ég las þetta í fyrradag og tók eftir því að hún minntist á bókina Pale Fire eftir Vladimir Nabokov. Ef þið fylgið mér á Instagram þá sáuð þið kannski kápuna á mynd sem ég deildi á sunnudaginn. Það vill svo til að ég fékk bókina lánaða á bókasafninu síðasta laugardag og hún verður á næsta bókalista.


Hér að neðan eru nokkrar athugasemdir um bækur sem voru á № 1, 2 og 3 bókalistunum. Á þeim fyrsta voru líka hönnunarbækur en ég ákvað síðar að á þá rötuðu eingöngu skáldsögur sjálfs/ævisögur, ferðaskrif o.s.frv. Mig langar að bæta því við að það er ekki tilgangur minn að beina ykkur frá þeim bókum sem ég geri neikvæðar athugasemdir við eða þeim sem ég kláraði ekki. Bókmenntasmekkur okkar er ólíkur, eins menningarlegur og félagslegur bakgrunnur, og ég hef svo sannarlega ekki áhuga á því að gegna valdshlutverki og segja fólki hvað það eigi að lesa og hvað ekki. En málið er að ég á blogglesendur sem nota listana til að fá lestrarhugmyndir og því finnst mér eðlilegt að ég minnist á þær bækur sem kannski stóðust ekki væntingar mínar.

№ 1 bókalisti, 2 af 8:

The Shadow of the Sun eftir Ryszard Kapuscinski
Las nokkra kafla og setti svo til hliðar, einungis vegna þess að mig hefur lengi langað að lesa bókina Africa eftir John Reader og vildi gera það áður en ég læsi aðrar Afríku-tengdar bækur á langar-að-lesa listanum. Kapuscinski var pólskur fréttamaður sem skrifaði um Afríku í nokkra áratugi og ég held að einn daginn eigi ég eftir að klára þessa bók hans.

The Great Railway Bazaar eftir Paul Theroux
Mestu vonbrigði ársins 2016 í lestri. Bókin byrjar virkilega vel og Theroux er bæði eftirtektarsamur og fyndinn - ég gat varla lagt bókina frá mér. Á einhverjum punkti verður hann þreytandi, eins og hann geti ekki gert annað en að kvarta. Ég missti áhugann og þolinmæðina og hætti lestrinum. Þegar ferðaskrif fylla mig engri löngun til að ferðast þá fær sá höfundur ekki pláss í mínu bókahjarta.

№ 2 bókalisti, 1 af 6:

Off the Road eftir Carolyn Cassady
Missti þolinmæðina og gafst upp. Alltof opinberandi og ekki á góðan máta. Tímarnir voru öðruvísi en ég var gáttuð á því hvernig hún leyfði Neal að koma fram við sig strax í upphafi sambands þeirra. Fyrstu kaflarnir eru ágætis lexía í því hvernig ekki skuli velja eiginmannsefni.

[Önnur af listanum: Testament of Youth eftir Vera Brittain (sjá sér bloggfærslu).]
Lestarkompan: ár af lestri - 1. hluti · Lísa Stefan


№ 3 bókalisti, 2 af 6:

Memoirs of a Dutiful Daughter eftir Simone de Beauvoir – sjálfsævisaga, 1. bindi
(Penguin; ensk þýðing: James Kirkup)
Fyrsta bindi sjálfsævisögu hennar þar sem hún fjallar um uppvaxtarárin, barnæskuna í París og árin í Sorbonne-háskóla. Það eina sem ég fann að bókinni var alvarlegur frásagnarstíllinn; mér fannst hún nota of vitsmunalegan tón til að lýsa hugsunum barns, sem truflaði mig ekki eftir því sem hún varð eldri. Næstu bindi munu rata á bókalistana mína í framtíðinni.

Prayers for the Stolen eftir Jennifer Clement
Að mínu mati, ofmetin. Í byrjun er sögumaðurinn ung stelpa sem er vísun á auðveldan lestur með einföldum orðaforða, og það er nóg um kímni (móðirin er óborganleg!). Þegar ég var komin inn í þriðja eða fjórða hluta bókarinnar (þegar hún fer að heiman) þá fannst mér höfundurinn misstíga sig; það var sem hún hætti að vanda sig. Þessi bók var ein þeirra sem mig virkilega langaði að finnast góð til að geta mælt með henni en í lokin olli lesturinn vonbrigðum.

Bráðum birti ég 2. hluta þar sem ég tek fyrir nokkrar bækur á № 4, 5 og 6 bókalistunum.

[Uppfærsla: smellið hér fyrir 2. hluta.]



laugardagur, 28. maí 2016

Sveitablússan mín frá Irving & Fine

Sveitablússa frá Irving & Fine · Lísa Stefan


Kannist þið við þá tilfinningu að halda á nýrri og sérstakri flík, hönnuð á þann máta að hún ristir dýpra; hefur merkingu? Fataskápurinn varð ríkari þegar ég eignaðist eina slíka, bróderaða sveitablússu, klassískan Tangier-kyrtil frá Irving & Fine. Þetta var óvænt gjöf frá textílhönnuðinum Lisa Fine (fyrr í mánuðinum skrifaði ég færslu um hönnun hennar), þó ég að vísu hefði hugmynd um hvað hún væri að senda mér þegar hún sagðist vilja gefa mér mest selda sveitatoppinn þeirra. Blússan barst fyrir viku og efnið er svo mjúkt viðkomu; tvöfalt létt bómullarefni, kremað með blárri bróderingu, framleitt á Indlandi. Merkið Irving & Fine er samstarf tveggja virtra textílhönnuða og vinkvenna, Lisa Fine og Carolina Irving (sjá innlit til hennar á ensku útg. bloggsins), sem hanna bróderaðar sveitablússur og kyrtla, kaftana, kápur og aukahluti. Hönnunin er innblásin af ferðalögum þeirra til framandi landa.

Þetta er óður minn til sveitablússunnar þeirra og þakklætisvottur.


Þegar ég opnaði pakkann og dáðist að blússunni í fyrsta sinn komu upp í huga mér málverk Henri Matisse af rúmenskum blússum, með mjög púffuðum ermum - sjá t.d. verkin Rúmenska blússan, 1940, og Græna rúmenska blússan, 1939. Hann ferðaðist til Morokkó og heillaðist af borginni Tangier, sem var viðfangsefni nokkurra verka hans. Frá Matisse í Tangier, hugfangin af blússunni, reikaði hugurinn til tískuhönnuðarins Yves Saint Laurent, sem átti hús í Morokkó; eitt í Tangier. Hátískulína YSL haustsins/vetursins 1980-81 var innblásin af verkum Matisse og ein flíkin var rúmenska blússan (sjá mynd nr. 3), nákvæm eftirmynd þeirrar í málverki Matisse frá 1940.

Við undirbúning þessarar færslu fann ég stutt viðtal við Lisa Fine. Þegar hún var spurð út í innblásturinn að flíkum Irving & Fine svaraði hún: „Austur-Evrópskir þjóðbúningar og frá tímum Ottóman-veldisins og gömul hönnun Yves Saint Laurent“ (Cannon Lewis). Þessi samantekt smellpassar við mína fyrstu upplifun.



Myndirnar mínar ættu að gefa ykkur glögga mynd af hönnuninni en hér eru grunnatriði hinnar klassísku sveitablússu frá Irving & Fine: Efnið er tvöföld létt bómull, kremuð með bláum bróderingum á hálsmáli, ermalíningum og hliðarsaumum, með bróderuðum medalíum að framan og aftan. Hún er mjaðmasíð, rykkt um hálsinn með bandi og ermalíningarnar hvíla eins og armbönd. Blússan er framleidd á Indlandi og er einnig fáanleg í indígó með kremuðum bróderingum.
Sveitablússa frá Irving & Fine · Lísa Stefan


Er það óeðlilegt að vera ástfangin af ermum? Ég get ekki hætt að dást að hinu fallega framandi mynstri. Það sama á við um bróderuðu hliðarsaumana. Dásamleg smáatriði í hönnuninni!

Blússan hefur bóhemískan blæ. Það er auðvelt að nota blússuna til að klæða sig fínt eða hversdags, veltur bara á tilefninu. Hún er víð og þægileg og bómullarefnið er einstaklega mjúkt viðkomu.

Sveitablússa frá Irving & Fine · Lísa Stefan


Þegar ég er ekki í blússunni þá læt ég hana hanga á fataskápnum svo ég geti horft á hana og dreymt um aðrar flíkur frá Irving & Fine sem mig langar í. Í augnablikinu eiga þær bróderaða kápu sem er held ég að ná tökum á undirmeðvitund minni.

Í færslu minni um Lisa Fine Textiles talaði ég um hana sem hönnuð með skilning á sögu. Ég myndi lýsa samstarfskonu hennar Carolina Irving á sama hátt. Undir fatamerki Irving & Fine hanna þær ekki bara fallegar flíkur til að klæðast; flíkurnar veita einnig innblástur. Þær eru auk þess ekki tískubóla heldur hjálpa manni að skapa sinn einstaka og persónulega fatastíl.


~ · ~

[Litirnir í eftirfarandi myndum sýna ekki hinn rétta bláa tón bróderingarinnar.
Dóttir mín tók myndirnar af mér í blússunni í garðinum.]


Þar sem Irving & Fine lýsa flíkinni sem klassískri Tangier-blússu þá langar mig að kinka kolli í átt að Tangier, þrátt fyrir að hafa aldrei komið þangað. Ég held að ég hafi gert hana rómantískari í mínum huga; er sennilega föst á gullaldarskeiði hennar. Tangier er lifandi borg nyrst í Morokkó og frá Spáni er ferjuferðin yfir Gíbraltarsund stutt. Muniði eftir í The Living Daylights (1987) þegar James Bond eltir uppi rússneska hershöfðingjann Pushkin í Tangier til að drepa hann? Það var allt sem þurfti til að fanga mig og ég hugsa um Tangier í hvert sinn sem ég heyri norrænu bræður okkar í A-ha flytja lagið. (Ég á eftir að sjá Spectre (2015), sem gerist þar líka.) Ég get auðveldlega séð fyrir mér blandaða menningu borgarinnar, þröng strætin og markaðsbásana þar sem kaupmenn selja mottur og krydd.



Að tala um Tangier og minnast ekki á frægasta erlenda borgarann, ameríska rithöfundinn, þýðandann og tónskáldið Paul Bowles, er eins og að ræða Nýja Testamentið án þess að minnast á Jesúm, eða Kóraninn og ekki Spámanninn. Árið 1958 í ferðagreininni ,The Worlds of Tangier,' skrifaði hann:
I am now convinced that Tangier is a place where the past and the present exist simultaneously in proportionate degree, where a very much alive today is given an added depth of reality by the presence of an equally alive yesterday. ... In Tangier the past is a physical reality as perceptible as the sunlight. (Paul Bowles.org).
Það var Gertrude Stein sem stakk upp á því við Bowles að reyna að lifa og vinna í Tangier. Hann kom þangað í annað sinn árið 1947, sendi frá sér The Sheltering Sky tveimur árum síðar (muniði eftir honum í hlutverki sögumannsins í kvikmynd Bertolucci?), og bjó þar í 52 ár, allt til dauðadags árið 1999. (Patti Smith skrifaði um hann og ferðir sínar til Morokkó í M Train, bók sem ég naut þess að lesa.)


Mig langar að skilja við ykkur með sjónrænum skammti af borginni, stuttu myndskeiði þar sem aðrir erlendir borgarar lýsa Tangier fyrir lesendum T-Magazine (Umberto Pasti og Christopher Gibbs, til að nefna einhverja). Það má lesa greinina, „The Aesthetes“, í fullri lengd með ljósmyndum á vefsíðu NYT (þetta er ein af þessum greinum sem ég hef geymt í möppunum). Höfundur hennar Andrew O'Hagan kynnir Tangier sem „high meeting place of the Mediterranean and the Atlantic, Europe and Africa, sanctity and sin, where men and women have long set out to find themselves between the devil and the deep blue sea.“

Einn daginn mun ég koma þangað. En þangað til á ég mína Tangier-blússu frá Irving & Fine.
Sveitablússa frá Irving & Fine · Lísa Stefan




föstudagur, 20. maí 2016

Modigliani í morgunbirtunni

Modigliani í morgunbirtunni · Lísa Hjalt


Í morgun þegar ég var að gera heimilið huggulegt fyrir helgina gekk ég inn í stofuna og sá Modigliani baðaðan í sólarljósi. Augljóslega ekki Modigliani sjálfan heldur innrammaða endurprentun af málverki hans, Kona með blá augu (1918, olía á striga). Ég tók hana af veggnum og setti á arinhilluna hjá nellikunum og döðluskálinni. Ef það vill svo til að þið séuð að rölta um stræti Parísar, og stemmd fyrir myndlist, þá finnið þið upprunalega verkið á safninu Musée d'Art Moderne de la Ville de Paris.

Hvar sem ég enda í framtíðinni þá mun ég alltaf tengja listamanninn Amedeo Modigliani við þetta hús. Eigandinn skildi eftir tvær innrammaðar endurprentanir í stofunni sem voru fyrstu kynni mín af húsinu. Góð fyrstu kynni.

Í dag er föstudagur sem í okkar tilveru þýðir heimagerð pizza og rauðvín í kvöldmatinn; hefð sem skapaðist fyrir 6 árum síðan þegar við bjuggum á miðju Sjálandi í Danmörku. En nú er það kaffi og lesefni sem nærir andann í hreinu húsi. Góða helgi!



miðvikudagur, 4. maí 2016

Textílhönnuðurinn Lisa Fine

Textílhönnuðurinn Lisa Fine · Lísa Stefan


Í heimildarmynd eftir Albert heitinn Maysles um hönnuðinn og tískufrömuðinn Iris Apfel, sem ber hið einfalda heiti Iris (2014), á hún samræður við ljósmyndarann Bruce Weber. Þegar talið berst að tískuhönnuðum sem kunna ekki að sauma - hún kallar þá fjölmiðlafrík - nefnir hún unga hönnuði sem hafa „engan skilning á sögu“ („no sense of history“ - á ca. 46. mínútu). Kannski finnst ykkur þetta furðulegur inngangur að textílhönnuðinum Lisa Fine, konunni á bak við Lisa Fine Textiles, en ég held að það sé einmitt þessi skilningur á sögu sem dró mig að verkum Fine. Hönnun hennar hefur dýpt og mynstruðu efnin hennar eru bæði framandi og dulræn.
Textílhönnuðurinn Lisa Fine · Lísa Stefan


Með því bara að skoða nöfnin á þeim fallegu efnum sem Lisa Fine hefur hannað gæti hugurinn reikað á framandi slóðir, og ekki ólíklegt að þið teygðuð ykkur í söguatlasinn (tenglarnir fara með ykkur á mynstrið á vefsíðunni hennar): Þarna er Aswan, borg á austurbakka Nílar í Egyptalandi; Luxor, önnur egypsk borg þar sem þið finnið rústir fornu borgarinnar Þebu; Lahore, borg í Punjab-héraði í Pakistan; Kashgar, hin sögulega vinjarborg í vestasta hluta Kína, áfangastaður á Silkileiðinni; Bagan, forn borg í Myanmar (Búrma); Baroda, gamla nafnið yfir Vadodara í indverska héraðinu Gujarat; Malabar, hérað á vesturströnd Indlands, alveg syðst á milli Arabíuhafsins og Western Ghats fjallanna.

Ég gæti haldið áfram.

Zoraya-mynstrið í litunum rose og monsoon

Það eru ár síðan textílhönnun Lisa Fine töfraði mig en ég hafði aldrei meðhöndlað efnin (100% lín) þar til ég fékk safn af prufum í póstinum. Þau stóðust miklar væntingar mínar. Eitt efnið kallast Zoraya (sjá mynd að ofan). Ég var forvitin um uppruna orðsins þannig að í gær, áður en ég deildi bloggfærslunni, ákvað ég að senda fyrirspurn á skrifstofuna, sem var svarað fljótt með útskýringum Fine á því hvernig nafnið á mynstrinu varð til. Soraya var ein eiginkvenna síðasta Íranskeisarans, sem ríkti frá 1941 til 1979. Fine var stödd í Andalúsíu á Spáni og var að lesa sögu Norður-Afríkubúa og Persa á Spáni þegar hún kom auga á nafnið ritað með Z, Zoraya. „Mér fannst mynstrið hafa mjög geómetrískan blæ, allt að því fornpersneskan, og mér líkað nafnið Zoraya.“

Hönnuður með skilning á sögu fyrir víst.

Textílhönnuðurinn Lisa Fine · Lísa Stefan
Í forgrunni: Malabar Reverse mynstrið í litnum Nordic blue

Í heimi textíls og innanhússhönnunar er ólíklegt að þið hafið ekki rekist á nafn Lisa Fine. Frekar nýlega í amerísku útgáfu House Beautiful var til umfjöllunar íbúð móður hennar í Dallas, hönnuð af dótturinni, hvað annað. (Það er bók sem kallast Iznik á stofuborði móðurinnar sem mig langar í!) Móðirin gaf dóttur sinni frjálsar hendur til að hanna rýmið og ánægði kúnninn „kvartaði“ bara yfir einu: „Eina vandamálið er að þegar ég fæ gesti þá vilja þeir ekki fara.“

Lisa Fine á litríka íbúð í París sem hefur birst með innliti í útgáfum eins og Lonny (sjá hér pdf-skjal með innlitinu sjálfu og stærri myndum) og The New York Times (sjá fleiri myndir úr NYT á Apartment Therapy). Samstarf hennar og hönnuðarins Richard Keith Langham hefur skilað af sér glæsilegum indverskum gólfmottum (dhurries). Svo er það samstarf hennar og textílhönnuðarins Carolina Irving, Irving & Fine, þar sem má versla mynstraða og bróderaða kyrtla þeirra og kaftana (framandi blússur og kjólar).

Textílhönnuðurinn Lisa Fine · Lísa Stefan

Vinstri: Samode í litnum indigo/natural (einnig glittir í desert sand); Lahore í apricot.
Hægri (í ramma): Baroda II í pomegranate (mynstur með fugli); Zoraya í monsoon;
Luxor í pompeii on ivory (þetta appelsínugula)

Í hvert sinn sem ég rekst á umfjöllun um Lisa Fine tengi ég auðveldlega við bækurnar sem hún les, því eins og ég hefur hún áhuga á ævisögum og ferðaskrifum. Hún hefur ferðast mjög mikið, t.d. víðsvegar um Indland, og hönnun hennar er innblásin af ferðalögunum. Ég man alltaf eftir einni tiltekinni umfjöllun, með nokkrum litlum myndum þar sem hún var spurð stuttra spurninga. Sú síðasta snerist um hvert hana langaði að fara og hún svaraði Isfahan í Íran, en bætti við að hún héldi að það væri ekki mögulegt (þegar ég var að sækja efnivið í þessa færslu fann ég umfjöllunina á heimasíðu hennar: Material Connection, Ultra Travel, sumar 2012). Núna þegar alþjóðlegu viðskiptabanni á Íran hefur verið aflétt, og samskipti Bandaríkjanna og Írans eru að batna, þá virðist Isfahan (Eṣfahān) vera möguleiki í framtíðinni. Ég get rétt ímyndað mér þann innblástur sem hún gæti sótt í hinn sögulega íslamska arkitektúr, mikilfengleika hans og glæsilegra veggflísa. Sérstaklega með skilningi hennar á sögu.

Textílhönnuðurinn Lisa Fine · Lísa Stefan
Í forgrunni: Kashgar-mynstrið í spice. Í bakgrunni: Chiara í sky blue/oyster.
Einnig glittir í: Bagan í indigo



mánudagur, 25. apríl 2016

Linsubaunasúpa | Vegan í húsinu

Linsubaunasúpa (vegan) · Lísa Hjalt


Matarmiklar súpur eru ekki það fyrsta sem mér dettur í hug að setja á vormatseðilinn en hér á miðri vesturströnd Skotlands steig vorið á bremsuna; skyndilega komu kaldari dagar með rigningu. Í síðustu viku lét sólin loksins sjá sig að nýju þannig að nú virðist vorið framundan og brumin kætast. Mig langaði að deila þessari uppskrift að linsubaunasúpu áður en það verður of seint. Þá meina ég úr takt við árstíðina, sérstaklega fyrir þá sem búa sunnar á hnettinum og njóta veðurblíðu og blómstrandi trjáa. Í garðinum okkar er risastórt kirsuberjatré sem er alveg að springa út. Greinar þess teygja sig yfir veröndina og sumar snerta meginþak hússins. Ef ég hefði gluggann í svefnherbergi sonarins opinn myndu þær finna sér leið inn. Mér stæði á sama en líklega ekki honum. Ég bíð spennt eftir því að sjá kirsuberjatréð í allri sinni dýrð.


Aftur að súpunni. Í janúar ákvað yngri dóttirin, 14 ára unglingur, að gerast vegan. Við hjónin ræddum það okkar á milli að þetta væri bara einhver bóla, eitthvað sem hún yrði að fá að kanna. Í sannleika sagt héldum við að hún entist í 1-2 vikur. Fyrir utan hangikjötið á jólunum þá hefur hún verið lítið fyrir kjöt. Sá þáttur yrði henni því auðveldur. En að hætta að borða egg var allt annað og hún gæfist fljótt upp. Eða svo héldum við. Okkar dama elskaði ommilettur og útbjó þær sjálf þegar ég var að gera t.d. fajitas eða eitthvað sem henni fannst ekki gott. Senn líður að maí og okkar kona hefur hvergi beygt af. Er enn þá vegan.

Vegna þessa hef ég að einhverju leyti aðlagað mína eldamennsku - sem dæmi eggjabakstur snarminnkað - og ég hef breytt sumum grænmetisuppskriftunum mínum og gert þær vegan, og þróað nýjar. Það sem gleður mig í þessu ferli er það að hún er að lesa sig heilmikið til um næringarfræði og að fikra sig áfram í eldamennsku. Hún borðar líka orðið sumt grænmeti sem hún vildi ekki borða áður. Mér finnst gaman að sjá hvað hún er að verða örugg í eldhúsinu; hvernig hún útbýr óflókna, næringarríka rétti án aðstoðar. Stundum erum við tvær saman í eldhúsinu að undirbúa máltíð sem þarf að aðlaga fyrir hana. Fyrir móður, sem er matgæðingur, eru þetta gæðastundir. Þegar kaldara var í veðri þá gerði ég gjarnan fyrir mig í hádeginu chillibaunarétt eða aðra baunarétti eða matarmiklar súpur, sem svo biðu á hellunni þegar okkar staðráðna vegankona kom heim úr skólanum. Þessi linsubaunasúpa er einmitt ein þeirra.

[Textíllinn sem sést á súpumyndunum, fyrir utan servíettuna, er hannaður af Lisa Fine: Baroda 1 í indígó (fuglamynstrið), Lahore í aprikósulit (blóma-), og Chiara í himinbláu (mynstrið lengst til hægri). Meira um Lisa Fine Textiles síðar.]
Linsubaunasúpa | vegan · Lísa Hjalt


Hvort sem þið eruð vegan eða ekki þá eru linsubaunir góðar fyrir ykkur (nánar um hollustu þeirra); mér finnst að allir ættu að eiga í kollinum eina góða grunnuppskrift með linsum til að grípa í. Linsubaunir eru ríkar af próteinum, trefjum og járni, og gefa til dæmis B1- og B6-vítamín. Linsubaunir og krydd eru dásamleg blanda því linsurnar draga í sig kryddbragðið. Að mínu mati passa líka jurtir eins og lárviðarlauf og tímían vel með linsum. Gætið þess bara að ofsjóða þær ekki heldur leyfa þeim að halda lögun sinni. Mjúkar linsur, já takk. Mauksoðnar, nei takk. Í grænmetissoðið nota ég lífrænan, vegan grænmetiskraft frá Marigold (inniheldur líka minna salt), en það má að sjálfsögðu nota grænmetisteninga.

LINSUBAUNASÚPA

1 matskeið kókosolía eða létt ólífuolía
1 lítill laukur
2 gulrætur
1-2 sellerístilkar
3 hvítlauksrif
1 rautt chilli aldin (eða ¼ teskeið chillipipar)
1 bolli (250 ml) grænar linsubaunir
1 teskeið broddkúmen (ground cumin)
½ teskeið mulinn kóríander
½ teskeið mulin kúrkúma / túrmerik
1250 ml lífrænt grænmetissoð (5 bollar)
1 lárviðarlauf
1 teskeið þurrkað tímían eða 1-2 heilar tímíangreinar
má sleppa: 1-2 tómatar
smakkið til með sjávarsalti og svörtum pipar

Skolið linsubaunirnar og látið vatnið renna af þeim (hafið í huga að sumar linsur er gott að sjóða fyrst í 2 mínútur og skola svo). Setjið þær til hliðar á meðan þið útbúið grænmetissoðið. Sjóðið vatn og hellið í hitaþolna mælikönnu ásamt grænmetiskrafti eða -teningum. Fyrir 1250 ml af vatni ættuð þið að þurfa 5 teskeiðar af krafti eða 2¼ teninga (veltur á tegund; lesið merkingar á umbúðum).

Afhýðið laukinn og saxið. Sneiðið gulræturnar og selleríið. Fræhreinsið og fínsaxið chilli aldinið (ef notað). Hitið olíuna í meðalstórum potti við meðalhita. Léttsteikið laukinn og grænmetið þar til það fer að mýkjast. Afhýðið hvítlauksrifin, pressið og bætið út í pottinn. Eldið í 1-2 mínútur til viðbótar og hrærið rólega.

Blandið næst linsum og kryddum saman við. Hellið svo grænmetissoðinu í pottinn ásamt lárviðarlaufi og tímían. Hækkið hitann og látið suðuna koma upp, lækkið þá hitann og leyfið súpunni að malla í 25-30 mínútur, eða þar til linsubaunirnar eru mjúkar en ekki mauksoðnar. Tillið loki á pottinn þannig að gufan sleppi í gegn. Ef þið notið tómata í súpuna fræhreinsið þá fyrst og skerið í bita.

Áður en súpan er borin fram skuluð þið veiða lárviðarlaufið og tímíangreinarnar (ef notaðar) upp úr pottinum. Smakkið til með svörtum pipar og sjávarsalti, ef ykkur finnst þurfa meira salt. Berið súpuna fram með (heimabökuðu) grófu brauði, og kannski einu glasi af góðu rauðvíni . . . bara hugmynd.

Recipe in English