Sýnir færslur með efnisorðinu ferðaskrif. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu ferðaskrif. Sýna allar færslur

fimmtudagur, 19. desember 2019

№ 22 bókalisti: jólin 2019

№ 22 bókalisti: jólin 2019 · Lísa Stefan


Hérna er hann, bókalistinn sem ég lofaði fyrir löngu. Þessi er næstum tveir-fyrir-einn því ég ætlaði að deila einum í október og öðrum fyrir jól, en það varð bara of mikið að gera. Á einhverjum tímapunkti á þessari önn þegar ég var að reyna að skapa jafnvægi á milli náms og fjölskyldulífs komu mér í hug línur úr bók Joan Didion, The Year of Magical Thinking, sem urðu mantran mín: „In time of trouble, I had been trained since childhood, read, learn, work it up, go to the literature. Information was control.“ Um leið og ég fletti þeim upp var ekkert annað í stöðunni en að endurlesa bókina, aftur. Ég notaði þessa bók Didion um sorg og allt sem lífið kastar í átt til þín sem verðlaun í lestrarpásum. Didion hélt mér á jörðinni. Hún hélt mér við námsefnið. Information was control. Ég þarf að þakka tveimur forlögum fyrir bækur á listanum: Eland Books fyrir So It Goes og Fitzcarraldo Editions fyrir I Remain in Darkness. Báðar eru enskar þýðingar sem ég mun skrifa ritdóma um á nýja árinu.

№ 22 bókalisti:
1  Year of the Monkey  eftir Patti Smith
2  So It Goes  eftir Nicolas Bouvier
3  I Remain in Darkness  eftir Annie Ernaux
4  Genius and Ink: Virginia Woolf on How to Read
5  Life with Picasso  eftir Françoise Gilot og Carlton Lake
6  Look Homeward, Angel  eftir Thomas Wolfe
7  Essays in Disguise  eftir Wilfrid Sheed
8  Literary Theory: A Very Short Introduction  eftir Jonathan Culler
9  The Year of Magical Thinking  eftir Joan Didion [endurlestur]

Enskar þýðingar: 2) So It Goes: Robyn Marsack; 3) I Remain in Darkness: Tanya Leslie

Þessa síðustu mánuði hef ég verið að lesa nokkrar bækur á listanum þegar stund leyfir og hef þegar klárað Life with Picasso og I Remain in Darkness. Það var kominn tími til að setja Wilfrid Sheed á bókalista. Fyrir löngu síðan keypti ég notað eintak af þessu ritgerðasafni hans eftir að hafa heyrt John Williams hjá New York Times Book Review hrósa því á hlaðvarpinu þeirra. Aðra hverja viku spjalla starfsmennirnir um bækur sem þau eru að lesa í sínum frítíma og mér finnst bókasmekkur Williams komast næst mínum eigin og ég er yfirleitt sammála gagnrýni hans.

Í ár ákvað ég að brjóta út af hefðinni og endurlesa ekki klassískt verk um jólin. En ég mun lesa Little Women eftir Louisu May Alcott inn í nýja árið, hefð sem skapaðist hjá mér í Skotlandi. Síðasta föstudag hlustaði ég á viðtal ritstjórans David Remnick við Gretu Gerwig á hlaðvarpinu The New Yorker Radio Hour og dauðlangar núna að sjá kvikmyndina sem hún gerði eftir bókinni.



föstudagur, 24. ágúst 2018

Travels in a Dervish Cloak e. Isambard Wilkinson

Ritdómur: Travels in a Dervish Cloak eftir Isambard Wilkinson · Lísa Stefan


Má ég freista ykkar með grípandi bókarkápu og frábæru innihaldi? Travels in a Dervish Cloak eftir Isambard Wilkinson fjallar um ævintýraleg og hættuleg ferðalög hans í Pakistan á þeim tíma sem hann skrifaði fréttir fyrir The Daily Telegraph um Stríðið gegn hryðjuverkum. Wilkinson er frábær penni, hnyttinn og eftirtektarsamur, laus við þann sjálfhverfa stíl sem stundum einkennir ferðafrásagnir. Hann fer með lesandann um allt Pakistan, land sem hann skilur og þykir vænt um án þess að vera blindur gagnvart vandamálum þess („the mysterious world that I was so eager to capture before it disappeared“). Eftir stendur glögg frásögn höfundar um framandi menningu þess. Þetta var uppáhaldsbókin mín árið 2017. Hún er nú fáanleg í kiljubroti og ég hvet alla sem áhuga hafa á ferðaskrifum að næla sér í eintak.

Í bókinni sýnir Wilkinson okkur breidd pakistanskt þjóðfélags; fólk við hversdagslega iðju, heilaga menn, stríðsherra, þrjóta og aðrar furðuverur í landi sem er að breytast hratt. Nálgun hans er fræðandi, tilgerðarlaus og skemmtileg. Hér heimsækir hann gamalt virki í grennd við ættbálkasvæði:
Sitting in the courtyard, I could almost feel the modern age clamouring at its walls, wanting to bash down its gates and slay its lord, who I imagined would have gone without a murmur, accepting his fate as the natural order of things.
Hann er trúr viðfangsefni sínu og dæmir ekki hart. Athugasemdir hans um fólk og staði hljóma sannar. Í textanum eru tilvísanir í bókmenntir og ein kallaði fram hlátur: hann hittir herskáan stríðsmann sem neitar að „go gentle into that good night“. Aldrei grunaði mig að ég ætti eftir að tengja ljóðskáldið Dylan Thomas við stríðsmann í Baluchistan-héraði! Sá hinn sami lifir að vísu ekki af. Stundum er bókin líkari skáldsögu; ég fletti síðunum af miklum ákafa, allt að því haldandi niðri í mér andanum. Á einhverjum punkti þurfti ég að minna sjálfa mig á að það væri engin bók ef höfundurinn hefði ekki sloppið lifandi. Þetta er bók fyrir þá sem vilja sjá aðra hlið á Pakistan heldur en þá sem endurspeglast í Hollywood-framleiðslum. Þetta er alvöru stöff.

Ritdómur: Travels in a Dervish Cloak eftir Isambard Wilkinson · Lísa Stefan
Úr bókinni: Kennari og nemendur hans í Kasmír, 2005 eftir Chev Wilkinson

Ef þið fylgist með heimsfréttum ættuð þið að vita að ný ríkisstjórn er tekin við í Pakistan, undir forystu Imran Khan sem virðist ætla að gera umbætur. (Ef við lítum á núverandi valdhafa Hvíta hússins þá held ég að fyrrverandi krikketspilari sem forsætisráðherra sé ekki versti kostur þjóðar.) Ég man enn eftir þeirri sjokkerandi frétt í desember 2007 þegar Benzir Bhutto var ráðin af dögum á kosningafundi í Rawalpindi. Mér fannst það alltaf lofa góðu að kona hefði verið forsætisráðherra íslamsks ríkis, og það tvisvar. Tveimur mánuðum áður var Wilkinson nálægt hryllingnum í Karachi þegar hún slapp lifandi frá sprengjuárás, en á Írlandi þegar örlög hennar réðust. Hann hafði verið rekinn úr landi fyrir ritstjórnargrein sem var þáverandi forseta, Pervez Musharraf, ekki að skapi. Í janúar þar á eftir var honum leyft að snúa til baka. Á flugvellinum beið skelfilegi bílstjórinn hans með „forljót appelsínugul blóm“.

Bílstjórinn Allah Ditta er einn af mörgum litríkum persónum í bókinni. Nafn hans merkir „Gjöf frá Guði“ og ég get bara sagt að Guð hlýtur að hafa furðulega kímnigáfu. Kokkurinn hans Basil er engu betri. Þessum tveimur kemur ekki saman og afleiðingin er kostulegur ófriður á heimili Wilkinson. Mín uppáhaldspersóna er bróðir hans Chev:
'You can't hang about here like a mixture of a wannabe Lord Byron and Lord Fauntleroy waiting for the next cup of tea or bout of diarrhoea. Pick a spot on the map and let's be off,' he said. ... His presence was reassuring. He's always stuck by me, whatever my failings. He doesn't mind sharing a bed with me, as long as there's a pillow between us lest I grow amorous in my sleep. And he's good at pointing out if I have food round my mouth before I interview people.
Chev, sem er ljósmyndari, er hinn upplagði ferðafélagi. Mikilvægara er að Wilkinson neyðist til að yfirgefa Pakistan vegna nýrnabilunar og þá fáum við að vita að það var Chev sem bjargaði lífi hans: Hann gaf honum nýra.

Ég vildi geta sagt ykkur að önnur ferðasaga væri væntanleg frá Wilkinson en hann hefur farið í tvær nýrnaskiptaaðgerðir og því ólíklegt að hann hætti sér til varhugaverðra staða. Ég virkilega naut þeirrar ríku frásagnargáfu sem finnst í Travels in a Dervish Cloak, bók sem er full af kímni og kryddum. Hún var tilnefnd til verðlauna sem kallast Stanford Dolman Travel Book of the Year Award. Ef þið dæmið bók af kápunni þá get ég lofað að þessi skilar sínu.


Travels in a Dervish Cloak
Höf. Isambard Wilkinson
Innbundin, 256 blaðsíður, myndskreytt
Eland


mynd úr bókinni eftir Chev Wilkinson | myndskreyting kápu: Dorry Spikes



mánudagur, 10. apríl 2017

Samtal við textílhönnuðinn Lisa Fine

Samtal við textílhönnuðinn Lisa Fine · Lísa Stefan


Þessi orð eru höfð eftir bandaríska ljósmyndaranum, Ansel Adams heitinum: „You don't make a photograph just with a camera. You bring to the act of photography all the pictures you have seen, the books you have read, the music you have heard, the people you have loved.“ Orð hans eiga við hvers kyns skapandi listir og ég notaði þau til að hefja samræður við textílhönnuðinn Lisa Fine í gegnum tölvupóst. Á blogginu hef ég þegar lýst henni sem hönnuði með skilning á sögu og stend við þau orð. Hún er lagin með liti og mynstur; það virðist sem hvert efni frá Lisa Fine Textiles segi sögu. Hún er fædd og uppalin í Mississippi. Nú býr hún í New York ásamt hundunum sínum og ferðast víða, oft til Indlands eða annarra framandi staða. Smálistaverk hafa innblásið feril hennar, einnig listmálarinn Henri Matisse.

Þar sem umræðuefnið er ekki flókið finnst mér óþarfi að þýða svör hennar yfir á íslensku. Þar sem það er mögulegt, einnig í beinum tilvísunum, hef ég sett inn tengla á t.d. stuttar ritgerðir á vefsíðum listasafna sem mér fannst áhugaverðar og fræðandi. Fyrir utan málverkin eftir Matisse valdi ég myndirnar í færslunni.

[Mynstur frá Lisa Fine Textiles sem sjást á efstu myndinni (smellið fyrir nánari
upplýsingar): Cairo, Kashgar, Luxor, Malabar, Malula, Mandalay, Pasha og
Rajkot. Sjá bækur neðar í færslunni]

Persneskt smálistaverk: Mir Sayyid 'Ali, Night-time in a City,
ca. 1540, Tabriz, Íran, Safavíd-tímabilið

Svo við víkjum aftur að orðum Adams, hvað hefur sett mark sitt á hönnuðinn Lisa Fine (í ljósi alls sem hún hefur uppgötvað í gegnum vinnu sína og ferðalög).
LF: My life is very much about people, however, books and art not only inspire and teach but are the best refuge.

My favorite painter is Matisse. I love his mix of color and pattern, especially in his orientalist portraits. Irving & Fine [samstarf við textílhönnuðinn Carolina Irving] peasant blouses were very much inspired by his work. I also love the Fauvism movement.
Tveir aðrir listamenn eru einnig í uppáhaldi hjá henni, Kees Van Dongen og Amedeo Modigliani.

Henri Matisse, Zorah on the Terrace, 1912

Hún á ekki eitt uppáhaldsverk eftir Matisse en sagði: „I love his Moroccan period most, especially the portraits.“ Síðar fann ég verk hans Zorah on the Terrace í pósthólfinu mínu með orðunum: „Love Moroccan portraits.“ Hin tvö verkin eftir Matisse fylgdu á eftir, verkið hér að neðan með orðunum: „Love odalisque series.“

föstudagur, 24. febrúar 2017

Ár af lestri - 1. hluti

Lestarkompan: ár af lestri - 1. hluti · Lísa Stefan


Hérna kemur hún, færslan sem ég velti fyrir mér hvort ég ætti að skrifa eða ekki, með athugasemdum um nokkrar bækur á bókalistunum mínum árið 2016. Fyrst ætlaði ég að setja þessa punkta í athugasemdakerfi umræddrar bókalistafærslu en svo fannst mér betra að halda þessu aðskildu. Ég sé enga ástæðu til að endurtaka það sem ég hef þegar sagt um ákveðnar bækur eða að minnast á þær sem ég endurlas; einu bækurnar sem ég les aftur eru þær sem mér líkar eða eiga sérstakan sess í hjartanu.

Talandi um endurlestur: Skoski rithöfundurinn Ali Smith var nýlega í By the Book dálki dagblaðsins NYT og ég fann samhljóm með einu sem hún sagði:
[A] rereading can feel like a first-time read in itself, which is another great thing about books and time; we think we know them, but as we change with time, so do they, with us. (Sunday Book Review, 12. feb. 2017)
Ég las þetta í fyrradag og tók eftir því að hún minntist á bókina Pale Fire eftir Vladimir Nabokov. Ef þið fylgið mér á Instagram þá sáuð þið kannski kápuna á mynd sem ég deildi á sunnudaginn. Það vill svo til að ég fékk bókina lánaða á bókasafninu síðasta laugardag og hún verður á næsta bókalista.


Hér að neðan eru nokkrar athugasemdir um bækur sem voru á № 1, 2 og 3 bókalistunum. Á þeim fyrsta voru líka hönnunarbækur en ég ákvað síðar að á þá rötuðu eingöngu skáldsögur sjálfs/ævisögur, ferðaskrif o.s.frv. Mig langar að bæta því við að það er ekki tilgangur minn að beina ykkur frá þeim bókum sem ég geri neikvæðar athugasemdir við eða þeim sem ég kláraði ekki. Bókmenntasmekkur okkar er ólíkur, eins menningarlegur og félagslegur bakgrunnur, og ég hef svo sannarlega ekki áhuga á því að gegna valdshlutverki og segja fólki hvað það eigi að lesa og hvað ekki. En málið er að ég á blogglesendur sem nota listana til að fá lestrarhugmyndir og því finnst mér eðlilegt að ég minnist á þær bækur sem kannski stóðust ekki væntingar mínar.

№ 1 bókalisti, 2 af 8:

The Shadow of the Sun eftir Ryszard Kapuscinski
Las nokkra kafla og setti svo til hliðar, einungis vegna þess að mig hefur lengi langað að lesa bókina Africa eftir John Reader og vildi gera það áður en ég læsi aðrar Afríku-tengdar bækur á langar-að-lesa listanum. Kapuscinski var pólskur fréttamaður sem skrifaði um Afríku í nokkra áratugi og ég held að einn daginn eigi ég eftir að klára þessa bók hans.

The Great Railway Bazaar eftir Paul Theroux
Mestu vonbrigði ársins 2016 í lestri. Bókin byrjar virkilega vel og Theroux er bæði eftirtektarsamur og fyndinn - ég gat varla lagt bókina frá mér. Á einhverjum punkti verður hann þreytandi, eins og hann geti ekki gert annað en að kvarta. Ég missti áhugann og þolinmæðina og hætti lestrinum. Þegar ferðaskrif fylla mig engri löngun til að ferðast þá fær sá höfundur ekki pláss í mínu bókahjarta.

№ 2 bókalisti, 1 af 6:

Off the Road eftir Carolyn Cassady
Missti þolinmæðina og gafst upp. Alltof opinberandi og ekki á góðan máta. Tímarnir voru öðruvísi en ég var gáttuð á því hvernig hún leyfði Neal að koma fram við sig strax í upphafi sambands þeirra. Fyrstu kaflarnir eru ágætis lexía í því hvernig ekki skuli velja eiginmannsefni.

[Önnur af listanum: Testament of Youth eftir Vera Brittain (sjá sér bloggfærslu).]
Lestarkompan: ár af lestri - 1. hluti · Lísa Stefan


№ 3 bókalisti, 2 af 6:

Memoirs of a Dutiful Daughter eftir Simone de Beauvoir – sjálfsævisaga, 1. bindi
(Penguin; ensk þýðing: James Kirkup)
Fyrsta bindi sjálfsævisögu hennar þar sem hún fjallar um uppvaxtarárin, barnæskuna í París og árin í Sorbonne-háskóla. Það eina sem ég fann að bókinni var alvarlegur frásagnarstíllinn; mér fannst hún nota of vitsmunalegan tón til að lýsa hugsunum barns, sem truflaði mig ekki eftir því sem hún varð eldri. Næstu bindi munu rata á bókalistana mína í framtíðinni.

Prayers for the Stolen eftir Jennifer Clement
Að mínu mati, ofmetin. Í byrjun er sögumaðurinn ung stelpa sem er vísun á auðveldan lestur með einföldum orðaforða, og það er nóg um kímni (móðirin er óborganleg!). Þegar ég var komin inn í þriðja eða fjórða hluta bókarinnar (þegar hún fer að heiman) þá fannst mér höfundurinn misstíga sig; það var sem hún hætti að vanda sig. Þessi bók var ein þeirra sem mig virkilega langaði að finnast góð til að geta mælt með henni en í lokin olli lesturinn vonbrigðum.

Bráðum birti ég 2. hluta þar sem ég tek fyrir nokkrar bækur á № 4, 5 og 6 bókalistunum.

[Uppfærsla: smellið hér fyrir 2. hluta.]



fimmtudagur, 2. febrúar 2017

Map Stories eftir Francisca Mattéoli

Ritdómur: Map Stories eftir Francisca Mattéoli · Lísa Stefan


Munið þið eftir ykkar fyrsta atlas, ykkar eigin? Fyrir utan myndir af hnettinum þá var forsíðan á mínum svört með hvítum stöfum. Ég var tíu eða ellefu ára og gleypti hann í mig. Landakort hafa undarlegt aðdráttarafl og virðast gefa von um stórkostleg ævintýri. Gömul landakort hafa alltaf heillað mig, sérstaklega þessi myndskreyttu sem eru landfræðilega kolröng. Myndir af sjávarskrímslum og seglskipum gera þau enn meira heillandi. Þið getið rétt ímyndað ykkur spenninginn þegar mér barst fyrir nokkrum mánuðum síðan eintak af nýrri bók, Map Stories: The Art of Discovery (Octopus (Ilex)). Höfundurinn Francisca Mattéoli sérhæfir sig í ferðaskrifum. Í bókinni notar hún tuttugu og þrjár sögur og frábært safn sögulegra landakorta til að halda með okkur á vit ævintýra um allan heiminn þar sem við hittum kortagerðarmenn, landfræðinga, könnuði og draumóramenn. Stundum fannst mér sem ég væri að stíga inn í vídd þar sem Bilbo Baggins hittir Indiana Jones.

Kort af Nílardal eftir Nicolas de Fer og gefið út 1720, bls. 44-45

Mattéoli er ekki fræðingur á sviði landafræði og bók hennar er ekki hugsuð sem fræðirit. Í formálanum skrifar hún: „Þetta er bók sem býður lesandanum í ferðalag frá landakorti til landakorts til að hleypa ímyndunaraflinu lausu“ (bls. 7). Það er einmitt þar sem gerir bókina heillandi.

Ferðalag Mattéoli byrjar með enduruppgötvun hinnar týndu borgar Petru og endar í Kína eftir för um Silkiveginn. Þar á milli erum við á slóð Inkanna, á hinum dularfulla stað Machu Picchu; í kappinu á Suðurpólinn; á Þjóðvegi 66; í leit að upptökum Nílar; um borð í Austurlandahraðlestinni; kannski að velta því fyrir okkur hvort skrímslið Nessie leynist einhvers staðar í Loch Ness. Þetta er bara brot af áfangastöðunum.

Heimskort feneyska munksins Fra Mauro, ca. 1449, bls. 100-101

Það veltur alfarið á áhugasviði ykkar og sögulegri þekkingu hvort sumar sögur Mattéoli hljómi kunnuglegri en aðrar og hvort þær kenni ykkur eitthvað nýtt. Sérstakan áhuga hjá mér vakti sú um leitina að upptökum Nílarárinnar - leiðangur Richard Burton og John Speke - sem minnir meira á ráðgátu með dramatískum endi. Eftirfarandi lýsing er fengin af ljósmynd af kortaherbergi í Hinu konunglega landfræðifélagi (Royal Geographical Society):
[It] is plunged in a dusty half-light and decorated with maps, as one might expect. An enormous terrestrial globe fills one corner. On the upper floor, dark wood shelves are stacked with carefully arranged documents and books. On the ground floor, two large display cabinets protect the most precious objects and on a long table standing in the center of the room, pages lie spread out as if waiting to be consulted by some very serious gentleman. This was the setting that would soon be at the heart of the scandal. It was here, or at least in a similar room of this distinguished institution founded in 1830 that, around a hundred years ago, a disagreement broke out regarding the source of this fabled river, which would soon turn into a downright controversy and then a brutal confrontation. (bls. 42)

Kort af Síle (Chile), 1884, bls. 157

Með aðstoð Mattéoli hittum við ævintýramenn eins og Thomas Edward Lawrence, eða sjálfan Arabíu-Lawrence, norska landkönnuðinn Roald Amundsen, sem fyrstur náði á suðurskautið, og Peter Fleming (bróðir Ian Fleming), sem árið 1932 tók þátt í Amazon-leiðangri eftir að hafa séð auglýsingu í The Times (bók hans Brazilian Adventure, sem kom út 1933, er enn í prentun).

Map Stories gerir okkur kleift að dást að verkum frægra kortagerðarmanna og má þar nefna: Fra Mauro (sjá mynd mína hér að ofan), Fernão (Fernando) Vaz Dourado, Nicolas de Fer (sjá kort að ofan af Nílardal), Willem Blaeu og son hans Joan, Martin Behaim, Pedro Reinel og Lopo Homem, Jodocus Hondius, Guillaume Le Testu og John Speed.

Í bókinni er eitthvað fyrir alla. Og ef þið standið sjálf ykkur að því að fletta upp gömlum ferðakoffortum á netinu, eða öðrum gömlum munum sem tengjast ferðalögum, þá skil ég ykkur fullkomlega.

Kort af Suðurpólnum, 1912, bls. 120-121

Einkum er ég hrifin af hönnun bókarinnar sem er falleg viðbót í safnið á kaffiborðinu. Kortið á forsíðunni er upphleypt og innri kápan er gamalt landakort með teikningum af helstu fjöllum og ám ásamt upptökum og ósum (sjá kort). Uppsetning textans er skýr og efst á vinstri blaðsíðum eru hnit þess staðar sem um ræðir. Landakortin eru ýmist á einni blaðsíðu eða á opnu. Mig langaði að klippa sum út og ramma inn sem því miður hefði skemmt bókina.

Rithöfundurinn Francisca Mattéoli
Francisca Mattéoli er höfundur margra ferðatengdra bóka sem hafa verið þýddar á mörg tungumál. Hún hefur einnig skrifað ferðagreinar fyrir tímarit eins og National Geographic, Condé Nast Traveller og Air France Magazine. Hún heldur einnig úti bloggi á frönsku og ensku. Hún býr í París en ólst að vísu upp í Suður-Ameríku með síleskt þjóðerni (móðir er skosk). Hún vinnur nú þegar að sinni næstu bók.


Map Stories: The Art of Discovery
Höf. Francisca Mattéoli
Innbundin, 176 blaðsíður, myndskreytt
Octopus


Brot af Evrópukorti, notað í kennslu á grunnskólastigi, frá árinu 1880, bls. 143

Landakortin úr bókinni eru birt með leyfi Octopus Publishing Group (nr. 5 í breyttu formi) | Landakort - heimildir: nr. 1 (forsíða) © akg-images/North Wind Picture Archives; nr. 2, 4-5, 7 © Bibliothèque Nationale de France; nr. 3 © akg-images/British Library



miðvikudagur, 11. maí 2016

Vor á veröndinni

Vor á veröndinni, kirsuberjatré í blóma · Lísa Stefan


Skoska vorið lét bíða eftir sér en mætti svo fyrir tveimur dögum síðan í allri sinni dýrð, sólríkt og hlýtt. Veröndin var sópuð, garðborðið skrúbbað og baststólarnir settir út. Það var kominn tími á fyrstu máltíð þessa vors undir berum himni. Síðustu dagar hafa verið himneskir, með notalegum stundum úti á verönd þar sem setið er undir kirsuberjatré í fullum blóma. Ég sit þar einmitt núna, með kaffibolla, bækur og tímarit. Í nýlegri bloggfærslu var tréð að undirbúa að blómstra og einn morguninn sá ég það í gegnum herbergisglugga sonarins og það var sem það hefði hreinlega sprungið. Stórfenglegt!


Þessa dagana er ég að lesa The Great Railway Bazaar: By Train Through Asia eftir bandaríska rithöfundinn Paul Theroux, sem er þekktur fyrir ferðaskrif og skáldsögur. Þetta er fyrsta ferðasagan hans, sem kom fyrst út árið 1975. Ég ætlaði að lesa Dark Star Safari: Overland from Cairo to Cape Town en hugsaði svo með mér að það væri best að lesa ferðsögur hans í tímaröð - sennilega óviturleg ákvörðun þar sem hin síðarnefnda er tólfta í röðinni! Í The Great Railway Bazaar ferðumst við með Theroux í lestum yfir Asíu, en ferðalagið hefst með Austurlandahraðlestinni frá París til Istanbúl. Ritstíll hans er dásamlegur og hnyttinn. Ég var alltaf að skella upp úr og að nóta hjá mér tilvísanir í minnisbókina. Áður en ég komst í gegnum annan kafla hafði ég gert mér grein fyrir því að ég yrði að ýta minnisbókinni til hliðar ef ég ætlaði að ljúka bókinni fyrir jól.
[Uppfærsla: Kláraði ekki bókina og get því miður
ekki mælt með henni - sjá lestrarkompu.]


Talandi um Istanbúl. Í gegnum netið er ég að ferðast þangað frá Kína með aðstoð sagnfræðingsins Sam Willis og BBC-spilarans. Á BBC Four-sjónvarpsstöðinni er verið að sýna þáttaröðina Silkileiðin (The Silk Road), þar sem Willis fer með okkur yfir Mið-Asíu til Istanbúl og Feneyja. Á heimasíðu þáttarins má skoða myndræna ferðadagbók. Í síðasta þætti var hann á Registan-torginu í fornu borginni Samarkand, í Úsbekistan, þar sem hann hitti handverksmenn sem voru að búa til mynsturflísar sem eru notaðar til viðgerðar á Bibi Khanum-moskunni. Þetta var heillandi. Í borginni Khiva, sem er vestar, settist hann að snæðingi með leiðsögumanni sínum og borðbúnaðurinn var fallega mynsturmálaður. Meira að segja flatbrauðið var mynstrað!


Ég nota ekki Instagram-myndirnar mínar í bloggfærslur en í dag varð ég að gera undantekningu, til þess að varðveita ljúfa minningu. Myndina hér að neðan tók ég í gær með spjaldtölvunni þegar ég og dóttir mín vorum að setjast niður til að njóta hádegisverðar - langur lönsj á veröndinni (hún er að læra heima þessa dagana; er í lokaprófum). Myndin fangaði augnablikið fullkomlega. Ég elska hvernig myndin er yfirlýst og hvernig það sýnist vera autt svæði handan verandarinnar í stað steinveggjar sem er þakinn bergfléttu.

Njótið dagsins!

Hádegisverður undir berum himni (af @lisastefanat frá því í gær)