Sýnir færslur með efnisorðinu annie ernaux. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu annie ernaux. Sýna allar færslur

mánudagur, 9. janúar 2023

№ 34 bókalisti: Annie Ernaux og Guðrún Eva

Á № 34 bókalistanum: A Man's Place (Staðurinn) eftir Annie Ernaux · Lísa Hjalt


Gleðilegt ár! Ég ákvað að byrja bloggárið á nýjum bókalista sem verður líka sá síðasti í þessu formi. Ég er að hugsa um að hvíla listana alveg eða breyta þeim síðar í samantektarlista þannig að ég geti gert meira af því að mæla með bókum sem ég hef lesið. Hluti af mér mun sakna þessa forms því mér finnst það agandi að hafa hugmynd um hvað ég ætla mér að lesa nokkrar vikur fram í tímann. En stundum gerist það að ég eignast nýja bók sem mig langar að lesa strax en finnst sem ég þurfi að klára fyrst þær sem eru á bókalista hverju sinni - lúxusvandamál, ég veit. Önnur ástæða fyrir breytingunni er sú að mig langar að lesa meira á þýsku til að ná betri tökum á málinu.

№ 34 bókalisti:

1  A Man's Place  · Annie Ernaux
2  Útsýni  · Guðrún Eva Mínervudóttir
3  Of Time and the River  · Thomas Wolfe
4  Letters of Leonard Woolf  · ritstj. Frederic Spotts
5  Dichter im Café  · Hermann Kesten [þýsk]

Ensk þýðing: 1) A Man's Place: Tanya Leslie

Franski rithöfundurinn Annie Ernaux hlaut Nóbelsverðlaunin í fyrra. Bók hennar á listanum, La Place á frönsku, fjallar um samband hennar við lítt menntaðan föður sinn og um þá fjarlægð sem smám saman myndast milli þeirra því meira sem hún fetar menntaveginn og verður hluti af millistétt. Áherslan sem hann lagði á tungumálið kemur mikið við sögu: Hún lýsir m.a. atviki þar sem hann þarf að fá lögfræðing til að votta undirskrift sína á pappíra. Þegar hann áttar sig á því hann hefur misritað eitt smávægilegt orðalag við undirritunina þá upplifir hann gríðarlega mikla skömm, sem er ekkert í takt við tilefnið. Í þessari stuttu bók, rétt um 100 síður, staldrar Ernaux stundum við til að segja nokkur orð um skrifin sjálf eða deila hugsunum sínum í tengslum við ákveðna minningu. Staðurinn, í þýðingu Rutar Ingólfsdóttir, kom út hjá Uglu í fyrra. Þetta er fyrsta bók Ernaux sem gefin hefur verið út á Íslandi sem mun án efa breytast eftir Nóbelinn. Fyrir óþreyjufulla þá hefur breska útgáfan Fitzcarraldo Editions sent frá sér 8 verk hennar á ensku nú þegar.

Kaffistund og bókalestur (№ 34 bókalisti) · Lísa Hjalt
Kaffistund og bókalestur í desember

Ég féll fyrir Annie Ernaux þegar ég las The Years (№ 20) í fyrsta sinn, eins konar æviminningar sem fanga tíðarandann einstaklega vel og eru merkilegar vegna þess að hún notar aldrei persónufornafnið ég. Ég keypti í haust þýsku þýðinguna, Die Jahre, til að lesa verkið enn og aftur með þá ensku til hliðsjónar. Ég hef einnig lesið I Remain in Darkness sem fjallar um móður hennar og Alzheimer-sjúkdóminn. Að lesa þá bók var stundum eins og að vera kýldur í magann - hrá og afhjúpandi skrif.

Ef þið viljið kynna ykkur Ernaux þá má finna fínar umfjallanir á RÚV. Ég man einkum eftir að hafa hlustað á Lestina í október þar sem Torfi Tuliníus prófessor benti á aðdáun hennar á franska félagsfræðingnum Pierre Bourdieu. Kenningum Bourdieu kynntist ég fyrst í safnafræðináminu og hef hann núna á bak við eyrað þegar ég les texta hennar. Eftir tilkynninguna um Nóbelsverðlaunin var mjög áhugaverð umfjöllun um skrif Ernaux í TLS-bókahlaðvarpsþætti (mín. 27:40) þar sem rithöfundurinn Lauren Elkin var gestur. Þar kom Bourdieu einnig við sögu.

Á № 34 bókalistanum: Útsýni eftir Guðrúnu Eva Mínervudóttur · Lísa Hjalt
Lestarstund í janúar: Útsýni, nýjasta skáldsaga Guðrún Evu Mínervudóttur

Á þessum síðasta lista er ánægjulegt að geta haft nýtt íslenskt verk. Það gerist ekki oft. Kær vinkona sendir mér af og til bækur frá Íslandi og hún valdi Útsýni Guðrúnar Evu Mínervudóttur handa mér í jólagjöf. Ég hafði séð Kolbrúnu og Þorgeir hrósa bókinni Kiljunni og hugsaði með mér að hún gæti höfðað til mín. Ég er rúmlega hálfnuð og verð að viðurkenna að ég tengi ekki enn við 4-stjörnu límmiðann á eintakinu mínu sem segir syngur í eyrum lesanda. Þegar ég er komin þetta langt inn í bók án þess að finna nokkra tengingu við persónur þá veit það ekki á gott. Ég hef annars sagt það áður að ég og samtímaverk eigum yfirleitt litla samleið; ég er mjög vandlát þannig að það er ekkert að marka mína skoðun á þessu verki. Guðrún Eva gerir margt vel en svo er annað í stílnum sem höfðar ekki til mín.

Kannski segir það eitthvað um mig sem lesanda að geta endurlesið æviminningar Sigga Páls út í hið óendanlega en að hafa látið það nægja að lesa skáldsögu hans Parísarhjólið einu sinni. Ég get svo bætt því við til frekari útskýringar að svo til allar bækur á óskalistanum mínum eru rit almenns eðlis, bréf, esseyjur og æviminningar, ekki skáldsögur.



sunnudagur, 20. júní 2021

№ 27 bókalisti: Erpenbeck, Stepanova og Roth

Á № 27 bókalistanum mínum eru verk eftir Erpenbeck og Stepanova ásamt ævisögu Philips Roth · Lísa Stefan


Í bloggfærslu í apríl lofaði ég nýjum bókalista að loknum lestri á þriðja sjálfsævisögubindi Simone de Beauvoir. Það loforð sveik ég með stæl því stuttu síðar fékk ég óvænt verkefni í hendurnar. Þrátt fyrir annir hef ég haldið uppi góðri lestrarrútínu sem hefst eldsnemma á morgnana með kaffibollanum: er búin með bók Jenny Erpenbeck, vel hálfnuð með bæði Mariu Stepanovu og ævisögu Philips Roth og byrjuð að lesa allar hinar. Hvort sem þið trúið því eða ekki þá er ég að lesa Jón Kalman í fyrsta sinn. Fyrir tveimur árum setti ég The Years eftir Annie Ernaux í uppáhaldsflokkinn en nýverið gaf ég vinkonu eintak og hreinlega varð að lesa hana aftur.

№ 27 bókalisti:

1  Philip Roth: The Biography  · Blake Bailey
2  In Memory of Memory  · Maria Stepanova
3  Not a Novel: Collected Writings and Reflections  · Jenny Erpenbeck
4  The Radetzky March  · Joseph Roth
5  Heldenplatz  · Thomas Bernhard [þýsk]
6  Himnaríki og helvíti  · Jón Kalman Stefánsson
7  The Years  · Annie Ernaux [endurlestur]

Ensk þýðing: 2) In Memory of Memory: Sasha Dugdale; 3) Not a Novel: Kurt Beals;
4) The Radetzky March: Joachim Neugroschel; 7) The Years: Alison L. Strayer

Ef þið fylgist með bókafréttum þá hafa örlög ævisögunnar um Philip Roth varla farið fram hjá ykkur, bók sem margir biðu spenntir eftir. Í kjölfar ásakana um kynferðislega misnotkun gegn höfundinum Bailey, stöðvaði útgefandinn, W. W Norton & Company, dreifingu bókarinnar og tók hana endanlega af markaði (Bailey, sem hefur ekki verið fundinn sekur fyrir dómstólum, hefur þegar fundið nýjan útgefanda). Ég pantaði bókina fyrirfram, löngu áður en þessar fréttir bárust, og held að ég hefði keypt hana þrátt fyrir allt þar sem ég get alveg aðskilið listina frá listamanninum. Heimildaöflun er viðamikil og bókin vel skrifuð (Roth valdi Bailey sérstaklega til verksins) en ég viðurkenni að stundum kemur upp í hugann Af hverju þarf ég að vita þetta? þegar fjallað er um kynlíf Roths í smáatriðum.

Not a Novel var mín fyrsta bók eftir Erpenbeck, sem er einn af stóru rithöfundunum í Þýskalandi í dag. Þetta er ensk þýðing á óskálduðu efni eftir hana en gallinn er sá að þýðingin inniheldur einungis brot af upprunalega verkinu, Kein Roman, sem er helmingi lengra. Ég naut lestursins en stundum fannst mér efni endurtekið og í lokin upplifði ég eins konar gjá; þessi styttri útgáfa náði ekki að koma heilsteyptu verki til skila. Ég hef ég ekki lesið bókina á frummálinu en bæti úr því þegar þýskan er orðin betri.

Kápan á Philip Roth: The Biography eftir Blake Bailey (W. W. Norton) · Lísa Stefan
Kápa bókarinnar Philip Roth: The Biography eftir hinn núna-alræmda Blake Bailey

Rúm fimm ár eru liðin síðan ég deildi fyrsta bókalistanum og þar sem ég vel bækurnar vandlega þá hafa bara nokkrar valdið vonbrigðum. Á síðasta lista var safn stuttra ritgerða eftir Vivian Gornick sem ég get ekki mælt með: Unfinished Business: Notes of a Chronic Re-reader. Inngangurinn höfðaði vel til mín, og jók líklega væntingar mínar, en þegar ég las áfram þá varð það deginum ljósara að ég og Gornick erum mjög ólíkir lesendur: hún einblínir mjög á persónusköpun og virðist mjög upptekin af misheppnuðum ástarsamböndum í skáldskap. Þessi nálgun reyndi á þolinmæði mína. Í ritgerðunum opinberaðist ákveðin þversögn því Gornick er virkur femínisti og tónn skrifanna gaf mér ekki mynd af sterkri konu. Mér líkaði ein ritgerð um ítölsku skáldkonuna Nataliu Ginzburg, sem er enn á langar-að-lesa listanum mínum. Á þeim lista eru enn nokkur verk eftir Gornick en í sannleika sagt finn ég núna litla löngun til að forgangsraða þeim.

Peoníur og bókabunki á skrifborðinu mínu · Lísa Stefan


Lokunum í Austurríki vegna COVID-19 hefur loksins verið aflétt eftir stöðugar framlenginar frá síðasta hausti. Við erum enn skyldug til að nota FFP2-grímur og búum enn við takmarkanir, t.d. þarf vottorð um neikvæða skimun eða bólusetningu til að fara á kaffihús og veitingastaði. Nýverið fór ég í fyrstu bólusetninguna og fer í þá næstu eftir nokkrar vikur og mun þá loksins geta fengið mér latte hvenær sem er. Ég bið ekki um meira. Þangað til heldur lífið áfram að vera frekar lokunarlegt, eða lockdowny eins og ég kalla það á ensku.



fimmtudagur, 19. desember 2019

№ 22 bókalisti: jólin 2019

№ 22 bókalisti: jólin 2019 · Lísa Stefan


Hérna er hann, bókalistinn sem ég lofaði fyrir löngu. Þessi er næstum tveir-fyrir-einn því ég ætlaði að deila einum í október og öðrum fyrir jól, en það varð bara of mikið að gera. Á einhverjum tímapunkti á þessari önn þegar ég var að reyna að skapa jafnvægi á milli náms og fjölskyldulífs komu mér í hug línur úr bók Joan Didion, The Year of Magical Thinking, sem urðu mantran mín: „In time of trouble, I had been trained since childhood, read, learn, work it up, go to the literature. Information was control.“ Um leið og ég fletti þeim upp var ekkert annað í stöðunni en að endurlesa bókina, aftur. Ég notaði þessa bók Didion um sorg og allt sem lífið kastar í átt til þín sem verðlaun í lestrarpásum. Didion hélt mér á jörðinni. Hún hélt mér við námsefnið. Information was control. Ég þarf að þakka tveimur forlögum fyrir bækur á listanum: Eland Books fyrir So It Goes og Fitzcarraldo Editions fyrir I Remain in Darkness. Báðar eru enskar þýðingar sem ég mun skrifa ritdóma um á nýja árinu.

№ 22 bókalisti:
1  Year of the Monkey  eftir Patti Smith
2  So It Goes  eftir Nicolas Bouvier
3  I Remain in Darkness  eftir Annie Ernaux
4  Genius and Ink: Virginia Woolf on How to Read
5  Life with Picasso  eftir Françoise Gilot og Carlton Lake
6  Look Homeward, Angel  eftir Thomas Wolfe
7  Essays in Disguise  eftir Wilfrid Sheed
8  Literary Theory: A Very Short Introduction  eftir Jonathan Culler
9  The Year of Magical Thinking  eftir Joan Didion [endurlestur]

Enskar þýðingar: 2) So It Goes: Robyn Marsack; 3) I Remain in Darkness: Tanya Leslie

Þessa síðustu mánuði hef ég verið að lesa nokkrar bækur á listanum þegar stund leyfir og hef þegar klárað Life with Picasso og I Remain in Darkness. Það var kominn tími til að setja Wilfrid Sheed á bókalista. Fyrir löngu síðan keypti ég notað eintak af þessu ritgerðasafni hans eftir að hafa heyrt John Williams hjá New York Times Book Review hrósa því á hlaðvarpinu þeirra. Aðra hverja viku spjalla starfsmennirnir um bækur sem þau eru að lesa í sínum frítíma og mér finnst bókasmekkur Williams komast næst mínum eigin og ég er yfirleitt sammála gagnrýni hans.

Í ár ákvað ég að brjóta út af hefðinni og endurlesa ekki klassískt verk um jólin. En ég mun lesa Little Women eftir Louisu May Alcott inn í nýja árið, hefð sem skapaðist hjá mér í Skotlandi. Síðasta föstudag hlustaði ég á viðtal ritstjórans David Remnick við Gretu Gerwig á hlaðvarpinu The New Yorker Radio Hour og dauðlangar núna að sjá kvikmyndina sem hún gerði eftir bókinni.



föstudagur, 26. apríl 2019

№ 20 bókalisti | Lee Krasner sýning í London

№ 20 bókalisti | Sýningin Lee Krasner: Living Colour · Lísa Stefan


Ég sit undir markísu á veröndinni og anda að mér vorinu, ilmi fjólublárra og hvítra sýrena úr horni garðsins. Bókahlaðvörp spilast eitt af öðru í tölvunni. Eigum við að kíkja á verkin á bókalistanum? Í fyrra kom út í nýrri þýðingu, eftir ljóðskáldið Michael Hofmann, klassíkin Berlin Alexanderplatz eftir Alfred Döblin, gefin út af New York Review Books. Ég er hrifin af bókahönnun þeirra og margir titlar hafa ratað á óskalistann. Ég las aldrei gömlu þýðinguna þannig að ég hef engan samanburð. Undirheimar Berlínar eru sögusviðið, Weimar-lýðveldið upp úr 1920, og í upphafi bókar er hinn skrautlegi Franz Biberkopf að koma úr fangelsi, staðráðinn í að snúa blaðinu við. Hin bókin sem ég keypti til að setja á listann er The Years eftir Annie Ernaux, sem ég minntist á síðustu færslu. Aðrar koma úr hillum bókasafnsins.

№ 20 bókalisti:
1  The Years  · Annie Ernaux
2  Berlin Alexanderplatz  · Alfred Döblin
3  The Wife  · Meg Wolitzer
4  The Mexican Night  · Lawrence Ferlinghetti
5  The Garden Party  · Katherine Mansfield
6  It All Adds Up  · Saul Bellow
7  The Diary of Anaïs Nin 1931-1934 

Enskar þýðingar: 1) The Years: Alison L. Strayer; 2) Berlin Alexanderplatz:
Michael Hofmann

Það eru ár síðan ég las bindi af dagbókum Anaïs Nin og mér fannst eitthvað notalegt við að grípa ofan í það sem er á listanum, sem byrjar árið 1931. Ég hef lengi ætlað mér að lesa sögur eftir Katherine Mansfield en henni kynntist ég í gegnum dagbækur og bréfaskrif Virginiu Woolf. Smásögusafnið The Garden Party byrjar vel og mér líkar strax ritstíllinn. Mansfield var ekki nema 34 ára þegar hún lést og maður getur rétt ímyndað sér hverju hún hefði getað áorkað sem rithöfundur.

Listaverk: Lee Krasner, Desert Moon, 1955. LACMA. © The Pollock-Krasner Foundation
Lee Krasner, Desert Moon, 1955

Mig langar í menningarferð til London í sumar, til að sjá sýninguna Lee Krasner: Living Colour í listagalleríi Barbican Centre, sem opnar 30. maí. Lee Krasner (1908–1984) var amerísk listakona, fædd í Brooklyn, og var brautryðjandi abstrakt expressjónisma. Í kynningarskrá segir að í „kraftmiklum verkum hennar endurspeglist andi tækifæranna í New York eftirstríðsáranna“ og að sýningin „segi sögu stórkostlegs listamanns, hvers mikilvægi hefur of oft fallið í skugga hjónabands hennar og Jackson Pollock.“

Þetta er fyrsta stórsýningin á verkum Lee Krasner í Evrópu í meira en 50 ár, skipulögð af Barbican Centre í samvinnu við listasöfnin Schirn Kunsthalle Frankfurt, Zentrum Paul Klee í Bern og Guggenheim Bilbao. Samhliða sýningunni kemur út bókin Lee Krasner: Living Colour eftir Eleanor Nairne, í útgáfu Thames & Hudson.

Í október verður hægt að njóta verka Lee Krasner hér í Þýskalandi, á safninu Schirn Kunsthalle Frankfurt.

Listakonan Lee Krasner í vinnustofu sinni. Kasmin Gallery, NY. © 2017 The Pollock-Krasner Foundation
Listakonan Lee Krasner í vinnustofu sinni

Listaverk: Lee Krasner, Palingenesis, 1971. Kasmin Gallery, NY. © The Pollock-Krasner Foundation
Lee Krasner, Palingenesis, 1971

efsta mynd mín | Lee Krasner listaverk af vefsíðu Barbican Centre: 1) LACMA (Los Angeles County Museum of Art) 2) Kasmin Gallery, NY | Krasner í vinnustofu sinni: Kasmin Gallery af síðunni Artsy. © The Pollock-Krasner Foundation



laugardagur, 13. apríl 2019

Vorstemningin

Vorstemning, textíll · Lísa Stefan


Í fullkomnum heimi. Nei, við skulum segja betri, fullkomnun er leiðinleg. Í betri heimi sit ég í baststól á veröndinni og finn varma sólarinnar í gegnum markísuna. Á borðinu hvílir bókastafli, við hlið kaffibollans og pressukönnunnar eru minnisbækur. Stuðningurinn við bakið er þykkur, mjúkur púði með ábreiðu gerðri úr einum af mynstraða textílnum sem sést á myndinni hér að ofan, sem ég kalla: Vorstemningin mín með Annie Ernaux og Schuyler Samperton Textiles.

Raunveruleikinn er sá að ég sit innandyra. Sú harða birta sem einkennir byrjun vorsins er enn til staðar og þó að brum hafi blómgast hafa sólríku dagarnir, sem lofuðu almennilegu vori, orðið kaldari (í dag kom haglél). Að bíða eftir vorinu er ekki mín sterkasta hlið. Góðu fréttirnar eru þær að ein af bókunum sem ég er að lesa hefur verið tilnefnd til Alþjóðlegu Man Booker verðlaunanna: æviminningar Annie Ernaux, The Years, sem þýdd er úr frönsku af Alison L. Strayer. Fyrir utan að vera skotin í eintakinu mínu, sem er gefið út af Fitzcarraldo Editions, verð ég að segja að frásögnin, skrifuð í þriðju persónu, heillar mig. Ég man ekki eftir að hafa lesið æviminningar í þriðju persónu. Bókin spannar árin 1941 til 2006 og stuðst er við „minni, minningarbrot úr fortíð og nútíð, ljósmyndir, bækur, lög, útvarp, sjónvarp, auglýsingar og fréttafyrirsagnir.“ Ég er ekki búin að lesa bókina en get hiklaust mælt með henni. Það er gefandi þegar bók sem mann hefur langað að lesa stenst ekki aðeins væntingar manns heldur fer fram úr þeim.

Magnólíutré í blóma, Antwerpen, vorið 2011 · Lísa Stefan
Magnólía í blóma, Antwerpen 2011

Við bjuggum í Antwerpen þegar ég tók þessa mynd af magnólíu í blóma. Mér þykir vænt um hana - þetta var fyrsta vorið mitt í Belgíu og ég man enn eftir þessu götuhorni - en hún birtist því miður ekki lengur á gömlu útgáfu bloggsins. Albúm sem tengist því virðist hafa gufað upp.

Aftur að textílnum: Schuyler Samperton Textiles er bandarískt merki sem lesendur bloggsins ættu að þekkja. Textílhönnuðurinn Schuyler er ein af mínum uppáhalds. Á blogginu hef ég deilt mörgum mynstrum úr vaxandi textíllínu hennar. Ég var að bíða eftir vorkomunni til að deila tveimur mynstrum sem sjást á efstu myndinni minni. Efnið Eden er efst: Í fölbleika litnum kallast það Eden/Sweet Pea, í fölgræna Eden/Meadow. Shalimar er blómamynstrið með hvíta bakgrunninum. Prufan með miðanum er Shalimar/Mist, með bláu og grænu mynstri. Shalimar/Cielo kallast það bláa. Öll þessi efni eru úr 100% líni.

Listaverk: Dora Carrington, Farm at Watendlath, 1921, Tate
Dora Carrington, Farm at Watendlath, 1921

Græna palettan sem listakonan Dora Carringon notar í verkinu Farm at Watendlath höfðar til mín þetta vor. Árið 1921 eyddi hún sumarleyfi sínu í Lake District. Það litla sem ég veit um líf hennar er fengið úr kvikmyndinni Carrington (1995), sem fjallar um samband hennar og rithöfundarins Lytton Strachey, og lýsingum í bindunum sem ég hef lesið af dagbókum Virginiu Woolf. Fyrstu kynni Woolf af Carrington voru henni ekki beint í hag, en í ágúst 1920 kveðjur við annan tón: „Carrington is ardent, robust, scatterbrained, appreciative, a very humble disciple, but with enough character to prevent insipidity“ (2. Bindi). Á íslensku má orða það að hún sé áköf, hraust, utan við sig, þakklát, mjög auðmjúkur nemandi, en með nógu mikinn karakter til að fyrirbyggja andleysi.

Ég verð hérna bráðum aftur með nýjan bókalista.

Dora Carrington listaverk af vefsíðu Tate