
Jæja, þá er haustönnin að byrja og best að deila þessum bókalista áður en verkefnaskil hefjast. Endurlestur klassískra verka einkennir listann en í byrjun sumars, þegar lítið var hægt að gera sökum heimsfaraldurs, fann ég löngun til að lesa ákveðnar bækur aftur. Ég er búin að lesa sjálfsævisögu Ednu O'Brien, Country Girl, og mæli með henni. Hún segir svo skemmtilega frá. Frásögnin kemst á flug þegar hún yfirgefur Írland og segir frá lífinu í London á 7. áratugnum; þegar hún ræðir bókmenntir og ritstörf. Ég átti oft erfitt með að leggja bókina frá mér.
Þessa dagana er
Stríð og friður á náttborðinu. Ég skil ekki fólk sem kvartar yfir lengd bókarinnar, kaflarnir eru stuttir og mig langar alltaf að lesa „bara einn til viðbótar“. Tvímælalaust ein af mínum uppáhalds. Fyrir þennan endurlestur á
Glæp og refsingu valdi ég hljóðbók, mína fyrstu. Ég virkilega naut þess að rifja upp þessa sögu með svona líka vönduðum upplestri. Þessi ánægjulega reynsla af hljóðbók varð til þess að ég hlustaði á Arnar Jónsson leikara lesa
Sjálfstætt fólk eftir Nóbelsskáldið á vef
RÚV og þá varð ekki aftur snúið. Laxness fór á listann.
Að öðru Nóbelsskáldi: Í sumar gaf elsta dóttirin mér í afmælisgjöf þessa fallegu innbundnu útgáfu af bók Márquez. Fyrir nokkrum árum ákvað ég að endurlesa verk hans
Ástin á tímum kólerunnar og fékk strax góða tilfinningu. En eftir um 150 blaðsíður missti ég áhugann. Ég hafði greinilega breyst sem lesandi og sagan höfðaði ekki lengur til mín. Ég hafði smá áhyggjur af því að það yrði eins með
Hundrað ára einsemd en svo var sem betur fer ekki.
Mig langar að minnast á bókina eftir William James (eldri bróðir Henrys). Ég vissi ekkert um hana fyrr en ég hlustaði á skemmtilegan þátt á bókahlaðvarpinu
The Backlisted Podcast. John Williams hjá
The New York Times Book Review var í spjalli hjá þeim um þessa bók, sem er röð fyrirlestra sem James hélt í Edinborgarháskóla árin 1901 og 1902. Þetta er áhugaverð bók, kannski eilítið þurr í byrjun sem lagast í þriðja kafla.
Ég vil þakka bókaútgáfunni
Routledge fyrir safnafræðibókina á listanum, sem snýst um þá hugmynd að aðgerðastefna geti verið hluti af safnastarfi. Í bókinni eru 33 greinar eftir fleiri en 50 sérfræðinga á sviði safnafræðinnar. Ritstjórarnir tveir skrifa inngang en ég hef kynnst rannsóknum þeirra beggja í gegnum námið mitt; í einum kúrsi lásum við einmitt fræðigrein úr þessari tilteknu bók.
Þessa dagana nýt ég þess annars að fylgjast með
Edinburgh International Book Festival. Þessi árlega, alþjóðlega bókmenntahátíð fer fram á netinu í ár sökum faraldursins og er öllum aðgengileg. Þvílík veisla fyrir bókaunnendur! Margar bækur hafa bæst á langar-að-lesa listann góða og ég er einkum spennt fyrir
Shuggie Bain eftir hinn skoska
Douglas Stuart. Þessi fyrsta skáldsaga hans komst á forvalslista Booker-verðlaunanna í ár. Það kemur í ljós um miðjan september hvort hún komist á lokalistann. Í upphafi hátíðarinnar spjallaði áðurnefndur John Williams við Stuart og aðra höfunda fyrir
The New York Times Book Review og nú í vikunni var annar viðburður þar sem Stuart sat einn fyrir svörum. Virkilega einlægur rithöfundur sem gaman verður að fylgjast með í framtíðinni.