№ 5 bókalisti, 4 af 7:
A Time for Everything eftir Karl Ove Knausgård
Ekkert að skrifunum en ég ákvað að klára ekki bókina einfaldlega vegna þess að ég var ekki í skapi fyrir hana. Þetta er bók um engla og hann breytir sjónarsviði biblíusagna; fer með okkur úr eyðimörkinni í norskt landslag. Einn daginn held ég kannski lestrinum áfram en fyrst myndi ég vilja lesa að nýju upprunalegu sögurnar.
White Teeth eftir Zadie Smith
Bókin sem mig langaði svo að þykja góð og mæla með. Ég hef ekki enn klárað hana. Mér líkar ritstíllinn en persónurnar vekja ekki áhuga minn. Stundum tek ég hana upp - með semingi, verður að viðurkennast - og eftir nokkrar síður gefst ég upp. Mér fannst perónusköpun hennar í bókinni
NW miklu áhugaverðari. Í þeirri bók gerir Smith tilraunir með skáldsöguformið sem er kannski ekki öllum að skapi. Ég átti svolítið erfitt með fyrsta hlutann af
NW en þegar ég kom í annan hlutann þá gat ég varla lagt hana frá mér.
Purple Hibiscus eftir Chimamanda Ngozi Adichie
Yndislegur frásagnarstíll og persónusköpun í þessu fjölskyldudrama sem stundum sjokkeraði mig - faðirinn er trúarofstækismaður sem beitir heimilisofbeldi. Fyrir viðkæma lesendur langar mig að bæta við að þarna er líka fegurð og von. Adichie hefur þann hæfileika að geta lýst skelfilegum atburði en í kjölfarið virðast fallegar setningar hennar bæði róa og græða. Þessi bók hefur ekki farið úr huga mér síðan ég kláraði hana. Adichie er auk þess í miklu uppáhaldi.
[Önnur af listanum: Avid Reader eftir Robert Gottlieb (sjá sér bloggfærslu).]
№ 6 bókalisti, 4 af 8:
The Noise of Time eftir Julian Barnes
Mér fannst fyrstu tveir hlutarnir góðir en held að þetta sé ein af þessum bókum sem ég mun gleyma. Barnes ímyndar sér líf tónskáldsins Dmitri Shostakovich á tímum Stalíns. Bókin gerði lítið fyrir mig og að lestri loknum tók ég bara upp þá næstu.
All We Shall Know eftir Donal Ryan
Ég minntist á í færslunni að mér líkaði ritstíll hans. Hlutar þessarar bókar eru svolítið myrkir; ég held að ég hafi stundum haldið niðri í mér andanum. Mér fannst persónan Mary stela senunni; hún var miklu áhugaverðari en aðalpersónan Melody. Galli bókarinnar er endirinn. Allt er mögulegt í skáldskap en sögulokin hér gengu ekki upp (get ekki sagt meira án þess að gefa þau upp). En Ryan er höfundur sem er kominn á listann minn og mig langar að lesa fyrri verk hans.
Boyhood Island: My Struggle 3 eftir Karl Ove Knausgård
Af þeim þremur
My Struggle-bókum sem ég hef lesið finnst mér þessi vera hans sísta. Styrkleikar hennar eru sú mynd sem hann málar af föðurnum sem hann hataði (skiljanlega) og samskiptum fjölskyldunnar. Veikleikarnir eru alltof margar endurteknar lýsingar á leikjum við krakka í nágrenninu og skólafélaga. Þessi bók hefði getað verið 100 síðum styttri og betri.
The Return eftir Hisham Matar
Ein af þessum bókum sem ég hlakkaði til að lesa en fyrir utan fyrstu fimm kaflanna varð ég fyrir vonbrigðum. Ritstíll þessara fyrstu fimm kafla, sem er ólíkur hinum, var mér að skapi og það var ekki fyrr en eftir lesturinn að ég vissi að þeir birtust að hluta til í grein í tímaritinu
The New Yorker, sem kallast „
The Return“, en hana skrifaði Matar árið 2013, fyrir útgáfu bókarinnar. Svo ég leyfi mér að vera alveg hreinskilin, lesið bara greinina.
Þá er þetta komið, það sem ég hef að segja um bækurnar á bókalistum ársins 2016. Í ár ætla ég að hafa annað fyrirkomulag á þessu og deila hugsunum mínum fyrr, en ég ætla samt að láta einhvern tíma líða á milli þess sem ég birti bókalista og áliti mínu á bókunum á honum.