Sýnir færslur með efnisorðinu zadie smith. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu zadie smith. Sýna allar færslur

þriðjudagur, 5. janúar 2021

№ 25 bókalisti: kvennalistinn

№ 25 bókalisti: stafli af bókum eftir konur eingöngu · Lísa Stefan


Gleðilegt ár! Ég vil byrja árið með nýjum bókalista, sönnum kvennalista. Eins og þið líklega vitið þá er Elizabeth Hardwick í miklu uppáhaldi en ritgerðasafnið Seduction and Betrayal fjallar um kvenkyns rithöfunda og konur í bókmenntum. Svo skemmtilega vill til að Joan Didion, sem á bók á listanum, skrifar innganginn að þessu safni og í því er ritgerð um Bloomsbury-hópinn og Virginu Woolf, sem er einnig á listanum.

№ 25 bókalisti:

1  Seduction and Betrayal  · Elizabeth Hardwick
2  Ninth Street Women  · Mary Gabriel
3  Approaching Eye Level  · Vivian Gornick
4  Intimations: Six Essays  · Zadie Smith
5  On Beauty  · Zadie Smith
6  The Waves  · Virginia Woolf [endurlestur]
7  Slouching Towards Bethlehem  · Joan Didion [endurlestur]

Ég verð að játa að listinn hefur verið það lengi í drögum á blogginu að ég hef þegar lesið fimm af bókunum sjö. Ég er ekki komin langt í bók Mary Gabriel - lipur titill í fullri lengd er Ninth Street Women: Lee Krasner, Elaine de Kooning, Grace Hartigan, Joan Mitchell, and Helen Frankenthaler: Five Painters and the Movement That Changed Modern Art - en get þegar mælt með henni. Ævisaga Lee Krasner eftir Gail Levin var á síðasta bókalista, № 24. Ég get einnig mælt með henni en ef ég ætti að gera upp á milli þessara tveggja þá veldi ég Ninth Street Women. Þrátt fyrir að Gabriel fjalli ekki um uppvaxtarár listakvennanna fimm þá finnst mér bók hennar skemmtilegri aflestrar. Hönnunin bókarinnar er vandaðri og myndir af listaverkum í lit. Levin vann augljóslega heimavinnuna sína um ævi Krasner en textinn verður stundum full akademískur fyrir minn smekk og flæðir þá illa. Í mínu eintaki, kilja frá William Morrow, virkar pappírinn ódýr og í því eru bara svarthvítar myndir af verkum Krasner.

Málverk eftir Lee Krasner, The Seasons, 1957, Pollock-Krasner Foundation / Whitney Museum of American Art
Lee Krasner, The Seasons, 1957

Lee Krasner listaverk, Pollock-Krasner Foundation / Whitney Museum of American Art af vefsíðu Haus der Kunst



þriðjudagur, 7. mars 2017

Ár af lestri - 2. hluti

Lestrarkompan: ár af lestri - 2. hluti · Lísa Stefan


Eigum við að taka upp þráðinn þar sem frá var horfið í færslunni Ár af lestri - 1. hluti, þar sem ég setti niður hugsanir mínar um verk sem voru á bókalistunum mínum í fyrra? Eins og ég tók fram þar þá minnist ég ekki á bækur sem ég hef þegar fjallað um og þær sem ég endurlas. Bókalistarnir fara bara eftir skapi hverju sinni og þær bækur sem enda á þeim hafa verið í lengri eða skemmri tíma á langar-að-lesa listanum mínum (sem verður sífellt lengri og lengri!). Nokkrar bækur ollu mér vonbrigðum en það mátti svo sem búast við því. Hér á eftir er álit mitt á nokkrum sem voru á № 4, 5 og 6 bókalistunum:

№ 4 bókalisti, 4 af 10:

Siddhartha eftir Hermann Hesse
Þetta klassíska rit er líklega áhugaverðara fyrir þá sem eru að taka fyrstu skrefin á andlegri braut eða þekkja ekki til búddisma og austrænnar heimspeki. Lesturinn gerði lítið fyrir mig og ég kláraði bara bókina til þess að geta hakað við hana á listanum mínum. (Fyrir þá sem vilja fræðast um búddisma mæli ég frekar með almennu riti eftir kennara í fræðunum. Til að gefa ykkur hugmyndir þá eru hérna nokkrir sem ég las á ákveðnu tímabili í lífinu: Thich Nhat Hanh, Joseph Goldstein, Jack Kornfield, Sharon Salzberg og Pema Chödrön.)

The Summer Book og A Winter Book eftir Tove Jansson
Þegar ég deildi listanum hafði ég lesið tvær sögur í þeirri síðari en var komin langt inn í þá fyrri, sem mér fannst yndisleg. Sögusafnið í The Summer Book er sterkara og sögurnar tengjast betur saman, einkum vegna sömu eftirminnilegu persónanna.

In Other Rooms, Other Wonders eftir Daniyal Mueenuddin
Leið eins og ég væri með fjársjóð í höndunum þegar ég hóf lesturinn en svo varð sögufléttan í þessum lauslega tengdu smásögum fyrirsjáanleg. Það er svo mikil spilling og óréttlæti á síðunum að ég var farin að þrá að lesa eitthvað meira upplífgandi. Ég var að vonast til að þessi bók kenndi mér meira um pakistanska menningu, og vegna allra jákvæðu dómanna sem bókin fékk bjóst ég við einhverju ríkara.

[Önnur af listanum: The Little Book of Hygge eftir Meik Wiking (sjá sér bloggfærslu).]
Lestrarkompan: ár af lestri - 2. hluti · Lísa Stefan


№ 5 bókalisti, 4 af 7:

A Time for Everything eftir Karl Ove Knausgård
Ekkert að skrifunum en ég ákvað að klára ekki bókina einfaldlega vegna þess að ég var ekki í skapi fyrir hana. Þetta er bók um engla og hann breytir sjónarsviði biblíusagna; fer með okkur úr eyðimörkinni í norskt landslag. Einn daginn held ég kannski lestrinum áfram en fyrst myndi ég vilja lesa að nýju upprunalegu sögurnar.

White Teeth eftir Zadie Smith
Bókin sem mig langaði svo að þykja góð og mæla með. Ég hef ekki enn klárað hana. Mér líkar ritstíllinn en persónurnar vekja ekki áhuga minn. Stundum tek ég hana upp - með semingi, verður að viðurkennast - og eftir nokkrar síður gefst ég upp. Mér fannst perónusköpun hennar í bókinni NW miklu áhugaverðari. Í þeirri bók gerir Smith tilraunir með skáldsöguformið sem er kannski ekki öllum að skapi. Ég átti svolítið erfitt með fyrsta hlutann af NW en þegar ég kom í annan hlutann þá gat ég varla lagt hana frá mér.

Purple Hibiscus eftir Chimamanda Ngozi Adichie
Yndislegur frásagnarstíll og persónusköpun í þessu fjölskyldudrama sem stundum sjokkeraði mig - faðirinn er trúarofstækismaður sem beitir heimilisofbeldi. Fyrir viðkæma lesendur langar mig að bæta við að þarna er líka fegurð og von. Adichie hefur þann hæfileika að geta lýst skelfilegum atburði en í kjölfarið virðast fallegar setningar hennar bæði róa og græða. Þessi bók hefur ekki farið úr huga mér síðan ég kláraði hana. Adichie er auk þess í miklu uppáhaldi.

[Önnur af listanum: Avid Reader eftir Robert Gottlieb (sjá sér bloggfærslu).]

№ 6 bókalisti, 4 af 8:

The Noise of Time eftir Julian Barnes
Mér fannst fyrstu tveir hlutarnir góðir en held að þetta sé ein af þessum bókum sem ég mun gleyma. Barnes ímyndar sér líf tónskáldsins Dmitri Shostakovich á tímum Stalíns. Bókin gerði lítið fyrir mig og að lestri loknum tók ég bara upp þá næstu.

All We Shall Know eftir Donal Ryan
Ég minntist á í færslunni að mér líkaði ritstíll hans. Hlutar þessarar bókar eru svolítið myrkir; ég held að ég hafi stundum haldið niðri í mér andanum. Mér fannst persónan Mary stela senunni; hún var miklu áhugaverðari en aðalpersónan Melody. Galli bókarinnar er endirinn. Allt er mögulegt í skáldskap en sögulokin hér gengu ekki upp (get ekki sagt meira án þess að gefa þau upp). En Ryan er höfundur sem er kominn á listann minn og mig langar að lesa fyrri verk hans.

Boyhood Island: My Struggle 3 eftir Karl Ove Knausgård
Af þeim þremur My Struggle-bókum sem ég hef lesið finnst mér þessi vera hans sísta. Styrkleikar hennar eru sú mynd sem hann málar af föðurnum sem hann hataði (skiljanlega) og samskiptum fjölskyldunnar. Veikleikarnir eru alltof margar endurteknar lýsingar á leikjum við krakka í nágrenninu og skólafélaga. Þessi bók hefði getað verið 100 síðum styttri og betri.

The Return eftir Hisham Matar
Ein af þessum bókum sem ég hlakkaði til að lesa en fyrir utan fyrstu fimm kaflanna varð ég fyrir vonbrigðum. Ritstíll þessara fyrstu fimm kafla, sem er ólíkur hinum, var mér að skapi og það var ekki fyrr en eftir lesturinn að ég vissi að þeir birtust að hluta til í grein í tímaritinu The New Yorker, sem kallast „The Return“, en hana skrifaði Matar árið 2013, fyrir útgáfu bókarinnar. Svo ég leyfi mér að vera alveg hreinskilin, lesið bara greinina.

[Önnur af listanum: The Makioka Sisters eftir Jun'ichirō Tanizaki (sjá sér bloggfærslu).]

Þá er þetta komið, það sem ég hef að segja um bækurnar á bókalistum ársins 2016. Í ár ætla ég að hafa annað fyrirkomulag á þessu og deila hugsunum mínum fyrr, en ég ætla samt að láta einhvern tíma líða á milli þess sem ég birti bókalista og áliti mínu á bókunum á honum.



föstudagur, 6. janúar 2017

Bækur og kaffi | Gleðilegt ár

Bækur og kaffi · Lísa Stefan


Gleðilegt ár! Ég vona að þið hafið slakað vel á yfir hátíðarnar og að ykkar bíði eitthvað skemmtilegt á árinu 2017. Við erum enn í hátíðargír, fyrir utan veislumatinn. Að springa úr seddu eftir gamlárskvöld stakk eitt barnanna upp á því að hafa bara epli og gulrætur á matseðli vikunnar, sem mér fannst helst til öfgafullt. Við vorum bara heima um jólin og röltum stundum í Waterstones til að fá okkur latte á kaffihúsinu þeirra. Það var nóg að skoða bara í bókabúðinni því nóg var um bækur undir jólatrénu. Muniði eftir því fyrir um mánuði síðan þegar ég minntist á að lesa aftur Little Women ef ég ætti innbundnu útgáfuna frá Penguin? Haldiði að eiginmaðurinn hafi ekki gefið mér hana í jólagjöf og tvö önnur klassísk verk. Þessar útgáfur eru svo fallegar. Ég hef ekki klárað verkin á síðasta bókalista en fór lesandi Louisu May Alcott inn í nýja árið. Þessa dagana er ég að nóta hjá mér hugmyndir fyrir þann næsta og eftir ferð okkar á bókasafnið á miðvikudaginn eru nokkrar sem bara bíða lesturs. Til að gefa ykkur vísbendingu: Á borðinu mínu sjáið þið The Golden Notebook eftir Doris Lessing. Ég deili listanum síðar.

Í desember horfði ég aðeins á sjónvarp (í meiningunni að ná nokkrum dagskrárliðum á BBC iPlayer - ég horfi ekki á sjónvarp, ég les). Maggie Smith og Alex Jennings voru frábær í myndinni The Lady in the Van (2015). Hvernig Alan Bennett hélt út fimmtán ár með Mrs Shepherd í innkeyrslunni er ofar mínum skilningi. Á BBC var sýnd heimildarmyndin Alan Bennett's Diaries (2016) eftir Adam Low sem var gaman að sjá. Ég er að hugsa um að lesa dagbækur Bennett eftir að hafa skoðað nýjasta bindið, Keeping On Keeping On, í bókabúð. Og já, ég var yfir mig hrifin af kvikmyndinni NW, í leikstjórn Saul Dibb, handritsgerð Rachel Bennette, sem er byggð á samnefndri bók eftir Zadie Smith. Ég kláraði bókina áður en ég horfði á hana og leikhópurinn var frábær, sérstaklega Nikki Amuka-Bird sem heldur betur á verðlaun skilið fyrir túlkun sína á Natalie/Keisha Blake. Hún var stórkostleg. Það eina sem olli mér vonbrigðum var að þau slepptu hinni tragísku og fyndnu Annie, úr „guest“-kaflanum um Felix, en ég skil vel út af hverju það var gert.

Jæja, tími til kominn að klára að gera fínt fyrir helgina. Fljótlega deili ég ritdómi mínum um Map Stories eftir Francisca Mattéoli, sem til stóð að gera fyrir jól, og ég er með nokkar kaffiborðsbækur í sjónmáli.



föstudagur, 21. október 2016

№ 5 bókalisti: Booktober 2016

№ 5 bókalisti: Booktober 2016 · Lísa Stefan


Dásamlegar samræður tveggja rithöfunda áttu sér stað á Lannan Literary viðburði í apríl þegar Zadie Smith og Karl Ove Knausgård deildu sviðinu. Karl Ove var mættur til að lesa upp úr Some Rain Must Fall, fimmtu My Struggle bókinni, og Zadie til að kynna hann og spyrja spurninga. Hún byrjaði á skondinni sögu: Á flugvellinum, á leið sinni til viðburðarins, heyrði hún konu segja við vinkonu sína: „Hvers konar manneskja eiginlega segir svona lagað upphátt?“ Og hún hugsaði: „Ég er að fara að hitta hann núna, ég veit nákvæmlega hver þetta er.“ („What kind of a person even says that out loud?“ . . . „I'm gonna go meet him now, I know exactly who it is.“)

Þeir sem hafa lesið sjálfsævisögulegar bækur Karl Ove þar sem hann opinberar allt brosa sennilega eða hlæja núna. Allavega voru það viðbrögð fólksins í salnum. Bók 1 er á Booktober-bókalistanum mínum og ég er svo glöð að hafa dembt mér ofan í lesturinn. Ég var ekki viss hvort My Struggle bækurnar (Min Kamp á norsku) væru fyrir mig, auk þess er ég alltaf örlítið skeptísk þegar verk verða ofurvinsæl. En það var eitthvað sem stöðugt togaði í mig og þegar ég áttaði mig á því að ég hafði meira eða minna séð annað hvert myndband á YouTube með samræðum við Karl Ove þá sagði ég við sjálfa mig, Þetta fer að verða fáranlegt, að vita svona mikið um þessar bækur og lesa þær ekki. Ég hef varla lagt bókina frá mér en ætla að geyma Bók 2 fyrir næsta lista og lesa í staðinn annað verk eftir hann. Hér er listinn, sem mun teygja sig vel inn í nóvember:

1  A Death in the Family: My Struggle 1  · Karl Ove Knausgård
2  A Time for Everything  · Karl Ove Knausgård
3  White Teeth  · Zadie Smith
4  NW  · Zadie Smith
5  Americanah  · Chimamanda Ngozi Adichie
6  Purple Hibiscus  · Chimamanda Ngozi Adichie
7  Avid Reader: A Life  · Robert Gottlieb

Ég hef lengi fylgst með Zadie Smith - hún hefur einstaka persónutöfra á bókmenntasviðinu - en aldrei lesið neitt eftir hana fyrr en núna þegar ég keypti fyrstu skáldsögu hennar, White Teeth, og fékk NW lánaða á bókasafninu (stundum snýst þetta allt um tímasetningu). Nýjasta bókin hennar, Swing Time, er að koma út og ég tek eftir Zadie-umfjöllunum í ýmsum fjölmiðlum, t.d. viðtal í T Magazine sem rithöfundurinn Jeffrey Eugenides tók. Hún prýðir forsíðu nýjasta tölublaðs The Gentlewoman, nr. 14, haust og vetur 2016. Mig langaði að kaupa það en hef ekki fundið eintak hérna í bænum. Önnur skáldkona með persónutöfra er hin nígeríska Chimamanda Ngozi Adichie. Mér fannst Half of a Yellow Sun frábær, las hana tvisar og mun líklega lesa hana aftur. Mig hefur langað að hlusta á samræður á milli Zadie og Chimamanda sem fóru fram í Schomburg-miðstöðinni í Harlem-hverfi í New York. Ég byrjaði að horfa og fannst þær frábærar saman en vildi ekki halda áfram fyrr en ég væri búin að lesa Americanah, sem ég keypti í sumar. Þegar ég hef lokið lestri þessara skáldsagna ætla ég að snúa mér að æviminningum ritstjórans Robert Gottlieb sem voru að koma út. Þegar þetta er skrifað er eintakið mitt á leiðinni með póstinum og ég get ekki beðið eftir því að fá það í hendur.

Listaverk: Georgia O'Keeffe, Black Cross with Stars and Blue, 1929
Georgia O'Keeffe, Black Cross with Stars and Blue, 1929

Í ágúst þegar við vorum í London fór ég með eldri dótturinni á Georgia O'Keeffe sýninguna í Tate Modern; ein af ástæðum ferðarinnar. Hún hafði lært um O'Keeffe í listatímum í skólanum og þetta var mín fyrsta O'Keeffe-sýning. Það var einstök upplifun að sjá mörg uppáhaldsverk með eigin augum. Eitt þeirra var Black Cross with Stars and Blue, 1929, sem glittir í á myndunum mínum:
This painting depicts a cross of the Penitente sect of Catholicism, frequently sited within the New Mexico landscape, but viewed here against the outline of Taos Mountain, a sacred site for the local Native American community. The composition thus emphasises O'Keeffe's understanding of the layering of cultural identity on the American landscape. As she described: „It was in the late light and the cross stood out – dark against the evening sky. If I turned a little to the left, away from the cross, I saw the Taos Mountain – a beautiful shape. I painted the cross against the mountain although I never saw it that way.“ (Tate, bls. 68)
Annað verk var Abstraction White Rose, 1927. Ég sver það, ég þurfti að bæla niður óp þegar ég sá það og hjartað sló hraðar þegar ég virti það fyrir mér. Sýningunni lýkur í lok október og ég hvet ykkur að fara ef þið eruð í London.

№ 5 bókalisti: Booktober 2016 · Lísa Stefan
Booktober-bókalisti í bígerð

Georgia O'Keeffe málverk af vefsíðu Studio International