Sýnir færslur með efnisorðinu vivian gornick. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu vivian gornick. Sýna allar færslur

sunnudagur, 20. júní 2021

№ 27 bókalisti: Erpenbeck, Stepanova og Roth

Á № 27 bókalistanum mínum eru verk eftir Erpenbeck og Stepanova ásamt ævisögu Philips Roth · Lísa Stefan


Í bloggfærslu í apríl lofaði ég nýjum bókalista að loknum lestri á þriðja sjálfsævisögubindi Simone de Beauvoir. Það loforð sveik ég með stæl því stuttu síðar fékk ég óvænt verkefni í hendurnar. Þrátt fyrir annir hef ég haldið uppi góðri lestrarrútínu sem hefst eldsnemma á morgnana með kaffibollanum: er búin með bók Jenny Erpenbeck, vel hálfnuð með bæði Mariu Stepanovu og ævisögu Philips Roth og byrjuð að lesa allar hinar. Hvort sem þið trúið því eða ekki þá er ég að lesa Jón Kalman í fyrsta sinn. Fyrir tveimur árum setti ég The Years eftir Annie Ernaux í uppáhaldsflokkinn en nýverið gaf ég vinkonu eintak og hreinlega varð að lesa hana aftur.

№ 27 bókalisti:

1  Philip Roth: The Biography  · Blake Bailey
2  In Memory of Memory  · Maria Stepanova
3  Not a Novel: Collected Writings and Reflections  · Jenny Erpenbeck
4  The Radetzky March  · Joseph Roth
5  Heldenplatz  · Thomas Bernhard [þýsk]
6  Himnaríki og helvíti  · Jón Kalman Stefánsson
7  The Years  · Annie Ernaux [endurlestur]

Ensk þýðing: 2) In Memory of Memory: Sasha Dugdale; 3) Not a Novel: Kurt Beals;
4) The Radetzky March: Joachim Neugroschel; 7) The Years: Alison L. Strayer

Ef þið fylgist með bókafréttum þá hafa örlög ævisögunnar um Philip Roth varla farið fram hjá ykkur, bók sem margir biðu spenntir eftir. Í kjölfar ásakana um kynferðislega misnotkun gegn höfundinum Bailey, stöðvaði útgefandinn, W. W Norton & Company, dreifingu bókarinnar og tók hana endanlega af markaði (Bailey, sem hefur ekki verið fundinn sekur fyrir dómstólum, hefur þegar fundið nýjan útgefanda). Ég pantaði bókina fyrirfram, löngu áður en þessar fréttir bárust, og held að ég hefði keypt hana þrátt fyrir allt þar sem ég get alveg aðskilið listina frá listamanninum. Heimildaöflun er viðamikil og bókin vel skrifuð (Roth valdi Bailey sérstaklega til verksins) en ég viðurkenni að stundum kemur upp í hugann Af hverju þarf ég að vita þetta? þegar fjallað er um kynlíf Roths í smáatriðum.

Not a Novel var mín fyrsta bók eftir Erpenbeck, sem er einn af stóru rithöfundunum í Þýskalandi í dag. Þetta er ensk þýðing á óskálduðu efni eftir hana en gallinn er sá að þýðingin inniheldur einungis brot af upprunalega verkinu, Kein Roman, sem er helmingi lengra. Ég naut lestursins en stundum fannst mér efni endurtekið og í lokin upplifði ég eins konar gjá; þessi styttri útgáfa náði ekki að koma heilsteyptu verki til skila. Ég hef ég ekki lesið bókina á frummálinu en bæti úr því þegar þýskan er orðin betri.

Kápan á Philip Roth: The Biography eftir Blake Bailey (W. W. Norton) · Lísa Stefan
Kápa bókarinnar Philip Roth: The Biography eftir hinn núna-alræmda Blake Bailey

Rúm fimm ár eru liðin síðan ég deildi fyrsta bókalistanum og þar sem ég vel bækurnar vandlega þá hafa bara nokkrar valdið vonbrigðum. Á síðasta lista var safn stuttra ritgerða eftir Vivian Gornick sem ég get ekki mælt með: Unfinished Business: Notes of a Chronic Re-reader. Inngangurinn höfðaði vel til mín, og jók líklega væntingar mínar, en þegar ég las áfram þá varð það deginum ljósara að ég og Gornick erum mjög ólíkir lesendur: hún einblínir mjög á persónusköpun og virðist mjög upptekin af misheppnuðum ástarsamböndum í skáldskap. Þessi nálgun reyndi á þolinmæði mína. Í ritgerðunum opinberaðist ákveðin þversögn því Gornick er virkur femínisti og tónn skrifanna gaf mér ekki mynd af sterkri konu. Mér líkaði ein ritgerð um ítölsku skáldkonuna Nataliu Ginzburg, sem er enn á langar-að-lesa listanum mínum. Á þeim lista eru enn nokkur verk eftir Gornick en í sannleika sagt finn ég núna litla löngun til að forgangsraða þeim.

Peoníur og bókabunki á skrifborðinu mínu · Lísa Stefan


Lokunum í Austurríki vegna COVID-19 hefur loksins verið aflétt eftir stöðugar framlenginar frá síðasta hausti. Við erum enn skyldug til að nota FFP2-grímur og búum enn við takmarkanir, t.d. þarf vottorð um neikvæða skimun eða bólusetningu til að fara á kaffihús og veitingastaði. Nýverið fór ég í fyrstu bólusetninguna og fer í þá næstu eftir nokkrar vikur og mun þá loksins geta fengið mér latte hvenær sem er. Ég bið ekki um meira. Þangað til heldur lífið áfram að vera frekar lokunarlegt, eða lockdowny eins og ég kalla það á ensku.



mánudagur, 15. mars 2021

№ 26 bókalisti: Beauvoir, Handke og Lowell

№ 26 bókalisti: Í bunkanum eru verk eftir m.a. Beauvoir, Handke og Lowell · Lísa Stefan


Byrjum á játningu bókaunnandans: Ég á það til að ganga í gegnum tímabil þar sem ég les of margar bækur í einu, sem líklega má flokka sem eins konar fíkn. Kannski eru svona tímabil bland af eirðarleysi og flótta. Kófið hefur náttúrlega verið hin fullkomna afsökun enda allt meira og minna lokað hér frá síðasta hausti. En nú er vorið að koma í Austurríki - vonandi bóluefnið líka - og tími til kominn að hreinsa til, að fækka bókabunkunum sem voru orðnir full háir. Það gengur vel. Ég hef þegar lesið flestar bækurnar á þessum nýja bókalista, sem til stóð að deila í febrúar. Í bunkanum er aðeins ein bók sem ég hef verið að spara: þriðja bindið af sjálfsævisögu Simone de Beauvoir. Ég setti það sem skilyrði að klára vissar bækur áður en ég mælti mér mót við hana aftur, í þetta sinn í Frakklandi eftirstríðsáranna. Bókin spannar tímabilið 1945 til 1963 og í henni má m.a. fylgjast með Beauvoir skrifa feminíska ritið Le Deuxième Sexe (Hitt kynið) og skáldsöguna Les Mandarins.

№ 26 bókalisti:

1  Suppose a Sentence  · Brian Dillon
2  Unfinished Business: Notes of a Chronic Re-reader  · Vivian Gornick
3  Force of Circumstance  · Simone de Beauvoir
4  Wunschloses Unglück  · Peter Handke [þýsk]
5  Mutter Courage und ihre Kinder  · Bertolt Brecht [þýsk]
6  The Rings of Saturn  · W.G. Sebald
7  Three Rings: A Tale of Exile, Narrative, and Fate  · Daniel Mendelsohn
8  Life Studies  · Robert Lowell
9  Letters Summer 1926  · Boris Pasternak, Marina Tsvetayeva and Rainer
Maria Rilke

Ensk þýðing: 3) Force of Circumstance: Richard Howard

Á listanum er meistaraverkið Mutter Courage und ihre Kinder eftir þýska leikskáldið Bertolt Brecht, sem ég lofaði að setja á lista. Stundum á ég það til að gleyma mér á timarit.is, sem ég álít nauðsynlegan vettvang fyrir grúskara og bókaunnendur í útlöndum sem hafa ekki aðgang að íslenskum bókasöfnum. Þar fann ég m.a. gamla gagnrýni um Mutter Courage og börnin hennar sem birtist í Morgunblaðinu. Þessari jólasýningu Þjóðleikhússins árið 1965 gaf Sigurður A. Magnússon gagnrýnandi eins konar falleinkunn sem skrifa má á leikstjórann.

Það er óhugsandi að hafa austurríska rithöfundinn Peter Handke á lista án þess að segja um hann nokkur orð. Hann hlaut Nóbelsverðlaunin árið 2019 sem þótti umdeild ákvörðun. Ferill hans hefst á sjöunda áratugnum en Handke verður skyndilega umdeildur á þeim tíunda þegar skrif hans um átökin í fyrrum Júgóslavíu fóru að birtast. Óhikandi deildi hann á umfjöllun fjölmiðla um stríðið á Balkanskaganum, á tungumálið sem þeir beittu. Útslagið gerði grein sem birtist í dagblaðinu Süddeutsche Zeitung árið 1996, ferðasaga Handke um Serbíu með „ögrandi fyrirsögn“ sem ritstjórn blaðsins samdi (sjá grein Jón Bjarna Atlasonar í Lesbókinni).

Það hjálpaði ekki málstað Handke þegar hann heimsótti forsetann Slobodan Milosevic í fangelsi þegar alþjóðlegi stríðsglæpadómstóllinn í Den Haag réttaði yfir honum, hvað þá þegar hann var viðstaddur útför hans í Serbíu árið 2006 og hélt þar tölu. En margir halda því fram að það sé ekkert í skrifum Handke sem réttlæti aðförina að rithöfundinum og því má álykta að jafnvel þeir sem hafa verið hvað háværastir hafi í raun ekki lesið verkin hans.

Nóbelsverðlaunahafinn, austurríkski rithöfundurinn Peter Handke · ljósmyndari: A. Mahmoud
Ljóðskáldið Robert Lowell

Austurríski rithöfundurinn og Nóbelsverðlaunahafinn Peter Handke (t.v.)
og bandaríska ljóðskáldið Robert Lowell (t.h.)

Bók Handke á listanum, Wunschloses Unglück, kom út árið 1972, en hana skrifaði hann stuttu eftir að móðir hans framdi sjálfsmorð. Þetta vel skrifaða verk kom út í íslenskri þýðingu, Óskabarn ógæfunnar, eftir Árni Óskarsson. Frá sama þýðanda er önnur bók eftir Handke væntanleg, sem hann í viðtali (sjá neðar) kallaði Hið stutta bréf og hin langa kveðja (Der kurze Brief zum langen Abschied). Hún mun rata á bókalista fljótlega þar sem ég hef þegar nælt mér í eintak á þýsku. Önnur bók fáanleg á íslensku er Ótti markmannsins við vítaspyrnu sem er gömul þýðing eftir Franz Gíslason.

Fyrir þá sem hafa áhuga á því að kynna sér skrif Handke get ég eindregið mælt með þessum þremur umfjöllunum á RÚV:
1) Saga um aðferð við að skrifa ævisögu þar sem rætt er við Árna Óskarsson, þýðanda Óskabarns ógæfunnar
2) Deilur um Handke - gömul saga og ný þar sem rætt er við Kristján B. Jónasson, bókmenntafræðing og útgefanda
3) Skáldið og hinn svokallaði heimur þar sem fyrrnefndur Kristján fjallar ítarlega um skrif Handke

Þess er svo vert að geta að í samstarfi við þýska leikstjórann Wim Wenders skrifaði Handke handritið að kvikmyndinni Himinninn yfir Berlín (Der Himmel über Berlin) frá árinu 1987, m.a. ljóðið Lied vom Kindsein sem Bruno Ganz fer með í upphafi hennar.

Ljóð rata ekki oft á bókalistana mína en í jólapakka frá íslenskri vinkonu leyndist Faber & Faber útgáfa af ljóðasafninu Life Studies eftir Robert Lowell. Safnið kom fyrst út árið 1959 og geymir játningakennd ljóð, eins og Skunk Hour (tileinkað ljóðskáldinu Elizabeth Bishop) og Waking in the Blue, og æviminningaprósann 91 Revere Street. Þetta verðlaunaða tímamótaverk mun ég lesa aftur og aftur.

mynd af Peter Handke · A. Mahmoud af vefsíðu The Nobel Prize; Robert Lowell af Put This On



þriðjudagur, 5. janúar 2021

№ 25 bókalisti: kvennalistinn

№ 25 bókalisti: stafli af bókum eftir konur eingöngu · Lísa Stefan


Gleðilegt ár! Ég vil byrja árið með nýjum bókalista, sönnum kvennalista. Eins og þið líklega vitið þá er Elizabeth Hardwick í miklu uppáhaldi en ritgerðasafnið Seduction and Betrayal fjallar um kvenkyns rithöfunda og konur í bókmenntum. Svo skemmtilega vill til að Joan Didion, sem á bók á listanum, skrifar innganginn að þessu safni og í því er ritgerð um Bloomsbury-hópinn og Virginu Woolf, sem er einnig á listanum.

№ 25 bókalisti:

1  Seduction and Betrayal  · Elizabeth Hardwick
2  Ninth Street Women  · Mary Gabriel
3  Approaching Eye Level  · Vivian Gornick
4  Intimations: Six Essays  · Zadie Smith
5  On Beauty  · Zadie Smith
6  The Waves  · Virginia Woolf [endurlestur]
7  Slouching Towards Bethlehem  · Joan Didion [endurlestur]

Ég verð að játa að listinn hefur verið það lengi í drögum á blogginu að ég hef þegar lesið fimm af bókunum sjö. Ég er ekki komin langt í bók Mary Gabriel - lipur titill í fullri lengd er Ninth Street Women: Lee Krasner, Elaine de Kooning, Grace Hartigan, Joan Mitchell, and Helen Frankenthaler: Five Painters and the Movement That Changed Modern Art - en get þegar mælt með henni. Ævisaga Lee Krasner eftir Gail Levin var á síðasta bókalista, № 24. Ég get einnig mælt með henni en ef ég ætti að gera upp á milli þessara tveggja þá veldi ég Ninth Street Women. Þrátt fyrir að Gabriel fjalli ekki um uppvaxtarár listakvennanna fimm þá finnst mér bók hennar skemmtilegri aflestrar. Hönnunin bókarinnar er vandaðri og myndir af listaverkum í lit. Levin vann augljóslega heimavinnuna sína um ævi Krasner en textinn verður stundum full akademískur fyrir minn smekk og flæðir þá illa. Í mínu eintaki, kilja frá William Morrow, virkar pappírinn ódýr og í því eru bara svarthvítar myndir af verkum Krasner.

Málverk eftir Lee Krasner, The Seasons, 1957, Pollock-Krasner Foundation / Whitney Museum of American Art
Lee Krasner, The Seasons, 1957

Lee Krasner listaverk, Pollock-Krasner Foundation / Whitney Museum of American Art af vefsíðu Haus der Kunst



fimmtudagur, 17. desember 2020

Lestrarkompan: Mendelsohn og Gornick

Three Rings eftir Daniel Mendelsohn, úr lestrarkompunni · Lísa Stefan


Ég er komin í jólafrí og þessa dagana fylgir mér vænn bunki af bókum. Ekki að ég þurfi að bera þær langar leiðir því hér í Austurríki er allt lokað vegna kófsins. Sumar voru á síðasta bókalista, sem ég á eftir að klára, aðrar eru nýjar sem munu rata á næstu tvo lista. Á mánudaginn barst í hús Three Rings: A Tale of Exile, Narrative, and Fate eftir Daniel Mendelsohn, sem er rithöfundur, gagnrýnandi og prófessor í klassískum fræðum. Bókin átti að fara undir tréð í ár, jólagjöf frá mér til mín, en ég gat ekki lagt hana frá mér þegar ég byrjaði að lesa hana í kaffipásu. Hún er stutt og inniheldur þrjár ritgerðir sem eru áhugaverð blanda af ævisögulegum skrifum, sögu og bókmenntarýni, sem tengjast höfundunum Erich Auerbach, François Fénelon og W. G. Sebald. Ef þið hafið gaman af bókum um bækur þá gæti þessi höfðað til ykkar.

Önnur bók í bunkanum er ritgerðasafn eftir Vivian Gornick, Approaching Eye Level. Mín fyrsta bók eftir hana og ekki sú síðasta. Hún rennur vel niður með kaffi og biscotti eins og ég spáði fyrir í síðustu bloggfærslu.
Vivian Gornick & kaffi; úr lestrarkompunni · Lísa Stefan


Í Lestrarkompunni hef ég fjallað um bækur af tilteknum bókalista en fann fyrir einhverju síðan að mig langaði að breyta til, að hafa hana tilviljanakenndari og í takt við líðandi stund. Mig vantaði líka færsluflokk til að halda til haga bókatengdum krækjum. Ég nefndi það einu sinni að það hefði aldrei verið hugmyndin að tjá mig um allar bækurnar á bókalistunum. Ég er vandlát á bækur og verð sjaldan fyrir vonbrigðum með þær sem rata á þá. Stundum þegar ég er mjög ánægð með bók þá langar mig bara að skrifa, Þetta er frábær bók, og ekkert meir. En það kallar varla á færslu; þá henta Instagram eða Twitter betur.
Bækur & kaffi; úr lestrarkompunni · Lísa Stefan


Bókamerki & kompuskrif

Nýlega keypti ég:
  Suppose a Sentence eftir Brian Dillon
  The Rings of Saturn eftir W. G. Sebald

... bætti á óskalistann:
  The Krull House eftir Georges Simenon

... forgangsraðaði á langar-að-lesa listunum:
  skáldskapur: Oresteia: Agamemnon. Libation-Bearers. Eumenides eftir Æskílos
  óskáldað efni: Trieste eftir Jan Morris

Bókakæti:
  Þegar Margaret Busby, formaður dómnefndar Booker-verðlaunanna árið 2020, tilkynnti að skáldsagan Shuggie Bain hefði unnið og höfundur hennar Douglas Stuart þakkaði fyrir sig á tilfinningaríkan hátt. Ég rak upp gleðiöskur þegar hann vann þrátt fyrir að hafa ekki lesið þessa frumraun hans. Ég vonaði að hann myndi vinna en var hrædd um að það ynni gegn honum að vera hvítur karlmaður.

Hljóðvarpsþættir sem ég mæli með:
  Aftur að Shuggie Bain: Sam Leith, ritstjóri bókaumfjöllunar hjá The Spectator, talaði nýlega við höfundinn Douglas Stuart á hlaðvarpinu þeirra, The Book Club.
  Og hér talar Leith við Natalie Haynes um konur í grískri goðafræði.
  Í samræðum við Eleanor Wachtel hjá Writers & Company, talaði Martin Amis um bókmenntir, ástir og missi. Virkilega einlægur og hreinskilinn Amis.
  Ég kættist þegar ég sá að Stig Abell, fyrrverandi ritstjóri TLS, var kominn með með nýtt hlaðvarp sem kallast Stig Abell's Guide to Reading. (TLS-hlaðvarpið er ekki hið sama án hans.) Nýja hlaðvarpið tengist nýútgefinni bók hans, Things I Learned on the 6.28: A Guide to Daily Reading. Þessir tveir þættir eru mínir uppáhalds hingað til: Modern Literary Fiction með Kit de Waal og English Classics með Sam Leith, áðurnefndum ritstjóra.



laugardagur, 3. október 2020

Approaching Eye Level · Vivian Gornick

Bókarkápa: Approaching Eye Level eftir Vivian Gornick (Daunt Books)


Ritgerðasafnið Approaching Eye Level eftir Vivian Gornick kom fyrst út árið 1996 en þessi tiltekna útgáfa er bresk, gefin út af Daunt Books í ágúst á þessu ári. Gornick er einn af þessum höfundum sem ég hef fylgst með lengi en aldrei lesið. Einn daginn hyggst ég bæta úr því og sé þegar fyrir mér vænan bunka af bókum hennar sem ratað hafa á óskalistann: Unfinished Business: Notes of a Chronic Re-Reader kom út í fyrra og fjallar um endurlestur bóka, ritgerðasafnið The End of the Novel of Love og tvær endurminningarnar, Fierce Attachments og The Odd Woman and the City. Latte, biscotti og Gornick ... það hlýtur að vera góð blanda.

Approaching Eye Level
Höf. Vivian Gornick
Kiljubrot, 176 blaðsíður
ISBN: 9781911547648
Daunt Books