Sýnir færslur með efnisorðinu bókaverðlaun. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu bókaverðlaun. Sýna allar færslur

mánudagur, 9. janúar 2023

№ 34 bókalisti: Annie Ernaux og Guðrún Eva

Á № 34 bókalistanum: A Man's Place (Staðurinn) eftir Annie Ernaux · Lísa Hjalt


Gleðilegt ár! Ég ákvað að byrja bloggárið á nýjum bókalista sem verður líka sá síðasti í þessu formi. Ég er að hugsa um að hvíla listana alveg eða breyta þeim síðar í samantektarlista þannig að ég geti gert meira af því að mæla með bókum sem ég hef lesið. Hluti af mér mun sakna þessa forms því mér finnst það agandi að hafa hugmynd um hvað ég ætla mér að lesa nokkrar vikur fram í tímann. En stundum gerist það að ég eignast nýja bók sem mig langar að lesa strax en finnst sem ég þurfi að klára fyrst þær sem eru á bókalista hverju sinni - lúxusvandamál, ég veit. Önnur ástæða fyrir breytingunni er sú að mig langar að lesa meira á þýsku til að ná betri tökum á málinu.

№ 34 bókalisti:

1  A Man's Place  · Annie Ernaux
2  Útsýni  · Guðrún Eva Mínervudóttir
3  Of Time and the River  · Thomas Wolfe
4  Letters of Leonard Woolf  · ritstj. Frederic Spotts
5  Dichter im Café  · Hermann Kesten [þýsk]

Ensk þýðing: 1) A Man's Place: Tanya Leslie

Franski rithöfundurinn Annie Ernaux hlaut Nóbelsverðlaunin í fyrra. Bók hennar á listanum, La Place á frönsku, fjallar um samband hennar við lítt menntaðan föður sinn og um þá fjarlægð sem smám saman myndast milli þeirra því meira sem hún fetar menntaveginn og verður hluti af millistétt. Áherslan sem hann lagði á tungumálið kemur mikið við sögu: Hún lýsir m.a. atviki þar sem hann þarf að fá lögfræðing til að votta undirskrift sína á pappíra. Þegar hann áttar sig á því hann hefur misritað eitt smávægilegt orðalag við undirritunina þá upplifir hann gríðarlega mikla skömm, sem er ekkert í takt við tilefnið. Í þessari stuttu bók, rétt um 100 síður, staldrar Ernaux stundum við til að segja nokkur orð um skrifin sjálf eða deila hugsunum sínum í tengslum við ákveðna minningu. Staðurinn, í þýðingu Rutar Ingólfsdóttir, kom út hjá Uglu í fyrra. Þetta er fyrsta bók Ernaux sem gefin hefur verið út á Íslandi sem mun án efa breytast eftir Nóbelinn. Fyrir óþreyjufulla þá hefur breska útgáfan Fitzcarraldo Editions sent frá sér 8 verk hennar á ensku nú þegar.

Kaffistund og bókalestur (№ 34 bókalisti) · Lísa Hjalt
Kaffistund og bókalestur í desember

Ég féll fyrir Annie Ernaux þegar ég las The Years (№ 20) í fyrsta sinn, eins konar æviminningar sem fanga tíðarandann einstaklega vel og eru merkilegar vegna þess að hún notar aldrei persónufornafnið ég. Ég keypti í haust þýsku þýðinguna, Die Jahre, til að lesa verkið enn og aftur með þá ensku til hliðsjónar. Ég hef einnig lesið I Remain in Darkness sem fjallar um móður hennar og Alzheimer-sjúkdóminn. Að lesa þá bók var stundum eins og að vera kýldur í magann - hrá og afhjúpandi skrif.

Ef þið viljið kynna ykkur Ernaux þá má finna fínar umfjallanir á RÚV. Ég man einkum eftir að hafa hlustað á Lestina í október þar sem Torfi Tuliníus prófessor benti á aðdáun hennar á franska félagsfræðingnum Pierre Bourdieu. Kenningum Bourdieu kynntist ég fyrst í safnafræðináminu og hef hann núna á bak við eyrað þegar ég les texta hennar. Eftir tilkynninguna um Nóbelsverðlaunin var mjög áhugaverð umfjöllun um skrif Ernaux í TLS-bókahlaðvarpsþætti (mín. 27:40) þar sem rithöfundurinn Lauren Elkin var gestur. Þar kom Bourdieu einnig við sögu.

Á № 34 bókalistanum: Útsýni eftir Guðrúnu Eva Mínervudóttur · Lísa Hjalt
Lestarstund í janúar: Útsýni, nýjasta skáldsaga Guðrún Evu Mínervudóttur

Á þessum síðasta lista er ánægjulegt að geta haft nýtt íslenskt verk. Það gerist ekki oft. Kær vinkona sendir mér af og til bækur frá Íslandi og hún valdi Útsýni Guðrúnar Evu Mínervudóttur handa mér í jólagjöf. Ég hafði séð Kolbrúnu og Þorgeir hrósa bókinni Kiljunni og hugsaði með mér að hún gæti höfðað til mín. Ég er rúmlega hálfnuð og verð að viðurkenna að ég tengi ekki enn við 4-stjörnu límmiðann á eintakinu mínu sem segir syngur í eyrum lesanda. Þegar ég er komin þetta langt inn í bók án þess að finna nokkra tengingu við persónur þá veit það ekki á gott. Ég hef annars sagt það áður að ég og samtímaverk eigum yfirleitt litla samleið; ég er mjög vandlát þannig að það er ekkert að marka mína skoðun á þessu verki. Guðrún Eva gerir margt vel en svo er annað í stílnum sem höfðar ekki til mín.

Kannski segir það eitthvað um mig sem lesanda að geta endurlesið æviminningar Sigga Páls út í hið óendanlega en að hafa látið það nægja að lesa skáldsögu hans Parísarhjólið einu sinni. Ég get svo bætt því við til frekari útskýringar að svo til allar bækur á óskalistanum mínum eru rit almenns eðlis, bréf, esseyjur og æviminningar, ekki skáldsögur.



miðvikudagur, 14. apríl 2021

Lestrarkompan: Simone de Beauvoir

Kápan af Force of Circumstance eftir Simone de Beauvoir, 3. bindi sjálfsævisögu hennar · Lísa Stefan


Ég er hálfnuð með Force of Circumstance, 3. bindið af sjálfsævisögu Simone de Beauvoir (№ 26). Hugmyndin var að klára það áður en ég deili nýjum bókalista. Lífshlaup Beauvoir er áhugavert en þetta bindi er ekki gallalaust: Stundum er hún of upptekin við að gera upp málin og oft er það sem Jean-Paul Sartre sé aðalpersónan. Augljóslega var líf þeirra samfléttað en ég hef áhuga á sögu hennar, á skrifum hennar, ekki fléttu í leikritum Sartre eða innihaldi pólitískra greina hans í Les Temps Modernes. Talandi um stjórnmál. Bókin er full af þeim, stundum á þeim mörkum að verða leiðinleg eða þreytandi. Fer eftir skapi mínu. Á jákvæðum nótum þá ferðast Beauvoir um heiminn og hefur skarpt auga fyrir fólki og landslagi. Þær frásagnir, bækur hennar og viðtökur þeirra gerir bindið lestursins virði, hingað til.

Bókamerki & kompuskrif

Nýlega keypti ég:
  Philip Roth: The Biography eftir Blake Bailey
  The Radetzky March eftir Joseph Roth

... bætti á óskalistann:
  A Splendid Intelligence: The Life of Elizabeth Hardwick eftir Cathy Curtis

... bætti á langar-að-lesa listann:
  Hannah Arendt eftir Samantha Rose Hill
  This Little Art eftir Kate Briggs
  Endpapers: A Family Story of Books, War, Escape and Home eftir Alexander Wolff

... langar að lesa aftur:
  The Master and Margarita eftir Mikhail Bulgakov

Bókakæti:
  Nýlega var forvalslisti Alþjóðlegu Booker-verðlaunanna árið 2021 kynntur, en á honum eru höfundar og þýðendur 13 bóka sem eru gefnar út í Bretlandi eða Írlandi. Ég hef enga þeirra lesið en var glöð að sjá þeirra á meðal In Memory of Memory eftir rússnesku skáldkonuna Mariu Stepanova. Þýðandi hennar er Sasha Dugdale. Það vill svo til að í nýlegri bloggfærslu deildi ég amerísku bókarkápunni. Síðar í apríl kemur í ljós hvaða bækur komast á lokalistann og í júní hver hlýtur verðlaunin.

Hlaðvarpsþáttur sem ég mæli með:
  Þar síðasti þátturinn á Backlisted-hlaðvarpinu var frábær. Til umfjöllunar var Halldór Laxness og skáldsaga hans Brekkukotsannáll (enska þýðingin The Fish Can Sing) sem kom út 1957, tveimur árum eftir að hann hlaut Nóbelsverðlaunin. Gestur þáttarins í þetta sinn var breski rithöfundurinn og ljóðskáldið Derek Owusu. Fyrir þá sem hafa áhuga á má hlusta á Laxness sjálfan lesa skáldsöguna á RÚV.



fimmtudagur, 17. desember 2020

Lestrarkompan: Mendelsohn og Gornick

Three Rings eftir Daniel Mendelsohn, úr lestrarkompunni · Lísa Stefan


Ég er komin í jólafrí og þessa dagana fylgir mér vænn bunki af bókum. Ekki að ég þurfi að bera þær langar leiðir því hér í Austurríki er allt lokað vegna kófsins. Sumar voru á síðasta bókalista, sem ég á eftir að klára, aðrar eru nýjar sem munu rata á næstu tvo lista. Á mánudaginn barst í hús Three Rings: A Tale of Exile, Narrative, and Fate eftir Daniel Mendelsohn, sem er rithöfundur, gagnrýnandi og prófessor í klassískum fræðum. Bókin átti að fara undir tréð í ár, jólagjöf frá mér til mín, en ég gat ekki lagt hana frá mér þegar ég byrjaði að lesa hana í kaffipásu. Hún er stutt og inniheldur þrjár ritgerðir sem eru áhugaverð blanda af ævisögulegum skrifum, sögu og bókmenntarýni, sem tengjast höfundunum Erich Auerbach, François Fénelon og W. G. Sebald. Ef þið hafið gaman af bókum um bækur þá gæti þessi höfðað til ykkar.

Önnur bók í bunkanum er ritgerðasafn eftir Vivian Gornick, Approaching Eye Level. Mín fyrsta bók eftir hana og ekki sú síðasta. Hún rennur vel niður með kaffi og biscotti eins og ég spáði fyrir í síðustu bloggfærslu.
Vivian Gornick & kaffi; úr lestrarkompunni · Lísa Stefan


Í Lestrarkompunni hef ég fjallað um bækur af tilteknum bókalista en fann fyrir einhverju síðan að mig langaði að breyta til, að hafa hana tilviljanakenndari og í takt við líðandi stund. Mig vantaði líka færsluflokk til að halda til haga bókatengdum krækjum. Ég nefndi það einu sinni að það hefði aldrei verið hugmyndin að tjá mig um allar bækurnar á bókalistunum. Ég er vandlát á bækur og verð sjaldan fyrir vonbrigðum með þær sem rata á þá. Stundum þegar ég er mjög ánægð með bók þá langar mig bara að skrifa, Þetta er frábær bók, og ekkert meir. En það kallar varla á færslu; þá henta Instagram eða Twitter betur.
Bækur & kaffi; úr lestrarkompunni · Lísa Stefan


Bókamerki & kompuskrif

Nýlega keypti ég:
  Suppose a Sentence eftir Brian Dillon
  The Rings of Saturn eftir W. G. Sebald

... bætti á óskalistann:
  The Krull House eftir Georges Simenon

... forgangsraðaði á langar-að-lesa listunum:
  skáldskapur: Oresteia: Agamemnon. Libation-Bearers. Eumenides eftir Æskílos
  óskáldað efni: Trieste eftir Jan Morris

Bókakæti:
  Þegar Margaret Busby, formaður dómnefndar Booker-verðlaunanna árið 2020, tilkynnti að skáldsagan Shuggie Bain hefði unnið og höfundur hennar Douglas Stuart þakkaði fyrir sig á tilfinningaríkan hátt. Ég rak upp gleðiöskur þegar hann vann þrátt fyrir að hafa ekki lesið þessa frumraun hans. Ég vonaði að hann myndi vinna en var hrædd um að það ynni gegn honum að vera hvítur karlmaður.

Hljóðvarpsþættir sem ég mæli með:
  Aftur að Shuggie Bain: Sam Leith, ritstjóri bókaumfjöllunar hjá The Spectator, talaði nýlega við höfundinn Douglas Stuart á hlaðvarpinu þeirra, The Book Club.
  Og hér talar Leith við Natalie Haynes um konur í grískri goðafræði.
  Í samræðum við Eleanor Wachtel hjá Writers & Company, talaði Martin Amis um bókmenntir, ástir og missi. Virkilega einlægur og hreinskilinn Amis.
  Ég kættist þegar ég sá að Stig Abell, fyrrverandi ritstjóri TLS, var kominn með með nýtt hlaðvarp sem kallast Stig Abell's Guide to Reading. (TLS-hlaðvarpið er ekki hið sama án hans.) Nýja hlaðvarpið tengist nýútgefinni bók hans, Things I Learned on the 6.28: A Guide to Daily Reading. Þessir tveir þættir eru mínir uppáhalds hingað til: Modern Literary Fiction með Kit de Waal og English Classics með Sam Leith, áðurnefndum ritstjóra.



laugardagur, 13. apríl 2019

Vorstemningin

Vorstemning, textíll · Lísa Stefan


Í fullkomnum heimi. Nei, við skulum segja betri, fullkomnun er leiðinleg. Í betri heimi sit ég í baststól á veröndinni og finn varma sólarinnar í gegnum markísuna. Á borðinu hvílir bókastafli, við hlið kaffibollans og pressukönnunnar eru minnisbækur. Stuðningurinn við bakið er þykkur, mjúkur púði með ábreiðu gerðri úr einum af mynstraða textílnum sem sést á myndinni hér að ofan, sem ég kalla: Vorstemningin mín með Annie Ernaux og Schuyler Samperton Textiles.

Raunveruleikinn er sá að ég sit innandyra. Sú harða birta sem einkennir byrjun vorsins er enn til staðar og þó að brum hafi blómgast hafa sólríku dagarnir, sem lofuðu almennilegu vori, orðið kaldari (í dag kom haglél). Að bíða eftir vorinu er ekki mín sterkasta hlið. Góðu fréttirnar eru þær að ein af bókunum sem ég er að lesa hefur verið tilnefnd til Alþjóðlegu Man Booker verðlaunanna: æviminningar Annie Ernaux, The Years, sem þýdd er úr frönsku af Alison L. Strayer. Fyrir utan að vera skotin í eintakinu mínu, sem er gefið út af Fitzcarraldo Editions, verð ég að segja að frásögnin, skrifuð í þriðju persónu, heillar mig. Ég man ekki eftir að hafa lesið æviminningar í þriðju persónu. Bókin spannar árin 1941 til 2006 og stuðst er við „minni, minningarbrot úr fortíð og nútíð, ljósmyndir, bækur, lög, útvarp, sjónvarp, auglýsingar og fréttafyrirsagnir.“ Ég er ekki búin að lesa bókina en get hiklaust mælt með henni. Það er gefandi þegar bók sem mann hefur langað að lesa stenst ekki aðeins væntingar manns heldur fer fram úr þeim.

Magnólíutré í blóma, Antwerpen, vorið 2011 · Lísa Stefan
Magnólía í blóma, Antwerpen 2011

Við bjuggum í Antwerpen þegar ég tók þessa mynd af magnólíu í blóma. Mér þykir vænt um hana - þetta var fyrsta vorið mitt í Belgíu og ég man enn eftir þessu götuhorni - en hún birtist því miður ekki lengur á gömlu útgáfu bloggsins. Albúm sem tengist því virðist hafa gufað upp.

Aftur að textílnum: Schuyler Samperton Textiles er bandarískt merki sem lesendur bloggsins ættu að þekkja. Textílhönnuðurinn Schuyler er ein af mínum uppáhalds. Á blogginu hef ég deilt mörgum mynstrum úr vaxandi textíllínu hennar. Ég var að bíða eftir vorkomunni til að deila tveimur mynstrum sem sjást á efstu myndinni minni. Efnið Eden er efst: Í fölbleika litnum kallast það Eden/Sweet Pea, í fölgræna Eden/Meadow. Shalimar er blómamynstrið með hvíta bakgrunninum. Prufan með miðanum er Shalimar/Mist, með bláu og grænu mynstri. Shalimar/Cielo kallast það bláa. Öll þessi efni eru úr 100% líni.

Listaverk: Dora Carrington, Farm at Watendlath, 1921, Tate
Dora Carrington, Farm at Watendlath, 1921

Græna palettan sem listakonan Dora Carringon notar í verkinu Farm at Watendlath höfðar til mín þetta vor. Árið 1921 eyddi hún sumarleyfi sínu í Lake District. Það litla sem ég veit um líf hennar er fengið úr kvikmyndinni Carrington (1995), sem fjallar um samband hennar og rithöfundarins Lytton Strachey, og lýsingum í bindunum sem ég hef lesið af dagbókum Virginiu Woolf. Fyrstu kynni Woolf af Carrington voru henni ekki beint í hag, en í ágúst 1920 kveðjur við annan tón: „Carrington is ardent, robust, scatterbrained, appreciative, a very humble disciple, but with enough character to prevent insipidity“ (2. Bindi). Á íslensku má orða það að hún sé áköf, hraust, utan við sig, þakklát, mjög auðmjúkur nemandi, en með nógu mikinn karakter til að fyrirbyggja andleysi.

Ég verð hérna bráðum aftur með nýjan bókalista.

Dora Carrington listaverk af vefsíðu Tate



fimmtudagur, 13. september 2018

Lestrarkompan 2017: Roy, Mahfouz, Athill ...

Lestrarkompan mín: Roy, Mahfouz, Athill · Lísa Stefan


Ég var næstum búin að gleyma hversu dásamlegur september getur verið, aðallega stolin augnablik á veröndinni með bækur og kaffi. Lesandi undir markísunni, að kynna mér nýjar bækur á netinu eða hlusta á bókahlaðvörp, geta liðið klukkustundir án þess að ég taki eftir því. Svo lengi sem enginn truflar. Í gær voru birtir tveir listar með fyrstu tilnefningunum („longlists“) til verðlaunanna National Book Awards 2018. Ég var spennt fyrir þýddu skáldverkunum, sem er nýr flokkur. Á listanum voru tvær bækur sem ég hafði þegar nótað hjá mér: Disoriental eftir hina frönsk-írönsku Négar Djavadi og Flights eftir pólsku skáldkonuna Olga Tokarczuk (bók hennar hlaut Alþjóðlegu Man Booker verðlaunin). Í dag verða birtar tilnefningar fyrir ljóð og óskáldað efni, og á morgun fyrir skáldskap. Ef þið eruð í leit að lestrarhugmyndum þá ættuð þið að kynna ykkur listana. Nokkur orð um Lestrarkompuna mína: Ef mér líkar ekki bók sem birtist á bókalista hjá mér ekki láta það aftra ykkur frá því að lesa hana. Ég hef mínar skoðanir og smekk, en ég hef engan áhuga á því að segja fólki hvaða bækur skal lesa og ekki lesa. Svo lengi sem fólk les bækur og þær eru gefnar út er ég sátt.

Lestrarkompan, № 11 bókalisti, 6 af 9:

The Ministry of Utmost Happiness eftir Arundhati Roy
Ég vildi að ég gæti sagt ykkur að mér líkaði þessi skáldsaga, hennar fyrsta í tuttugu ár, en mér tókst ekki einu sinni að klára hana, gafst upp í kringum blaðsíðu 200. Hún er pólitísk, sem kemur ekki á óvart þegar höfundurinn er þekktur aðgerðasinni. En mér fannst eins og Roy væri að reyna að varpa ljósi á hvert einasta vandamál í indversku samfélagi, eins og ég væri að rekast á nýtt á hverri síðu. Kannski er auðveldara fyrir lesendur sem hafa lesið almenn rit Roy og fylgst með baráttu hennar að skilja hverju hún er að reyna að koma til skila í þessari sögu. Að mínu mati var stíllinn yfirhlaðinn og kaótískur. Af því sem ég las þá get ég ekki mælt með bókinni, en mér líkaði vel fyrsta skáldsaga hennar The God of Small Things, sem hlaut Man Booker-verðlaunin 1997.

Palace Walk eftir Naguib Mahfouz
Ég þurfti því miður að skila þessari á bókasafnið áður en ég náði að klára hana vegna flutninganna í fyrra (á eftir 150 síður eða svo). Nóbelskáldið Mahfouz er dásamlegur sögumaður og þessi bók er sú fyrsta í Kaíró-þríleiknum hans. Hún byrjar í borginni árið 1917 og við fáum að fylgjast með lífi Al Jawad-fjölskyldunnar. Faðirinn er harðstjóri sem sveiflast öfganna á milli: heima fyrir notar hann Kóraninn til að ráðskast með og kúga fjölskylduna en leggur svo „trúarkenningarnar“ til hliðar svo hann geti notið lystisemdanna sem næturlíf Kaíró býður upp á. Lesturinn er ekki alltaf skemmtilegur og þarna er nokkuð um múslimskar staðalímyndir. Bókin hefur ýtt á marga takka hjá mér og farið með mig í gegnum allan tilfinningaskalann, en ég ætla mér svo sannarlega að klára hana. Svo ætla ég að lesa hinar tvær, Palace of Desire og Sugar Street.

The Black Prince eftir Iris Murdoch
Ég þurfti líka að skila þessari á bókasafnið og hafði ekki lesið nógu mikið í henni til að geta farið út í smáatriði. Ég á eftir að næla mér í annað eintak og fjalla þá kannski um hana síðar.

Gilead eftir Marilynne Robinson
Prósi þessarar bókar er fallegur og samanstendur af bréfum aðalpersónunnar, prestsins John Ames. Til að segja ykkur nánar frá henni finnst mér best að gefa Barack Obama forseta orðið, en hann átti samræður við höfundinn árið 2015:
I first picked up Gilead, one of your most wonderful books, here in Iowa. ... And I’ve told you this—one of my favorite characters in fiction is a pastor in Gilead, Iowa, named John Ames, who is gracious and courtly and a little bit confused about how to reconcile his faith with all the various travails that his family goes through. And I was just—I just fell in love with the character, fell in love with the book.
Ef þið viljið lesa allar samræður þeirra þá getið þið fylgt þessum hlekk: The New York Review of Books. Ég mæli eindregið með Gilead fyrir lesendur sem þurfa ekki alltaf fléttu í bókum eða mikla atburðarás.

Waking Lions eftir Ayelet Gundar-Goshen
Þetta er önnur bók ísraelsku skáldkonunnar og ég hef þegar sagt ykkur frá sögusviðinu og hvernig ég frétti af bókinni. Þessi væri eins og týpísk spennusaga ef í henni væru ekki hlutar með sjálfskoðun persónanna, hlutar sem hægja á lestrinum: Á heimleið eftir vakt ekur læknir á mann sem deyr. Hann flýr af vettvangi og þegar ekkja mannsins bankar upp á hjá honum þá veit lesandinn að líf hans er við það að taka drastískum breytingum. Ég segi ekki meira. (Ensk þýð. Sondra Silverston.)

Instead of a Letter eftir Diana Athill
Lestur þessara æviminninga ollu mér vonbrigðum, aðallega vegna óspennandi innihalds, ekki skrifanna sjálfra. Fyrstu hundrað síðurnar fjalla um uppeldisárin og svo fer hún til Oxford í nám. Hún eyðir mörgum síðum í trúlofun sem upp úr slitnaði - tókst aldrei að kalla fram sérstaka vorkunn hjá mér - og í kynlífsreynslu sína á þrítugsaldri, sem líklega hneykslaði marga lesendur þegar bókin kom fyrst út árið 1962. Ég efast um að lesendur nútímans lyfti brúnum yfir þeim lýsingum. Það var ekki fyrr en undir lokin, í kafla 14 sem byrjar á bls. 168 (af 224), sem mér fannst bókin verða áhugaverð, þegar hún hóf störf í útgáfubransanum. Í lokin er bókin orðin að einhvers konar ferðaskrifum og frásögnin verður hálf brotakennd. Ég er þegar byrjuð á síðari æviminningabók hennar Stet þar sem hún einblínir á líf sitt sem ritstjóri hjá André Deutsch forlaginu (ekki lengur starfandi). Bókin hefur hlotið mikið lof og verður á næsta bókalista.