föstudagur, 17. ágúst 2018

Lestrarkompan 2017: Modiano, DeLillo, Bedford ...

Lestrarkompan mín: Modiano, DeLillo, Bedford ... · Lísa Hjalt


Hvað eruð þið að lesa þessa dagana? Ég er að lesa The Hare with Amber Eyes eftir Edmund de Waal af síðasta bókalista og þegar farin að hlakka til að deila þeim næsta. Ég var sko að kaupa bækur og á vefsíðu bóksafnsins fann ég margar sem mig hefur langað að lesa, til dæmis bókina The Bookshop eftir Penelope Fitzgerald. Ég efast um að kvikmyndin hafi farið fram hjá bókaunnendum. Ég er alltaf jafn spennt fyrir því að sjá heim bókmenntanna birtast á hvíta tjaldinu og dauðlangar að sjá Glenn Close og Jonathan Pryce í The Wife, byggð á samnefndri skáldsögu eftir Meg Wolitzer. En nóg í bili um bókmenntalegar kvikmyndir, við skulum halda áfram með Lestrarkompufærslur ársins 2017.

№ 10 bókalisti (7 af 9):

· The Ballad of the Sad Café eftir Carson McCullers. Það eru fínar sögur í þessu safni en að mínu mati er það titilsagan sem stendur upp úr: Loftið í þessari nóvellu er svo þykkt að það má næstum snerta það, snerta spennuna sem er í uppsiglingu. Þessi tilvísun segir allt: „This was not a fight to hash over and talk about afterwards; people went home and pulled the covers up over their heads.“ Aðalpersónan, fröken Amelia Evans, verður varanlega greipt í minnið.

· Patrick Modiano: Tvær bækur eftir franska höfundinn og Nóbelsverðlaunahafann voru á listanum, Pedigree (ensk þýð. Mark Polizzotti) og In the Café of Lost Youth (þýð. Euan Cameron). Sú fyrri er persónuleg saga höfundar, um foreldra hans. Ég nótaði ekki hjá mér neinar tilvísanir, en skrifaði að yfir bókinni hvíldi dapurleiki. Sú síðari fór rakleiðis með mig á götur Parísar. Skrif Modiano finnst mér meira snúast um stemningu heldur en söguþráð. Að lesa hann er oft eins og að horfa á kvikmynd; honum tekst að gera ákveðnar persónur ljóslifandi á síðunni án þess að eyða um þær mörgum orðum. Næst ætla ég að lesa The Occupation Trilogy.

· Invisible Cities eftir Italo Calvino. Þessi stutta skáldsaga er ein af þeim sem höfðar ekki til allra. Hún greip mig ekki á fyrstu síðu en því meira sem ég las því meira heillaðist ég af prósanum. Bókin samanstendur af samræðum á milli Marco Polo og mongólska keisarans Kublai Khan. Polo er að lýsa fyrir honum borgunum sem hann hefur heimsótt þegar hann er í raun alltaf að lýsa sömu borginni, Feneyjum. (Ensk þýð. William Weaver.)

· Stoner eftir John Williams. Þessi fannst mér virkilega góð. Varð heilluð af William Stoner en þoldi ekki konuna hans, persónu sem ýtti á alla mína takka. Stoner er fátækur bóndastrákur frá Missouri sem fer í háskóla og uppgötvar bókmenntir. Þær senur eru fegurð bókarinnar, unaður fyrir alla bókaorma. En líf Stoner er fullt af vonbrigðum, svo miklum að það næstum dregur lesandann niður. Gæti verið ástæðan fyrir því að bókin seldist ekki vel, sem er einmitt viðfangsefni þessarar áhugaverðu greinar sem birtist í The New Yorker.

· Point Omega eftir Don DeLillo. Þessi stutta skáldsaga fór beint á listann yfir uppáhaldsbækurnar mínar árið 2017. Skrifin heilluðu mig; áferð textans. Sagan gerist aðallega í eyðimörkinni í Kaliforníu og verður að eins konar spennusögu þegar ein sögupersónan hverfur. Einn daginn ætla ég að kaupa mér eintak og lesa bókina aftur.

· Jigsaw: An Unsentimental Education eftir Sybille Bedford. Það er ekki auðvelt að skrifa í fáum orðum um þessa skáldsögu sem að hluta til er sjálfsævisöguleg. Ef þið lesið hana finnst mér líklegt að hún festist í minninu. Bedford ólst upp í Þýskalandi hjá föður sínum og hjá móður sinni á Ítalíu eftir andlát hans. Hún menntaði sig í Englandi og upp úr 1920 ferðaðist hún á milli Englands og Suður-Frakklands (móðir hennar og stjúpi höfðu flutt þangað til að flýja uppgang fasismans). Þrátt fyrir að vera gallagripur og algjörlega óáreiðanleg er móðir hennar heillandi karakter með mikinn áhuga á bókmenntum („I must have read (with earnest marginal notes) and my mother re-read half of Balzac, most of Maupassant, some Zola ...“). Í Frakklandi lifði fjölskyldan menningarlegu, bóhemísku lífi; í vinahóp þeirra var Huxley-fjölskyldan (Aldous Huxley var lærifaðir Bedford; hann gaf henni leyfi til að skrifa ævisögu sína). Þetta er vel skrifuð þroskasaga sem gerist á milli tveggja heimsstyrjalda en hún er svo miklu meira en það.

mynd mín, birt á Instagram 27/06/2017



Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.