Sýnir færslur með efnisorðinu skáldsögur. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu skáldsögur. Sýna allar færslur

mánudagur, 3. júlí 2023

No One Prayed Over Their Graves · Khaled Khalifa

Bókarkápan af No One Prayed Over Their Graves. Höfundur: Khaled Khalifa (FSG)


Í mánuðinum kemur út í enskri þýðingu skáldsagan No One Prayed Over Their Graves eftir sýrlenska rithöfundinn Khaled Khalifa. Ameríska forlagið FSG gefur bókina út, en sögusviðið er sýrlenskt þorp í nágrenni Aleppo þar sem flóð umbreytir lífi tveggja vina. Þýðandi er Leri Price sem einnig þýddi Death Is Hard Work, sem er fáanleg í íslenskri þýðingu, Dauðinn er barningur (Salka).

Ég er svag fyrir fallegum bókarkápum, sem skýrir þennan lið á blogginu, og oftar en einu sinni hef ég látið blekkjast. En ég hef ekki lært mína lexíu og það gerist varla úr þessu. Er til betri samsetning en góð bók og falleg bókarkápa? Nú hef ég ekki lesið þessa og get því ekki dæmt innihaldið, en ljósmyndin fangar mig svo og titilhönnunin. Ég hef aldrei ferðast til Sýrlands eða Miðausturlanda en það er eitthvað við útlínurnar sem bera við himin miðausturlenskra borga, moskurnar og turnarnir - mínaretturnar - sem einkenna þær. Þetta er líkast til Aleppo eins og hún var. Khalifa fæddist í nágrenni borgarinnar en í dag býr hann í Damaskus og bækur hans eru bannaðar í heimalandinu. Hann var í áhugaverðu viðtali í The Guardian um helgina.

No One Prayed Over Their Graves
Höf. Khaled Khalifa
Þýðandi: Leri Price
Innbundin, 416 blaðsíður
ISBN: 9780374601935
FSG



mánudagur, 9. janúar 2023

№ 34 bókalisti: Annie Ernaux og Guðrún Eva

Á № 34 bókalistanum: A Man's Place (Staðurinn) eftir Annie Ernaux · Lísa Hjalt


Gleðilegt ár! Ég ákvað að byrja bloggárið á nýjum bókalista sem verður líka sá síðasti í þessu formi. Ég er að hugsa um að hvíla listana alveg eða breyta þeim síðar í samantektarlista þannig að ég geti gert meira af því að mæla með bókum sem ég hef lesið. Hluti af mér mun sakna þessa forms því mér finnst það agandi að hafa hugmynd um hvað ég ætla mér að lesa nokkrar vikur fram í tímann. En stundum gerist það að ég eignast nýja bók sem mig langar að lesa strax en finnst sem ég þurfi að klára fyrst þær sem eru á bókalista hverju sinni - lúxusvandamál, ég veit. Önnur ástæða fyrir breytingunni er sú að mig langar að lesa meira á þýsku til að ná betri tökum á málinu.

№ 34 bókalisti:

1  A Man's Place  · Annie Ernaux
2  Útsýni  · Guðrún Eva Mínervudóttir
3  Of Time and the River  · Thomas Wolfe
4  Letters of Leonard Woolf  · ritstj. Frederic Spotts
5  Dichter im Café  · Hermann Kesten [þýsk]

Ensk þýðing: 1) A Man's Place: Tanya Leslie

Franski rithöfundurinn Annie Ernaux hlaut Nóbelsverðlaunin í fyrra. Bók hennar á listanum, La Place á frönsku, fjallar um samband hennar við lítt menntaðan föður sinn og um þá fjarlægð sem smám saman myndast milli þeirra því meira sem hún fetar menntaveginn og verður hluti af millistétt. Áherslan sem hann lagði á tungumálið kemur mikið við sögu: Hún lýsir m.a. atviki þar sem hann þarf að fá lögfræðing til að votta undirskrift sína á pappíra. Þegar hann áttar sig á því hann hefur misritað eitt smávægilegt orðalag við undirritunina þá upplifir hann gríðarlega mikla skömm, sem er ekkert í takt við tilefnið. Í þessari stuttu bók, rétt um 100 síður, staldrar Ernaux stundum við til að segja nokkur orð um skrifin sjálf eða deila hugsunum sínum í tengslum við ákveðna minningu. Staðurinn, í þýðingu Rutar Ingólfsdóttir, kom út hjá Uglu í fyrra. Þetta er fyrsta bók Ernaux sem gefin hefur verið út á Íslandi sem mun án efa breytast eftir Nóbelinn. Fyrir óþreyjufulla þá hefur breska útgáfan Fitzcarraldo Editions sent frá sér 8 verk hennar á ensku nú þegar.

Kaffistund og bókalestur (№ 34 bókalisti) · Lísa Hjalt
Kaffistund og bókalestur í desember

Ég féll fyrir Annie Ernaux þegar ég las The Years (№ 20) í fyrsta sinn, eins konar æviminningar sem fanga tíðarandann einstaklega vel og eru merkilegar vegna þess að hún notar aldrei persónufornafnið ég. Ég keypti í haust þýsku þýðinguna, Die Jahre, til að lesa verkið enn og aftur með þá ensku til hliðsjónar. Ég hef einnig lesið I Remain in Darkness sem fjallar um móður hennar og Alzheimer-sjúkdóminn. Að lesa þá bók var stundum eins og að vera kýldur í magann - hrá og afhjúpandi skrif.

Ef þið viljið kynna ykkur Ernaux þá má finna fínar umfjallanir á RÚV. Ég man einkum eftir að hafa hlustað á Lestina í október þar sem Torfi Tuliníus prófessor benti á aðdáun hennar á franska félagsfræðingnum Pierre Bourdieu. Kenningum Bourdieu kynntist ég fyrst í safnafræðináminu og hef hann núna á bak við eyrað þegar ég les texta hennar. Eftir tilkynninguna um Nóbelsverðlaunin var mjög áhugaverð umfjöllun um skrif Ernaux í TLS-bókahlaðvarpsþætti (mín. 27:40) þar sem rithöfundurinn Lauren Elkin var gestur. Þar kom Bourdieu einnig við sögu.

Á № 34 bókalistanum: Útsýni eftir Guðrúnu Eva Mínervudóttur · Lísa Hjalt
Lestarstund í janúar: Útsýni, nýjasta skáldsaga Guðrún Evu Mínervudóttur

Á þessum síðasta lista er ánægjulegt að geta haft nýtt íslenskt verk. Það gerist ekki oft. Kær vinkona sendir mér af og til bækur frá Íslandi og hún valdi Útsýni Guðrúnar Evu Mínervudóttur handa mér í jólagjöf. Ég hafði séð Kolbrúnu og Þorgeir hrósa bókinni Kiljunni og hugsaði með mér að hún gæti höfðað til mín. Ég er rúmlega hálfnuð og verð að viðurkenna að ég tengi ekki enn við 4-stjörnu límmiðann á eintakinu mínu sem segir syngur í eyrum lesanda. Þegar ég er komin þetta langt inn í bók án þess að finna nokkra tengingu við persónur þá veit það ekki á gott. Ég hef annars sagt það áður að ég og samtímaverk eigum yfirleitt litla samleið; ég er mjög vandlát þannig að það er ekkert að marka mína skoðun á þessu verki. Guðrún Eva gerir margt vel en svo er annað í stílnum sem höfðar ekki til mín.

Kannski segir það eitthvað um mig sem lesanda að geta endurlesið æviminningar Sigga Páls út í hið óendanlega en að hafa látið það nægja að lesa skáldsögu hans Parísarhjólið einu sinni. Ég get svo bætt því við til frekari útskýringar að svo til allar bækur á óskalistanum mínum eru rit almenns eðlis, bréf, esseyjur og æviminningar, ekki skáldsögur.



föstudagur, 18. nóvember 2022

№ 33 bókalisti: Keegan og COVID-einkenni

Á № 33 bókalistanum er m.a. að finna Small Things Like These eftir írsku skáldkonuna Claire Keegan · Lísa Hjalt


Ég hef beðið með að deila þessum bókalista því mig langaði að nota myndavélina til að fanga bækurnar með kaffibolla og kannski blómum líka í stað þess að nota myndir af Instagram. En ég hef ekki verið í skapi fyrir myndatöku. Ég nældi mér í COVID fyrir 5 vikum síðan og slapp nokkuð vel. Svaf aðallega út í hið óendanlega vegna þreytu. En því miður missti ég bragðskynið - 5 vikur án kaffibragðs! - og mér fannst allar bækur sem ég var að lesa leiðinlegar. Kannski ætti ég að taka til baka þetta með að hafa sloppið vel. Við skulum líta á listann og verkin á honum því ég á bara eftir að klára eina bók.

№ 33 bókalisti:

1  Pain  · Zeruya Shalev
2  Small Things Like These  · Claire Keegan
3  Night  · Elie Wiesel
4  Nemesis  · Philip Roth
5  Sapiens: A Brief History of Humankind  · Yuval Noah Harari

Ensk þýðing: 1) Pain: Sondra Silverston; 3) Night: Marion Wiesel

Bókin hennar Claire Keegan, sem var tilnefnd til Booker-verðlaunanna í ár, er lítil perla sem gerist í írskum smábæ árið 1985 og tekur á viðkvæmu efni: hvernig kaþólska kirkjan á Írlandi komst upp með að nota ungar, þungaðar stúlkur sem vinnuafl í klaustrum og tók svo af þeim börnin eftir fæðingu. Keegan þarf ekki nema nema 116 síður til að segja allt sem segja þarf og innihaldið er ríkara en mörg lengri skáldverk. (Ég mæli með kvikmyndinni The Magdalene Sisters (2002; Peter Mullan) um sama efni.) Aðra stutta en innihaldsríka bók á listanum á Elie Wiesel, sem lifði af helförina og hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 1986. Hún segir frá reynslu hans í fangabúðunum, Auschwitz og Buchenwald, og lesturinn tekur oft á. Í mörg ár hef ég forðast að þessa bók. Það er fyrst núna sem ég hafði hugrekki til þess.

Í Nemesis býr Philip Roth til mænusóttarfaraldur í fæðingarbæ sínum Newark árið 1944, sem ógnar lífi barna. Ég var ekki viss hvort þetta væri rétti tíminn til að lesa bók um faraldur þar sem við erum enn að glíma við kórónaveirufaraldurinn en það truflaði mig ekki við lesturinn. Bókin er vel skrifuð (hlaut alþjóðlegu Booker-verðlaunin árið 2011) en kannski aðeins of stutt fyrir minn smekk. Í þriðja hluta erum við komin til ársins 1971 og sögumaðurinn segir í stuttu máli frá því sem gerst hefur á öllum þessum tíma. Hér fannst mér einhverja fyllingu vanta í verkið og fannst ég þurfa meira þegar það endaði.

Ég er lítið fyrir bækur sem verða ofur vinsælar og hef tilhneigingu til að forðast bækur sem allir virðast vera að lesa og kalla skyldulesningu. Sapiens eftir ísraelska sagnfræðinginn Yuval Noah Harari fellur í þann flokk. Hún hefur verið þýdd á fjölmörg tungumál; á íslensku með undirtitlinum Mannkynssaga í stuttu máli. Eitthvað hélt þó áfram að draga mig að henni þannig að ég keypti hana handa syni mínum og hugsaði að ég gæti fengið hana lánaða einn daginn. Ég hef núna lesið fyrsta hlutann af fjórum í rólegheitum og bókin lofar góðu. Harari nálgast viðfangsefnið þverfaglega og er lipur penni.

Kápa bókarinnar Pain eftir Zeruya Shalev á bókalistanum · Lísa Hjalt
Pain er skáldsaga eftir ísraelska rithöfundinn Zeruyu Shalev

Samband mitt við nútímaskáldverk getur oft verið skrýtið. Ég fylgist vel með útgáfu bóka en verð sjaldan spennt fyrir nýjum skáldsögum. Þegar það gerist hef ég líklega látið lokkandi bókarkápu ginna mig. Sjálfur lesturinn veldur mér oft vonbrigðum og ég finn jafnvel fyrir ergelsi og óþolinmæði. Ég ákvað að lesa Pain eftir Zeruya Shalev eftir að hafa lesið stutt viðtal við fransk-marokkósku skáldkonuna Leïlu Slimani þar sem hún mærði skrif Shalev. Pain fjallar um ísraelska konu sem lifir af hryðjuverkaárás en glímir enn við afleiðingarnar 10 árum síðar. Bókin byrjaði vel en fljótlega varð hún ein af þessum skáldsögum sem ég klára bara til að geta haft skoðun á henni. Shalev á ágætis spretti í bókinni, það vantar ekki, en við skulum orða það þannig að ég mun ekki rjúka út í bókabúð til að kaupa aðra bók eftir hana, sem skrifast alfarið á mig.

Ég minntist á leiðinlegar bækur í upphafi. Ein af þeim átti að fara á listann, klassíska ferðaritið In Patagonia eftir sjálfan Bruce Chatwin, en ég gafst upp eftir nokkra kafla. Fyrst hélt ég að það væru bara mín COVID-einkenni að finnast bókin óáhugaverð (mér fannst allar bækur leiðinlegar) og hélt því lestrinum áfram þegar ég komst almennilega á fætur. En ritstíllinn gerði ekkert fyrir mig og stuttir kaflarnir, meira eins og stuttar frásagnir heldur en kaflar, voru of sundurlausir fyrir minn smekk. Ég hef sagt það áður að lífið er of stutt og dýrmætt fyrir bækur sem fá ekki lestrarhjartað til að slá hraðar.



mánudagur, 26. september 2022

№ 32 bókalisti: Woolf, Hardwick & nýjar bækur

№ 32 bókalisti: Kápan af The Element of Lavishness, bréf Sylviu Townsend Warner og Williams Maxwell, 1938-1978 · Lísa Stefan


Hér er bókalistinn sem ég lofaði nýverið. Ég hefði kannski átt að tvinna saman tvo lista því ég er byrjuð að lesa bækur sem verða á þeim næsta. Ég get svo játað að nú þegar horfi ég löngunaraugum á bækur sem munu rata á þarnæsta. Ein þeirra er bréfasafn Leonards Woolf. Já, ég er að tala um eiginmann Virginiu, en það er honum að þakka að við höfum aðgang að persónulegu efni hennar, bréfum, dagbókum o.fl. Ég hef gaman af lestri bréfa, einkum þeim sem tengjast bókmenntum. Bréfasafn rithöfundanna Warner og Maxwells á nýja listanum, bókin á myndinni hér að ofan, er gullmoli. Hvert bréf er vel skrifað og sú gagnkvæma virðing sem einkenndi vináttu þeirra skín í gegn.

№ 32 bókalisti:

1  The Years · Virginia Woolf
2  Virginia Woolf · Hermione Lee
3  A Room of One's Own · Virginia Woolf [endurlestur]
4  The Uncollected Essays of Elizabeth Hardwick · ritstj. Alex Andriesse
5  A Splendid Intelligence: The Life of Elizabeth Hardwick  · Cathy Curtis
6  De Profundis and Other Prison Writings · Oscar Wilde
7  The Element of Lavishness: Letters of Sylvia Townsend Warner and
William Maxwell 1938-1978  · ritstj. Michael Steinman

Á listanum er ævisaga Hermione Lee um Virginiu Woolf sem ég er að klára og mæli með fyrir Woolf-aðdáendur. Því miður get ég ekki mælt með skáldsögu Woolf, The Years. Nánar um þau vonbrigði síðar, kannski. Þeir sem lesa bloggið vita að Elizabeth Hardwick er í miklu uppáhaldi og á listanum finnið þið nýtt safn ritgerða og einu bókina um ævi hennar sem gefin hefur verið út. Og þá að öðrum lista, óskalistanum mínum.

Kápa bókarinnar Memoirs, sjálfsævisöguskrif Roberts Lowell
Kápa bókarinnar Come Back in September eftir Darryl Pinckney

Sjálfsævisöguleg skrif ljóðskáldsins Roberts Lowell komu út í ágúst (t.v.); Elizabeth Hardwick
prýðir kápu nýrrar bókar eftir Darryl Pinckney (t.h.)

Óskalistinn lengist stöðugt og mig langar að nefna tvær nýjar viðbætur á honum. Í október kemur út bókin Come Back in September eftir Darryl Pinckney. Hún fjallar um vináttu hans við Hardwick og ritstjórann Barböru Epstein. Báðar tóku þátt í því að koma bókmenntaritinu The New York Review of Books á laggirnar, þær voru bestu vinkonur og nágrannar á 67. stræti í New York. Hin, Memoirs, kom út í ágúst og er safn sjálfsævisögulegra skrifa eftir ljóðskáldið Robert Lowell (fyrrverandi eiginmaður Hardwick). Gagnrýnendur hafa lofað bókina.

Kaffiborðið mitt og bækur sem verða á næsta bókalista · Lísa Stefan
Nikkað til næsta bókalista



þriðjudagur, 22. mars 2022

№ 30 bókalisti: Proust að vori

№ 30 bókalisti: bókabunki; Marcel Proust, Lydia Davis, Siri Hustvedt · Lísa Stefan


Vorið er komið og því löngu tímabært að uppfæra bloggið með nýjum bókalista. Ég deildi þeim síðasta í janúar en mér til varnar þá er ég virkari á Instagramsíðunni minni sem snýst um bækur. Í góðan áratug hef ég ætlað að lesa hinn franska Marcel Proust, meistaraverkið À la recherche du temps perdu (Í leit að týndum tíma; In Search of Lost Time), og lét verða af því nýverið að kaupa enska þýðingu, fyrsta bindið af fjórum frá bókaútgáfunni Everyman’s Library. Skáldverkið samanstendur af sjö bókum og bindið inniheldur Swann’s Way (fr. Du côté de chez Swann), sem flestir þekkja, og fyrri partinn af Within a Budding Grove (fr. À l'ombre des jeunes filles en fleurs). Eftir að hafa lesið nokkrar síður finn ég strax að sögumaðurinn heillar mig og ríkur prósinn líka. Proust að vori verður ánægjuleg afþreying.

№ 30 bókalisti:

1  Essays Two  · Lydia Davis
2  Swann's Way  · Marcel Proust
3  What I Loved  · Siri Hustvedt
4  Der Untergeher  · Thomas Bernhard [þýsk]
5  The Makioka Sisters  · Jun'ichirō Tanizaki [endurlestur]

Ensk þýðing: 1) Swann's Way: C. K. Scott Moncrieff and Terence Kilmartin;
5) The Makioka Sisters: Edward G. Seidensticker

Það má segja að Essays Two eftir Lydiu Davis hafi ýtt við mér að lesa Proust því hún er höfundur nýjustu ensku þýðingarinnar á Swann's Way og fjallar um það verkefni í nokkrum esseyjum. (Þýðingin sem ég er að lesa er mun eldri en hefur verið uppfærð.) Þetta safn ritgerða er það fyrsta sem ég les eftir Davis og einnig er ég að lesa skáldverk eftir Siri Hustvedt í fyrsta sinn. Það vill svo skemmtilega til að Hustvedt hefur verið gift rithöfundinum Paul Auster (4 3 2 1, New York þríleikurinn) í fjörutíu ár, en Davis er fyrrverandi eiginkona hans.

Ég hef minnst á það áður að í hvert sinn sem bók veldur mér það miklum vonbrigðum að ég klára hana ekki að þá endurles ég einhverja uppáhaldsbók. Á síðasta lista var My Brilliant Friend eftir Elenu Ferrante, fyrsta bókin í Napólí-fjórleik hennar, í enskri þýðingu. Ég virkilega reyndi en gafst endanlega upp á 20. kafla. Hvorki söguþráðurinn né persónurnar höfðuðu til mín og mér fannst stíllinn einkennast af endurtekningum. Til að bæta mér þetta upp ákvað ég að endurlesa The Makioka Sisters, klassískt verk eftir hinn japanska Tanizaki. Það er notalegt að verja tíma með Systrunum fyrir svefninn.

Listaverk: Richard Diebenkorn, Untitled, 1981
Richard Diebenkorn, Untitled, 1981

Richard Diebenkorn listaverk af @diebenkornfoundation



föstudagur, 7. janúar 2022

№ 29 bókalisti: nýja árið byrjar með Woolf

№ 29 bókalisti: Póetík í Reykjavík, Woolf og Murdoch · Lísa Stefan


Gleðilegt ár! Ég áttaði mig á því í vikunni að ég steingleymdi nýárshefðinni minni, að lesa bókina Little Women inn í nýja árið. Þessi hefð byrjaði í Skotlandi; ég las nokkrar síður eða kafla um áramót á meðan aðrir fögnuðu með flugeldum eða hverju sem er. Í ár horfði ég á flugeldana með syninum en Austurríkismenn eru ansi sprengjuglaðir. Ég bætti upp fyrir gleymskuna með því að horfa á mynd Gretu Gerwig (2019) eftir bókinni, með þeim Saoirse Ronan, Florence Pugh og Timothée Chalamet í aðalhlutverkum. Stórfín mynd. Nýársmorgun byrjaði ég slök á legubekknum í náttbuxum og kimono, með kaffi og fjórða bindi af dagbók Virginiu Woolf, sem hefst árið 1931. Þið finnið hana á nýjum bókalista.

№ 29 bókalisti:

1  My Brilliant Friend  · Elena Ferrante
2  The Diary Of Virginia Woolf, Volume 4 1931-35 
3  Mrs Dalloway  · Virginia Woolf [endurlestur]
4  Mythos: The Greek Myths Retold  · Stephen Fry
5  Wittgensteins Neffe: Eine Freundschaft  · Thomas Bernhard [þýsk]
6  Póetík í Reykjavík: Erindi 14 höfunda 
7  Living on Paper: Letters from Iris Murdoch 1934-1995  · ritstj. Avril
Horner og Anne Rowe

Ensk þýðing: 1) My Brilliant Friend: Ann Goldstein

Listinn hefur tekið mörgum breytingum. Stephen Fry og íslensku erindin fjórtán eru einu verkin sem voru á þeim upprunalega sem átti að birtast í haust. Ég veit ekki ástæðuna, líklega blanda af önnum í skólanum og eirðarleysi, en ég var sífellt að breyta honum; las nokkrar síður í bók, jafnvel nokkra kafla, sem mig langaði að setja á listann en hafði svo lagt hana til hliðar stuttu síðar. Það að langa að lesa bók nægir mér stundum ekki, fyrir lestur sumra bóka þarf staður og stund að vera hárrétt.

Bókin Póetík í Reykjavík: Erindi 14 höfunda · Lestur & Latte blogg
Í haust fann ég óvænt í póstinum eintak af Póetík í Reykjavík: Erindi 14 höfunda (ritstj. Kjartan Már Ómarsson), sem einn þeirra, Margrét Bjarnadóttir, var svo væn að gefa mér. Hún er að fikra sig áfram í ritlist og á fínt erindi í bókinni. Hún er systir vinkonu minnar og höfundur Orðsins á götunni (№ 14), sem er ein sú skemmtilegasta bók sem ég hef lesið. Það er alltaf gaman að lesa íslenskar bækur, tala nú ekki um að finna þær í póstkassanum. Af þessum 14 esseyjum fannst mér sú eftir Steinunni Sigurðardóttur, Orðin, orðin, orðin, bera af. Ég væri til í að lesa meira í þessum anda eftir Steinunni. Hún byrjar á að vísa í Samuel Beckett - „Orð eru allt sem við eigum“ - og síðar í uppáhaldið mitt Virginiu Woolf og Irisi Murdoch, sem hún tók viðtal við árið 1985 fyrir sjónvarpið. Stöllurnar Woolf og Murdoch eru á bókalistanum þannig að kannski ætti það ekki að koma á óvart að efniviður Steinunnar höfðaði mest til mín. Sumt í þessu safni fannst mér annars langdregið og hreint út sagt leiðinlegt.
№ 29 bókalisti: bækur og kaffi · Lísa Hjalt


Ég fékk dásamlegar bækur í jólagjöf sem rata á næstu lista og gaf sjálfri mér nokkrar, m.a. notaðar sem líta út eins og nýjar. Meðal þeirra voru fyrstu tvær bækurnar í Napólí-fjórleik hinnar ítölsku Elenu Ferrante, sem er höfundarnafn eins og flestir ættu að vita. Ég keypti líka Everyman's Library útgáfu bókarinnar The Makioka Sisters eftir hinn japanska Jun'ichirō Tanizaki (№ 6). Hún er ein af mínum uppáhaldsbókum.

Richard Diebenkorn, Untitled, 1949
Richard Diebenkorn, Untitled, 1949

Diebenkorn listaverk af aðdáendasíðu



mánudagur, 13. desember 2021

Virginia Woolf – „elsku hættulega konan“

Virginia Woolf í útgöngubanni, kápan af Mrs Dalloway · Lísa Stefan


Í fyrra féll ég fyrir bókarkápunni af Mrs Dalloway sem þið sjáið á myndinni. Svo mikið að ég pantaði notað, vel með farið eintak sem aldrei barst. Til að bæta mér það upp ákvað ég að gefa mér bókina í jólagjöf en þegar hún barst í hús gat ég ekki hugsað mér að pakka henni inn þó að ég hefði þegar lesið hana. Bók Virginiu Woolf er því orðin útgöngubannsbók ásamt Bréfum Irisar Murdoch.

Það vill svo til að Murdoch skrifar um Woolf í bréfi á aðfangadag 1941:
The trouble is, I have been reading Virginia Woolf, the darling dangerous woman, and am in a state of extremely nervous self-consciousness. The most selfish of all states to be in.
„Elsku hættulega konan“ – elska þessa lýsingu.

Í hvert sinn sem ég endurles bækur Woolf átta ég mig betur og betur á því hversu stórkostlegur penni hún var. Smáatriðin sem birtast í skrifum hennar, lýsingar á fólki og atferli þess, eru mögnuð. Ég er hrifin af dagbókunum hennar líka og teygi mig oft í bindin sem ég á í hillunum. Árið 1923 var hún að skrifa Mrs Dalloway, sem hún kallaði The Hours í ritferlinu, og þann 19. júní hafði hún þetta að segja um skrifin:
But now what do I feel about my writing?—this book, that is, The Hours, if thats its name? One must write from deep feeling, said Dostoevsky. And do I? Or do I fabricate with words, loving them as I do? No I think not. In this book I have almost too many ideas. I want to give life & death, sanity & insanity; I want to criticise the social system, & to show it at work, at its most intense— But here I may be posing.
Ég deildi myndinni á Instagram í gær með svipuðum texta en mig langaði að halda upp á þessar tilvitnanir á blogginu líka. Við erum enn í útgöngubanni sem á að taka enda 17. desember. Önnur héruð í Austurríki opnuðu flest allt að nýju í gær en þessi nýjasta bylgja var skæðari hér í Efra Austurríki þannig að við þurfum víst að halda okkur innandyra lengur.

mynd: @lisastefanat 12.12.2021



sunnudagur, 21. nóvember 2021

Bóklestur í útgöngubanni

Kápan af Living on Paper: Letters from Iris Murdoch 1934-1995 · Lísa Stefan


Á föstudaginn trítlaði ég út á pósthús og fann um sjöhundruð síðna doðrant með bréfum Irisar Murdoch í hólfinu, Living on Paper: Letters from Iris Murdoch 1934-1995. Upphaflega keypti ég bókina til að setja undir jólatréð, gjöf frá mér til mín, en í staðinn verður hún útgöngubannsbókin mín. Bók með hlutverk.

Það hefur varla farið fram hjá neinum að á morgun verður öllu skellt í lás í Austurríki vegna hárrar tíðni COVID-smita. Það er óhætt að segja að stemningin sé sérkennileg þessa dagana og ég held að ég sé ekki ein um að glíma við lokanaleiða. Ég hafði hlakkað til að klára skólaönnina og njóta þess í desember að rölta um jólaskreyttar götur Linz, kíkja í bókabúðir og setjast niður á notalegum kaffihúsum. Að vísu er gert er ráð fyrir afléttingum fyrir jól en þá má búast við mannmergð í miðborginni, sem ég kæri mig lítið um þó að ég sé bólusett. Kosturinn við útgöngubann er sá að nægur tími gefst fyrir bóklestur og kósíheit heima fyrir. Mín bíður góður bunki þannig að ég get ekki kvartað.
Lestur um menningu og menningararf · Lísa Stefan


Það verður enginn bókaskortur í þessu banni því í hillunum leynist margt ólesið. Nýverið var ég stödd í bókabúð og keypti tvær þýskar, meðal annars Medea. Stimmen eftir Christu Wolf (1929-2011). Ég hef aldrei lesið verk eftir hana. Ég var í skapi fyrir gríska goðafræði því í kaffipásum á þessu hausti hef ég teygt mig í Mythos eftir Stephen Fry. Þvílík skemmtilesning, hann er svo orðheppinn. Ég hef líka verið að lesa íslenskar esseyjur í bókinni Póetík í Reykavík: Erindi 14 höfunda (ritstj. Kjartan Már Ómarsson). Einn höfundanna, Margrét Bjarnadóttir, sendi mér óvænt eintak en hún gaf út bókina Orðið á götunni, sem ég fletti reglulega mér til skemmtunar (sjá № 14 bókalista). Bækurnar þrjár verða á næsta bókalista sem ég hef ekki enn deilt á blogginu sökum anna.

Pasta og lærdómur · Lísa Stefan
Klassík lærdómspása með grænmetispasta

Bókabúð á Linz Hauptplatz: Alex Buchhandlung · Lísa Stefan
Anddyri bókabúðarinnar Alex Buchhandlung

Ein bókabúðin í Linz heitir Alex Buchhandlung og er staðsett á Der Linzer Hauptplatz, aðaltorgi sem er rétt við meginbrúna yfir Dóná. Þetta er lítil verslun með gríðarlegt magn þýskra bóka. Ég var næstum því búin að kaupa þar Fischer-útgáfu af dagbókum Franz Kafka en hugsaði með mér að þýskan mín væri kannski ekki nógu góð til að virkilega njóta lesturins. Ég lét hana því bíða og ákvað að fyrst skyldi ég lesa eina ólesna í hillunum mínum sem inniheldur sögurnar Málsóknin og Umskiptin. Ég hef lesið þá síðari í íslenskri þýðingu en aldrei lesið Kafka á þýsku.
Kápan af sögum Kafka í þýskri útgáfu (Fischer) · Lísa Stefan




fimmtudagur, 29. júlí 2021

№ 28 bókalisti | Oh, Vienna ...

№ 28 bókalistinn: Bókabunki með Matisse í baksýn · Lísa Stefan


Þá er komið að nýjum bókalista. Mér finnst eitthvað afskaplega hrífandi við þennan bókabunka. Ég vissi ekki hvaða bók ég ætti að byrja á (er að að venja mig af því að lesa margar í einu) en valdi endanlega Max Perkins eftir A. Scott Berg, sem hlaut National Book Award verðlaunin árið 1980. Þetta er ævisaga eins mikilvægasta ritstjóra 20. aldar, bók um bækur og listina að skrifa. Perkins ritstýrði m.a. þeim F. Scott Fitzgerald, Ernest Hemingway, Thomas Wolfe og Marjorie Kinnan Rawlings. Vitandi að The Great Gatsby varð klassík er það allt að því með ólíkindum að lesa bréfin sem Perkins bárust frá Fitzgerald fyrir útgáfu hennar árið 1925, full efasemda, einkum um titilinn. Áhyggjur hans reyndust því miður sannar því bókin seldist illa í samanburði við hans fyrstu, This Side of Paradise (1920). Ef elsku karlinn - old sport - hefði nú bara vitað hver örlög hennar yrðu.

№ 28 bókalisti:

1  Essayism  · Brian Dillon
2  This Little Art  · Kate Briggs
3  Forty-one False Starts: Essays on Artists and Writers  · Janet Malcolm
4  Shuggie Bain  · Douglas Stuart
5  Unquiet  · Linn Ullmann
6  Max Perkins: Editor of Genius  · A. Scott Berg
7  The Lost: A Search for Six of Six Million  · Daniel Mendelsohn

Ensk þýðing: 5) Unquiet: Thilo Reinhard

Bókabúðin Shakespeare & Company í Vínarborg · Lísa Stefan
Bókabúðin Shakespeare & Company í Vínarborg

Í síðustu bókalistafærslu sagði ég ykkur frá þeim takmörkunum sem við búum við í Austurríki vegna kófsins. Sumarið væri öðruvísi og líklega meira um lestarhopp ef hægt væri að skella sér á kaffihús eða út að borða hvenær sem er. En hvergi er hægt að setjast niður án vottorðs um neikvæða skimun og því þarf að plana allt með fyrirvara. Nýverið kom elsta dóttirin ásamt hollenskum kærasta í heimsókn og við eyddum m.a. degi í Vínarborg. Við fórum á Belvedere-safnið, heilsuðum Napóleon, eða Napí eins og við kölluðum hann, og störðum hvað lengst á Kossinn hans Klimts. Þrömmuðum svo um borgina, nutum hádegisverðar í almenningsgarði og enduðum í gyðingahverfinu þar sem enska bókabúðin Shakespeare & Company er til húsa, nánar tiltekið á Sterngasse. Ég elska þetta hverfi í Vín þannig að ég leyfi félögunum í Ultravox að eiga síðasta orðið, Oh, Vienna ...