þriðjudagur, 29. apríl 2014

Rýmið 62



- stofa með hvítum veggjum, gólfborðum og viðarbitum í lofti
- endurgert sumarhúsi/kofi á Long Island frá árinu 1840
- hönnuður Tricia Foley

mynd:
William Abranowicz fyrir Elle Decor

fimmtudagur, 24. apríl 2014

Malíski textílhönnuðurinn Aboubakar Fofana


Upp á síðkastið hef ég verið sérstaklega hrifin af blálituðum munum fyrir heimilið, einkum textíl unnum úr indígó. Í hvert sinn sem ég fletti tímaritum þá stend ég sjálfa mig að því að leita að þessum litum, sem innblástur fyrir þá hugmynd að nota þá til þess að gera breytingar á heimaskrifstofunni. Einn morgun sat ég við skrifborðið að drekka latte þegar að ég allt í einu mundi eftir malíska textílhönnuðinum Aboubakar Fofana og gullfallega textílnum sem hann framleiðir á umhverfisvænan máta úr indígó jurtinni.


Aboubakar Fofana fæddist árið 1967 í Bamako í Malí og hefur eytt mestum hluta ævinnar í Frakklandi. Þegar hann sneri aftur til Malí uppgötvaði hann að sú hefð að nota indígó sem litunarefni var að falla í gleymsku þannig að hann leitaði uppi gömlu meistarana til að læra listina. Það er Fofana að þakka að þekking þeirra - náttúruleg jurtalitun með indígó plöntunni - hefur varðveist. Síðar meir hlaut hann styrk til þess að læra af hinum japanska Akiyama Masakazu, sem er meistari á sviði jurtalitunar. Það var í Japan sem Fofana vann að því að þróa og bæta tækni sína.

Núna eyðir hann tíma sínum á milli Bamako, þar sem hann er með vinnustofu, París og Tokyo, og hann ferðast um allan heim til að deila þekkingu sinni og tækni með öðrum. Hann er auk þess skrautskrifari, en þá list nam hann í Japan.


Grænu lauf indígó plöntunnar eru notuð til að framleiða mismunandi bláa litatóna, bæði ljósa og dökka, sem sést vel í verkum Fofana. Hér að neðan má sjá skilkiklút sem hefur verið litaður náttúrulega með indígó. Efsta myndin sýnir hvar hann dýfir efni ofan í náttúrulegan gerjunarlög. Fyrst tekur efnið grænan lit þar til það kemst í snertingu við súrefni. Það er oxunin sem rólega kallar fram bláa litinn. (Ef þetta er eitthvað sem þið hafið áhuga á þá getið þið lesið bókina Indigo: In Search of the Colour that Seduced the World eftir Catherine E. McKinley.)


Hver einasti munur sem Aboubakar Fofana hannar er unninn úr náttúrulegum efnum og í þeim sameinast vestur-afrískar hefðir og nútímaleg hönnun. Hönnun Fofana er sjálfbær, hann notar engin kemísk efni sem eru skaðleg náttúrunni. Hann notar lífræn efni og þræði, þá helst lífræna malíska bómull, sem er handspunnin og handofin. Hann er bæði vefari og jurtalitari, og notar bæði malíska og japanska tækni. Fyrir utan að vinna með indígó þá notar hann einnig aðra malíska jurtalitunarhefð sem kennd er við svæðið Bogola, en í henni felst að nota gerjaða mold til litunar.



Það er eitthvað andlegt og dulspekilegt við hönnun Fofana, þar sem menningar Vestur-Afríku og Japans mætast. Hann ræðir þetta í viðtali við tímaritið Selvedge (ég læt þetta standa óþýtt):
He … likens the approach to natural indigo dyeing in Japan and west Africa as remarkably similar considering the physical distance separating the cultures. 'Japanese culture has Shinto and west Africa animism; they are exactly the same … In west Africa you say a prayer to the indigo gods to bless a new born indigo vat, in Japan you offer sake to the indigo god to bless a new vat,' he explains of the rituals that inform the process. (Jessica Hemmings)


myndir:
1, 6-9: Lauren Barkume Photography / 2-3: François Goudier af vefsíðu Atelier Courbet / 4-5: af vefsíðu Selvedge

miðvikudagur, 23. apríl 2014

Rýmið 61



- forstofa á heimili í Kaliforníu
- hönnuður Pamela Shamshiri

mynd:
Amy Neunsinger fyrir House Beautiful af blogginu Bliss

þriðjudagur, 22. apríl 2014

Innlit: Hlýlegt heimili í Danmörku




Ég var að leita að einhverju á Pinterest um daginn þegar ég rakst á myndina með hvítu hillunum hér að ofan og þegar ég sá glitta í hvít viðargólfborð þá vissi ég að þetta hlyti að vera skandinavískt heimili. Þegar ég svo opnaði tengilinn þá endaði ég á heimasíðu Femina og sá að eigandinn bar íslenskt nafn (innlitið er að vísu orðið gamalt þannig að ég veit ekki hver er núverandi eigandi). Persónulega er ég ekki hrifin af hvítmáluðum gólfborðum; ég hef séð of mikið af þeim stíl í skandinavískum innanhússtímaritum. Eins og sést eru gólfborðin ómáluð í svefnherberginu og þau finnst mér mun fallegri. En stíllinn á heimilinu finnst mér hlýlegur og ég er sérstaklega hrifin af eldhúsinu.



myndir:
Isak Hoffmeyer fyrir Femina (uppgötvað á síðu Abby Capalbo/Pinterest)

fimmtudagur, 17. apríl 2014

Kirsuberjatré í blóma á fallegum vordegi



Í dag ætlaði ég að birta aðrar myndir þar sem þemað er vorið (þetta er síðasti pósturinn í vorseríunni) en ég skipti um skoðun þegar ég sá myndina hér að ofan. Sonur minn, átta ára, tók hana. Við eyddum gærdeginum í sveitasælu í Derbyshire og á leiðinni heim varð hann örlítið bílveikur þannig að vinir okkar hleyptu okkur bara út hjá skólanum og við löbbuðum heim til að fá ferskt loft. Í allan gærdag var hann með kíkinn sinn á lofti að fylgjast með fuglalífinu og hann var að segja mér að hann langaði í upptökuvél. Rétt hjá húsinu okkar stendur þetta líka glæsilega kirsuberjatré sem er núna í fullum blóma og ég varð að staldra við og taka nokkrar myndir. Þegar hann spurði hvort hann mætti líka taka myndir þá sagði ég að sjálfsögðu já. Ég sá um ,manual'-stillingarnar fyrir hann og sýndi honum hvernig hann ætti að halda „réttri“ lýsingu (exposure) og leyfði honum svo að spreyta sig. Það var örlítill vindur í lofti og því var smá hreyfing í sumum myndunum (myndirnar að öðru leyti mjög flottar) en þessi fannst mér fullkomin. Það var hrein unun að fylgjast með honum munda vélina.

Ég óska ykkur gleðilegra páska!


myndir:
1: sonur minn / 2-4: Lísa Hjalt

þriðjudagur, 15. apríl 2014

Rýmið 60



Ég veit engin deili á arkitekt eða hönnuði þessa rýmis sem er einhvers staðar á Spáni. Stofan var áður verönd sem var breytt til að stækka húsið. Hvít húsgögn (Ikea) og hlutlausir tónar gefa henni ferskan blæ og náttúruleg steinhleðsla og bitar í lofti skapa jafnvægi. Útkoman er vægast sagt sumarleg.

mynd:
El Mueble

mánudagur, 14. apríl 2014

Etnískar mottur

Etnískar mottur · Lísa Hjalt


Fyrir fjölmörgum árum síðan í einhverri allsherjar tiltekt þá henti eiginmaðurinn óvart bunka af tímaritum sem ég ætlaði að geyma. Í þessum tiltekna bunka var erlent tímarit sem var með innliti á afskaplega fallegt heimili í annaðhvort New Mexico eða Arizona þar sem stíllinn á húsgögnunum var hrár, ósléttir veggir hvítmálaðir og svo voru mottur og annar textíll í etnískum stíl (líklega Navajo). Eftir öll þessi ár get ég enn þá kallað fram einstaka myndir í innlitinu í huga mér enda var ég gjörsamlega heilluð af þessu húsi.

Það sem sérstaklega höfðaði til mín var jafnvægið sem náðist í innanhússhönnuninni; ekkert var ofhlaðið eða ofskreytt. Í síðustu viku á ensku útgáfunni póstaði ég einni mynd frá búgarði Ralph Lauren, nánar tiltekið af innganginum í líkamsræktina (það var eina rýmið sem mér fannst flott), og hún minnti mig á innlitið.

Etnískar mottur · Lísa Hjalt
Kilim-mottur

Upp á síðkastið hefur þessi etníski stíll svolítið verið að toga í mig aftur og ég er farin að veita honum meiri athygli þegar ég er að fletta tímaritum eða skoða á netinu (þetta er hluti af myndum sem ég er búin að safna í möppu). Mig langar að eignast alla vega eina etníska mottu hvort sem hún yrði sett í stofuna eða bara í skrifstofuherbergið. Annaðhvort myndi ég velja stóra mottu eða þá að ég myndi leggja minni mottu ofan á náttúrulega mottu. Ég held að það gæti verið smart, sérstaklega þar sem mig langar í etníska mottu með ljósum tónum, einhverja sem er ekki of litrík því ég veit að ég myndi fljótt fá leið á því. Annars finnst mér stíliseringin hjá West Elm sem sést á efstu myndinni vera töff, þ.e. að raða bara litlum mottum saman.

Ef þið eruð í etnískum hugleiðingum þá vona ég að þessar myndir veiti innblástur.

Etnískar mottur · Lísa Hjalt
Notuð tyrknesk kilim-motta
Etnískar mottur · Lísa Hjalt
Etnískar mottur · Lísa Hjalt


myndir:
1: West Elm stílisering af blogginu Lotus & Fig / 2: The Marion House Book / 3: Little Dog Vintage á Etsy / 4: Marie Claire Maison af blogginu The Style Files / 5: Cultiver af blogginu The Design Files

fimmtudagur, 10. apríl 2014

Falleg bleik vorblóm



Ein af mínum uppáhaldsbókum, sem ég hef nefnt oftar en einu sinni, er Bringing Nature Home eftir Ngoc Minh Ngo. Bókin situr á borðinu mínu og veitir mér endalausan innblástur. Í vorpósti dagsins langar mig að gefa höfundinum enn meira pláss á blogginu. Þessar þrjár myndir eftir Ngo eru úr fyrsta kaflanum sem fjallar um vorblóm. Stílisering blómaskreytinganna (kirsuberjagreinar, maríusóleyjar og hjartablóm) var í höndum Nicolette Owen. Ég er ekkert að þýða sjálfar tilvísanirnar úr bókinni, ég leyfi þeim bara að standa á ensku.

The Japanese custom of viewing cherry blossoms, hanami, dates back for centuries … Have your own hanami with an exuberant arrangement of cherry tree branches at home. What better way to celebrate spring than to wake up under a cloud of cherry blossoms?
úr Bringing Nature Home


The poppy anemones, first cultivated in the sixteenth century are models of versatility. Throw a bunch of bright purple [ones] in a simple glass jar to add a cheerful note to a child's room, or put a few elegant stems in sleek white ceramic bottles to admire their subtle loveliness from every angle.
úr Bringing Nature Home


Bleeding heart is a spring ephemeral plant that starts blooming in April and becomes dormant when the heat of the summer sets in. The heart-shaped blooms dangling on arching stems make charming cut flowers, and the finely divided foliage is a thing of beauty on its own.
úr Bringing Nature Home

myndir:
Ngoc Minh Ngo, úr bókinni Bringing Nature Home, bls. 16, 19, 35, gefin út af Rizzoli

miðvikudagur, 9. apríl 2014

West Midlands | The Granary - kofi til leigu



Hafið þið áhuga á að skoða West Midlands svæðið? Í sveitinni austan við borgina Birmingham er hægt að leigja endurgerðan kofa sem kallast The Granary og er í lokuðum einkagarði sem tilheyrir sveitabýlinu Dove House, sem var byggt í kringum 1350. Svefnherbergin eru þrjú (svefnaðstaða fyrir 5) og það er rúmgott eldhús/borðstofa og setustofa. Allt er smekklega innréttað og öll heimilistæki eru til staðar. Rétt hjá er þorpið Shustoke og bærinn Coleshill.

The Granary er í norðurhluta Warwickshire og það er stutt í hraðbrautir og út á Birmingham-flugvöll. Ef haldið er í suðurátt er komið inn í Shakespeare's Country, eins og svæðið kallast, en þar er að finna ákaflega fallega bæi eins og Stratford-upon-Avon, Leamington Spa og Warwick.
(Sjá einnig The Lodge sem er með einu svefnherbergi (svefnaðstaða fyrir 4)).



myndir:
Lísa Hjalt

fimmtudagur, 3. apríl 2014

Perluliljur til vorskreytinga



Það er kominn fimmtudagur sem merkir að á blogginu fögnum við vori (ég þarf virkilega á svona innblæstri að halda í dag því hér á West Midlands svæðinu er sólarlaus, kaldur og grár dagur). Næstar í röðinni eru tvær hæfileikaríkar konur sem mynda öflugt teymi, það er ljósmyndarinn Lisa Warninger og stílistinn Chelsea Fuss af Frolic! blogginu. Þær hafa búið til fjöldann allan af ljósmyndaþáttum fyrir þekkta viðskiptavini eins og HGTV, Kinfolk, Once Wed og Rue, til að nefna nokkra. Í þessum tiltekna ljósmyndaþætti fyrir Project Wedding (ég fékk bara nokkrar myndir lánaðar) voru það perluliljurnar sem fönguðu athygli mína. Einnig skærin sem sjást á efstu myndinni; mig langar svo í svona skæri.


Fyrir okkur sem erum alin upp á Íslandi þá eru perluliljur (Muscari armeniacum) kannski ekki beint týpískur vorboði þó að margir gróðursetji laukana í görðum sínum og noti blómin til skreytinga. En eftir að hafa verið búsett erlendis í nokkur ár þá eru þessi fagurbláu blóm, sem virðast skjóta upp kollinum svo til út um allt, einn af þessum dásamlegu vorboðum. Perluliljur uxu einmitt villtar í garðinum okkar í Luxembourg. Fyrir ykkur sem búið erlendis er óþarfi að skunda út í næstu blómabúð eða á blómamarkað til að verða ykkur út um perluliljur, ef þið búið nálægt skóglendi þá er nóg að grípa bastkörfuna og fara í góðan göngutúr í náttúrunni. Þið getið fyllt körfuna áður en heim er haldið.

Fill a glass full of these beauties to enjoy their clusters of tiny, urn-shaped flowers in finely drawn hues of blue at home. Though they bloom in April, their spicy-grape fragrance has been described as "the perfume of clove and sun-warmed Concord grapes of late September."

úr bókinni Bringing Nature Home eftir Ngoc Minh Ngo


myndir:
Lisa Warninger fyrir Project Wedding | stílisering: Chelsea Fuss af Frolic!
(birt með leyfi)

miðvikudagur, 2. apríl 2014

Innlit: Í glæstum garði ítalskrar villu



Þetta er eitt af þessum innlitum þar sem ég dvel aðallega utandyra enda garðurinn glæsilegur og auk þess eru fáar innanhússmyndir í umfjölluninni um húsið. Þessi landareign er í Piedmont á Ítalíu (í nágrenni Turin) og það var arkitektinn Paolo Pejrone, sem sérhæfir sig í landslagsarkitektúr, sem hannaði húsið og er einnig eigandi less. Það þarf ekki að hafa mörg orð um þessar myndir; þær segja allt sem segja þarf en mig langar að benda á að steinarnir sem mynda gangstíginn sem sést á fyrstu tveimur myndunum koma úr ánni Ticino.
Í megin forstofunni er textíll áberandi rauður: stólarnir eru bólstraðir með rauðri
og fjólublárri indverskri bómull, gluggatjöld (utandyra) eru rauð og á gólfinu
er rauð tyrknesk Smyrna-motta breidd yfir terracotta-flísar
Pejrone ræktar plöntur sínar án nokkurra óæskilegra efna eða skordýraeiturs
sem kannski útskýrir heilbrigt útlit þeirra



myndir:
Oberto Gili fyrir House & Garden af AD DesignFile