Sýnir færslur með efnisorðinu vor. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu vor. Sýna allar færslur

sunnudagur, 6. apríl 2025

Vorstemmning í Linz

Magnólía í blóma í Linz · Lísa Stefan


Ég fór í göngutúr í dag, andaði að mér vorinu og horfði hugfangin á magnólíutré í blóma. Settist svo út á svalir með smá bókabunka, grillað pítubrauð og hummus og las síðustu síðurnar í After Henry eftir Joan Didion. Ég teygði mig svo í nýja og áhugaverða bók um þýðingar, The Philosophy of Translation eftir Damion Searls, sem ég hef verið að lesa undanfarið með kaffinu. Hann er afkastamikill þýðandi og þýddi m.a. á ensku Septology I-VII eftir norska Nóbelsskáldið Jon Fosse sem ég naut að lesa á sínum tíma.
Magnólía í blóma · Lísa Stefan
Magnólía í blóma; vor í Linz · Lísa Stefan




laugardagur, 13. apríl 2019

Vorstemningin

Vorstemning, textíll · Lísa Stefan


Í fullkomnum heimi. Nei, við skulum segja betri, fullkomnun er leiðinleg. Í betri heimi sit ég í baststól á veröndinni og finn varma sólarinnar í gegnum markísuna. Á borðinu hvílir bókastafli, við hlið kaffibollans og pressukönnunnar eru minnisbækur. Stuðningurinn við bakið er þykkur, mjúkur púði með ábreiðu gerðri úr einum af mynstraða textílnum sem sést á myndinni hér að ofan, sem ég kalla: Vorstemningin mín með Annie Ernaux og Schuyler Samperton Textiles.

Raunveruleikinn er sá að ég sit innandyra. Sú harða birta sem einkennir byrjun vorsins er enn til staðar og þó að brum hafi blómgast hafa sólríku dagarnir, sem lofuðu almennilegu vori, orðið kaldari (í dag kom haglél). Að bíða eftir vorinu er ekki mín sterkasta hlið. Góðu fréttirnar eru þær að ein af bókunum sem ég er að lesa hefur verið tilnefnd til Alþjóðlegu Man Booker verðlaunanna: æviminningar Annie Ernaux, The Years, sem þýdd er úr frönsku af Alison L. Strayer. Fyrir utan að vera skotin í eintakinu mínu, sem er gefið út af Fitzcarraldo Editions, verð ég að segja að frásögnin, skrifuð í þriðju persónu, heillar mig. Ég man ekki eftir að hafa lesið æviminningar í þriðju persónu. Bókin spannar árin 1941 til 2006 og stuðst er við „minni, minningarbrot úr fortíð og nútíð, ljósmyndir, bækur, lög, útvarp, sjónvarp, auglýsingar og fréttafyrirsagnir.“ Ég er ekki búin að lesa bókina en get hiklaust mælt með henni. Það er gefandi þegar bók sem mann hefur langað að lesa stenst ekki aðeins væntingar manns heldur fer fram úr þeim.

Magnólíutré í blóma, Antwerpen, vorið 2011 · Lísa Stefan
Magnólía í blóma, Antwerpen 2011

Við bjuggum í Antwerpen þegar ég tók þessa mynd af magnólíu í blóma. Mér þykir vænt um hana - þetta var fyrsta vorið mitt í Belgíu og ég man enn eftir þessu götuhorni - en hún birtist því miður ekki lengur á gömlu útgáfu bloggsins. Albúm sem tengist því virðist hafa gufað upp.

Aftur að textílnum: Schuyler Samperton Textiles er bandarískt merki sem lesendur bloggsins ættu að þekkja. Textílhönnuðurinn Schuyler er ein af mínum uppáhalds. Á blogginu hef ég deilt mörgum mynstrum úr vaxandi textíllínu hennar. Ég var að bíða eftir vorkomunni til að deila tveimur mynstrum sem sjást á efstu myndinni minni. Efnið Eden er efst: Í fölbleika litnum kallast það Eden/Sweet Pea, í fölgræna Eden/Meadow. Shalimar er blómamynstrið með hvíta bakgrunninum. Prufan með miðanum er Shalimar/Mist, með bláu og grænu mynstri. Shalimar/Cielo kallast það bláa. Öll þessi efni eru úr 100% líni.

Listaverk: Dora Carrington, Farm at Watendlath, 1921, Tate
Dora Carrington, Farm at Watendlath, 1921

Græna palettan sem listakonan Dora Carringon notar í verkinu Farm at Watendlath höfðar til mín þetta vor. Árið 1921 eyddi hún sumarleyfi sínu í Lake District. Það litla sem ég veit um líf hennar er fengið úr kvikmyndinni Carrington (1995), sem fjallar um samband hennar og rithöfundarins Lytton Strachey, og lýsingum í bindunum sem ég hef lesið af dagbókum Virginiu Woolf. Fyrstu kynni Woolf af Carrington voru henni ekki beint í hag, en í ágúst 1920 kveðjur við annan tón: „Carrington is ardent, robust, scatterbrained, appreciative, a very humble disciple, but with enough character to prevent insipidity“ (2. Bindi). Á íslensku má orða það að hún sé áköf, hraust, utan við sig, þakklát, mjög auðmjúkur nemandi, en með nógu mikinn karakter til að fyrirbyggja andleysi.

Ég verð hérna bráðum aftur með nýjan bókalista.

Dora Carrington listaverk af vefsíðu Tate



þriðjudagur, 17. maí 2016

Vorgjöf: Ely-viðarúr frá JORD



Þegar mér bauðst að taka þátt í markaðsátaki JORD Wood Watches þessa vors ákvað ég að leyfa yngri dóttur minni að velja sér úr - vorgjöf fyrir það eitt að vera hún sjálf og frábær. Viðarúrið sem hún valdi er úr Ely-seríunni, Ely Maple, sem er gert úr hlyni og sýnir líka dagsetningu. (Ertu í gjafaleit? Hér að neðan geturðu nælt þér í gjafabréf á netinu.) Við þekkjum þegar til JORD og vitum hverju er að búast við úr þeirri átt, sem dregur ekki úr spennunni að fá viðarkassa frá þeim sem inniheldur fallegt úr. Nú eru liðnar 8 vikur síðan úrið barst og dóttirin vel sátt.

Það gladdi mig að sjá hana velja Ely-úr því hönnunin er einföld og tímalaus. Ég benti henni á tímaleysið þegar við ræddum eiginleika úrsins. Við notum alla jafna íslensku á þessu heimili en hún svaraði á ensku: „But that's just stupid, it's a watch, it tells the time!“ Ég skellti upp úr. Hún hefur rétt fyrir sér! Ég útskýrði fyrir henni hvernig hlutur getur verið klassískur, tímalaus í þeim skilningi að hann fer ekki úr tísku. Unglingurinn var sammála mér að það átti við úrið.


Í sannleika sagt hefur dóttirin ekki gefið mér útlistaða gagnrýni á úrinu. Hennar orð eru einhvern veginn svona: Þetta er úr, það virkar, það sýnir tímann, henni finnst það flott, hún er ánægð með það. Hvað meira er hægt að segja?

Nákvæmlega! Það gerir allt sem úr á að gera. Auk þess er stíll yfir því og það er handunnið, af fyrirtæki sem hefur sjálfbærni að leiðarljósi. Eins og þið takið væntanlega eftir hefur hún úrið á hægri hendinni, þeirri sem hún skrifar með, sem mér finnst áhugavert.


Sem foreldri hef ég einu við að bæta sem hefur að gera með gæði umfram magn. Í gegnum tíðina höfum við keypt úr handa krökkunum, ekki þau ódýrustu, sem eru yfirleitt litrík með plastól. Ég veit ekki hversu oft ég hef fundið svona plastúr í botninum á dótakassa, sennilega löngu gleymt. Eftir því sem börn vaxa fara þau að sjálfsögðu betur með eigur sínar en ég trúi því að við foreldrarnir getum kennt þeim snemma að meta gæði. Ég tek eftir því að þegar dóttir mín er ekki með JORD-úrið á sér þá er það í kassanum á skrifborðinu hennar eða á náttborðinu. Hún veit að það er dýrara en önnur úr sem hún hefur átt og kann greinilega að meta það og hugsar vel um það, án þess að ég þurfi að segja henni það.



Ég tók myndir af henni með úrið þegar hún var að teikna manga. (Allt japanskt vekur áhuga hennar og hún er meira að segja að læra japönsku sjálf.) Ég er ekki mikið fyrir teiknimyndasögur en ég elska að fletta í gegnum manga-teikningar hennar í listamöppunum og stafræna teikniborðinu. Þegar ég horfði á þessa ungu listakonu að störfum í gegnum linsuna þá var ég allt að því dáleidd af uppsetningunni og fannst einföld hönnun úrsins áhugavert mótvægi við list dótturinnar.


Ely-úrið er úr 100% náttúrulegum viði, í þessu tilfelli hlyni, og glerskífan er með rispuvörn. Úrið gengur fyrir rafhlöðu, sýnir klukkutíma, mínútur og sekúndur, og dagsetningu. Smellutakkar eru á viðarólinni sem auðveldar manni að setja úrið á sig og taka af. Ely-úrið er einnig fáanlegt úr rauðum, dökkbrúnum eða grænum sandelviði og hlyni. Þið getið lesið meira um eiginleika úrsins á heimasíðu JORD.


Ely-úrið dregur nafn sitt af byggingu í borginni St. Louis, í Missouri í Bandaríkjunum, sem heitir Ely Walker Lofts - áður Warehouse - sem var byggð árið 1907. JORD hefur aðsetur í St. Louis og býður upp á erlendar póstsendingar.


Langar þig að gefa einhverjum úr eða gjafabréf? JORD býður lesendum bloggsins gjafabréf á netinu. Það eina sem þarf að gera er að opna hlekkinn og skrá netfangið sitt, eða netfang vinar, og þá berst tölvupóstur með kóða sem veitir 25-dollara afslátt. Það er takmörkun á fjölda gjafabréfanna og þau virka þannig að fyrstur kemur fyrstur fær. Hafið þetta í huga þannig að gjafabréfið sé ekki fallið úr gildi þegar þið viljið nýta það.


[Þessi færsla er hluti af markaðsátaki JORD þessa vors. Úrið til umfjöllunar er Ely Maple, viðarúr úr hlyni sem ég gaf listrænni dóttur minni í vorgjöf. Orð, ljósmyndir og álit eru mín eigin.]

miðvikudagur, 11. maí 2016

Vor á veröndinni

Vor á veröndinni, kirsuberjatré í blóma · Lísa Stefan


Skoska vorið lét bíða eftir sér en mætti svo fyrir tveimur dögum síðan í allri sinni dýrð, sólríkt og hlýtt. Veröndin var sópuð, garðborðið skrúbbað og baststólarnir settir út. Það var kominn tími á fyrstu máltíð þessa vors undir berum himni. Síðustu dagar hafa verið himneskir, með notalegum stundum úti á verönd þar sem setið er undir kirsuberjatré í fullum blóma. Ég sit þar einmitt núna, með kaffibolla, bækur og tímarit. Í nýlegri bloggfærslu var tréð að undirbúa að blómstra og einn morguninn sá ég það í gegnum herbergisglugga sonarins og það var sem það hefði hreinlega sprungið. Stórfenglegt!


Þessa dagana er ég að lesa The Great Railway Bazaar: By Train Through Asia eftir bandaríska rithöfundinn Paul Theroux, sem er þekktur fyrir ferðaskrif og skáldsögur. Þetta er fyrsta ferðasagan hans, sem kom fyrst út árið 1975. Ég ætlaði að lesa Dark Star Safari: Overland from Cairo to Cape Town en hugsaði svo með mér að það væri best að lesa ferðsögur hans í tímaröð - sennilega óviturleg ákvörðun þar sem hin síðarnefnda er tólfta í röðinni! Í The Great Railway Bazaar ferðumst við með Theroux í lestum yfir Asíu, en ferðalagið hefst með Austurlandahraðlestinni frá París til Istanbúl. Ritstíll hans er dásamlegur og hnyttinn. Ég var alltaf að skella upp úr og að nóta hjá mér tilvísanir í minnisbókina. Áður en ég komst í gegnum annan kafla hafði ég gert mér grein fyrir því að ég yrði að ýta minnisbókinni til hliðar ef ég ætlaði að ljúka bókinni fyrir jól.
[Uppfærsla: Kláraði ekki bókina og get því miður
ekki mælt með henni - sjá lestrarkompu.]


Talandi um Istanbúl. Í gegnum netið er ég að ferðast þangað frá Kína með aðstoð sagnfræðingsins Sam Willis og BBC-spilarans. Á BBC Four-sjónvarpsstöðinni er verið að sýna þáttaröðina Silkileiðin (The Silk Road), þar sem Willis fer með okkur yfir Mið-Asíu til Istanbúl og Feneyja. Á heimasíðu þáttarins má skoða myndræna ferðadagbók. Í síðasta þætti var hann á Registan-torginu í fornu borginni Samarkand, í Úsbekistan, þar sem hann hitti handverksmenn sem voru að búa til mynsturflísar sem eru notaðar til viðgerðar á Bibi Khanum-moskunni. Þetta var heillandi. Í borginni Khiva, sem er vestar, settist hann að snæðingi með leiðsögumanni sínum og borðbúnaðurinn var fallega mynsturmálaður. Meira að segja flatbrauðið var mynstrað!


Ég nota ekki Instagram-myndirnar mínar í bloggfærslur en í dag varð ég að gera undantekningu, til þess að varðveita ljúfa minningu. Myndina hér að neðan tók ég í gær með spjaldtölvunni þegar ég og dóttir mín vorum að setjast niður til að njóta hádegisverðar - langur lönsj á veröndinni (hún er að læra heima þessa dagana; er í lokaprófum). Myndin fangaði augnablikið fullkomlega. Ég elska hvernig myndin er yfirlýst og hvernig það sýnist vera autt svæði handan verandarinnar í stað steinveggjar sem er þakinn bergfléttu.

Njótið dagsins!

Hádegisverður undir berum himni (af @lisastefanat frá því í gær)



föstudagur, 24. apríl 2015

Kyrrlátur reitur í þorpinu

Kyrrlátur reitur í þorpinu · Lísa Hjalt


Í fyrra þegar ég flutti til South Yorkshire þá stóð ég í þeirri meiningu að ég væri að flytja í lítinn bæ. Það var ekki fyrr en fólk fór að spyrja mig hvernig mér liði í þorpinu að ég áttaði mig á því að ég byggi í einu slíku. Þegar ég hugsa um þorp þá sé ég fyrir mér örfá múrsteinshús, þröngar steinlagðar götur og gamalt pósthús með gömlu og kannski eilítið ryðguðu reiðhjóli við innganginn.


Þessi fallegi reitur við kirkjuna er líklega einn fárra sem minna á þorp, ef umferðarniðurinn frá megingötunni er ekki talinn með. Kirkjan kallast St. Saviour og þar sem ég fer ekki í messu þá hef ég aldrei stigið inn í hana. Ég tók ekki eftir bekknum fyrr en ég var í göngutúr með syni mínum á sólríkum vordegi og sá að tréð hafði blómgast. Þessi reitur var eins og segull sem dró okkur yfir götuna; hann virkaði svo friðsæll. Þegar við tókum eftir áletruðu plötunni undir trénu þá einhvern veginn jókst sérstaða þessa reitar.



Stundum líður mér eins og ég sé áttræð þegar ég tala um veðrið á blogginu en þessa dagana er hreinlega eins og sumarið sé komið! Við vorum í London á þriðjudaginn og borgin iðaði af lífi; fólk í stuttbuxum eða pilsum í sólinni; kaffihús og veitingastaðir þéttsetnir utandyra og allir glaðir. Við enduðum daginn í Chelsea-hverfinu og nutum góðs matar og kaffis á Startisans, sem er „pop-up“ kaffihús með götumat á the Duke of York Square-torginu. Ég hefði getað setið þar fram eftir kvöldi og notið þess að fylgjast með umhverfinu og fólkinu.

Góða helgi!

fimmtudagur, 23. apríl 2015

Gleðilegt sumar ... tímaskekkja!

Gleðilegt sumar - kirsuberjatré · Lísa Stefan


Gleðilegt sumar kæru landar! Það verður að viðurkennast að því lengur sem maður býr erlendis, og upplifir það sem ég kalla eðlilegt vor í mars, apríl og maí, þá verður sumardagurinn fyrsti á landinu ylhýra alltaf meira og meira kómískari og svo ég segi það bara hreint út: tímaskekkja.
Kirsuberjatré · Lísa Stefan


Svona hljómaði nokkurn veginn hluti úr samræðum sem ég átti í dag (og hef átt svipaðar undanfarin ár):

Ég: Það er sumardagurinn fyrsti á Íslandi, lögboðinn frídagur.
Viðmælandi: Já er það, kemur sumarið svona snemma þar?

Viðkomandi hafði ekki sleppt setningunni þegar hann áttaði sig á því hvað hún hljómaði fáránlega, sérstaklega þegar umræðuefnið var eyja í norðri.

Ég: Nei, þetta er gömul hefð, samkvæmt gömlu tímatali eða bændaklukkunni.

Við stöndum undir kirsuberjatré í fullum blóma í sól og alla vega 18 gráðum.

Viðmælandi: Og hvernig er annars veðrið á Íslandi í dag?
Ég: Það eru 2 gráður og þegar ég opnaði vefmyndavél þá var að snjóa.

Þögn.
Lengri þögn.
Svo hláturkast en með vott af samúð.
Kirsuberjatré · Lísa Hjalt
Kirsuberjatré · Lísa Hjalt
Kirsuberjatré · Lísa Hjalt


miðvikudagur, 15. apríl 2015

Pestó með basilíku

Uppskrift: klassískt pestó með basilíku · Lísa Stefan


Matarbiblían mín, Larousse Culinary Encyclopedia, fullyrðir að pestó komi frá Genúa og ekki rífst ég við hana. Það vill svo til að ég var þar fyrir mörgum árum síðan. Hið klassíska, ítalska pestó með basilíku, parmesanosti og furuhnetum er í miklu uppáhaldi hjá mér. Ég hef loksins eignast nýja og betri matvinnsluvél og geri því oft pestó í hádeginu. Líka má skrifa pestóneysluna á uppskriftabókina hennar (Cafe)Sigrúnar vinkonu því hún kvaldi mig með mörgum pestómyndum þegar við unnum í handritinu. Í bók Sigrúnar er klassísk pestóuppskrift (önnur hlutföll en mín; það eru til svo margar útgáfur) og graskersfræjapestó sem fékk mig til að kalla hátt yum ... yum! Muniði eftir senunni í Julie and Julia þegar ritstjórinn var að prófa uppskrift Child að boeuf bourguignon og lygndi aftur augunum í hamingjukasti? Það er það sem ég á við þegar ég segi yum ... yum! Ég lofa að deila uppskriftinni þegar bókin kemur út í haust.
Pestó, klassískt · Lísa Stefan


Með góða matvinnsluvél í eldhúsinu þarf aldrei að kaupa pestó í krukku. Ég held að margir geri sér ekki grein fyrir hversu auðvelt það er að útbúa pestó og það besta er að það má nota hvaða hlutföll sem er. Viltu meiri ólíuolíu? Notaðu þá meira! Meiri parmesanost? Láttu vaða! Ástæðan fyrir því að ég nota 60 grömm af basilíku er að ég fæ blöðin í 30-gramma pakkningu og næ akkúrat áferðinni sem mér líkar. Ef pestóið klárast ekki þá bæti ég örlitlu af ólífuolíu saman við og geymi í glerkrukku í kæli. Ef þið eigið ekki matvinnsluvél þá má alltaf nota mortél.

PESTÓ MEÐ BASILÍKU

50 g furuhnetur
60 g fersk græn basilíkublöð
35 g parmesanostur
½-1 hvítlauksrif
½ teskeið fínt sjávar/Himalayasalt
klípa nýmalaður svartur pipar
50 ml lífræn jómfrúarólífuolía

Brúnið furuhnetur létt án olíu á pönnu til að kalla fram meira bragð.

Áður en þið setjið hráefnin í matvinnsluvélina er ágætt að skera parmesanostinn í þunnar sneiðar, og afhýða og grófsaxa hvítlaukinn. Látið matvinnsluvélina vinna á meðan þið hellið ólífuolíunni rólega ofan í skálina þar til pestóið þykknar. (Það veltur á gæðum vélarinnar en kannski þurfið þið að skafa hliðar skálarinnar einu sinni eða tvisvar.)

Berið pestóið fram með nýbökuðu snittu/brauði og eða pasta, laxi eða öðrum fiski, kjöti eða grænmeti.

Hugmynd mín að einföldum hádegisverði: Ég sýð tagliatelle eða linguine á meðan ég útbý pestóið (ég stilli klukkuna á al dente-suðutíma fyrir pastað). Ég læt vatnið renna af soðnu pastanu á meðan ég steiki sveppi í ólífuolíu og strái smá salti yfir. Pastað með sveppunum læt ég í skál og ber fram með pestóinu.


Aftur til Genúa. Ég tók lest þangað frá Zürich í gegnum Mílanó og tók leigubíl á tiltekna ferðaskrifstofu til að kaupa ferjumiða yfir til Sardiníu, eins og sagði í ferðahandbókinni (ekkert net í þá daga). Afgreiðslukonan horfði á mig með vorkunn og sagði að handbókin færi með rangt mál; ég ætti að kaupa miðann á ferjuhöfninni. (Heimska ferðahandbók!) Ég tók annan leigubíl út að höfn og rétt missti af ferju - klassískt. Sem betur fer var þetta fallegur sumardagur og ég man að seinnipartinn sat ég á tröppum á höfninni með bók og safaríkar ferskjur sem ég hafði keypt á markaði. Við hlið mér voru háskólastúdentar frá Mílanó (ég var yngri, bara 18) og einhvern veginn varð ég hluti af þeirra hóp án þess að vera hluti af honum. Ég talaði ekki ítölsku en það var eins og þau væru að líta eftir þessum einsama íslenska ferðalangi sem sat þarna við hliðina á þeim. Eftir öll þessi ár man ég enn eftir tveimur andlitum úr hópnum, þeim sem töluðu ensku. Ég get ekki sagt að ég hafi verið óörugg að ferðast ein en það var notalegt að sitja þarna með þeim þar sem biðin eftir ferjunni reyndist löng.