Sýnir færslur með efnisorðinu south yorkshire. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu south yorkshire. Sýna allar færslur

föstudagur, 24. apríl 2015

Kyrrlátur reitur í þorpinu

Kyrrlátur reitur í þorpinu · Lísa Hjalt


Í fyrra þegar ég flutti til South Yorkshire þá stóð ég í þeirri meiningu að ég væri að flytja í lítinn bæ. Það var ekki fyrr en fólk fór að spyrja mig hvernig mér liði í þorpinu að ég áttaði mig á því að ég byggi í einu slíku. Þegar ég hugsa um þorp þá sé ég fyrir mér örfá múrsteinshús, þröngar steinlagðar götur og gamalt pósthús með gömlu og kannski eilítið ryðguðu reiðhjóli við innganginn.


Þessi fallegi reitur við kirkjuna er líklega einn fárra sem minna á þorp, ef umferðarniðurinn frá megingötunni er ekki talinn með. Kirkjan kallast St. Saviour og þar sem ég fer ekki í messu þá hef ég aldrei stigið inn í hana. Ég tók ekki eftir bekknum fyrr en ég var í göngutúr með syni mínum á sólríkum vordegi og sá að tréð hafði blómgast. Þessi reitur var eins og segull sem dró okkur yfir götuna; hann virkaði svo friðsæll. Þegar við tókum eftir áletruðu plötunni undir trénu þá einhvern veginn jókst sérstaða þessa reitar.



Stundum líður mér eins og ég sé áttræð þegar ég tala um veðrið á blogginu en þessa dagana er hreinlega eins og sumarið sé komið! Við vorum í London á þriðjudaginn og borgin iðaði af lífi; fólk í stuttbuxum eða pilsum í sólinni; kaffihús og veitingastaðir þéttsetnir utandyra og allir glaðir. Við enduðum daginn í Chelsea-hverfinu og nutum góðs matar og kaffis á Startisans, sem er „pop-up“ kaffihús með götumat á the Duke of York Square-torginu. Ég hefði getað setið þar fram eftir kvöldi og notið þess að fylgjast með umhverfinu og fólkinu.

Góða helgi!

þriðjudagur, 7. apríl 2015

Vorblómin 2015

Magnólíur · Lísa Hjalt


Ég er bókstaflega ástfangin upp fyrir haus af þessu vori! Með hverju árinu sem líður verð ég meiri og meiri vormanneskja. Á Íslandi var haustið árstíðin mín en hérna megin við Atlantshafið á vorið hug minn og sál. Það eru aðallega blóm kirsuberja- og magnólíutrjánna sem hafa þessi áhrif. Ég tók myndavélina með í gær þegar við skelltum okkur í Walkers Nurseries gróðurstöðina sem er hérna rétt hjá. Það þarf annars ekki að fara þangað til að njóta þessara blóma; þessi tré eru hérna út um allt í allri sinni dýrð. Stundum vildi ég að það væri hægt að fá vor-lím þannig að hægt væri að njóta þessarar árstíðar aðeins lengur. En góðu fréttirnar eru þær að á eftir þessari árstíð kemur árstíð bóndarósanna!
Kirsuberjatré · Lísa Hjalt
Kirsuberjatré · Lísa Hjalt


þriðjudagur, 17. febrúar 2015

Skýjaður dagur í Suður-Jórvíkurskíri | Brauðbollur



Í dag er pönnukökudagurinn í Bretlandi og fleiri löndum. Sólin skín, fuglarnir syngja og við erum búin að borða pönnsur með sultu og rjóma. Í gær var aftur á móti skýjað. Ég skellti í brauðbollur og lét deigið hefast á meðan ég og sonurinn fórum í göngutúr. Það var ákaflega notalegt að koma svo inn í hlýjuna og taka eilítið síðar nýbakaðar brauðbollur með sesamfræjum úr ofninum. Það er ekkert lag sem heitir Cloudy Day in South Yorkshire (mér finnst þýðingin Suður-Jórvíkurskíri alltaf jafn fyndin) en í gær hljómaði lagið Rainy Night in Georgia stanslaust í kollinum á mér og ég fór eitthvað að rýna í textann:

I feel like it's rainin' all over the world,
How many times I wondered, It still comes out the same
No matter how you look at it or think of it,
It's life and you just got to play the game…

~ • ~
Þetta er lífið og þú þarft bara að leika leikinn ... góð þessi síðasta lína.


Íslenski bolludagurinn fór ekki fram hjá okkur í gær. Ég man enn þá eftir sunnudögunum í eldhúsinu þegar mamma var að baka vatnsdeigsbollur. Ég man meira að segja eftir skálinni sem hún notaði undir glassúrið, og ég man svo sannarlega eftir augnablikinu þegar ég opnaði nestisboxið með bollunum í skólanum.

Brauðbollur með sesamfræjum · Lísa Hjalt
Ég get ekki sagt að ég hafi haldið í bolludagshefðina. Ég held svei mér þá að ég hafi síðast bakað rjómabollur í Danmörku árið 2010! En ég get alveg sagt að ég hafi bakað bollur í gær, það voru bara brauðbollur.

Þessi vika er annars sú þriðja í grasekkjustandi. Eiginmaðurinn er á námskeiði í Þýskalandi og við finnum alveg fyrir fjarveru hans, sennilega vegna þess að enginn úr fjölskyldunni býr nálægt. Á þessum bæ sjáum við bæði um eldamennskuna, ákveðna rétti sér hann alfarið um og ég ákveðna, og svo eldum við nokkra saman. Það er engin regla á þessu hjá okkur. Sá sem er í stuði fyrir að elda sér um eldamennskuna. Þegar hann er í burtu þá geri ég grófan matseðil fyrir vikuna því ég læt senda vörurnar heim. Ég reyni að forðast að elda alltaf sömu réttina og nota tækifærið til að útbúa eitthvað sem ég hef ekki gert áður eða ekki gert í langan tíma. Ég baka afar sjaldan með geri og því finnst mér athyglisvert hvað ég er búin að gera þessar brauðbollur oft núna síðustu tvær vikur. Það er eitthvað róandi við það að hnoða deig í höndunum. Svo hef ég lengi átt í ástarsambandi við sesamfræ.

Talandi um sesamfræ, ég sá að það er að koma ný uppskriftabók á markaðinn sem kallast Sesame & Spice: Baking from the East End to the Middle East eftir Anne Shooter. Orðin sesame og baking fönguðu athygli mína. Ég hef enga hugmynd um hvernig uppskriftir eru í bókinni, hvort þær eru mjög sykraðar eða ekki, en kápan lofar góðu. Og þá að brauðbollunum.
Brauðbollur með sesamfræjum · Lísa Stefan


Þið sem hafið fylgst með blogginu í einhvern tíma hafið væntanlega tekið eftir því að ég nota yfirleitt spelti í bakstur. Þegar ég baka brauð/bollur þá blanda ég gjarnan fínu og grófu spelti saman. Undanfarið hefur verið erfitt að fá fínt spelti í búðum í nágrenninu. Grófa speltið sem ég keypti um daginn reyndist aðeins of gróft og hentar illa í brauðbakstur. Ég baka því þessar bollur með lífrænu hveiti eða brauðhveiti. Gerið sem ég nota er fast-active þannig að það blandast bara með þurrefnunum. Í stað þess að hita mjólkina, eins og oft er gert í gerbakstri, þá sýð ég vatnið og blanda því saman við mjólkina og hunangið. Sesamfræ eru auðug af kalki, magnesíum og járni og að mínu mati ætti að neyta þeirra á hverjum degi. Bollurnar berum við fram með harðsoðnum eggjum og agúrku eða heimagerðu pestó.

BRAUÐBOLLUR MEÐ SESAMFRÆJUM

450 g lífrænt hveiti
2 teskeiðar „fast-active“ þurrger
1 teskeið fínt sjávar/Himalayasalt
2 matskeiðar sesamfræ
125 ml mjólk
100 ml soðið vatn
½ matskeið lífrænt hunang
1 matskeið jurtaolía
1 eggjahvíta eða mjólk til að pensla bollurnar
sesamfræ til að strá yfir

Blandið þurrefnum saman í stórri skál og hrærið sesamfræjum saman við.

Blandið mjólk, soðnu vatni og hunangi saman í lítilli skál og hrærið rólega til að leysa upp hunangið. Látið standa í skálinni í 1-2 mínútur áður en þið blandið olíu saman við. Hellið blöndunni hægt út í stóru skálina með þurrefnunum og hrærið rólega með sleif.

Notið fyrst sleif til að blanda hráefnunum vel saman, stráið svo örlitlu mjöli á borðplötu og hnoðið deigið í höndunum í 5-10 mínútur. Setjið deigið svo aftur í skálina og breiðið rökum klút yfir. Látið deigið hefast í 1½-2 klukkustundir (helst fjarri kulda).

Skiptið deiginu í 8 hluta og mótið úr því kúlur. Setjið kúlurnar á ofnplötu með bökunarpappír og fletjið hverja út með því að þrýsta rétt aðeins ofan á þær með lófanum. Penslið þær svo með eggjahvítu eða mjólk og stráið sesamfræjum yfir. Bakið við 200°C (180°C á blæstri) í 12-14 mínútur.

Brauðbollur með sesamfræjum á leið í ofninn