Sýnir færslur með efnisorðinu brauðbollur. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu brauðbollur. Sýna allar færslur

þriðjudagur, 24. janúar 2017

Brauðbollur | Tómatsúpa með næpum og steinselju

Brauðbollur með sesamfræjum (vegan) · Lísa Stefan


Matarmiklar súpur og heimagerðar brauðbollur halda mér gangandi þessa dagana þegar í huganum mig langar eina helst að flýja til annarrar plánetu. Í alvöru, ég held að þetta Trump-hugmyndafræði-tímabil sem við erum stigin inn í sé að hafa neikvæðari áhrif á mig en ég bjóst við. Tilhugsunin um fjögur ár af „öðrum mögulegum staðreyndum“ er allt annað en upplífgandi. Veit ekki hvar ég væri án bóka; í viðleitni minni til að forðast fréttir er ég byrjuð að hlusta á bókahlaðvörp frá árinu 2012! Lít á það sem þerapíu. Einnig gæðastundir í eldhúsinu. Ljósmynd af brauðbollum sem ég birti á Instagram á sunnudaginn var kveikjan að þessari færslu. Tveir báðu um uppskriftina og ég ákvað að baka þær aftur og deila á blogginu ásamt annarri uppskrift að tómatsúpu með næpum og steinselju.

Uppskriftin að brauðbollunum er í raun brauðuppskrift (án fræja) sem er prentuð á umbúðir af fljótvirku geri frá Doves Farm (e. quick yeast). Það þarf ekki að virkja það heldur er því blandað saman við mjölið á undan vökvanum. Sesamfræin eru mín viðbót og oftast strái ég þeim og birkifræjum (e. poppy seeds) yfir bollurnar. Í upprunalegu uppskriftinni er hefðbundið hveiti en þegar ég baka bollurnar kýs ég að skipta út 60 grömmum (¼ bolli) af fínmöluðu fyrir grófmalað spelti, rétt til að auka trefjarnar.

BRAUÐBOLLUR MEÐ SESAMFRÆJUM

500 g fínmalað spelti eða lífrænt hveiti
½ teskeið fínt sjávar/Himalayasalt
1 teskeið lífrænn hrásykur
1 teskeið (Doves Farm) fljótvirkt ger
1 matskeið sesamfræ
275-300 ml heitt vatn
1 matskeið kókosolía (eða önnur jurtaolía)
má sleppa: mjólk/sojamjólk til að pensla bollurnar
og sesam- og birkifræ til að strá yfir

Blandið saman mjöli, salti, sykri, fljótvirku geri og sesamfræjum í stórri skál með sleif.

Blandið heitu vatni saman við, byrjið með 275 ml, og bætið olíunni saman við þegar deigið fer að festast saman (ef þið notið kókosolíu látið þá krukkuna standa í heitu vatni fyrir notkun; í upprunalegu uppskriftinni er 1 teskeið af olíu). Bætið 1-2 matskeiðum af vatni saman við ef þörf er á.

Stráið örlitlu mjöli á borðplötu og hnoðið deigið í höndunum í 4-5 mínútur. Setjið deigið svo aftur í skálina og breiðið viskustykki yfir. Látið deigið hefast á hlýjum stað í a.m.k. 35 mínútur.

Skiptið deiginu í 8 hluta og mótið úr því kúlur. Setjið kúlurnar á ofnplötu með bökunarpappír og fletjið hverja út með því að þrýsta rétt aðeins ofan á þær með lófanum. Penslið með mjólk/sojamjólk og stráið sesam- og birkifræjum yfir. Bakið við 200°C (180°C á blæstri) í 12-14 mínútur.
Tómatsúpa með næpum og steinselju · Lísa Stefan


Bragð súpunnar skrifast að hluta á tvö yngstu börnin. Það var á köldum degi sem okkur langaði í súpu með næpum, selleríi og linsubaunum. Við elskum rófur og næpur (þessar hvítu eða gulleitu með fjólubláum blæ); þær gefa trefjar, B6- og C-vítamín til að nefna einhver heilsubætandi áhrif. Við kíktum á netið og fundum uppskrift að rauðri linsubaunasúpu með næpum og steinselju á vefsíðu Martha Stewart, sem við notuðum sem innblástur. Megin munurinn er sá að við notum mun minna af linsum í okkar og við völdum niðursoðna plómutómata í stað hrárra tómata. Þessi hefur oft mallað í pottinum á köldum dögum í janúar.

TÓMATSÚPA MEÐ NÆPUM OG STEINSELJU

1 matskeið létt ólífuolía
1 laukur
3 hvítlauksrif
2 sellerístilkar
1 næpa
1 dós (400 g) plómutómatar
1250 ml vatn
60 g / 75 ml rauðar linsubaunir
klípa broddkúmen (ground cumin)
klípa reykt paprika
1 lítið lárviðarlauf
½-1 teskeið gróft sjávar/Himalaya salt
nýmalaður svartur pipar eftir smekk
1 teskeið Modena balsamedik
75 ml fínsöxuð fersk flatblaða steinselja

Byrjið á grænmetinu. Afhýðið og saxið laukinn. Sneiðið selleríið fínt. Afhýðið hvítlauksrifin, sneiðið eitt fínt og pressið hin tvö þegar þau eiga að fara í pottinn. Afhýðið næpuna, skerið í bita og setjið til hliðar.

Hitið olíuna í meðalstórum potti við meðalhita. Léttsteikið lauk, sellerí og hvítlauk í 5 mínútur eða þar til mjúkt og hrærið rólega á meðan.

Stillið á hæsta hita og bætið plómutómötum ásamt vökva, rauðum linsum (skolið fyrst), næpubitum og vatni út í. Hitið að suðu, minnkið hitann, bætið ½ teskeið af salti út í og lófafylli af saxaðri steinselju og svörtum pipar. Eldið við vægan hita í 25 mínútur.

Undir lokin skuluð þið hræra út í pottinn balsamedikinu, restinni af steinseljunni og salta örlítið meira ef þarf. Til að gera matarstundina enn notalegri berið þá súpuna fram með heimabökuðu brauði eða brauðbollum.

Nýleg mynd á @lisastefanat sem var kveikjan að þessari bloggfærslu



þriðjudagur, 17. febrúar 2015

Skýjaður dagur í Suður-Jórvíkurskíri | Brauðbollur



Í dag er pönnukökudagurinn í Bretlandi og fleiri löndum. Sólin skín, fuglarnir syngja og við erum búin að borða pönnsur með sultu og rjóma. Í gær var aftur á móti skýjað. Ég skellti í brauðbollur og lét deigið hefast á meðan ég og sonurinn fórum í göngutúr. Það var ákaflega notalegt að koma svo inn í hlýjuna og taka eilítið síðar nýbakaðar brauðbollur með sesamfræjum úr ofninum. Það er ekkert lag sem heitir Cloudy Day in South Yorkshire (mér finnst þýðingin Suður-Jórvíkurskíri alltaf jafn fyndin) en í gær hljómaði lagið Rainy Night in Georgia stanslaust í kollinum á mér og ég fór eitthvað að rýna í textann:

I feel like it's rainin' all over the world,
How many times I wondered, It still comes out the same
No matter how you look at it or think of it,
It's life and you just got to play the game…

~ • ~
Þetta er lífið og þú þarft bara að leika leikinn ... góð þessi síðasta lína.


Íslenski bolludagurinn fór ekki fram hjá okkur í gær. Ég man enn þá eftir sunnudögunum í eldhúsinu þegar mamma var að baka vatnsdeigsbollur. Ég man meira að segja eftir skálinni sem hún notaði undir glassúrið, og ég man svo sannarlega eftir augnablikinu þegar ég opnaði nestisboxið með bollunum í skólanum.

Brauðbollur með sesamfræjum · Lísa Hjalt
Ég get ekki sagt að ég hafi haldið í bolludagshefðina. Ég held svei mér þá að ég hafi síðast bakað rjómabollur í Danmörku árið 2010! En ég get alveg sagt að ég hafi bakað bollur í gær, það voru bara brauðbollur.

Þessi vika er annars sú þriðja í grasekkjustandi. Eiginmaðurinn er á námskeiði í Þýskalandi og við finnum alveg fyrir fjarveru hans, sennilega vegna þess að enginn úr fjölskyldunni býr nálægt. Á þessum bæ sjáum við bæði um eldamennskuna, ákveðna rétti sér hann alfarið um og ég ákveðna, og svo eldum við nokkra saman. Það er engin regla á þessu hjá okkur. Sá sem er í stuði fyrir að elda sér um eldamennskuna. Þegar hann er í burtu þá geri ég grófan matseðil fyrir vikuna því ég læt senda vörurnar heim. Ég reyni að forðast að elda alltaf sömu réttina og nota tækifærið til að útbúa eitthvað sem ég hef ekki gert áður eða ekki gert í langan tíma. Ég baka afar sjaldan með geri og því finnst mér athyglisvert hvað ég er búin að gera þessar brauðbollur oft núna síðustu tvær vikur. Það er eitthvað róandi við það að hnoða deig í höndunum. Svo hef ég lengi átt í ástarsambandi við sesamfræ.

Talandi um sesamfræ, ég sá að það er að koma ný uppskriftabók á markaðinn sem kallast Sesame & Spice: Baking from the East End to the Middle East eftir Anne Shooter. Orðin sesame og baking fönguðu athygli mína. Ég hef enga hugmynd um hvernig uppskriftir eru í bókinni, hvort þær eru mjög sykraðar eða ekki, en kápan lofar góðu. Og þá að brauðbollunum.
Brauðbollur með sesamfræjum · Lísa Stefan


Þið sem hafið fylgst með blogginu í einhvern tíma hafið væntanlega tekið eftir því að ég nota yfirleitt spelti í bakstur. Þegar ég baka brauð/bollur þá blanda ég gjarnan fínu og grófu spelti saman. Undanfarið hefur verið erfitt að fá fínt spelti í búðum í nágrenninu. Grófa speltið sem ég keypti um daginn reyndist aðeins of gróft og hentar illa í brauðbakstur. Ég baka því þessar bollur með lífrænu hveiti eða brauðhveiti. Gerið sem ég nota er fast-active þannig að það blandast bara með þurrefnunum. Í stað þess að hita mjólkina, eins og oft er gert í gerbakstri, þá sýð ég vatnið og blanda því saman við mjólkina og hunangið. Sesamfræ eru auðug af kalki, magnesíum og járni og að mínu mati ætti að neyta þeirra á hverjum degi. Bollurnar berum við fram með harðsoðnum eggjum og agúrku eða heimagerðu pestó.

BRAUÐBOLLUR MEÐ SESAMFRÆJUM

450 g lífrænt hveiti
2 teskeiðar „fast-active“ þurrger
1 teskeið fínt sjávar/Himalayasalt
2 matskeiðar sesamfræ
125 ml mjólk
100 ml soðið vatn
½ matskeið lífrænt hunang
1 matskeið jurtaolía
1 eggjahvíta eða mjólk til að pensla bollurnar
sesamfræ til að strá yfir

Blandið þurrefnum saman í stórri skál og hrærið sesamfræjum saman við.

Blandið mjólk, soðnu vatni og hunangi saman í lítilli skál og hrærið rólega til að leysa upp hunangið. Látið standa í skálinni í 1-2 mínútur áður en þið blandið olíu saman við. Hellið blöndunni hægt út í stóru skálina með þurrefnunum og hrærið rólega með sleif.

Notið fyrst sleif til að blanda hráefnunum vel saman, stráið svo örlitlu mjöli á borðplötu og hnoðið deigið í höndunum í 5-10 mínútur. Setjið deigið svo aftur í skálina og breiðið rökum klút yfir. Látið deigið hefast í 1½-2 klukkustundir (helst fjarri kulda).

Skiptið deiginu í 8 hluta og mótið úr því kúlur. Setjið kúlurnar á ofnplötu með bökunarpappír og fletjið hverja út með því að þrýsta rétt aðeins ofan á þær með lófanum. Penslið þær svo með eggjahvítu eða mjólk og stráið sesamfræjum yfir. Bakið við 200°C (180°C á blæstri) í 12-14 mínútur.

Brauðbollur með sesamfræjum á leið í ofninn