þriðjudagur, 5. janúar 2021

№ 25 bókalisti: kvennalistinn

№ 25 bókalisti: stafli af bókum eftir konur eingöngu · Lísa Hjalt


Gleðilegt ár! Ég vil byrja árið með nýjum bókalista, sönnum kvennalista. Eins og þið líklega vitið þá er Elizabeth Hardwick í miklu uppáhaldi en ritgerðasafnið Seduction and Betrayal fjallar um kvenkyns rithöfunda og konur í bókmenntum. Svo skemmtilega vill til að Joan Didion, sem á bók á listanum, skrifar innganginn að þessu safni og í því er ritgerð um Bloomsbury-hópinn og Virginu Woolf, sem er einnig á listanum.

№ 25 bókalisti:

1  Seduction and Betrayal  · Elizabeth Hardwick
2  Ninth Street Women  · Mary Gabriel
3  Approaching Eye Level  · Vivian Gornick
4  Intimations: Six Essays  · Zadie Smith
5  On Beauty  · Zadie Smith
6  The Waves  · Virginia Woolf [endurlestur]
7  Slouching Towards Bethlehem  · Joan Didion [endurlestur]

Ég verð að játa að listinn hefur verið það lengi í drögum á blogginu að ég hef þegar lesið fimm af bókunum sjö. Ég er ekki komin langt í bók Mary Gabriel - lipur titill í fullri lengd er Ninth Street Women: Lee Krasner, Elaine de Kooning, Grace Hartigan, Joan Mitchell, and Helen Frankenthaler: Five Painters and the Movement That Changed Modern Art - en get þegar mælt með henni. Ævisaga Lee Krasner eftir Gail Levin var á síðasta bókalista, № 24. Ég get einnig mælt með henni en ef ég ætti að gera upp á milli þessara tveggja þá veldi ég Ninth Street Women. Þrátt fyrir að Gabriel fjalli ekki um uppvaxtarár listakvennanna fimm þá finnst mér bók hennar skemmtilegri aflestrar. Hönnunin bókarinnar er vandaðri og myndir af listaverkum í lit. Levin vann augljóslega heimavinnuna sína um ævi Krasner en textinn verður stundum full akademískur fyrir minn smekk og flæðir þá illa. Í mínu eintaki, kilja frá William Morrow, virkar pappírinn ódýr og í því eru bara svarthvítar myndir af verkum Krasner.

Málverk eftir Lee Krasner, The Seasons, 1957, Pollock-Krasner Foundation / Whitney Museum of American Art
Lee Krasner, The Seasons, 1957

myndir mínar, sú síðari birtist á Instagram 05/11/20 | Lee Krasner listaverk, Pollock-Krasner Foundation / Whitney Museum of American Art af vefsíðu Haus der Kunst