þriðjudagur, 30. janúar 2018

Edinburgh: Waterstones bókabúðin & Calton Hill

Edinburgh: Waterstones bókabúðin & Calton Hill · Lísa Hjalt


Eftir að hafa skellt okkur nokkrum sinnum til Edinburgh síðasta sumar þá finnst mér ég þegar geta tengt við upplifun Alan Rickman heitins af skosku höfuðborginni: „I always feel that when I come to Edinburgh in many ways I am coming home“ (heimild). Við vorum í Edinburgh á meðan Fringe-listahátíðin stóð yfir, þegar borgin iðar af lífi og menningu, og sköpuðum ógleymanlegar minningar. Waterstones á Prince Street, West End-útibúið þeirra, rataði á lista okkar yfir heimili að heiman: Bókabúðin, sem er á fjórum hæðum, er Fyrirheitna land bókaunnandans með frábært úrval bóka og afslappandi andrúmsloft, svo ekki sé minnst á kaffihúsið, W Café, með stórkostlegu útsýni yfir til Kastalahæðarinnar.

Edinburgh: Waterstones bókabúðin & Calton Hill · Lísa Hjalt
Kastalahæðin séð frá W Café

Til að forðast mannmergðina á götunum gengum við í gegnum Princes Street-garðana á leið okkar frá Waverley-stöðinni út í Waterstones, nutum veitinga og dvöldum lengur en við ætluðum okkur - við gáfum okkur tíma fyrir Waterstones í hverri ferð. Á bak við bygginguna, samhliða Princes St og George St, liggur hin heillandi Rose Street, sem er þröng gata, laus við umferð, þar sem má finna allt að því óteljandi veitingahús og krár.

Edinburgh: Waterstones bókabúðin & Calton Hill · Lísa Hjalt

Edinburgh: Waterstones bókabúðin & Calton Hill · Lísa Hjalt
W Café, bókakaffi Waterstones

Victoria Street í Old Town, gamla borgarhlutanum

Í Edinburgh gengum við út um alla miðborgina: upp að Kastalanum og niður á Grassmarket, upp hina frægu götu Victoria Street, meðfram Royal Mile (High St), þar sem við skoðuðum ýmsa króka hennar og kima, og þaðan í áttina að Calton Hill. Upp þrepin að hæðinni fórum við til að njóta glæsilegs útsýnis yfir borgina. Við lögðum það meira að segja á okkur að labba upp þrepin í Nelson Monument. Það var þess virði.

Princes Street séð frá Calton Hill

Edinburgh: Calton Hill · Lísa Hjalt
Kastalinn frá Calton Hill, og til hægri, Scott Monument, minnisvarði í gotneskum stíl




miðvikudagur, 17. janúar 2018

Textíll og Persar

Schuyler Samperton Textiles · Lísa Hjalt


Ég kann að hafa lokkað ykkur hingað á bloggið á fölskum forsendum því þessi færsla hefur ekkert með persneskan textíl að gera heldur var það Persinn okkar, sem sagt kötturinn, sem stalst inn í myndarammann þegar ég var að ljósmynda efni frá Schuyler Samperton Textiles. Þetta var á rólegum degi, sólin var í felum en öðru hvoru lýsti hún upp bókahornið okkar, og yfir allt kaffiborðið hafði ég dreift bókum, tímaritum og textílprufum. Að sjálfsögðu var kaffibollinn minn þarna líka.

Ákveðin litapaletta hafði myndast í hausnum á mér og skyndilega áttaði ég mig á því hversu fallega hún small saman við forsíðuna á The World of Interiors, janúartölublaðinu 2018. Ég valdi textílprufurnar sem ég þurfti, greip myndavélina og hafði kannski smellt af fjórum eða fimm myndum þegar persneski prinsinn minn mætti á svæðið ... og lét ekki hagga sér (ég hefði átt að vita það, honum finnst gott að sofa inn á milli bókanna minna). Ég reyndi að vinna í kringum hann en hann var alltaf að birtast í rammanum. Síðasta myndin sýnir hvernig þetta endaði: hann fékk sínu fram og ég þurfti að kalla þetta gott.

Schuyler Samperton Textiles · Lísa Hjalt
Caledonia, Doshi og Firefly mynstur frá Schuyler Samperton Textiles

Aftur að litapalettunni. Ég valdi þrjú mynstur frá Schuyler Samperton Textiles. Blómamynstrið með fuglamótífinu kallast Caledonia, sem sést hér í litunum Peony (sjá í forgrunni að ofan) og Imperial (undir bollanum). Efnið með lauslega prentuðu blómunum er Doshi, í Hibiscus og Aubergine. Á milli þeirra er efnið Firefly í litnum Plum. Sá blái kallast Deep End.


Persneskur köttur mætir á svæðið.

The World of Interiors & Schuyler Samperton Textiles · Lísa Hjalt
Mynd af svefnherbergi úr tímaritinu The World of Interiors, janúar 2018/Simon Upton

Forsíða tímaritsins The World of Interiors, janúar 2018, var tekin af ljósmyndaranum Simon Upton. Innlitið er á heimili Roberto Gerosa, listræns stjórnanda í Mílanó, sem umbreytti vöruhúsi í heimili og vinnustofu. Svefnherbergið er textílhimnaríki.
Sofandi persi og Schuyler Samperton Textiles · Lísa Hjalt


Allt er gott sem endar vel.