Sýnir færslur með efnisorðinu kaffihús. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu kaffihús. Sýna allar færslur

föstudagur, 29. júní 2018

Nýjar bækur | Sumar í Bremen

Nýjar bækur | Sumar 2018 · Lísa Stefan


Tell me, what is it you plan to do
with your one wild and precious life?

Undanfarnar vikur hef ég verið að hugsa um þessar línur bandaríska ljóðskáldsins Mary Oliver (úr ljóðinu The Summer Day sem birtist í New and Selected Poems, Vol. One) og hef ekki enn fundið svar. Það er óhætt að segja að einföld spurning hennar komi huganum á flug. Mér finnst eins og ég sé ekki alveg lent í Þýskalandi. Ekki misskilja mig, mig langaði að flytja aftur til meginlandsins - menningin og lífsstíllinn í þessum hluta Evrópu á betur við mig - en hélt að á þessum tímapunkti hefði ég komið mér betur fyrir. Ég hef verið í leit að hlutastarfi þar sem ég get æft þýskuna áður en ég tek að mér meira krefjandi verkefni en hef ekki fundið neitt. Bókabúð svaraði ekki einu sinni tölvupósti frá mér. Hversu írónískt er það? Góðu fréttirnar eru þær að elsta dóttirin hefur lokið námi sínu í Skotlandi. Við fórum að sækja hana, tókum ferju frá Calais yfir Ermasundið og fengum að dást aftur að Hvítu klettunum í Dover.

Uppköstin bíða í röðum en mig langaði að enda þessa bloggþögn á lista yfir nýjar bækur. Ég er spennt fyrir nýrri skáldsögu Michael Ondaatje, Warlight, hans fyrstu í sjö ár. Ef þið eruð hrifin af verkum hans þá vil ég benda ykkur á nýlegt viðtal Eleanor Wachtel við hann fyrir CBC Radio. Hlaðvarpið hennar Writers and Company er eitt af þeim bestu fyrir bókaunnendur.

Nýjar bækur:
· Warlight  eftir Michael Ondaatje (Vintage). Síðasta bókin sem ég las eftir hann var Anil's Ghost, og á undan henni, The English Patient. Líkaði báðar. Þið kunnið nú þegar að hafa tekið eftir bókarkápunni í hliðardálki bloggsins og megið búast við að sjá hana á bókalista í náinni framtíð.
· The Beautiful Summer  eftir Cesare Pavese (Penguin). Þroskasaga sem gerist á Ítalíu á fjórða áratug síðustu aldar. Kom fyrst út árið 1949.
· The Years  eftir Annie Ernaux (Fitzcarraldo, í þýðingu Alison L. Strayer). Þetta er breska útgáfan en æviminningar hennar á ensku hafa þegar komið út í BNA. „[A] masterpiece memoir of French life“ segir í titli ritdóms The Guardian. Hann kveikti áhuga minn og ég ætla að lesa bókina þó að ég hafi aldrei lesið neitt eftir höfundinn.
· There There  eftir Tommy Orange (Vintage). Ein af tveimur frumraunum á þessum lista yfir nýjar bækur, gerist í samfélagi Indjána í Oakland, Kaliforníu, þar sem höfundurinn fæddist og ólst upp. Þessi bók hefur fengið góða dóma. Flott bókarkápa.


· 100 Books That Changed the World  eftir Scott Christianson og Colin Salter (Rizzoli). „A tour of global history by way of history’s most important scrolls, manuscripts, and printed books, from Plato and Homer to the twenty-first century—100 must reads.“ Bók um bækur sem gæti verið gaman að hafa á kaffiborðinu. Þessi kom út í vor en mig langaði að hafa hana á listanum.
· The Collected Stories of Machado de Assis  (Liveright Publishing, í þýðingu Margaret Jull Costa + Robin Patterson). Í sannleika sagt man ég ekki eftir að hafa heyrt um Joaquim Maria Machado de Assis (1839-1908), einn mesta rithöfund Brasilíu, þar til ég las ritdóm Parul Sehgal fyrir The New York Times. Ég hengi höfuðið í skömm. Ef ykkur líkar smásögur þá ætti það að gleðja ykkur að safnið er 930 blaðsíður.
· A Place for Us  eftir Fatima Farheen Mirza (Vintage). Frumraun höfundar sem fjallar um indversk-múslimska fjölskyldu sem undirbýr brúðkaup elstu dótturinnar. Útgáfustjórinn Sarah Jessica Parker valdi bókina fyrir útgáfumerkið SJP for Hogarth. Ég hef oft varann á þegar stórstjörnurnar leggja nafn sitt við eitthvað en ég veit að Parker er ötull lesandi og hef heyrt hana mæla með góðum bókum. Höfundurinn, sem ólst upp í Kaliforníu en á rætur að rekja til Indlands, var nýlega í viðtali í The Guardian, sem þið hafið kannski áhuga á.
· The Outsider  eftir Stephen King (Hodder & Stoughton). Að lokum, ný spennusaga fyrir alla King-aðdáendur.

Café Tölke í Schnoor-hverfinu í Bremen, Þýskalandi · Lísa Stefan
Café Tölke í Schnoor-hverfinu, Bremen

Í vor ætlaði ég að deila myndum frá Bremen á blogginu en komst aldrei í það. Sumarið kom snemma og á hlýjum sunnudegi hjólaði ég inn í miðbæ og fór í göngutúr um gamla Schnoor-hverfið. Það var of sólríkt fyrir myndatökur en ég tók þessa mynd sem fangar stemninguna fyrir framan Café Tölke, eitt af fyrstu kaffihúsunum sem ég fór á eftir að við fluttum hingað. Lítið og sjarmerandi kaffihús sem sérhæfir sig í kökum og bökum. Þegar þið finnið borð og setjist niður með kaffibolla og eplastrúdel gætuð þið fengið það á tilfinninguna að svo lengi sem þessi staður helst opinn verður veröldin í lagi. Þannig er andi sumra kaffihúsa.



þriðjudagur, 30. janúar 2018

Edinburgh: Waterstones bókabúðin & Calton Hill

Edinburgh: Waterstones bókabúðin & Calton Hill · Lísa Stefan


Eftir að hafa skellt okkur nokkrum sinnum til Edinburgh síðasta sumar þá finnst mér ég þegar geta tengt við upplifun Alan Rickman heitins af skosku höfuðborginni: „I always feel that when I come to Edinburgh in many ways I am coming home“ (heimild). Við vorum í Edinburgh á meðan Fringe-listahátíðin stóð yfir, þegar borgin iðar af lífi og menningu, og sköpuðum ógleymanlegar minningar. Waterstones á Prince Street, West End-útibúið þeirra, rataði á lista okkar yfir heimili að heiman: Bókabúðin, sem er á fjórum hæðum, er Fyrirheitna land bókaunnandans með frábært úrval bóka og afslappandi andrúmsloft, svo ekki sé minnst á kaffihúsið, W Café, með stórkostlegu útsýni yfir til Kastalahæðarinnar.

Edinburgh: Waterstones bókabúðin & Calton Hill · Lísa Stefan
Kastalahæðin séð frá W Café

Til að forðast mannmergðina á götunum gengum við í gegnum Princes Street-garðana á leið okkar frá Waverley-stöðinni út í Waterstones, nutum veitinga og dvöldum lengur en við ætluðum okkur - við gáfum okkur tíma fyrir Waterstones í hverri ferð. Á bak við bygginguna, samhliða Princes St og George St, liggur hin heillandi Rose Street, sem er þröng gata, laus við umferð, þar sem má finna allt að því óteljandi veitingahús og krár.
Edinburgh: Waterstones bókabúðin & Calton Hill · Lísa Stefan

Edinburgh: Waterstones bókabúðin & Calton Hill · Lísa Stefan
W Café, bókakaffi Waterstones

Victoria Street í Old Town, gamla borgarhlutanum

Í Edinburgh gengum við út um alla miðborgina: upp að Kastalanum og niður á Grassmarket, upp hina frægu götu Victoria Street, meðfram Royal Mile (High St), þar sem við skoðuðum ýmsa króka hennar og kima, og þaðan í áttina að Calton Hill. Upp þrepin að hæðinni fórum við til að njóta glæsilegs útsýnis yfir borgina. Við lögðum það meira að segja á okkur að labba upp þrepin í Nelson Monument. Það var þess virði.

Princes Street séð frá Calton Hill

Edinburgh: Calton Hill · Lísa Stefan
Kastalinn frá Calton Hill, og til hægri, Scott Monument, minnisvarði í gotneskum stíl




miðvikudagur, 17. ágúst 2016

Store Street Espresso, Bloomsbury, London

Kaffihúsið Store Street Espresso í Bloomsbury-hverfinu, London · Lísa Hjalt


Í síðustu viku brugðum við okkur til London og ég komst á sýninguna á verkum listakonunnar Georgia O'Keeffe í Tate Modern-safninu - ekki að ræða það að ég ætlaði að missa af henni! Ég þurfti á borgarferð að halda fyrir haustið. Við borðuðum á Wild Food Cafe í Neal's Yard, gengum um Covent Garden, Westminster og St. James's Park, og fórum í Whole Foods Market á Kensington High Street, sem má kalla matarheimilið okkar í London. Börnin spurðu meira að segja áður en við lögðum í hann, Við förum í WFM, er það ekki? Og við drukkum kaffi. Í hjarta Bloomsbury fékk ég besta lattebollann. Ég hafði lofað einum kaffinörd að fara á Store Street Espresso á 40 Store St (í raun í Fitzrovia-hverfinu). Þetta var loforð sem ég uppfyllti með glöðu geði á rölti okkar um Bloomsbury/Fitzrovia og kaffihúsið stóð undir væntingum mínum.



Ég var undir áhrifum Bloomsbury-hópsins þegar ég steig inn í Store St Espresso. Við höfðum gengið frá Bloomsbury St inn í Gower St og á húsi nr. 10 sá ég bláa plattann hennar lafði Ottoline Morrell. Ég vissi af honum þarna en samt tók hjartað kipp. Hún var ekki beint hluti af hópnum en hún studdi við listamenn og ef þið hafið t.d. lesið dagbækur og bréf Virginiu Woolf þekkið þið nafn Ottoline. Þetta var hugarástandið þegar ég pantaði mér latte.

Þetta var mjög hlýr og sólríkur dagur í borginni og við höfðum labbað ansi mikið þegar ég settist niður og tók fyrsta sopann, sem var himneskur. Store St Espresso er kaffihús mér að skapi. Stíllinn er mínimalískur, hrár og örlítið iðnaðarlegur. Andrúmsloftið er gott; afslappað. Gestirnir virðast vera í sínum heimi, í tölvunni, símanum eða lesandi. Sumir myndu örugglega kalla þetta stað fyrir hipstera en á meðan ég sat þarna sá ég allar týpur af fólki sem áttu það eitt sameiginlegt að njóta góðs kaffis.


Staðsetning Store St Espresso er frábær. Gatan er róleg, nálægt görðum og The British Museum. Ég hvet ykkur til að grípa kaffibolla ef þið eruð í hverfinu. Enn betra ef þið setjist niður. Það er notalegur gluggakrókur fyrir þá sem vilja fylgjast með götulífinu og í góðu veðri má sitja utandyra.
Kaffihúsið Store Street Espresso í Bloomsbury-hverfinu, London · Lísa Hjalt


Ég er ekki alveg búin með ferðina hér á blogginu en ég fékk svo sannarlega London-skammtinn minn. Hugurinn ráfar enn um götur Bloomsbury og mér er hugsað til Virginiu Woolf og vinahóps hennar. Hann ráfar líka um Tate, að dást að málverkum O'Keeffe. Til allrar lukku fór skoska sumarið í sparifötin þegar við komum heim þannig að ég gat byrjað að skrifa þetta á veröndinni með kaffibolla og klárað fyrir framan húsið, við hliðina á hortensíunum þar sem ég naut sólsetursins.

Það sem ég elska svona ágústdaga!


fimmtudagur, 2. júlí 2015

Kember & Jones delí og kaffihús í Glasgow

Kember & Jones delí og kaffihús í Glasgow · Lísa Hjalt


Í gær skelltum við okkur til Glasgow í Skotlandi og ég varð bálskotin í West End-hverfinu. Einhvers staðar í hjarta þessa fallega og afslappaða hverfis, þar sem má finna kaffihús og veitingastaði á svo til hverju horni, leit ég á eiginmanninn og spurði: Hvar hefur þessi borg eiginlega verið allt mitt líf? Á Byres Road númer 134 fundum við Kember & Jones delí og kaffihús og þegar ég opnaði hurðina var ég komin heim. Við fengum borð uppi með útsýni yfir aðalhæðina þar sem við heldur betur gátum notið góðs anda staðarins.

Á blogginu skrifa ég aldrei svona 'vikan mín á Instagram'-færslur (afsakið en mér finnst slíkar færslur tilgangslausar með öllu) en þegar ég tók myndavélina upp úr töskunni og ætlaði að taka myndir af West End-hverfinu til að deila á blogginu þá áttaði ég mig á því að batteríið varð eftir í hleðslutækinu heima ... ég er ekki í lagi! Sem betur fer var eiginmaðurinn með símann á sér þannig að ég tók þessar á Kember & Jones og deildi þeim á Instagram. En þetta þýðir að ég þarf að fara aftur til Glasgow.
Kember & Jones delí og kaffihús í Glasgow · Lísa Hjalt


Aftur að kaffihúsinu. Persónulega þá þoli ég ekki þegar ég panta latte og það er borið fram í stóru glasi. Ég var svo heilluð af hráum stíl og hönnun Kember & Jones í gær að ég hreinlega gleymdi að spyrja hvernig þau bæru það fram. Kaffið kom í meðalstóru, svolítið gamaldags glasi, sem fór ekkert í taugarnar á minni latte-sál. Aðalatriðið var að kaffið var gott! Ég pantaði samloku á matseðlinum þeirra með grilluðu grænmeti, hummus, spínati og harissa chilli-dressingu, með baunum og salati til hliðar, sem var gómsæt. Þegar ég hélt að þetta kaffihús gæti ekki heillað mig meira þá fann ég á borði á aðalhæðinni svo til allar uppskriftabækurnar á óskalistanum mínum (Sunday Suppers eftir Karen Mordechai og A Kitchen in France: A Year of Cooking in My Farmhouse eftir Mimi Thorisson (íslenskur eiginmaður hennar, Oddur Þórisson, tekur myndirnar), bara til að nefna einhverjar, og ég bætti á listann The River Cafe Classic Italian Cookbook eftir Rose Gray and Ruth Rogers). Þetta kaffihús er einfaldlega draumur.

Að lokum verð ég að segja að ef þið ferðist einhvern tíma til Glasgow eða millilendið þar, ekki gera þau mistök að dvelja bara í einn dag. Ég gæti eytt nokkrum dögum bara í West End-hverfinu. Í raun þá gæti ég eytt nokkrum dögum í að njóta kaffi- og veitingahúsanna og andrúmsloftsins á Byres Road eingöngu.

fimmtudagur, 17. október 2013

París: fyrir ári síðan við Palais Royal

París: fyrir ári síðan við Palais Royal · Lísa Hjalt


Ég var með París í huganum þegar ég vaknaði í morgun og þegar ég leit á dagatalið áttaði ég mig á því með bros á vör að ég var í París á þessum degi fyrir akkúrat ári síðan. Ég átti enn nokkrar myndir úr ferðinni sem ég hafði ekki deilt á blogginu. Myndin hér að ofan sýnir stemninguna fyrir utan Le Nemours kaffihúsið, sem er við Palais Royal í 1. hverfi. Við settumst ekki niður til að fá okkur kaffi þar sem við höfðum verið að borða hádegisverð og eftirrétt á veitingastað hinum megin við Signu. En það var grenjandi rigning og göng Palais Royal veittu skjól.
París: fyrir ári síðan við Palais Royal · Lísa Hjalt


miðvikudagur, 12. júní 2013

Espresso macchiato & hádegisverður á Konrad

Espresso macchiato & hádegisverður á Konrad · Lísa Hjalt


Á laugardaginn fór ég inn í borg og eyddi deginum með vinkonu minni. Planið var að smakka kaffið og borða hádegisverð á Konrad. Við fengum borð úti í skugganum og byrjuðum á kaffinu. Ég er yfirlýst latte-manneskja en undanfarið hef ég leyft mér að lifa hættulega og fæ mér þá espresso macchiato þegar ég sest niður á kaffihúsum en gríp með mér latte í götumáli ef ég er á ferðinni. Ekkert smá hugrekki!

Ég er ekki kaffisérfræðingur og hef ekki hugmynd um hvernig á að lýsa hinum fullkomna kaffibolla en ég veit að espresso bollinn sem ég fékk á laugardaginn var fullkominn. (Ef þið hafið áhuga á kaffismökkun þá verð ég að benda ykkur á Barista's Log viðbótina sem einn vinur minn þróaði sem er bæði kaffi- og tölvugúrú. Þegar ég sé þessar myndir þá væri ég alveg til í að vita meira um list kaffismökkunar.)
Kaffivélin á Konrad, Luxembourg · Lísa Hjalt


Þegar við vorum búnar að drekka kaffið færðum við okkur inn til að snæða hádegisverð. Karríréttir eru sérgrein þeirra á Konrad en á laugardögum er einfaldleikinn í eldhúsinu allsráðandi og ég fékk mér grænmetisböku með salati. Maturinn bragðaðist mjög vel. Ég lýg ekki, ég er enn að hugsa um þessa böku og stefni á að fá mér hana aftur fljótlega. Ég fékk mér líka glas af lífrænu rósavíni sem fullkomnaði máltíðina.

Bókahillur á Konrad, Luxembourg · Lísa Hjalt
Hádegisverður á Konrad, Luxembourg · Lísa Hjalt


Eins og sést á myndunum er Konrad einn af þessum hráu stöðum sem mér finnst alltaf skemmtilegir. Hann er í hjarta borgarinnar og er reyklaus og er auk þess bar sem býður reglulega upp á uppistand. Við borðin má ýmist sjá viðar- eða leðurstóla og upp við barinn eru þeir í iðnaðarstíl. Loftbitarnir eru sýnilegir, veggir hvítir fyrir utan einn sem er veggfóðraður með blómamynstri. Það eru engir matseðlar heldur er allt skrifað á krítartöflur.

Mér leiðist að koma inn á staði þar sem stemningin er einhvern veginn þvinguð; ekki afslöppuð. Mér líkar það best þegar eigendur kaffi- og veitingahúsa leggja meiri áherslu á að skapa gott andrúmsloft heldur en að dæla peningum í glæsilegar innréttingar og skrautmuni. Konrad er einmitt svona afslappur staður sem er laus við alla tilgerð og þar sem viðmót starfsmanna er vingjarnlegt.



Ég tók þessa mynd nýverið sem sýnir stemninguna fyrir utan staðinn. Hún er hluti af færslu á ensku útgáfu bloggsins þar sem ég sagði frá því þegar ég uppgötvaði fyrst götuna Rue du Nord.



fimmtudagur, 14. mars 2013

kaffihúsið the butcher's daughter í new york

Sjö ára sonur minn hefur mikinn áhuga á að ferðast til New York. Ég veit ekki hvers vegna, ég held að það hafi eitthvað með Madagascar teiknimyndirnar að gera. Ég er búin að segja við hann að einn daginn förum við bara tvö saman. Það er langt síðan ég var í NY og hvorki dæturnar né eiginmaðurinn eru spennt fyrir NY-ferð. Þegar við erum tvö saman í eldhúsinu að baka þá spyr ég hann oft hvað hann vilji gera og skoða þegar við förum (efst á óskalista hans er Frelsisstyttan en ég er búin að segja honum að við eyðum ekki allri ferðinni á Liberty Island). Yfirleitt segist hann bara vilja kíkja á kaffihús - ferðafélagi mér að skapi. Þegar ég sýndi honum þetta sem opnaði í nóvember, The Butcher's Daughter, sem er líka djúsbar og grænmetisstaður, leist honum vel á. Kannski að við eigum eftir að sitja þarna saman og spjalla um heima og geima, áður en við kíkjum á eitthvað safn.


myndir:
Taylor Jewell fyrir Vogue US


þriðjudagur, 22. janúar 2013

parís: île saint louis


Það er Parísarstemning á báðum bloggunum í dag enda er París alltaf góð hugmynd, svo ég geri orð Audrey Hepburn að mínum. Á Bright.Bazaar blogginu í gær fann ég tengil á þessa skemmtilegu mynd af Café Louis Philippe, sem er tekin af Nichole Robertson (hún er höfundur bókarinnar Paris in Color). Hugurinn fór að sjálfsögðu strax til Parísar, nánar tiltekið í 4. hverfi þar sem ég var á fallegum haustdegi í október. Við höfðum rölt frá 1. hverfi í austurátt og enduðum í götunni Rue du Pont Louis-Philippe þar sem mig langaði að kíkja í tvær skemmtilegar búðir, Papier + og Melodies Graphiques.

Kaffihúsið sem Nichole tók mynd af er alveg við Pont Louis Philippe, eina af brúnum sem tekur mann til litlu eyjunnar Île Saint Louis, sem stendur í miðri Signu. Fyrstu tvær myndirnar í færslunni eru teknar á brúnni.


Áður en ég fór til Parísar las ég bókina Paris: The Collected Traveler eftir Barrie Kerper. Ég hef minnst á hana áður hér á blogginu og þó að bókin sé langt frá því að vera gallalaus þá fékk ég fullt af fínum hugmyndum við lesturinn. Í bókinni er meðal annars safn greina um París og ein af mínum uppáhalds er eftir Herbert Gold sem kallast 'On the Île Saint-Louis' og hefst á síðu 196. Hér er brot úr greininni á ensku:

The Ile-Saint-Louis is like France itself—an ideal of grace and proportion—but it differs from actual France in that it lives up to itself. Under constant repair and renovation, it remains intact. It is a small place derived from long experience. It has strength enough, and isolation enough, to endure with a certain smugness the troubles of the city and the world at whose center it rests.

The self-love is mitigated partly by success at guarding itself and partly by the ironic shrugs of its inhabitants, who, despite whatever aristocratic names or glamorous professions, live among broken-veined clochards (hobos) with unbagged bottles, tourists with unbagged guidebooks, Bohemians with bagged eyes.

The actual troubles of the world do not miss the Ile Saint-Louis—one doesn't string hammocks between the plane trees here—but the air seems to contain fewer mites and less nefarious Paris ozone.

The lack of buses, the narrow streets, the breeze down the Seine help. And as to perhaps the most dangerous variety of Paris smog, the Ile Saint-Louis seems to have discovered the unanswerable French reply to babble, noise, advice and theory—silence.

One can, of course, easily get off this island, either by walking on the water of the Seine or, in a less saintly way, by taking a stroll of about two minutes across the slim bridges to the Left Bank, the Right Bank, or the bustling and official neighbor, the Ile de la Cite.

Island fever is not a great danger, despite the insular pleasures of neatness, shape, control. Some people even say they never go to "Paris." (In 1924, there was an attempt to secede from Paris and France, and Ile Saint-Louis passports were issued.) Monsieur Filleul, the fishmonger, used to advertise: "Deliveries on the Island and on the Continent."

[svartur texti, minn]

Ég fann greinina í heild sinni á vef Los Angeles Times fyrir ykkur sem hafið áhuga á að lesa hana alla.


Ég á eftir að skoða Île Saint Louis betur því mig langar að eiga betri myndir af byggingunum þar og mannlífinu. Ég á líka alveg eftir að fara í sennilega eina frægustu ísbúð í heimi, Berthillon.

Þegar við vorum þarna í október þá langaði okkur ekki í ís heldur að setjast aðeins niður og hvíla okkur áður en við héldum göngunni áfram. Við fengum okkur te á Le Saint Régis, sem er á horni Rue Jean du Bellay og Rue Saint Louis en l'Île (sjá mynd til vinstri hér að neðan). Þetta var án efa dýrasti tebollinn í lífi mínu hingað til en hann var hverrar evru virði því mannlífið þarna á horninu var stórbrotið; svo gaman að sitja þarna og spjalla og fylgjast með því sem fyrir augum bar.

Eftir tebollann héldum við svo yfir Pont Saint Louis-brúna til að skoða Notre Dame-kirkjuna, sem er á Île de la Cité-eyju.


Ef þið eruð eins og ég og alltaf í stuði fyrir París þá verð ég að benda ykkur á bloggið Happy Interior Blog sem bloggvinur minn Igor skrifar. Ein sería á blogginu hans kallast From Place To Space og undanfarið er hann búinn að ferðast töluvert til Parísar. Ég ætti kannski að vara ykkur við því mig dauðlangar til Parísar í hvert sinn sem ég les Parísarfærslurnar hans.

myndir:
Lísa Hjalt