þriðjudagur, 22. desember 2015

Möndlugrautur (risalamande) | Gleðilega hátíð

Möndlugrautur (risalamande), uppskrift · Lísa Hjalt


Þá líður að jólum og tími kominn á síðustu bloggfærslu ársins. Ég mátti til með að endurbirta uppskriftina að möndlugraut (risalamande), sem er ávallt ein af mest skoðuðu uppskriftunum fyrir jól á matarblogginu gamla. Möndlugrautur var eftirréttur í minni barnæsku en hann var kannski ekki árleg jólahefð. Grauturinn hefur verið á jólaborðum Dana síðan um lok 19. aldar og hann hefur gengið í gegnum einhverjar breytingar. Ég held að ég fari með rétt mál þegar ég segi að rjómanum hafi ekki verið bætt í grautinn fyrr en á tímum Síðari heimstyrjaldarinnar, til að drýgja grjónin sem þá voru dýr. Fyrir nokkrum árum síðan bjuggum við í Kaupmannahöfn og um jólin var okkur boðið í mat hjá Dísu frænku minni og dönskum eiginmanni hennar Lars. Hann bar grautinn fram sem eftirrétt með lífrænni kirsuberjasósu sem var dásemdin ein. Þetta var árið 2009 og síðan þá hefur grauturinn verið ein af jólahefðum okkar.


Grautinn ber ég fram á aðfangadagskvöld. Ef notuð er tilbúin sósa þá má fá lífræna sem inniheldur ekki hvítan sykur. Sósuna er annars auðvelt að útbúa sjálfur. Í þau skipti sem ég hef getað keypt fersk kirsuber á þessum árstíma þá hef ég notað 600 grömm. Ég sker berin og fjarlægi steinana áður en ég mauka berin í matvinnsluvél ásamt 1 matskeið af hreinu hlynsírópi. Ég læt þau svo á litla pönnu, bæti 2-3 matskeiðum af hrásykri saman við og kreisti örlítinn safa úr sítrónu yfir. Berin sýð ég við vægan hita í 10-15 mínútur, eða þar til vökvinn hefur að mestu gufað upp. Sósuna læt ég svo kólna í skál. Það má líka nota frosin kirsuber en þá nota ég bara 350 grömm sem ég læt beint á pönnuna ásamt sírópinu, sykrinum og sítrónusafanum án þess að mauka og sýð lengur. Ég stappa þau í lokin með gaffli. Um daginn tókum við smá forskot á jólin og með grautnum bar ég fram sósu sem ég gerði með frosnum blönduðum berjum. Hún var ákaflega góð með grautnum, en það er sú sósa sem sést á myndunum.

Heimilið er tilbúið fyrir jólin og hangikjötið á leið með hraðsendingu frá Íslandi. Það er lítil von um hvít jól í Skotlandi: fyrir utan borðstofugluggann er runni sem er byrjaður að bruma, auk þess sem grasið í garðinum er enn þá fagurgrænt. Ég óska ykkur gleðilegrar hátíðar og farsældar á nýju ári um leið og ég þakka fyrir innlitin á bloggið og hlýjar kveðjur á liðnum árum.
Möndlugrautur (risalamande), uppskrift · Lísa Hjalt


Uppskriftina að möndlugrautnum birti ég á gamla matarblogginu um jólin 2010 þegar við bjuggum í Antwerpen og það var nú bara vegna þess að einhver spurði mig hvernig ég gerði risalamande (stundum skrifað ris a la mande eða ris à l'amande), sem ég hafði eitthvað minnst á. Sem fyrr segir kemur hún frá fyrrnefndum Lars og ég gerði bara örlitla breytingu: ég nota aðeins meiri sykur því börnunum finnst það betra (Lars notar hálfa matskeið) og ég afhýði ekki möndlurnar því hýðið gefur trefjar. Hún er dásamleg vanillulyktin sem berst um allt hús að morgni aðfangadags en grautinn geri ég alltaf nokkuð snemma því hann þarf að kólna. Ef ég fæ ekki lífræna kirsuberjasósu þá einfaldlega bý ég til sósu sjálf eins og fram kom hér að ofan. Ef þið viljið útbúa léttari útgáfu af grautnum þá má skipta út rjómanum fyrir gríska jógúrt eða blanda grískri jógúrt og rjóma saman. Um jólin erum við samt alltaf með alvöru graut, eins og einhver orðaði það, og notum rjóma eingöngu.

MÖNDLUGRAUTUR (RISALAMANDE)

190 g grautargrjón
250 ml vatn
1 lítri mjólk
1 vanillustöng
2 matskeiðar lífrænn hrásykur
½ teskeið fínt sjávar/Himalayasalt
75 g möndlur
400 ml rjómi

Byrjið á því að gera grjónagrautinn: Skolið grjónin, sjóðið þau í 250 ml af vatni í 2 mínútur og bætið svo mjólkinni út í. Sjóðið grjónin í ca. 35 mínútur á lágum hita og tillið loki á pottinn þannig að gufan sleppi í gegn. (Þessi suðutími á við algeng grautargrjón (grødris) í Danmörku, aðrar tegundir gætu þurft lengri suðutíma, en grjónin eiga að vera mjúk og mestur vökvi gufaður upp.)

Áður en vanillustönginni er bætt út í pottinn þarf að kljúfa hana í tvennt. Skerið í gegnum hana miðja með beittum hníf og skafið kjarnann úr henni (notið svo endilega kjarnann til þess að búa til ykkar eigin vanillusykur með hrásykri í glerkrukku).

Þegar grauturinn er tilbúinn skuluð þið fjarlægja pottinn af hellunni og veiða báða helminga vanillustangarinnar upp úr. Setjið grautinn í stóra skál og blandið saltinu og hrásykrinum saman við. Setjið lok/plastfilmu á skálina og látið grautinn kólna í kæliskáp.

Hakkið möndlurnar með hníf eða í matvinnsluvél og blandið saman við kaldan grautinn í skálinni (ef þið viljið afhýða möndlurnar þá eru þær látnar liggja í heitu vatni og hýðið er nuddað af). Þeytið því næst rjómann (ekki stífþeyta) og blandið honum rólega saman við grautinn með sleif.

Berið möndlugrautinn fram með kirsuberjasósu eða sósu með blönduðum berjum.


Recipe in English.
mánudagur, 14. desember 2015

Sænskt fléttubrauð með kardamomu

Sænskt fléttubrauð með kardamomu (jól) á leið í ofninn · Lísa Hjalt


Sænskt fléttubrauð með kardamomu er nýjasta uppskriftin á jólamatseðlinum okkar; ný hefð sem við tökum fagnandi og fellur vel inn í brönsjinn á sunnudögum í desember. Kannski mætti frekar kalla uppskriftina norrænt eða skandinavískt jólabrauð þar sem það er ekki endilega sænskt. Sumir kalla þetta kaffibrauð eða tebrauð en ég er vön sænska heitinu. Í Finnlandi kalla þeir brauðið pulla og annað finnskt heiti yfir það er nisu eða nissua. Í Noregi ber það heitið julekake og innheldur rúsínur, en ég held að Norðmenn flétti ekki endilega hleifinn. Í Danmörku hef ég séð teboller eða bollur með kardamomum. Innihald þessara uppskrifta er eitthvað breytilegt en samnefnarinn er kardamoman.
Sænskt fléttubrauð með kardamomu (gerdeig) · Lísa Hjalt
Sænskt fléttubrauð með kardamomu (gerdeig) · Lísa Hjalt


Í Svíþjóð baka þeir ýmist brauð eða bollur úr deiginu og þeir skreyta brauðið gjarnan með perlusykri, sem er hráefni sem ekki er að finna í mínum eldhússkápum. Í sumum uppskriftum er brauðið fléttað í hring sem er fylltur með smjöri, sykri og kryddum, og möndluflögum dreift yfir. Allar þessar norrænu uppskriftir innihalda smjör og sykur, en það ætti ekki að koma á óvart að mín útgáfa er sykurminni og ég nota örlitla kókosolíu í staðinn fyrir smjör. Brauðið er samt sem áður mjúkt með sætu bragði og því má bæta við að himneskt bragð kardamomunnar er það sem við sækjumst aðallega eftir.Í mína uppskrift nota ég nýmalaða kardamomu, úr hálfri matskeið af heilum kardamomum (20-25 af þessum grænu). Fyrstu tilraunir mínar með brauðið innihéldu ferskt ger en ég ákvað að gera tilraunir með þurrger líka ef ske kynni að einhverjir lesendur hefðu ekki aðgang að fersku (enginn á heimilinu kvartaði, sennilega voru allir í kardamomudásvefni!). Uppskriftin kallar á 735 grömm af mjöli (5½ bolla) en það er nóg að nota þurrger sem ætlað er 500 grömmum. Ég baka brauðið með fínmöluðu spelti en hef einnig notað lífrænt hveiti, með fersku eða þurrgeri, með góðum árangri. Ég ætlaði að deila gerlausri uppskrift líka en til að koma í veg fyrir misskilning þá geri ég það síðar í sér færslu.
Nýbökuð sænsk fléttubrauð með kardamomu (jól) · Lísa Hjalt


Ég hef sagt það áður að ég á nokkra danska forfeður og ólst upp á Íslandi við ýmsar danskar hefðir, en man ekki eftir fléttubrauði á okkar borðum. Útlitið á brauðinu hefur alltaf heillað mig og þar sem brauðin sem ég hef smakkað hafa verið fullsæt fyrir minn smekk langaði mig að gera mína eigin útgáfu. Að baka fléttubrauð er ekki flókið en þar sem fyrst þarf að virkja gerið og láta svo deigið hefast tvisvar þá snýst þetta meira um bið. Fyrri hefingin er klukkutími og sú síðari þegar búið er að flétta hleifana er 30-40 mínútur. Ef þið kunnið ekki að flétta gerið þá bara venjulega brauðhleifa í staðinn. Eins og ég sagði fyrr þá er uppskriftin mín laus við smjör og er sykurminni en aðrar sem ég hef séð. Við skulum bara segja að í minni er það kardamoman sem er í aðalhlutverki. Þess má svo geta að þegar ég baka finnst mér ákaflega þægilegt að nota bollamál í stað eldhúsvogar og gef þær mælieiningar upp í aðferðinni fyrir þá sem eru sama sinnis (1 bolli = 250 ml).

SÆNSKT FLÉTTUBRAUÐ MEÐ KARDAMOMU

gerir 2 hleifa
17 g ferskt ger (pressuger) + 125 ml vatn (½ bolli) til að virkja gerið
  (eða þurrger fyrir 500 g af mjöli - sjá punkta í ljósa boxinu hér að neðan)
185 ml mjólk (¾ bolli)
4 matskeiðar lífrænn hrásykur
2 matskeiðar kókosolía
1 teskeið sjávar/Himalayasalt
½ mateskeið heilar kardamomur (eða malaðar)
1 (hamingju)egg
135 g + 600 g fínmalað spelti eða lífrænt hveiti (1 + 4½ bolli)
örlítil kókosolía til að smyrja skálina sem deigið hefast í
1 eggjahvíta til að pensla brauðhleifana

Til að virkja gerið: Setjið ferska gerið (pressugerið) í skál með heitu vatni (35-37°C), hrærið aðeins með skeið til að leysa gerið upp og látið standa í ca. 5 mínútur, þar til yfirborðið er froðukennt. (Sjá punkta í ljósa boxinu hér að neðan ef notað er þurrger.)

Brjótið hýði kardamomunar með t.d. kökukefli til að fjarlægja fræin. Grófmalið fræin með mortéli eða kryddkvörn. Það má líka pakka þeim inn í bökunarpappír og mala þau með kökukefli.

Hitið mjólkina í litlum potti - ekki sjóða hana! Blandið saman hrásykri, kókosolíu, salti og kardamomu í skál og hellið volgri mjólkinni yfir. Hrærið rólega á meðan þið leysið upp sykurinn og kókosolíuna.

Setjið 135 grömm (1 bolla) af spelti/hveiti í stóra skál ásamt eggi. Brjótið rauðuna með pískara og hellið gerblöndunni og mjólkurblöndunni út í. Hrærið með pískara þar til blandan er kekklaus. Bætið 600 grömmum (4½ bolla) af mjöli út í og blandið saman með trésleif. Hnoðið deigið aðeins í höndunum á meðan það er enn í skálinni og ef áferðin er klístruð sigtið örlitlu mjöli yfir og hnoðið áfram þar til rétt áferð næst. Það á að vera raki í deiginu en það á ekki að vera klístrað.

Stráið mjöli á borðplötu og hnoðið deigið í höndunum í 5-7 mínútur. Smyrjið skálina með örlítilli kókosolíu áður en þið setið deigið aftur ofan í hana. Breiðið viskustykki (má vera rakt) yfir skálina og látið deigið hefast á hlýjum stað í alla vega klukkutíma, eða þar til deigið hefur tvöfaldast.

Sláið deigið niður og hnoðið aðeins áður en þið skiptið því til helminga. Mótið þrjár jafnstórar kúlur úr hverjum helmingi. Rúllið kúlurnar og mótið þannig að úr verði 6 jafnstórar lengjur, hver ca. 30 cm.

Færið 3 lengjur í einu yfir á ofnplötu með bökunarpappír. Klípið endunum sem eru fjærst saman, fléttið lengjurnar og stingið endunum undir. Endurtakið með hinar 3 lengjurnar og hafið gott bil á milli fléttuðu hleifanna. Látið þá hefast undir viskustykki á hlýjum stað í 30-40 mínútur til viðbótar.

Penslið hleifana með eggjahvítu og bakið við 180°C (160°C á blæstri) í 22-25 mínútur. Ef bankað er á brauðbotninn og það heyrist holhljóð þá er brauðið fullbakað. Látið brauðin kólna á kæligrind áður en þið sneiðið þau og berið fram með smjöri.

Recipe in English.

Í þessa uppskrift má nota ferskt ger eða þurrger. Að virkja ferskt ger: sjá leiðbeiningar hér að ofan.

Ef notað er þurrger: Ég hef bakað brauðin með tvenns konar þurrgeri. Þó að uppskriftin kalli á 735 grömm af mjöli (5½ bolla) þá nota ég þurrger sem ætlað er fyrir 500 grömm - fylgið leiðbeiningum á umbúðum þar sem þær eru mismunandi eftir framleiðanda.

Ein tegundin er einföld í notkun (instant): Ég blanda einum pakka saman við 135 grömmin af mjölinu áður en egginu og mjólkurblöndunni er hrært saman við. Þegar restinni af mjölinu, 600 grömmunum, er blandað saman við þá hef ég 100-125 ml af volgu vatni til hliðar og nota eftir þörfum.

Hin tegundin sem ég hef notað kallar á 125-150 ml volgt vatn (1 hluti af soðnu á móti 2 hlutum af köldu), 1 teskeið af sykri og 1 matskeið af þurrgeri. Sykurinn er fyrst leystur upp í vatninu í skál áður en gerinu er stráð yfir. Því næst þarf að hræra vel og svo er skálin geymd á hlýjum stað í ca. 15 mínútur þar til yfirborðið er froðukennt.þriðjudagur, 24. nóvember 2015

Lífið ... í SkotlandiÞað hefur verið hljótt á blogginu í mánuð og á þessum tíma tókst mér einhvern veginn að pakka dótinu okkar í kassa og flytja til Skotlands. Kannski þurfið þið smá stund til að melta þessar fréttir … eða jafnvel að lesa þær aftur. Ég bý núna við vesturströndina, suðvestur af Glasgow, í göngufæri við miðbæjarkjarna og strönd. Alvöru strönd. Á fyrsta degi vaknaði ég upp við máfana og mér leið eins og ég væri komin heim. Ég elska þessa nálægð við sjóinn; þetta er það sem maður er alinn upp við í Reykjavík. Nýja heimilið okkar er gamalt, uppgert hús með sál: franskir gluggar, hátt til lofts, upprunalegar viðarhurðir og stigi, og bæði gömul og ný gólfborð. Gæti ekki verið meira ég. Í garðinum eru meira að segja hydrangea-blóm! Á því sem við köllum engin-nettenging-enn-þá tímabilinu sat ég við þennan glugga í borðstofunni með kaffi og lagði kapal, með alvöru spilum, svona þegar ég þurfti hlé frá kössunum. Mjög gamaldags og róandi. Jóladiskurinn með KK og Ellen var í spilaranum.

Þessa dagana snýst lífið aðallega um það að taka upp úr kössum, að sjá til þess að börnin aðlagist nýjum skólum og að leyfa eyranu að venjast skoska hreimnum. Ég hélt að það yrði miklu erfiðara að skilja Skotana en hafði greinilega rangt fyrir mér. Þar sem ég hef bara búið hérna í stuttan tíma þá get ég ekki fullyrt mikið en ég verð að segja að mér finnst það eiginlega með ólíkindum hvað ein lína á landakorti getur breytt fólki. Skotarnir eru svo ólíkir Englendingum í skapi. Þetta hlýtur að vera náttúran og loftslagið.mánudagur, 26. október 2015

Kryddbrauð

Kryddbrauð (CafeSigrun uppskrift) · Lísa Hjalt


Kannski ætti ég ekki að viðurkenna það en jólaskapið kom snemma í ár. Ég skrifa það á börnin. Nýverið við kvöldverðarborðið byrjuðu þau að tala um jólahefðirnar okkar, um matinn sem við berum fram, og ég hef ekki jafnað mig. Ég er alvarlega að hugsa um að þykjast vera amerísk og halda upp á Þakkargjörðardaginn í ár bara til þess að fá kalkún og graskersböku í nóvember. Aftur að jólaskapinu mínu, sem er svo alvarlegt að ég bakaði kryddbrauð tvo daga í röð í síðustu viku, aðallega til þess að finna jólakryddilminn úr ofninum. Og í gær byrjaði ég að gera tilraunir fyrir jólabrönsj (afsakið slettuna en brönsj er bara svo gott orð) sem einhverjir hafa kannski þegar séð á Instagram.
Kryddbrauð (CafeSigrun uppskrift) · Lísa Hjalt


Ég hef verið frekar upptekin þennan októbermánuð en einn af hápunktunum var án efa að fá bókina hennar (Cafe)Sigrúnar vinkonu í póstinum (það glittir í hana á tveimur myndum). Þið hafið kannski tekið eftir því að bókin kom út í byrjun október og er stútfull af uppskriftum með myndum af þeim öllum. Þetta er bókin sem ég hjálpaði henni með eins og ég sagði ykkur í þessari færslu. Ég hélt að hjartað myndi springa þegar ég opnaði umslagið. Það var ansi furðuleg tilfinning að halda á bókinni og fletta síðunum: þarna voru á prenti öll skjölin sem höfðu verið á tölvuskjánum mánuðum saman! Ég ætla að deila nokkrum uppskriftum síðar og leyfa ykkur að kíkja í bókina en hana getið þið keypt á netinu og í bókaverslunum.


Uppskriftin að kryddbrauðinu, sem inniheldur kanil, engifer, múskat, negul og kakó, er ein af þessum sem ég deildi á gamla matarblogginu. Þetta er eilítið breytt útgáfa af uppskriftinni hennar (Cafe)Sigrúnar, en hún setti sína saman eftir ferð um kryddskógana á Zanzibar. Hún hefur ferðast um Afríku og verið fararstjóri og maðurinn hennar á það til að „trítla“ með fólk upp á Kilimanjaro. Sigrún notar meira magn af kryddum í sína uppskrift og eina útgáfu af hennar er einmitt að finna í bókinni góðu. Ég hef bakað kryddbrauðið í mörg ár og það er okkar þægindamatur. Stundum þegar kalt er í veðri, og bara ég og börnin erum heima, þá borðum við það í kvöldmat ásamt heitu súkkulaði. Brauðið er eitt af því fáa sem ég borða með smjöri en mér finnst það líka gott án þess. Ég baka það með spelti og blanda fín- og grófmöluðu saman. Ef það er afgangur af brauðinu þá frysti ég það í sneiðum og svo fer það bara beint í brauðristina.

KRYDDBRAUÐ

3½ dl spelti (175 g)
2½ dl haframjöl (100 g)
1¼ dl lífrænn hrásykur (110 g)
2-3 matskeiðar kakó
2½ teskeið vínsteinslyftiduft
1 teskeið kanill
½ teskeið engifer
¼ teskeið múskat
¼ teskeið negull
250 ml mjólk/sojamjólk
2 matskeiðar hreint hlynsíróp

Blandið þurrefnunum saman í stórri skál.

Hellið mjólkinni og hlynsírópinu út í og blandið rólega saman þar til ekkert þurrt mjöl er eftir á botninum. Bætið 1-3 matskeiðum af mjólk ef þið þurfið.

Klæðið brauðform með bökunarpappír og hellið deiginu ofan í.

Bakið við 190°C (175°C á blæstri) í 35-40 mínútur. Það er ágætt að stinga gaffli eða prjóni í miðjuna til að sjá hvort brauðið sé nokkuð of blautt. Sigrún segir að það megi alveg vera pínu blautt og klesst og mín börn eru alveg sammála henni. Ég baka því brauðið aldrei lengur en í 35 mínútur í mínum ofni.

Recipe in English.miðvikudagur, 7. október 2015

Rabarbaramulningur með berjum

Rabarbaramulningur með berjum · Lísa Hjalt


Aulabrandarar eru held ég eitthvað sem flestar fjölskyldur eiga í settum til að nota við ákveðin tilefni. Hjá okkur er eiginmaðurinn höfundur þeirra flestra og hann hefur meira að segja samið einn um mulning (crumble í ensku). Í hvert sinn sem ég útbý mulning - með rabarbara og berjum er okkar uppáhald - þá má heyra hann eða eitthvert barnanna syngja línu úr Bond-laginu hennar Adele í Skyfall með smá breytingum. Í stað when it crumbles syngja þau let it crumble. Aulahúmor, ég veit, en samt brosi ég í hvert sinn. Ég veit ekki hvað það er með mulning sem er bakast í ofninum, en það virðist sem allir í fjölskyldunni séu byrjaðir að bíða í eldhúsinu góðum tíu mínútum áður en hann er tilbúinn. Það má sjá þau labba í kringum borðið mitt góða og kíkja af og til á ofninn. Sennilega er það dásamlega lyktin. Það er líka eitthvað notalegt við mulning, sérstaklega að hausti þegar laufin eru byrjuð að skipta litum.

Rabarbaramulningur með berjum · Lísa Hjalt


Við erum mjög hrifin af rabarbaramulningi með annaðhvort jarðarberjum eða bláberjum, helst með bæði, en svo er líka ljúffengt að nota ferskar plómur eða apríkósur. Í stað þess að nota mikinn sykur í grunninn þá nota ég saxaðar döðlur (ég kaupi hálf-þurrkaðar sem eru með steinum) og bara tvær matskeiðar af sykri. Döðlur eru ríkar af náttúrulegum sykri og þær eru líka trefjaríkar.


Flest ykkar eru líklega vön því að nota slatta af smjöri í mulninginn en það er ekkert smjör í þessum. Ég hvorki baka né elda með smjöri. Ég nudda mjúkri kókosolíu saman við speltið og bæti svo yfirleitt möluðum möndlum, eða fínt hökkuðum, til að fá réttu áferðina, sem er svona örlítið brakandi, eins og kex. Valhnetur og heslihnetur eru líka kjörnar í mulning.
Rabarbaramulningur með berjum · Lísa Hjalt


Þegar ég var að alast upp þá eyddi ég miklum tíma hjá afa og ömmu (í föðurættina) í Vogahverfinu í Reykjavík. Rabarbarabeðið í garðinum þeirra var stórt og við borðuðum stilkana eins og sælgæti. Að sjálfsögðu var gerð sulta úr rabarbörunum og svo gerði mamma oft rabarbaragraut sem eftirrétt. Hér í Bretlandi er það sem kallast rabarabaragrautur meira eins og kaka, sem er ekkert skylt grautnum sem mamma gerði. Ætli þessir grautar sem við Íslendingar þekkjum séu ekki norræn hefð; silkimjúkir eins og þykk súpa eða þeytingur, og bornir fram með rjóma - bragðið sætt og dásamlegt!

Rabarbaramulningur með berjum · Lísa Hjalt
Rabarbaramulningur með berjum · Lísa Hjalt


Ég hafði þegar deilt uppskrift að rabarbaramulningi með jarðarberjum á ensku útgáfu gamla matarbloggsins. Í raun er þetta sama uppskriftin nema að grunnurinn er matarmeiri og ég nota líka bláber. Það má skipta bláberjunum út fyrir meira af jarðarberjum eða nota önnur ber í staðinn. Við bjuggum í Luxembourg þegar ég setti þessa uppskrift saman og við vorum svo heppin að vera með rabarbara í garðinum. Ég var innblásin af mulningsuppskrift frá (Cafe)Sigrúnu vinkonu sem ég hafði prófað og var svo hrifin af. Muniði eftir færslunni með sýnishorni af uppskriftabókinni hennar? Nú er bókin komin út og kallast Café Sigrún: Hollustan hefst heima. Ég var einmitt að hlusta á útvarpsviðtal við hana í morgun á vefsíðu RÚV þar sem hún var að kynna bókina. Meira um bókina síðar. Ef þið eigið von á gestum og viljið bjóða upp á mulninginn í eftirrétt þá getið þið útbúið hann áður en bíðið bara með að setja toppinn ofan á. Gerið það bara rétt áður en þið setjið hann í ofninn svo að áferð mulningsins verði rétt.

RABARBARAMULNINGUR MEÐ BERJUM

grunnur
400-450 g rabarbari
300 g jarðarber
150 g bláber
100 g döðlur
2 matskeiðar lífrænn hrásykur
1 teskeið engifer
¼ teskeið múskat

mulningur/toppur
50 g möndlur, malaðar
100 g fínmalað spelti
3 matskeiðar hrásykur
2 matskeiðar kókosolía, mjúk
1 matskeið nýkreistur appelsínusafi eða vatn

Grunnurinn: Þvoið rabarbarann og skerið blöðin af. Skerið stilkana í bita sem eru 2-2.5 cm og setjið í stóra skál. Hafið bitana þynnri ef stilkarnir eru mjög sverir. Skolið jarðarberin og snyrtið. Skerið þau í tvennt eða fernt, eftir hversu stór þau eru, og bætið í skálina. Fjarlægið steinana úr döðlunum, saxið þær og bætið í skálina. Að lokum skuluð þið setja sykur, engifer og múskat út í og blanda þessu rólega saman með sleikju. Setjið svo skálina til hliðar á meðan þið útbúð toppinn.

Mulningurinn: Ef þið eigið ekki malaðar möndlur (e. ground almonds) þá skuluð þið setja heilar möndlur í matvinnsluvélina. Setjið þær svo til hliðar. Blandið saman spelti og sykri í skál. Bætið mjúkri kókosolíu saman við og nuddið saman með fingurgómunum (ef kókosolían er í fljótandi formi þá getið þið sett hana í kæli fyrir notkun). Bætið möluðu möndlunum saman við ásamt appelsínusafa og nuddið saman aðeins lengur.

Hellið grunninum úr stóru skálinni í eldfastan bökudisk og dreifið jafnt úr (minn er 25 x 5 cm og hliðarnar halla ekki mikið). Dreifið mulningnum yfir og bakið við 200°C (180° C á blæstri) í 30 mínútur þar til hann er gullinbrúnn. Ef ykkur finnst mulningurinn farinn að vera helst til brúnn þá er ágætt að setja bökunar- eða álpappír yfir bökudiskinn þegar um tíu mínútur eru eftir af baksturstímanum.

Leyfið mulningnum að kólna í nokkrar mínútur og berið svo fram með þeyttum rjóma, heimagerðum vanilluís eða grískri jógúrt.

Recipe in English.
fimmtudagur, 1. október 2015

Virginia Woolf: Dagbækur - bindi 1

Virginia Woolf: Dagbækur - bindi 1


„Eitthvað áhugavert gerist á hverjum degi“ (something interesting happens every day) eru orð sem Virginia Woolf mælti, sem ég og sonur minn höfum tileinkað okkur og breytt í spurningu sem við leitumst við að svara á hverjum degi. Þetta byrjaði í sumar þegar ég las The Diary of Virginia Woolf - Volume 1: 1915-19 - hluti af Woolf-og-Bloomsbury-hóps tímabilinu sem ég er að fara í gegnum. Þau má heyra í stuttri heimildarmynd, The Mind and Times of Virginia Woolf, í aukaefni sem er að finna á The Hours (2002) mynddisknum (í lokin, á 24. mínútu). Einn af viðmælendunum er Nigel Nicolson heitinn, sonur Vitu Sackville-West, bestu vinkonu Woolf. Hann minnist Woolf í uppvexti sínum, hvernig hún átti það til að spyrja endalausra spurninga um allt sem hann hafði brallað tiltekinn dag, og þá ríku áherslu sem hún lagði á það að halda dagbók vegna þess að „eitthvað áhugavert gerist á hverjum degi.“

Fyrir þá sem nærast á spennunni sem fylgir góðri fléttu í skáldsögum hljómar það kannski ekki áhugavert að lesa dagbókarfærslur með veðurlýsingum og slíku. Ég held að hvers kyns æviskrif þurfi að kveikja í manni til að njóta slíkra rita. Í tilfelli dagbóka Woolf þá hjálpar það að vera aðdáandi verka hennar. Hugmynd mín var að enda kvöldlesturinn á því að lesa eina til tvær færslur í Bindi 1 en ég endaði alltaf á því að lesa meira. Það sem mér fannst hvað mest heillandi var hverju hún tók eftir í fari fólks og í umhverfi sínu. Þessar hárnákvæmu lýsingar eru stundum eins og ljóð, jafnvel þegar hún er bara að lýsa veðrinu eða árstíðabreytingum. Svo er það lífið á dögum Fyrri heimsstyrjaldarinnar. „Happily the weather is turned cloudy; spring blotted out, but one must sacrifice spring to the war" (bls. 128 - 15. mars 1918).


Dagbækurnar, í fimm bindum, voru í ritstjórn Anne Olivier Bell (eiginkona Quentin, systursonar Woolf). Í þeim eru neðanmálsgreinar fyrir þá sem vilja vita meira um fólkið og atburðina sem Woolf skrifar um. Fyrsta bindið nær yfir tímabilið frá 1915 til 1919. "My writing now delights me solely because I love writing & dont [sic], honestly, care a hang what anyone says. What seas of horror one dives through in order to pick up these pearls—however they are worth it" (bls. 20 - 16. janúar 1915). Í febrúar 1915, eftir 6 vikna færsluskrif, endar dagbókin skyndilega þegar geðsjúkdómur Woolf gerir vart við sig að nýju, rétt fyrir útgáfu fyrsta verks hennar, The Voyage Out, í mars 1915. Tveimur árum áður hafði hún reynt að fyrirfara sér. Vegna geðrænna vandamála er þögn til ársins 1917 þegar hún byrjar aftur með stuttum færslum. Um haustið verða færslurnar lengri en það er ekki fyrr en árið 1918 sem dagbókin fer á flug og þau skrif verða mikilvægur hluti í lífi Woolf. Í janúar 1919 skrifar hún:
I note however that this diary writing does not count as writing, since I have just reread my years diary & am much struck by the rapid haphazard gallop at which it swings along, sometimes indeed jerking almost intolerably over the cobbles. Still if it were not written rather faster than the fastest typewriting, if I stopped & took thought, it would never be written at all; & the advantage of the method is that it sweeps up accidentally several stray matters which I should exclude if I hesitated, but which are the diamonds of the dustheap. (bls. 233-34)

Á baksíðu: Eldhúsinngangur Monk's-hússins, heimili Woolf-hjónanna í Rodmell

Í apríl 1919 skrifar Woolf langa færslu þar sem hún leiðir hugann að dagbókarskrifum sínum:
I got out this diary, & read as one always does read one's own writing, with a kind of guilty intensity. I confess that the rough & random style of it, often so ungrammatical, & crying for a word altered, afflicted me somewhat. ... But what is more to the point is my belief that the habit of writing thus for my own eye only is good practise. It loosens the ligaments. Never mind the misses & the stumbles. ... What sort of diary should I like mine to be? Something loose knit, & yet not slovenly, so elastic that it will embrace any thing, solemn, slight or beautiful that comes into my mind. I should like it to resemble some deep old desk, or capacious hold-all, in which one flings a mass of odds & ends without looking them through. (bls. 266)
Þessa stundina er ég að bíða eftir að Bindi 2: 1920-24 berist með póstinum og hlakka til að halda áfram þar sem frá var horfið. Fyrir ykkur sem hafið ekki áhuga á dagbókum, en langar að vita meira um líf Woolf, þá er fáanleg ævisagan Virginia Woolf eftir Hermione Lee, sem ég ætla að lesa þegar ég hef lesið öll fimm bindin. Lee er einn af viðmælendum fyrrnefndrar heimildarmyndar.
föstudagur, 25. september 2015

Iznik-leirmunir | Perumöffins

Perumöffins · Lísa Hjalt


Það má gleðjast yfir nokkrum atriðum í þessum septembermánuði. Í næsta bæ hefur nýtt kaffihús opnað og hönnunin kom mér skemmtilega á óvart; hrár stíll í bland við iðnaðarstíl. Ég finn mér afsökun til að hjóla oftar út á pósthús til þess að setjast niður með bók og latte áður en ég held heim. Svo er það umfjöllun um Iznik-leirmuni í nýjasta tölublaði The World of Interiors með mótífum og litum sem hafa heltekið mig. Downton Abbey þættirnir hafa snúið aftur á skjáinn hérna megin hafs með áhugaverðan söguþráð og glæsilega búningahönnun. Þið sem hafið séð þáttinn, tókuð þið eftir bláa kimono-sloppinum hennar Lady Mary? Jæja, hvað meira? Himneskur ilmur af perumöffinsum að bakast í ofninum. Það eru litlu hlutirnir ...
Iznik-leirmunir · Lísa Hjalt


Byrjum á umfjölluninni í októbertölublaði The World of Interiors, þar sem listasögufræðingurinn John Carswell gagnrýnir doðrantinn The Ömer Koç Iznik Collection eftir Hülya Bilgi (600 síður, vegur 5 kíló, fáanlegur hjá John Sandoe Books). Þetta er bæklingur í bókaformi sem sýnir safn Iznik-leirmuna í eigu Koç-fjölskyldunnar, sem er ein sú auðugasta í Tyrklandi. Í sinni áhugaverðu rýni kemur Carswell stuttlega inn á sögu Iznik-leirmunaiðnaðarins frá byrjun 15. aldar til endalokanna 300 árum síðar. Til forna var fyrrum býsanski bærinn Iznik, 100 km suðaustur af Istanbul, í blóma vegna legu hans á helstu viðskiptaleið Anatólíuskagans (Litla-Asía) frá Austurlöndum. Í dag er hann „lítill svefnbær“ en á síðari hluta 13. aldar var hann „einn af fyrstu höfuðstöðunum sem Ottóman-veldið lagði undir sig“.

Myndirnar í umfjölluninni sýna heillandi mótíf á flísum, krúsum og diskum sem máluð eru í líflegum litum. Samkvæmt Carswell eru aðalsmerki Iznik-hönnunar kóbalt-blár, túrkis, mangan-fjólublár, ólífugrænn og rauður. „Í hönnuninni eru ósnortin tyrknesk mótíf sameinuð staðfærðum eiginleikum innflutts kínversks postulíns í bláu og hvítu“ og hann bætir við síðar að „[v]ið höfum enga hugmynd um af hverju þeir völdu þessi ákveðnu sett af mótífum og sameinuðu þau með svo sérkennandi og sérstökum hætti.“


Ef þið eruð á leið til Tyrklands þá getið þið skoðað Iznik-flísar í Topkapi-höllinni í Istanbul. Verðið á fyrrnefndum doðranti er hærra en það sem ég eyði í bækur þessa dagana en fyrir þá sem hafa áhuga þá fann ég tvær ódýrari bækur á netinu sem ég myndi gjarnan vilja skoða og jafnvel finna sess á stofuborðinu mínu: Iznik Pottery and Tiles: In the Calouste Gulbenkian Collection eftir Maria d'Orey Capucho og Iznik: The Artistry of Ottoman Ceramics eftir Walter B. Denny.


Ég er ekki alveg búin með tal um mynstur. Sýningar eru hafnar á sjöttu þáttaröð Downton Abbey og ég er bálskotin í bláa kimono-sloppnum hennar Lady Mary sem leikkonan Michelle Dockery bar svo vel í nokkrum senum í fyrsta þættinum. Ég reyndi að finna myndir af honum á netinu til að sjá smáatriði mynstursins en hafði ekki heppnina með mér þannig að ég setti bara þáttinn á pásu í ITV-spilaranum í spjaldtölvunni og smellti af myndum (afsakið léleg gæði).

Ég veit ekki hvort kimono-sloppurinn sé notuð flík eða sérstaklega hannaður fyrir þættina en ég er heilluð af sniðinu og litnum. Ég held að búningahönnuðurinn Anna Robbins sé að gera frábæra hluti og mér finnst flott hvernig hún sýnir tísku þriðja áratugar síðustu aldar. Ég verð að viðurkenna að ég hafði næstum því gefist upp á Downton Abbey eftir síðustu seríu, sem mér fannst full af þreyttum, endurteknum söguþráðum, en ég er glöð að ég gaf þáttunum annað tækifæri á sunnudaginn. Fyrsti þátturinn lofar góðu ... alla vega búningarnir.


Í myndunum má sjá prufur af Benaki-veggfóðri í litnum blue mink frá Lewis & Wood
og Wild Thing-efninu í copper cobalt

Nú líður að október og hérna er rétt aðeins farið að hausta. Það er kominn tími til að fagna árstíðinni og gera möffins úr öllum þessum perum. Þið hefðuð átt að sjá hamingjusvipinn á andlitum barnanna þegar þessi möffins biðu þeirra hér á borðinu eftir skóla um daginn.
Perumöffins · Lísa Hjalt


Þessi möffins eru hóflega sykruð og stútfull af perum. Ég var spurð að því um daginn í gegnum ensku útgáfu bloggsins út af hverju ég notaði glútenlaust lyftiduft þegar ég virðist baka með mjöli sem inniheldur glúten. Málið er að í ensku eigum við ekki orðið vínsteinslyftiduft heldur er slíkt lyftiduft bara merkt glútenlaust og hjá mér er glútenlausa lyftiduftið frá Doves Farm í uppáhaldi. Mér líkar ekki hefðbundið lyftiduft því það virðist hafa eftirbragð sem truflar mig (notið helmingi minna í uppskriftina ef þið notið hefðbundið). Nokkur orð um valið á milli „buttermilk“ (ekki ósvipuð súrmjólk en meira fljótandi) og perumauks í eggjablönduna: Það veltur á því hvort perurnar séu vel þroskaðar eða mátulega. Ef þær eru enn svolítið harðar þá nota ég gjarnan perumauk (ég kaupi Hipp Organic-maukið fyrir ungbörn) sem gefur möffinsunum ríkara perubragð. Ef perurnar eru vel safaríkar þá bý ég til mína eigin „buttermilk“ með mjólk og sítrónusafa (sjá aðferð neðst). Ég veit að sumir nota gjarnan súrmjólk í uppskriftir sem innihalda „buttermilk“ en ég hef aldrei bakað perumöffinsin með súrmjólk.

PERUMÖFFINS

3 meðalstórar perur
1 stórt (hamingju)egg
75 g lífrænn hrásykur
1-1½ matskeið lífrænt hunang (eða hreint hlynsíróp)
1½ matskeið kókosolía
60 ml „buttermilk“ (sjá inngang) eða lífrænt perumauk
200 g fínmalað spelti (eða lífrænt hveiti)
50 g grófmalað spelti
2½ teskeið vínsteinslyftiduft
¼ teskeið fínt sjávar/Himalayasalt
½ teskeið kardamoma
¼ teskeið múskat
má sleppa: klípa negull

Flysjið og kjarnhreinsið perurnar og skerið þær svo í smáa bita. Setjið þær til hliðar.

Hrærið saman eggi, sykri, hunangi, buttermilk/perumauki og kókosolíu í skál (ef olían er í föstu formi setjið þá lokaða krukkuna í skál með heitu vatni fyrir notkun). Ef þið notið heimagerða „buttermilk“ geymið hana þá í mælikönnunni í nokkrar mínútur og hrærið út í þegar hún hefur þykknað.

Blandið saman spelti, vínsteinslyftidufti, salti og kryddum í stórri skál.

Hellið eggjablöndunni út í stóru skálina og blandið hráefnunum rólega saman með sleif. Bætið fínskornum perubitunum saman við og veltið deiginu til með sleif án þess að hræra mikið. Til að byrja með kann deigið að virka þurrt en perurnar gefa því raka.

Smyrjið 12 möffinsform úr silíkoni með örlítilli kókosolíu (ef notuð eru stök silíkonform er þægilegt að setja þau ofan í stálform og baka þannig). Bakið við 200°C (180°C á blæstri) í 22-25 mínútur. Bíðið með það í nokkrar mínútur að taka möffinsin úr silíkonformunum og látið þau svo kólna á kæligrind.

Recipe in English.

Ef þið viljið nota „buttermilk“ í uppskriftina í staðinn fyrir perumauk þá er aðferðin auðveld: Hellið 60 ml af mjólk í litla mælikönnu og bætið 1 teskeið af nýkreistum sítrónusafa út í. Hrærið rólega og látið mjólkina standa í nokkrar mínútur uns hún hefur þykknað.