mánudagur, 21. september 2015

English Ethnic línan frá Lewis & Wood

Textíll: English Ethnic-línan frá Lewis & Wood · Lísa Hjalt


Í síðustu bloggfærslu notaði ég prufur frá Lewis & Wood, ensku fyrirtæki á sviði textíls og veggfóðurs, og sagði að meira kæmi síðar. Þau höfðu sent mér bunka af efna- og veggfóðurprufum en sumar þeirra höfðu þegar heillað mig á vefsíðu þeirra. Það sem kom mér á óvart voru mynstur í sendingunni frá þeim sem höfðu ekki fangað athygli mína á vefnum en voru svo ótrúlega falleg þegar ég gat skoðað smáatriðin í hönnunni með mínum eigin augum og fundið áferð efnisins. Ég ætla að deila nokkrum mynstrum síðar en í dag, með lattebollanum, einblíni ég á mynstrin Womad og Bacchus úr English Ethnic línunni sem kom á markað á síðasta ári og er hönnuð af listakonunum Su Daybell, Flora Roberts og Melissa White. Línunni hefur verið vel tekið og mynstrin hafa birst í ýmsum tímaritum.

English Ethnic-línan frá Lewis & Wood · Lísa Hjalt


Hjá Lewis & Wood tala þau um Su Daybell sem sitt wild card (afsakið slettuna). Hún er listakonan sem hannaði hið hrífandi mynstur Womad, með abstrakt blómum og mótífum. Efnið sem er 100% lín er til í tveimur litum, brúnum og bláum sem kallast burnish og celestial. Ég ætla ekki að segja ykkur hvað ég er bálskotin í þessu brúna, sem sést á efstu myndinni minni. Ég hreinlega get ekki hætt að dást að því. Litapaletta Womad-veggfóðursins samanstendur af þremur fallegum bláum, brúnum og gulum tónum, sem kallast stream, silt og sand.

Í forgrunni: Womad veggfóðurprufur - litir (frá vinstri): silt, sand og stream

Fyrir línuna hannaði Daybell einnig mynstrið Force 9, sem ætti að höfða til allra sem hræðast ekki djarfa hönnun. Fyrir þá sem hafa áhuga þá má sjá stíliseringu á því í lit sem kallast gravel í septembertölublaði House & Garden árið 2014.

Bacchus veggfóður og efni eftir listakonuna Melissa White - litur: mead

Mynstrið Bacchus eftir listakonuna Melissa White fyrir English Ethnic línuna hefur svo sannarlega fest sig í sessi á markaðnum. Í síðasta ágústtölublaði tímaritsins The World of Interiors var blái litur þess, sem kallast grigio, valinn á lista yfir bestu djörfu, stóru mynstrin á markaðnum. Tímaritið BBC Antiques Roadshow Magazine útnefndi mynstrið í gulum lit sem kallast mead sem vinningshafa í flokknum „Besta prentaða efnið 2014“. Í júlíhefti þeirra ársins 2014 var umfjöllun um White þar sem hún var heimsótt við störf á vinnustofu sinni, en þar er að finna upprunalega listaverkið hennar sem við þekkjum núna sem Bacchus-mynstrið.

Í bæklingi frá Lewis & Wood, sem kynnir línuna og hönnuðina, segir að Melissa White sé vel þekkt fyrir veggmyndir og máluð efni í anda Elísabetar-tímabilsins [gullöldin í sögu Englands þegar Elísabet I var drottning], að „fræðileg hrifning hennar af yfirborðsmynstrum og sögulegum smáatriðum“ gefi hönnun hennar „raunverulegt yfirvald.“ Bacchus-mynstrið, úr 100% líni eða sem veggfóður, er fáanlegt í þremur gulum, gráum og bláum tónum: mead, malt og grigio. Ekki til umfjöllunar hér er annað mynstur sem hún hannaði fyrir línuna, Rococo-veggfóðrið.

English Ethnic-línan frá Lewis & Wood · Lísa Hjalt
English Ethnic-línan frá Lewis & Wood · Lísa Hjalt


Listakonan Flora Roberts, sem er þekkt fyrir veggskreytingar sínar, var sú þriðja sem var valin til hanna fyrir English Ethnic línuna. Glæsileg mynstur hennar Doves og Sika má skoða á vefsíðu Lewis & Wood.

Lewis & Wood var stofnað árið 1993 af Stephen Lewis, sérfræðingi í textílprentun, og innanhússhönnuðinum Joanna Wood. Til að byrja með fór starfsemin fram í kjallarahúsnæði í London en árið 2008 var starfsemin flutt í stóra byggingu í Woodchester Mill, í Stroud Valley dölunum í Gloucestershire. Ef þið eruð á ferð í London þá eru þau með sýningarsal í Design Centre East á Chelsea Harbour svæðinu.

English Ethnic-línan frá Lewis & Wood · Lísa Hjalt
Í vinstra horninu: sýnishorn af efninu Bacchus eftir listakonuna Melissa White - litur: grigioEngin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.