þriðjudagur, 1. september 2015

Túrkislitað Cora-viðarúr frá JORD



Í sumar bauðst mér að vera hluti af JORD Wood Watches-teyminu. Ég þurfti bara að velja mér úr, ganga með það og deila áliti mínu í bloggfærslu. Um leið og ég sá Cora-úrið á heimasíðu þeirra þá varð ekki aftur snúið, hið túrkíslitaða með zebra-viðnum var úrið sem mig langaði í. Það skrýtna við þetta allt saman er að ég hafði ekki gengið með úr í mörg ár og var ekkert á leiðinni að taka þann sið upp aftur. Skyndilega var Cora-úrið, sem var væntanlegt í hús, farið að hafa undarleg áhrif á mig. Ég áttaði mig á því að ég hafði nú þegar fallið fyrir því og því var spurningin þessi: Stæði það undir væntingum mínum?


Til að svara spurningunni hér að ofan: Já, það gerði það svo sannarlega! Sendingin barst skjótt frá St. Louis, Missouri í Bandaríkjunum. Pakkningin var fallegur viðarkassi sem gaf til kynna að þarna væri á ferðinni vandað handverk. Þegar ég opnaði kassann blasti við mér Cora-úrið í allri sinni dýrð. Það var fest utan um mjúkan púða sem var bróderaður með orðinu JORD. Það er jú sænska og danska orðið yfir jörð. Viðaról úrsins var mæld fyrir mig áður en úrið var sent af stað (aukahlekkir fylgdu með). Ég verð að viðurkenna að áður en ég setti úrið á mig þá sat ég bara og starði á það í kassanum, í dágóða stund.

Bókin á borðinu mínu er Icelandic Landscapes eftir Daníel Bergmann

Hönnun úrsins er glæsileg þar sem hugað er að hverju smáatriði. Handgert lúxusúrið er úr náttúrulegum zebra-viði, með gleri úr safírkristal og er skreytt smáum Swarovski-kristöllum. Á viðarólinni er festing með smellutakka sem auðveldar manni að setja úrið á sig/taka það af. Það kom mér óvart hversu létt úrið er; ég bjóst við þyngra úri. Það sem ég er einna hrifnust af er að það þarf enga rafhlöðu. Síðast þegar ég átti úr sem þurfti að trekkja var ég yngri en tíu ára og nú nýt ég þeirrar daglegu iðju að trekkja úrið.

Það kann að hljóma furðulega en fyrir mér fer Cora-úrið á einhvern hátt út fyrir það svið að vera bara úr. Það virðist hafa dýpri merkingu. Kannski er það viðurinn eða heillandi túrkisliturinn sem minnir mig á tóna í íslensku landslagi. Liturinn á skífunni virðist síbreytilegur; veltur bara á endurspeglun ljóss.



Nafn úrsins - JORD - minnir mig á norrænar rætur okkar Íslendinga. Í norrænni goðafræði áttu Jörð og Óðinn soninn Þór, sem var sterkastur ása. Ég er greinilega ekki sú eina sem tengi úrið við norrænar rætur. Þegar ég var að stílisera og mynda úrið var sonur minn svo spenntur fyrir þessu að hann mætti með steinasafnið sitt og sýndi mér Víkingaskjöld í einni bók sem hann á. Ég varð að hafa þetta dót hans á mynd ... með latte, að sjálfsögðu.


Ég gæti ekki verið ánægðari með JORD-viðarúrið mitt. Það er tímalaust og verður ávallt í tísku. Á heimasíðu JORD er úrunum lýst sem „handgerðum gripum sem segja sögu.“ Stundum þegar ég set það á mig langar mig bara að klæðast þægilegu uppáhaldsflíkunum mínum, grípa vegabréfið og litla tösku og hreinlega fara eitthvað. Án síma, án tölvu; bara með Cora-úrið sem vegvísi.

Sjáið til, saga míns úrs er bara rétt að byrja!


[Þessi bloggfærsla er hluti af markaðsherferð JORD. Úrið til umfjöllunar hér er túrkislitað Cora með zebra-viðaról. Orð, ljósmyndir og álit eru mín eigin.]

2 ummæli:

  1. Vá hvað þetta er fallegt úr,svo nátturulegt og fallegt og myndirnar þínar af úrinu ekkert smá flottar og skemmtilegar , flott innlegg í stýliseringuna hjá syninum ;)
    Eigið góða helgi

    SvaraEyða
    Svör
    1. Takk, Stína. Úrið er svo flott og já, ég var mjög sátt við innleggið frá syninum, sem er greinilega farinn að pikka upp takta móður sinnar hérna við borðið góða ;-)

      Eyða

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.