sunnudagur, 31. desember 2017

Nýjar bækur | Gleðilegt nýtt ár

Nýjar bækur · Lísa Hjalt


Á þessum síðasta degi ársins sit ég við tölvuna með mynstraðan túrban á höfðinu, jólabjór í glasi og tortilla-flögur í skál; steikin er á hægeldun í ofninum, gengið mitt er að horfa á Hobbitann og ekkert betra fyrir mig að gera en að blogga um nýjar bækur. Ég ætlaði að deila þessari færslu fyrr í desember en vegna tímaleysis ýtti ég henni til hliðar. Um jólin fór hún að leita á mig og þar sem flestar bækurnar á listanum, skáldverk og kaffiborðsbækur, voru gefnar út árið 2017 þá fannst mér ég eiginlega þurfa að deila henni áður en nýja árið gengi í garð. Ég er ekkert að eyða tíma í athugasemdir við hverja bók þar sem allir tenglarnir fyrir utan einn leiða ykkur á síðu Book Depository, þar sem þið finnið stutta kynningu á þeim öllum. Ég geri ráð fyrir því að allar bækurnar á listanum fyrir ofan smámyndirnar muni einn daginn rata á bókalista hér á blogginu því mig langar að lesa þær allar. Ég óska ykkur friðar á komandi ári.

Nýjar bækur:
· Spy of the First Person  eftir Sam Shepard (Knopf). Síðasta verkið fyrir andlát hans í júlí á þessu ári.
· Debriefing: Collected Stories  eftir Susan Sontag (FSG). Ritstj. Benjamin Taylor.
· Sing, Unburied, Sing  eftir Jesmyn Ward (Bloomsbury). Bókin sem hlaut National Book Award 2017.
· The Origin of Others  eftir Toni Morrison (Harvard UP).
· In Search of Ancient North Africa: A History in Six Lives  eftir Barnaby Rogerson (Haus Publishing).
· The Rub of Time  eftir Martin Amis (Random House).
· Philip Roth: Why Write? Collected Nonfiction 1960-2013  eftir Philip Roth (Library of America).


· Persian Art: Collecting the Arts of Iran for the V&A  eftir Moya Carey (V&A).
· Modern Art in Detail: 75 Masterpieces  eftir Susie Hodge (Thames & Hudson).
· Henri Cartier-Bresson: The Decisive Moment  eftir Henri Cartier-Bresson (Steidl). Endurútgáfa bókar frá árinu 1952 sem geymir bestu verk Cartier-Bresson. Forsíðan er eftir Henri Matisse.
· The Atlas of Beauty: Women of the World in 500 Portraits  eftir Mihaela Noroc (Penguin).
· Morris  eftir Charlotte and Peter Fiell (Taschen). Ríkulega myndskreytt bók um ævi og störf hönnuðarins William Morris (1834-1896).
· Map Cities: Histoires de cartes  eftir Francisca Mattéoli (Chêne). Eingöngu fáanleg á frönsku en verður vonandi þýdd á ensku síðar. Ég hef fjallað um Map Stories eftir Mattéoli hér á blogginu.
· Haute Bohemians  eftir Miguel Flores-Vianna (Vendome Press).

Úr bókinni Haute Bohemians eftir Miguel Flores-Vianna, bls. 80-81, Vendome Press



sunnudagur, 24. desember 2017

№ 13 bókalisti | Gleðilega hátíð

№ 13 bókalisti | Gleðilega hátíð · Lísa Hjalt


Fyrr í vikunni lofaði ég að deila stuttum bókalista - þessi er № 13 - fyrir jólin (myndina tók ég fyrir tveimur dögum þegar ég var að pakka inn gjöfum; það sem hýasinturnar hafa vaxið síðan þá!). Á þessu augnabliki er ég í kaffipásu og fletti nýjasta tölublaði, janúar 2018, The World of Interiors, sem okkar elsta kom með frá Skotlandi. Jólaeftirréttirnir eru tilbúnir og bráðum byrjum við að undirbúa máltíð kvöldsins. Það sem ég hlakka til að setjast til borðs og borða veislumat.

№ 13 bókalisti:
1  The Underground Railroad  eftir Colson Whitehead
2  Giovanni's Room  eftir James Baldwin
3  Der Gute Mensch von Sezuan  eftir Bertolt Brecht
4  Jane Eyre  eftir Charlotte Brontë

Síðasta sumar keypti ég eintak af Giovanni's Room eftir James Baldwin og hef beðið eftir rólegri stund til að hefja lesturinn. Ef síðasta bloggfærsla fór fram hjá ykkur þá er hann nýi uppáhaldshöfundurinn minn. Það er orðinn siður hjá mér á jólunum að endurlesa eitt klassískt verk og í ár valdi ég Jane Eyre. Það eru mörg ár síðan ég las hana og á jólunum í fyrra fékk ég þessa fallegu innbundnu útgáfu frá Penguin. Hún hefur starað á mig í eitt ár og ég sver það ég heyri hana stundum hvísla, Lestu mig!  Hinar tvær bækurnar hafið þið kannski þegar séð á Instagram; Whitehead var hluti af bókagjöf frá kærri vinkonu á Íslandi og leikritið eftir Brecht var fyrsta bókin sem ég keypti á þýsku eftir flutningana (ég veit ekki hvort það hafi verið þýtt á íslenku en hér er ensk útgáfa frá Bloomsbury, The Good Person of Szechwan, í þýðingu John Willett). Ég er þegar byrjuð að lesa hana, en rólega. Mjög rólega. Þetta er mín leið til að endurheimta þýska orðaforðann minn.

Ég óska ykkur öllum gleðilegra jóla og friðar á komandi ári!



miðvikudagur, 20. desember 2017

Lestrarkompan 2017: Baldwin, Bandi, Bellow ...

Lestrarkompan mín: Baldwin, Bandi, Bellow · Lísa Hjalt


Lestrarkompan mín, muniði eftir henni? Ég er á eftir með bloggið (sem gaf mér þá hugmynd að nota Instagram-myndirnar mínar fyrir þennan flokk). Ég held að best sé að nota bara að-flytja-til-Þýskalands spilið mitt. Við erum enn að venjast nýju umhverfi og tungumálinu. Við höfum átt góðar stundir en líka ergjandi, og upplifað einstaka afturför. Svona er þetta bara. Stuttu eftir flutningana fór okkar elsta aftur til Skotlands vegna náms og ég kann að hafa skilið hluta hjartans eftir á flugvellinum. Þetta var allt laust við dramatík en ég held að ég hafi gert mér grein fyrir því að einn daginn verður hreiðrið tómt. (Ég gæti alltaf leikið eftir Faust og gert samning við djöfulinn, selt honum sálu mína svo börnin kjósi háskóla á svæðinu þegar sá tími kemur. Vandamálið er að ég trúi ekki á tilvist hans.) Um jólin verður fjölskyldan saman á ný og framundan er afslöppun og góður matur (nýverið í spjalli á Skype minntist ég á gjafirnar og tvö barnanna skutu inn í: „Mamma, okkur er alveg sama um gjafirnar, við viljum bara matinn!“). Áður en jólahátíðin gengur í garð ætla ég að deila nýjum bókalista, stuttum. Þarf bara að finna tíma til að taka mynd.

№ 8 bókalisti (5 af 8):

· The Accusation eftir Bandi. Þegar ég birti bókalistann þá gaf ég þessu smásögusafni, sem var smyglað út úr Norður-Kóreu, sérstakan sess. Sögurnar ásækja mig enn, sérstaklega ein sem kallast „City of Specters“, en sú er önnur í röðinni. Í hvert sinn sem Norður-Kórea er í fréttunum - svo til á hverjum degi - verður mér hugsað til þessa sögusafns sem minnir mig á óréttlætið, vonleysið og ómannúðlegar aðstæður fólksins.

· Another Country eftir James Baldwin. Ég vissi að hann yrði nýi uppáhaldshöfundurinn minn þegar ég kom að þessari persónulýsingu á síðu 18: „[H]e had discovered that he could say it with a saxophone. He had a lot to say.“ Frá fyrstu síðu skynjar maður rytma í frásögninni. Ég las einhvers staðar á netinu að það væri jazz og hugsaði með mér, Jazz, auðvitað! Skáldsagan gerist á síðari hluta 6. áratugarins, í Greenwich Village, NY. Hún er ekki fyrir alla (ef stutt er í blygðunarkennd ykkar ættuð þið að láta þessa eiga sig; ég verð þó að segja að þið eruð að missa af frábærum ritstíl) þar sem hún tekst á við ögrandi þemu eins og framhjáhald, samkynhneigð, tvíkynhneygð og sambönd fólks af ólíkum kynþætti. Athugið að bókin kom út árið 1962! Ég skammast mín fyrir að segja að þetta er fyrsta bókin sem ég les eftir Baldwin. Ég hafði bara lesið gömul viðtöl við hann og umfjallanir í tímaritum þar sem vísað var í verk hans og nú ætla ég mér að lesa allt sem hann skrifaði, skáldverk og ritgerðir.

· Seize the Day eftir Saul Bellow. Mín fyrsta bók eftir Bellow. Minnisverð nóvella sem gerist í NY en, ef ég á að segja alveg eins og er, greip mig ekki alveg frá byrjun (ég segi þetta með allri virðingu fyrir aðdáendum hans: á meðan lestrinum stóð kann Bellow að hafa eilítið fölnað í samanburði við Baldwin, sem hafði heltekið bókabéusinn innra með mér). Það var ekki fyrr en að lestrinum loknum sem sagan fór að koma reglulega upp í hugann og nú langar mig að lesa hana aftur.

· The Blue Touch Paper eftir David Hare. Æviminningar sem ég naut að lesa þó að sumir hlutar hafi ekki verið eins áhugaverðir og aðrir. Oft þegar ég les ævisögur þá leiðist mér barnæskuhlutinn (stundum er það vegna skorts á heiðarleika af hálfu höfundar; stundum á höfundur til með að mála helst til of rósrauða mynd), sem var ekki í þessu tilfelli. Áður en ég las bókina vissi ég ekkert um uppvaxtarár Hare og hann hélt mér við lesturinn með skemmtilegum og heiðarlegum sögum, eða svo held ég. Það er heilmikið um pólitík í bókinni, sem höfðar kannski ekki til allra, en leikhússena Lundúna vaknar til lífsins á síðunum og lesandinn fær að deila sigrum Hare, og ósigrum.

· Pale Fire eftir Vladimir Nabokov. Kláraði ekki bókina. Ekki minn tebolli. Á síðunum höfum við ljóðskáld, Shade, sem hefur samið langt ljóð fyrir andlát sitt. Nágranni hans og kollegi, Kinbote, greinir ljóðið ansi ítarlega og mjög fljótt áttar lesandinn sig á því að hann er úti á túni. Ég einfaldlega missti þolinmæðina við að lesa greiningu Kinbote, fyrir sjálfsblekkingu hans (það hafði ekkert með skrif Nabokov að gera).

[Eins og ég hef sagt áður, í lestrarkompufærslum geri ég engar athugasemdir við bækur sem ég endurles eða þær sem ég hef þegar fjallað um á blogginu. Sjá sér færslur fyrir þessar tvær af listanum: Stríðsdagbækur Lindgren A World Gone Mad: The Diaries of Astrid Lindgren, 1939-45 og skáldsöguna Pachinko eftir Min Jin Lee.]

mynd mín, birt á Instagram 29/07/2017