föstudagur, 24. febrúar 2017

Ár af lestri - 1. hluti

Lestarkompan: ár af lestri - 1. hluti · Lísa Hjalt


Hérna kemur hún, færslan sem ég velti fyrir mér hvort ég ætti að skrifa eða ekki, með athugasemdum um nokkrar bækur á bókalistunum mínum árið 2016. Fyrst ætlaði ég að setja þessa punkta í athugasemdakerfi umræddrar bókalistafærslu en svo fannst mér betra að halda þessu aðskildu. Ég sé enga ástæðu til að endurtaka það sem ég hef þegar sagt um ákveðnar bækur eða að minnast á þær sem ég endurlas; einu bækurnar sem ég les aftur eru þær sem mér líkar eða eiga sérstakan sess í hjartanu.

Talandi um endurlestur: Skoski rithöfundurinn Ali Smith var nýlega í By the Book dálki dagblaðsins NYT og ég fann samhljóm með einu sem hún sagði:
[A] rereading can feel like a first-time read in itself, which is another great thing about books and time; we think we know them, but as we change with time, so do they, with us. (Sunday Book Review, 12. feb. 2017)
Ég las þetta í fyrradag og tók eftir því að hún minntist á bókina Pale Fire eftir Vladimir Nabokov. Ef þið fylgið mér á Instagram þá sáuð þið kannski kápuna á mynd sem ég deildi á sunnudaginn. Það vill svo til að ég fékk bókina lánaða á bókasafninu síðasta laugardag og hún verður á næsta bókalista.


Hér að neðan eru nokkrar athugasemdir um bækur sem voru á № 1, 2 og 3 bókalistunum. Á þeim fyrsta voru líka hönnunarbækur en ég ákvað síðar að á þá rötuðu eingöngu skáldsögur sjálfs/ævisögur, ferðaskrif o.s.frv. Mig langar að bæta því við að það er ekki tilgangur minn að beina ykkur frá þeim bókum sem ég geri neikvæðar athugasemdir við eða þeim sem ég kláraði ekki. Bókmenntasmekkur okkar er ólíkur, eins menningarlegur og félagslegur bakgrunnur, og ég hef svo sannarlega ekki áhuga á því að gegna valdshlutverki og segja fólki hvað það eigi að lesa og hvað ekki. En málið er að ég á blogglesendur sem nota listana til að fá lestrarhugmyndir og því finnst mér eðlilegt að ég minnist á þær bækur sem kannski stóðust ekki væntingar mínar.

№ 1 bókalisti (2 af 8):

· The Shadow of the Sun eftir Ryszard Kapuscinski. Las nokkra kafla og setti svo til hliðar, einungis vegna þess að mig hefur lengi langað að lesa bókina Africa eftir John Reader og vildi gera það áður en ég læsi aðrar Afríku-tengdar bækur á langar-að-lesa listanum. Kapuscinski var pólskur fréttamaður sem skrifaði um Afríku í nokkra áratugi og ég held að einn daginn eigi ég eftir að klára þessa bók hans.
· The Great Railway Bazaar eftir Paul Theroux. Mestu vonbrigði ársins 2016 í lestri. Bókin byrjar virkilega vel og Theroux er bæði eftirtektarsamur og fyndinn - ég gat varla lagt bókina frá mér. Á einhverjum punkti verður hann þreytandi, eins og hann geti ekki gert annað en að kvarta. Ég missti bæði áhugann og þolinmæðina og hætti lestrinum. Þegar ferðaskrif fylla mig engri löngun til að ferðast þá fær sá höfundur ekki pláss í bókahjartanu mínu.

№ 2 bókalisti (1 af 6):

· Off the Road eftir Carolyn Cassady. Missti þolinmæðina og gafst upp. Alltof opinberandi og ekki á góðan máta. Tímarnir voru öðruvísi en ég var gáttuð á því hvernig hún leyfði Neal að koma fram við sig strax í upphafi sambands þeirra. Fyrstu kaflarnir eru ágætis lexía í því hvernig ekki skuli velja eiginmannsefni.
[Önnur af listanum: Testament of Youth eftir Vera Brittain (sjá sér bloggfærslu).]
Lestarkompan: ár af lestri - 1. hluti · Lísa Hjalt


№ 3 bókalisti (2 af 6):

· Memoirs of a Dutiful Daughter eftir Simone de Beauvoir. Fyrsta bindi sjálfsævisögu hennar þar sem hún fjallar um uppvaxtarárin, barnæskuna í París og árin í Sorbonne-háskóla. Það eina sem ég fann að bókinni var alvarlegur frásagnarstíllinn; mér fannst hún nota of vitsmunalegan tón til að lýsa hugsunum barns, sem truflaði mig ekki eftir því sem hún varð eldri. Næstu bindi munu rata á bókalistana mína í framtíðinni.
· Prayers for the Stolen eftir Jennifer Clement. Að mínu mati, ofmetin. Í byrjun er sögumaðurinn ung stelpa sem er vísun á auðveldan lestur með einföldum orðaforða, og það er nóg um kímni (móðirin er óborganleg!). Þegar ég var komin inn í þriðja eða fjórða hluta bókarinnar (þegar stelpan fer að heiman) þá fannst mér höfundurinn misstíga sig; það var sem hún hætti að vanda sig. Þessi bók var ein þeirra sem mig virkilega langaði að finnast góð til að geta mælt með henni en í lokin olli lesturinn vonbrigðum.

Bráðum birti ég 2. hluta þar sem ég tek fyrir nokkrar bækur á № 4, 5 og 6 bókalistunum.

[Uppfærsla: smellið hér fyrir 2. hluta.]



Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.