mánudagur, 27. júlí 2015

Ástarsaga | Quinoa-búðingur með berjum



Nýlega gat ég tekið eina bók af listanum mínum þegar ég las Must You Go?: My Life with Harold Pinter eftir Antonia Fraser. Ef ég ætti að lýsa henni í nokkrum orðum þá myndi ég segja að þetta væri falleg ástarsaga, ein sú persónulegasta sem ég hef lesið. Fraser notar dagbækur til að segja frá lífi sínu með leikskáldinu Pinter, frá deginum sem þau kynntust árið 1975 til dagsins sem hann lést árið 2008. Líf þeirra saman var svo sannarlega viðburðarríkt! Ég ætla að segja ykkur örlítið frá bókinni og einnig að endurbirta uppskrift mína að quinoa-búðingi með grískri jógúrt, berjum og ávöxtum.


Það er ekkert leyndarmál að bæði Fraser og Pinter voru gift þegar þau kynntust og pressan nærðist á þessu „bókmennta-sambandi“, eins og eitt blaðið orðaði það. Málin voru nokkuð flókin þar til bæði höfðu skilið og í einni færslu vísar Fraser í náinn vin þeirra beggja sem „fannst allt þetta rómantíska tal um hjónaband vera vitleysa; af hverju gátum við ekki bara staðið í framhjáhaldi eins og allir aðrir?“ (bls. 29). Ég hló upphátt.

Ég hló oft eða brosti við lesturinn. Aðallega eru það færslur úr dagbókum Fraser sem segja söguna en stundum bætir hún við ýmsum athugasemdum eða lengri útskýringum og ég hefði viljað sjá meira af slíku. Fraser skrifar ákaflega fallega og stíll hennar er tilgerðarlaus. Hún kemur sér beint að efninu, óhrædd við að opinbera sig og lýsir aðstæðum oft á kómískan hátt. Mér fannst bókin mjög góð en ég hefði alveg verið til í að lesa lengri bók.

Augljóslega endar bókin þegar Pinter deyr, en þegar ég las síðustu síðuna þá hafði ég lifað mig svo inn í ástarsögu þeirra að hjarta mitt var í molum þegar ég kláraði bókina.



Ég get ekki sagt að ég hafi vitað mikið um Pinter, fyrir utan að hann var leikskáld og leikstjóri og hafði hlotið Nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 2005. Sú mynd sem Fraser gefur af honum var ekkert í takt við það sem ég hafði ímyndað mér og nú langar mig að lesa ævisöguna Harold Pinter eftir Michael Billington.

Bara nokkur orð til viðbótar um bækur og svo er það eftirréttur! Ég hef þegar sagt ykkur frá ást minni á höfundinum Helene Hanff (1916-1997), í færslum um 84 Charing Cross Road og Letter from New York. Síðan þá hef ég einnig lesið Q's Legacy (glittir í hana á myndunum mínum), sem er alveg jafn dásamleg og hinar. Hlutar hennar eru endurtekningar á því sem Hanff hefur þegar skrifað í fyrri verkum en ég myndi ekki láta það hindra mig frá því að lesa hana líka.
Quinoa-búðingur með berjum · Lísa Hjalt


Eins og ég hef áður sagt þá langar mig að halda öllum uppskriftunum mínum á einum stað og þessi quinoa-búðingur, sem ég geri oft yfir sumarmánuðina, er af gamla matarblogginu. Aran Goyoaga, sem heldur úti matarblogginu Canelle et Vanille, var áhrifavaldur þegar ég setti uppskriftina saman. Hún hafði notað mjólk til að sjóða quinoa-kornið en ég sýð það bara í vatni og nota svo gríska jógúrt í búðinginn, en hún hefur þessa þykku, rjómakenndu áferð sem ég er að leita eftir. Uppskriftin er einföld en maður þarf að sjóða quinoa-kornið fyrst og leyfa því að kólna í klukkustund eða svo. Það má nota hvaða ber sem er og ávexti. Hafið í huga að ég geri þennan skammt sem eftirrétt fyrir fimm manns.

QUINOA-BÚÐINGUR MEÐ GRÍSKRI JÓGÚRT, BERJUM OG ÁVÖXTUM

200 g quinoa-korn (1 bolli)
625 ml vatn
klípa fínt sjávar/Himalayasalt
250-300 g jarðarber
½-1 matskeið lífrænn hrásykur
2 ferskjur, nektarínur eða apríkósur
450 g grísk jógúrt
2 teskeiðar lífrænn vanillusykur
1½-2 matskeiðar hreint hlynsíróp
toppið með möndluflögum eða fínt hökkuðum möndlum eða valhnetum

Skolið quinoa-kornið vel undir rennandi vatni (ég læt það stundum liggja í bleyti fyrst í ca. hálftíma, veltur á hvaða tegund ég nota), sjóðið svo í potti ásamt vatni og klípu af salti. Sjóðið á hæsta hita þar til suðan kemur upp, minnkið þá hitann á lægstu stillingu eða svo, tillið loki á pottinn þannig að gufan sleppi í gegn og sjóðið í um 20 míntútur. Færið svo yfir í skál og leyfið quinoa-korninu að kólna í klukkustund eða svo.

Skerið jarðarberin. Setjið þau svo í skál og stráið ½-1 matskeið af lífrænum hrásykri yfir. Látið jarðarberin standa við stofuhita á meðan quinoa-kornið kólnar.

Til að útbúa búðinginn sjálfan: Setjið 350-400 g af grísku jógúrtinni í stóra skál og blandið vanillusykri og hlynsírópi saman við. Notið gaffal til þess að stinga aðeins í quinoa-kornið áður en þið blandið því saman við.

Skerið ávextina í bita og hakkið möndlurnar/valhneturnar, ef notaðar.

Setjið búðinginn í litlar skálar eða glerkrukkur, setjið jarðarberin ofan á og þar næst ávextina. Toppið með restinni af grísku jógúrtinni og möndluflögum eða hökkuðum möndlum/valhnetum.


Recipe in English.



fimmtudagur, 23. júlí 2015

Kartöflubátar með kryddsalti

Kartöflubátar með kryddsalti · Lísa Hjalt


Á þessu heimili erum við óð í kartöflur. Ég fer í gegnum tímabil þar sem ég leik mér með uppskriftir, einkum að bökuðum kartöflum því okkur finnst hýðið gott (það gefur trefjar). Sonurinn minnti mig á þessa kartöflubáta, sem ég krydda með heimagerðu kryddsalti, þegar hann bað um þá með kjúklingi á tíu ára afmæli sínu næsta laugardag. Hann vill líka eplaköku með rjóma. Mais bien sûr, monsieur!

Vissuð þið að fyrstir til að rækta kartöflur voru Inkar? Ég hafði ekki hugmynd um það þar til ég las um sögu kartöflunnar í Larousse Culinary Encyclopedia, alfræðibók um mat og matargerð. Það var Francisco Pizarro, spænski landkönnuðurinn sem lagði undir sig Inkaveldið (og stofnaði borgina Líma), sem kynnti kartöflur fyrir Evrópubúum árið 1534. Enski landkönnuðurinn Sir Walter Raleigh gerði sömu uppgötvun í Virginíu fimmtíu árum síðar og kom með kartöfluna til Englands. Það stöðvaði nú ekki kónginn James I frá því að láta fangelsa hann í Lundúnaturninum (Tower of London) fyrir föðurlandssvik og síðar taka af lífi. En það er önnur saga og ég er viss um að hún hefur ekkert með kartöflur að gera.



Myndirnar hér að ofan eru einnig óskyldar kartöflum. Ég tók þær í garðinum okkar í lok maí og langaði að deila þeim á blogginu til að minna mig á þessa fallegu plöntu í blóma. Rætur hennar eru í garði nágrannanna og rétt áður en plantan blómgast læðist hún yfir girðinguna þannig að við fáum að njóta fallegu hvítu blómanna. Ég kalla hana ,sjalið' því hún er eins og sjal í laginu.



Við skulum byrja á kryddsaltinu sem gæti ekki verið auðveldara að útbúa. Í blönduna mína nota ég bleika Himalaya-saltkristalla, en það má nota fínt sjávarsalt. Hlutföll reyktrar papriku velta bara á skapinu hverju sinni en bragð hennar getur verið örlítið yfirgnæfandi þannig að kannski er best að byrja með ¼ teskeið. Hlutföll chillipipars velta bara á því hvort ég nota milda eða sterka tegund af chilli. Þetta kryddsalt fær engar tungur til að loga, alla vega ekki okkar, en það lífgar aðeins upp á kartöflubátana.

Kartöflubátar með kryddsalti · Lísa Hjalt
STERKT KRYDDSALT

1½ matskeið Himalayasalt
1 teskeið broddkúmen (ground cumin)
½ teskeið mulinn kóríander
½ teskeið þurrkað óreganó
¼-½ teskeið reykt paprika
¼ teskeið rauðar chilliflögur
klípa eða ¼ teskeið chillipipar

Setjið allt í glerkrukku með loki og hristið vel. Munið að merkja krukkuna, og kannski að skrifa niður hlutföllin ef þið viljið breyta þeim síðar.

Kryddsaltið má nota til að ofnbaka grænmeti eða til að húða kjúkling. Það er kjörið í grillaðar samlokur. Saltið má einnig nota til að salta hvers kyns rétti sem verið er að elda, svo lengi sem kryddin fara vel saman með öðrum hráefnum/kryddum.

Kartöflubátar með kryddsalti · Lísa Hjalt


Bakaðar kartöflur með timían og rósmarín eru klassík sem getur ekki klikkað, en þegar ég ber fram kartöflur með, til dæmis, borgurum eða kjúklingaleggjum þá kalla bragðlaukarnir á eitthvað annað, helst eitthvað sterkt. Ef ég get bara nálgast mjög stórar bökunarkartöflur þá finnst mér best að forsjóða þær í 7-10 mínútur. Ég læt þær svo aðeins kólna í sigti áður en ég sker þær í báta. Hafið í huga að ég útbý bátana sem meðlæti fyrir 5 manns þannig að kannski viljið þið eitthvað breyta magninu.

KARTÖFLUBÁTAR MEÐ STERKU KRYDDSALTI

1 kg bökunarkartöflur
1 matskeið létt ólífuolía eða önnur jurtaolía
1 teskeið sterkt kryddsalt (sjá uppskrift hér að ofan)

Þvoið fyrst kartöflurnar. Skerið þær svo í báta með því að skera þær fyrst til helminga langsum og svo hvern helming í þrennt langsum (hver kartafla ætti að gefa ykkur 6 báta en ef bökunarkartöflurnar eru mjög stórar þá er gott að skera bátana þversum í tvennt). Passið að bátarnir séu ekki þunnt skornir því þeir eiga að geta legið á hýðinu þegar þeir bakast í ofninum.

Það eru tvær leiðir til að húða bátana: 1) Setjið innihaldið í góðan frystipoka. Lokið pokanum vel og veltið bátunum mjög vel í pokanum. Dreifið svo úr þeim á bökunarplötu með bökunarpappír og látið hýðið vísa niður. 2) Ef þið viljið húða þá í höndunum þá setjið þið fyrst allt innihald beint í ofnskúffu og dreifið svo úr bátunum þannig að hýðið vísi niður.

Bakið við 220˚C (200˚C ef blástursofn) í 25-30 mínútur, eða þar til kartöflubátarnir eru bakaðir í gegn, gullinbrúnir og stökkir. Við viljum okkar báta vel bakaða þannig að yfirleitt eftir 25 mínútur lækka ég eilítið hitann og baka þá í aðrar 5-10 mínútur, eða jafnvel lengur.

Berið kartöflubátana fram með gæða majónesi eða sýrðum rjóma. Einnig má útbúa ídýfu með því að setja gríska jógúrt í skál með örlitlu broddkúmeni (ground cumin).


Recipe in English.




mánudagur, 13. júlí 2015

Whitby - sögulegur bær við sjávarsíðuna

Whitby - sögulegur bær við sjávarsíðuna · Lísa Hjalt


Á laugardaginn fagnaði ég afmælinu mínu í Whitby, sögulegum og fallegum bæ við sjávarsíðu North Yorkshire. Höfnin skiptir bænum í tvennt og er gamli hlutinn á austurbakkanum. Í Whitby má finna gömul hús, þröngar hellulagðar götur frá miðöldum, fallegar búðir, litríkar hurðir, krár, kaffihús, sandstrendur, kletta, svo við gleymum ekki frægum rústum Whitby Abbey, gotnesku kirkjunnar sem stendur á East Cliff-klettinum.
Höfnin í Whitby · Lísa Hjalt


Whitby hljómar örugglega kunnuglega í eyrum þeirra sem hafa lesið klassísku, gotnesku hryllingssöguna Drakúla eftir Bram Stoker. Rússneskt skip sem Drakúla greifi ferðast með til Englands strandar við Whitby. Hann kemur í land í dulargervi svarts hunds og hefst þá „fjörið“! Eftir að hafa komið til Whitby þá verð ég að segja að sögusviðið er fullkomið.
Smábátahöfnin í Whitby með North York Moors-þjóðgarðinn í bakgrunni

Útsýnið í allar áttir frá tröppunum 199 er stórkostlegt. Þegar maður horfir yfir gömlu, rauðu húsþökin þá er eins og maður ferðist aftur í tímann eða að maður sé staddur í ævintýri. Ég mæli með því að labba inn í bæinn niður þessar tröppur sem eru með aðliggjandi hellulagðri brekku (það eru bílastæði á East Cliff-klettinum við rústir Whitby Abbey). Þegar farið er niður tröppurnar gengur maður beint inn í Church Street-götuna (sjá myndirnar hér að neðan), sem er sjarmerandi, þröng, hellulögð gata þar sem finnast alls kyns búðir, krár og kaffihús.
Whitby - sögulegur bær við sjávarsíðuna · Lísa Hjalt
Whitby - sögulegur bær við sjávarsíðuna · Lísa Hjalt


Hvert sem litið er má finna eitthvað sem vert er að festa á filmu en á laugardaginn var bærinn pakkaður af fólki, sem gerði myndatöku erfiða. Við keyrðum til Whitby og til að aka inn í bæinn þarf að aka í gegnum North York Moors-þjóðgarðinn, sem er með fallegu landslagi.
Whitby - sögulegur bær við sjávarsíðuna · Lísa Hjalt
Marie Antoinette's Patisserie-bakaríið í Church Street-götunni

Ég kom auga á eitt í Whitby sem pirraði mig (ekki í fyrsta sinn). Þegar við vorum að labba í Church Street-götunni þá sá ég skilti bakarísins Marie Antoinette's Patisserie með orðunum 'let them eat cake' (látum þau borða kökur). Franska drottningin er gjarnan ranglega tengd við þessi orð, sem hún átti að hafa mælt þegar henni var tjáð að lýðurinn hefði ekki efni á brauði. Staðreyndin er sú að hún sagði þetta aldrei, heldur var þetta bara hluti af áróðri Frönsku byltingarinnar. Það vill svo til að í töskunni minni var ég með eintak af Must You Go?: My Life with Harold Pinter eftir Antonia Fraser (snemmbúin afmælisgjöf frá eiginmanninum). Fyrir nokkrum árum síðan las ég ævisöguna Marie Antoinette: The Journey eftir Fraser þar sem hún leiðréttir látum-þau-borða-kökur lygasöguna og mér finnst það beinlínis vera skylda mín að gera svo hér, ef þið rækjuð augun í orðalagið á skilti bakarísins sem ég tók mynd af.



Ég tók nokkrar myndir af rústum Whitby Abbey-kirkjunnar, sem ég deili kannski síðar. Eins og ég sagði fyrr þá var svo mikið af fólki í Whitby sem torveldaði myndatöku. Þessi ferð var auk þess til skemmtunar fyrir fjölskylduna og ég vildi helst hlífa fólkinu mínu við því að þurfa stöðugt að stoppa á meðan ég mundaði linsuna. Hugmyndin er annars sú að fara aftur til Whitby á virkum degi og ég get þá skellt mér í göngutúr með myndavélina á meðan liðið flatmagar á ströndinni.


þriðjudagur, 7. júlí 2015

Bóndarósir og indversk blómamynstur

Bóndarósir og indversk blómamynstur · Lísa Hjalt


Á einhverjum tímapunkti nótaði ég í minnisbókina að kínverska orðið yfir bóndarós væri sho yu, sem þýðir sú fegursta. Nafn við hæfi! Sennilega er það klisjukennt að birta bloggfærslu um bóndarósir en í fyrra lét ég bók um textílhönnun fylgja með og ég hugsaði með mér að textíll og bóndarósir væru bara ágætis árlegt þema hér á blogginu. Nýjasta textílbókin í safninu mínu er V&A Pattern: Indian Florals.

Bóndarósir (peoníur) · Lísa Hjalt

Á bókarkápunni: Bútur af efni til bólstrunar, bróderuð bómull með silkiþráðum,
Gujurat (fyrir evrópskan markað), snemma á 18. öld

V&A Pattern: Indian Florals er lítil bók með aðeins fjórum blaðsíðum af texta eftir Rosemary Crill. Í henni eru 66 síður af mynstrum, auk mynstranna á bókarkápunni og á öðrum síðum til skrauts (samtals 71). Það eru stuttar lýsingar fyrir neðan öll mynstrin (eins og myndatextinn minn) og bókinni fylgir auk þess tölvudiskur með öllum mynstrunum í góðri upplausn.
Rúmábreiða, lituð og bútasaumuð bómull (chintz), Coromandel-ströndin
(fyrir evrópskan markað), ca. 1725-50
Bútur af kjólaefni, blokkprentuð bómull (chintz), Suður-Indland
(fyrir evrópskan markað), 18. öld

V&A Pattern-bækurnar eru frábær kynning á yfirgripsmiklu minjasafni (textíll, skraut, veggfóður og prent) Victoria and Albert-safnsins í London. Fyrir áhugafólk um textílhönnun og fyrir nemendur er kjörið að safna þeim. Næst er ég að hugsa um að kaupa Kimono eða William Morris, eða kannski þetta bókasett, Box-Set III, sem inniheldur Spitalfields Silks, Chinese Textiles, Pop Patterns og Walter Crane.

Mér finnst svolítið erfitt að ákveða mig en bækurnar eru ódýrar þannig að ég trúi því að á stuttum tíma verði ég komin með þó nokkuð margar í safnið.
Bóndarósir (peoníur) · Lísa Hjalt


Þegar þetta er skrifað er síðasti vöndurinn af bóndarósum þessarar árstíðar í hvítum keramikvasa á eldhúsborðinu. Ég kann að hljóma dramatísk (ég er allt annað en dramatísk) þegar ég segi að ég vildi að ég hefði þann ofurmátt að geta forðað rósunum frá því að visna. Mig langar ekki að bíða í næstum heilt ár eftir því að finna himneska angan þeirra að nýju.

Bóndarósir eru svo sannarlega fegurstar.
Bóndarósir (peoníur) · Lísa Hjalt
Bóndarósir (peoníur) · Lísa Hjalt




fimmtudagur, 2. júlí 2015

Kember & Jones delí og kaffihús í Glasgow

Kember & Jones delí og kaffihús í Glasgow · Lísa Hjalt


Í gær skelltum við okkur til Glasgow í Skotlandi og ég varð bálskotin í West End-hverfinu. Einhvers staðar í hjarta þessa fallega og afslappaða hverfis, þar sem má finna kaffihús og veitingastaði á svo til hverju horni, leit ég á eiginmanninn og spurði: Hvar hefur þessi borg eiginlega verið allt mitt líf? Á Byres Road númer 134 fundum við Kember & Jones delí og kaffihús og þegar ég opnaði hurðina var ég komin heim. Við fengum borð uppi með útsýni yfir aðalhæðina þar sem við heldur betur gátum notið góðs anda staðarins.

Á blogginu skrifa ég aldrei svona 'vikan mín á Instagram'-færslur (afsakið en mér finnst slíkar færslur tilgangslausar með öllu) en þegar ég tók myndavélina upp úr töskunni og ætlaði að taka myndir af West End-hverfinu til að deila á blogginu þá áttaði ég mig á því að batteríið varð eftir í hleðslutækinu heima ... ég er ekki í lagi! Sem betur fer var eiginmaðurinn með símann á sér þannig að ég tók þessar á Kember & Jones og deildi þeim á Instagram. En þetta þýðir að ég þarf að fara aftur til Glasgow.
Kember & Jones delí og kaffihús í Glasgow · Lísa Hjalt


Aftur að kaffihúsinu. Persónulega þá þoli ég ekki þegar ég panta latte og það er borið fram í stóru glasi. Ég var svo heilluð af hráum stíl og hönnun Kember & Jones í gær að ég hreinlega gleymdi að spyrja hvernig þau bæru það fram. Kaffið kom í meðalstóru, svolítið gamaldags glasi, sem fór ekkert í taugarnar á minni latte-sál. Aðalatriðið var að kaffið var gott! Ég pantaði samloku á matseðlinum þeirra með grilluðu grænmeti, hummus, spínati og harissa chilli-dressingu, með baunum og salati til hliðar, sem var gómsæt. Þegar ég hélt að þetta kaffihús gæti ekki heillað mig meira þá fann ég á borði á aðalhæðinni svo til allar uppskriftabækurnar á óskalistanum mínum (Sunday Suppers eftir Karen Mordechai og A Kitchen in France: A Year of Cooking in My Farmhouse eftir Mimi Thorisson (íslenskur eiginmaður hennar, Oddur Þórisson, tekur myndirnar), bara til að nefna einhverjar, og ég bætti á listann The River Cafe Classic Italian Cookbook eftir Rose Gray and Ruth Rogers). Þetta kaffihús er einfaldlega draumur.

Að lokum verð ég að segja að ef þið ferðist einhvern tíma til Glasgow eða millilendið þar, ekki gera þau mistök að dvelja bara í einn dag. Ég gæti eytt nokkrum dögum bara í West End-hverfinu. Í raun þá gæti ég eytt nokkrum dögum í að njóta kaffi- og veitingahúsanna og andrúmsloftsins á Byres Road eingöngu.