Sýnir færslur með efnisorðinu kyrralífsmyndir. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu kyrralífsmyndir. Sýna allar færslur

fimmtudagur, 26. september 2019

Gæðastundir í Austurríki

Landslag við vatnið Traunsee, Austurríki · Lísa Stefan


Ég hef ég ekki lagt það í vana minn að blogga myndum sem ég deili á Instagram, fyrir utan eina og eina, en síðustu mánuði hefur tíminn til að blogga verið takmarkaður og mikið hefur gerst: Við fluttum nýverið til Austurríkis, báðar dæturnar hófu háskólanám erlendis á þessari haustönn og ég sjálf ákvað að skipta um gír: ég byrjaði í meistaranámi í safnafræði sem Háskóli Íslands býður upp á í fjarnámi. Kennslubækur, fyrirlestrar og verkefni halda mér upptekinni en mér fannst bloggið þurfa á uppfærslu að halda og ákvað að nota myndir úr safninu, af Traunsee-svæðinu og bókabúð í Vín ásamt námstengdum kyrralífsmyndum.

Ég var að koma í fyrsta sinn til Traunsee-svæðisins og gleymi ekki augnablikinu þegar vatnið blasti við mér. Landslagið er svo fallegt að mann verkjar í hjartað. Við keyrðum í gegnum lítil þorp á sólríkum sunnudegi, snæddum hádegisverð við vatnið í Altmünster og þar á eftir fórum við til Gmunden. Eilítið síðar var okkur boðið í garðveislu í Gmunden þar sem við sátum í hlíð undir berum himni með vatnið í augnsýn, og Traunstein-fjallið svo nálægt að það var sem við gætum teygt út höndina og snert það.
Bókin „I Remain in Darkness“ eftir Annie Ernaux (Fitzcarraldo) · Lísa Stefan


Ég elska að finna bækur frá útgefendum í póstkassanum. Starfsfólk Fitzcarraldo Editions var svo elskulegt að senda mér I Remain in Darkness eftir Annie Ernaux sem kom út í Bretlandi í síðustu viku (ensk þýðing úr frönsku eftir Tanya Leslie). Ég lýsti bókinni með þessum hætti á Instagram: „Þetta er frásögn höfundar um þá reynslu að missa móður sína úr Alzheimer. Þessi stutta bók er kröftug, full af hráum, sársaukafullum tilfinningum. Stundum þarf ég að taka mér hlé frá lestrinum til að meðtaka eina setningu, eða aðeins eitt orð.“ Bókin verður á næsta bókalista.
Bókabúðin Shakespeare & Co., Sterngasse, Vín · Lísa Stefan


Eftir að hafa fylgt elstu dótturinni á flugvöllinn í Vín einn morgun nýtti ég restina af deginum í borginni. Það var orðið ansi langt síðan ég kom til Vínar og mitt fyrsta verk var að skella mér í neðanjarðarlestina. Ég fór út á Schwedenplatz og rölti í áttina að Sterngasse í Gyðingahverfinu, þar sem má finna bókabúð sem selur enskar bækur, Shakespeare & Co. (ekki útibú frá þeirri í París). Búðin er gamaldags í útliti og lítil en úrval bóka er merkilega gott.

Bókabúðin Shakespeare & Co., Sterngasse, Vín · Lísa Stefan
Ensk bókabúðin Shakespeare & Co. á Sterngasse í Vín

Ég rölti aðeins um hverfið, síðar eftir götunum Fleischmarkt og Postgasse í austurátt. Allt iðaði af lífi, alls staðar sat fólk úti í sólinni á litlum kaffi- og veitingahúsum. Yndisleg stemning, einkar evrópsk, hvernig svo sem það kann að hljóma. Ég greip sushi og settist á bekk í Stadtpark undir skugga trés og fylgdist með mannlífinu. Ég tók svo stefnuna í suðurátt að Belvedere-höllinni, spókaði mig aðeins um og naut fegurðarinnar. Í þetta sinn fór ég ekki á Belvedere-safnið; ég hef komið þangað áður og hafði lofað eldri dótturinni að fara með henni einn daginn að kíkja á Kossinn eftir Gustav Klimt og fleiri verk.
Námsmannalíf · Lísa Stefan


Þar sem námið mun halda mér upptekinni gefst minni tími fyrir annan lestur og bókamyndatökur. Bráðum ætla ég þó að deila nýjum bókalista. Ég er með nokkrar hugmyndir um hvernig ég get haldið blogginu meira lifandi á meðan ég er í námi og ein er að byrja með nýjan flokk með bókarkápum. Mig langar að gefa sumum kápum varanlegan sess á blogginu, einkum til að hrósa fallegri bókahönnun. Svo eru nokkrar færslur sem mér finnst ég skulda, þá aðallega lestrarkompufærslur. Ef ykkur finnst lítið gerast á blogginu þá getið þið alltaf kíkt á @lisastefanat en þar deili ég aðallega bókamyndum af og til.



miðvikudagur, 22. mars 2017

Nellikur á skrifborðinu mínu



Um daginn vorum ég og sonurinn að borða morgunmat þegar hann spurði mig hver væru uppáhaldsblómin mín. Án umhugsunar svaraði ég nellikur (á borðinu var vasi með gulum). „Af hverju?“ spurði hann. „Af því þær eru svo endingargóðar,“ sagði ég „þær lifa svo lengi.“ Fyrir nokkrum árum síðan hefði ég svarað hvítir túlipanar eða bóndarósir (sem ég kalla alltaf peóníur). Þegar ég hugsa um það þá get ég varla gert upp á milli þessara þriggja, en nellikur eru blóm sem ég kaupi oftast (Spánverjar vissu hvað þeir sungu þegar þeir völdu rauða nelliku sem þjóðarblóm). Ég tók þessa mynd í morgun þegar ég var að njóta lattebolla með múskati. Nellikur og bókastaflar eru algeng sjón á skrifborðinu mínu. Njótið dagsins!



föstudagur, 6. janúar 2017

Bækur og kaffi | Gleðilegt ár

Bækur og kaffi · Lísa Stefan


Gleðilegt ár! Ég vona að þið hafið slakað vel á yfir hátíðarnar og að ykkar bíði eitthvað skemmtilegt á árinu 2017. Við erum enn í hátíðargír, fyrir utan veislumatinn. Að springa úr seddu eftir gamlárskvöld stakk eitt barnanna upp á því að hafa bara epli og gulrætur á matseðli vikunnar, sem mér fannst helst til öfgafullt. Við vorum bara heima um jólin og röltum stundum í Waterstones til að fá okkur latte á kaffihúsinu þeirra. Það var nóg að skoða bara í bókabúðinni því nóg var um bækur undir jólatrénu. Muniði eftir því fyrir um mánuði síðan þegar ég minntist á að lesa aftur Little Women ef ég ætti innbundnu útgáfuna frá Penguin? Haldiði að eiginmaðurinn hafi ekki gefið mér hana í jólagjöf og tvö önnur klassísk verk. Þessar útgáfur eru svo fallegar. Ég hef ekki klárað verkin á síðasta bókalista en fór lesandi Louisu May Alcott inn í nýja árið. Þessa dagana er ég að nóta hjá mér hugmyndir fyrir þann næsta og eftir ferð okkar á bókasafnið á miðvikudaginn eru nokkrar sem bara bíða lesturs. Til að gefa ykkur vísbendingu: Á borðinu mínu sjáið þið The Golden Notebook eftir Doris Lessing. Ég deili listanum síðar.

Í desember horfði ég aðeins á sjónvarp (í meiningunni að ná nokkrum dagskrárliðum á BBC iPlayer - ég horfi ekki á sjónvarp, ég les). Maggie Smith og Alex Jennings voru frábær í myndinni The Lady in the Van (2015). Hvernig Alan Bennett hélt út fimmtán ár með Mrs Shepherd í innkeyrslunni er ofar mínum skilningi. Á BBC var sýnd heimildarmyndin Alan Bennett's Diaries (2016) eftir Adam Low sem var gaman að sjá. Ég er að hugsa um að lesa dagbækur Bennett eftir að hafa skoðað nýjasta bindið, Keeping On Keeping On, í bókabúð. Og já, ég var yfir mig hrifin af kvikmyndinni NW, í leikstjórn Saul Dibb, handritsgerð Rachel Bennette, sem er byggð á samnefndri bók eftir Zadie Smith. Ég kláraði bókina áður en ég horfði á hana og leikhópurinn var frábær, sérstaklega Nikki Amuka-Bird sem heldur betur á verðlaun skilið fyrir túlkun sína á Natalie/Keisha Blake. Hún var stórkostleg. Það eina sem olli mér vonbrigðum var að þau slepptu hinni tragísku og fyndnu Annie, úr „guest“-kaflanum um Felix, en ég skil vel út af hverju það var gert.

Jæja, tími til kominn að klára að gera fínt fyrir helgina. Fljótlega deili ég ritdómi mínum um Map Stories eftir Francisca Mattéoli, sem til stóð að gera fyrir jól, og ég er með nokkar kaffiborðsbækur í sjónmáli.



föstudagur, 20. maí 2016

Modigliani í morgunbirtunni

Modigliani í morgunbirtunni · Lísa Hjalt


Í morgun þegar ég var að gera heimilið huggulegt fyrir helgina gekk ég inn í stofuna og sá Modigliani baðaðan í sólarljósi. Augljóslega ekki Modigliani sjálfan heldur innrammaða endurprentun af málverki hans, Kona með blá augu (1918, olía á striga). Ég tók hana af veggnum og setti á arinhilluna hjá nellikunum og döðluskálinni. Ef það vill svo til að þið séuð að rölta um stræti Parísar, og stemmd fyrir myndlist, þá finnið þið upprunalega verkið á safninu Musée d'Art Moderne de la Ville de Paris.

Hvar sem ég enda í framtíðinni þá mun ég alltaf tengja listamanninn Amedeo Modigliani við þetta hús. Eigandinn skildi eftir tvær innrammaðar endurprentanir í stofunni sem voru fyrstu kynni mín af húsinu. Góð fyrstu kynni.

Í dag er föstudagur sem í okkar tilveru þýðir heimagerð pizza og rauðvín í kvöldmatinn; hefð sem skapaðist fyrir 6 árum síðan þegar við bjuggum á miðju Sjálandi í Danmörku. En nú er það kaffi og lesefni sem nærir andann í hreinu húsi. Góða helgi!



föstudagur, 22. janúar 2016

Nellikur á bóndadegi

Nellikur á bóndadegi · Lísa Hjalt


Ég var að hugsa það hérna í dag hvað það munar um sólina. Þessi dagur byrjaði eins og hver annar vetrardagur og var helst til grár. Það bjargaði honum þó alveg að ég var með nellikur í stofunni þar sem ég drakk kaffið mitt umvafin bókum. (Held að ég sé ekki sú eina sem les margar í einu!) Nokkru síðar var ég að hlusta á fyrirlestra á netinu þegar svolítið dásamlegt gerðist: Sólin lét sjá sig og allt breyttist. Þess má geta að ég keypti þessar nellikur ekki í tilefni bóndadagsins! En það þarf ekkert að vorkenna mínum bónda því á föstudögum fær hann heimagerða pizzu og rauðvín.
Nellikur á bóndadegi · Lísa Hjalt


Aftur að fyrirlestrunum. Ég skrái mig reglulega í kúrsa á netinu; ég er þeirrar skoðunnar að það næri andann og víkki sjóndeildarhringinn. Þessa stundina, í gegnum Coursera, er ég í kúrsi sem er kenndur við Wesleyan University og kallast Módernismi og póstmódernismi (hluti 2). Kennarinn var svo áhugasamur um efnið í hluta 1 að ég varð að halda áfram. Hann nær alveg að halda manni við efnið og í dag náði hann sérstaklega athygli minni í fyrirlestraröð sem hann kallaði ,Intensity and the Ordinary: Art, Loss, Forgiveness'. Í henni notaði hann bókina To the Lighthouse eftir Virginiu Woolf til að sýna „how giving up the search for the 'really real' can liberate one to attend to the everyday.“ Það er óþarfi að þýða þetta en fyrir þá sem hafa lesið bókina ætti þetta að skiljast vel. Þessi bók er ein af mínum uppáhalds eftir Woolf og ég las hana einmitt aftur síðasta sumar. Ég hef sagt ykkur að ég er að lesa dagbækur hennar. Vegna flutninganna til Skotlands var lítill tími fyrir lestur en núna er ég að klára Bindi 2 sem spannar tímabilið 1920-24. Ég á eftir að panta næsta bindi en það er á bókalistanum fyrir febrúar.

Vissuð þið að bleikar nellikur hafa mikilvægustu merkinguna af þeim öllum? Það er sagt að þessar bleiku séu sprotnar af tárum Maríu mey, sem geri þær að tákni fyrir hina ódeyjandi móðurást (heimild). Það var nú ekki ástæðan fyrir því að ég keypti þær en eftir að ég fletti þýðingu þeirra upp þá finnst mér ég sjá þær í nýju ljósi. Eigið góða helgi!
Nellikur á bóndadegi · Lísa Hjalt




þriðjudagur, 7. júlí 2015

Bóndarósir og indversk blómamynstur

Bóndarósir og indversk blómamynstur · Lísa Hjalt


Á einhverjum tímapunkti nótaði ég í minnisbókina að kínverska orðið yfir bóndarós væri sho yu, sem þýðir sú fegursta. Nafn við hæfi! Sennilega er það klisjukennt að birta bloggfærslu um bóndarósir en í fyrra lét ég bók um textílhönnun fylgja með og ég hugsaði með mér að textíll og bóndarósir væru bara ágætis árlegt þema hér á blogginu. Nýjasta textílbókin í safninu mínu er V&A Pattern: Indian Florals.

Bóndarósir (peoníur) · Lísa Hjalt

Á bókarkápunni: Bútur af efni til bólstrunar, bróderuð bómull með silkiþráðum,
Gujurat (fyrir evrópskan markað), snemma á 18. öld

V&A Pattern: Indian Florals er lítil bók með aðeins fjórum blaðsíðum af texta eftir Rosemary Crill. Í henni eru 66 síður af mynstrum, auk mynstranna á bókarkápunni og á öðrum síðum til skrauts (samtals 71). Það eru stuttar lýsingar fyrir neðan öll mynstrin (eins og myndatextinn minn) og bókinni fylgir auk þess tölvudiskur með öllum mynstrunum í góðri upplausn.
Rúmábreiða, lituð og bútasaumuð bómull (chintz), Coromandel-ströndin
(fyrir evrópskan markað), ca. 1725-50
Bútur af kjólaefni, blokkprentuð bómull (chintz), Suður-Indland
(fyrir evrópskan markað), 18. öld

V&A Pattern-bækurnar eru frábær kynning á yfirgripsmiklu minjasafni (textíll, skraut, veggfóður og prent) Victoria and Albert-safnsins í London. Fyrir áhugafólk um textílhönnun og fyrir nemendur er kjörið að safna þeim. Næst er ég að hugsa um að kaupa Kimono eða William Morris, eða kannski þetta bókasett, Box-Set III, sem inniheldur Spitalfields Silks, Chinese Textiles, Pop Patterns og Walter Crane.

Mér finnst svolítið erfitt að ákveða mig en bækurnar eru ódýrar þannig að ég trúi því að á stuttum tíma verði ég komin með þó nokkuð margar í safnið.
Bóndarósir (peoníur) · Lísa Hjalt


Þegar þetta er skrifað er síðasti vöndurinn af bóndarósum þessarar árstíðar í hvítum keramikvasa á eldhúsborðinu. Ég kann að hljóma dramatísk (ég er allt annað en dramatísk) þegar ég segi að ég vildi að ég hefði þann ofurmátt að geta forðað rósunum frá því að visna. Mig langar ekki að bíða í næstum heilt ár eftir því að finna himneska angan þeirra að nýju.

Bóndarósir eru svo sannarlega fegurstar.
Bóndarósir (peoníur) · Lísa Hjalt
Bóndarósir (peoníur) · Lísa Hjalt