föstudagur, 22. janúar 2016

Nellikur á bóndadegi

Nellikur á bóndadegi · Lísa Hjalt


Ég var að hugsa það hérna í dag hvað það munar um sólina. Þessi dagur byrjaði eins og hver annar vetrardagur og var helst til grár. Það bjargaði honum þó alveg að ég var með nellikur í stofunni þar sem ég drakk kaffið mitt umvafin bókum. (Held að ég sé ekki sú eina sem les margar í einu!) Nokkru síðar var ég að hlusta á fyrirlestra á netinu þegar svolítið dásamlegt gerðist: Sólin lét sjá sig og allt breyttist. Þess má geta að ég keypti þessar nellikur ekki í tilefni bóndadagsins! En það þarf ekkert að vorkenna mínum bónda því á föstudögum fær hann heimagerða pizzu og rauðvín.
Nellikur á bóndadegi · Lísa Hjalt


Aftur að fyrirlestrunum. Ég skrái mig reglulega í kúrsa á netinu; ég er þeirrar skoðunnar að það næri andann og víkki sjóndeildarhringinn. Þessa stundina, í gegnum Coursera, er ég í kúrsi sem er kenndur við Wesleyan University og kallast Módernismi og póstmódernismi (hluti 2). Kennarinn var svo áhugasamur um efnið í hluta 1 að ég varð að halda áfram. Hann nær alveg að halda manni við efnið og í dag náði hann sérstaklega athygli minni í fyrirlestraröð sem hann kallaði ,Intensity and the Ordinary: Art, Loss, Forgiveness'. Í henni notaði hann bókina To the Lighthouse eftir Virginiu Woolf til að sýna „how giving up the search for the 'really real' can liberate one to attend to the everyday.“ Það er óþarfi að þýða þetta en fyrir þá sem hafa lesið bókina ætti þetta að skiljast vel. Þessi bók er ein af mínum uppáhalds eftir Woolf og ég las hana einmitt aftur síðasta sumar. Ég hef sagt ykkur að ég er að lesa dagbækur hennar. Vegna flutninganna til Skotlands var lítill tími fyrir lestur en núna er ég að klára Bindi 2 sem spannar tímabilið 1920-24. Ég á eftir að panta næsta bindi en það er á bókalistanum fyrir febrúar.

Vissuð þið að bleikar nellikur hafa mikilvægustu merkinguna af þeim öllum? Það er sagt að þessar bleiku séu sprotnar af tárum Maríu mey, sem geri þær að tákni fyrir hina ódeyjandi móðurást (heimild). Það var nú ekki ástæðan fyrir því að ég keypti þær en eftir að ég fletti þýðingu þeirra upp þá finnst mér ég sjá þær í nýju ljósi. Eigið góða helgi!
Nellikur á bóndadegi · Lísa Hjalt
2 ummæli:

  1. Dásamelgar bleikar nellikur og æðislegar myndir.

    SvaraEyða
    Svör
    1. Takk Stína, ég elska fersk blóm. Það dásamlega við nellikurnar er að þær endast svo lengi! Ég skipti um vatn á svo til hverjum degi og klippi aðeins af þeim reglulega.

      Eyða

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.