þriðjudagur, 30. september 2014

Ný keramiklína: POME-POMEEruð þið að leita að fallegum og stílhreinum munum til að prýða borðið ykkar, einhverju nýju til að safna? Nú í haust er væntanleg á markað ný keramiklína, POME-POME, frá hinni dönsku Malene Helbak, sem hún hannaði í samstarfi við sænska grafíska hönnuðinn Nygårds Maria. Þær stöllur sóttu innblástur í jurtaríkið og allir munirnir eru hvítir með sæbláum og petról-bláum (er til íslenskt heiti yfir svona lit?), mintugrænum og appelsínugulum tónum. Er það klisja að segja að það gerist varla skandinavískara? Ég veit ekki með ykkur en ég gæti vel hugsað mér að dekka mitt borð með þessum munum.

mynd:
af vefsíðu Bo Bedre

föstudagur, 26. september 2014

Góða helgiUm leið og ég óska ykkur góðrar helgar þá langaði mig að segja að nú er tískuvikan í París í fullum gangi og ég hlakka svolítið til að sjá hvað Isabel Marant sýnir í dag. Annars er ég mikill aðdáandi belgíska hönnuðarins Dries Van Noten, en sú aðdáun hófst áður en við fluttum til Antwerpen á sínum tíma og gerði ekkert nema að dýpka í þau tvö ár sem við bjuggum þar. Ég póstaði nokkrum myndum úr línu Dries Van Noten fyrir vorið 2015 á ensku útgáfunni í dag. Ef þið hafið áhuga á textíl þá skuluð þið endilega smella á tengilinn.

mynd:
Lisa Cohen fyrir Vogue Living

fimmtudagur, 25. september 2014

Rýmið 74- stofa eða leskrókur með arni í hlutlausum tónum í Hollywood
- eigandi er Darren Star, maðurinn á bak við sjónvarpsþætti eins og Sex and the City, Beverly Hills, 90210 og Melrose Place
- innanhússhönnun var í höndum Waldo's Designs og um arkitektúr sá Rios Clementi Hale Studios

mynd:
Roger Davies fyrir Architectural Digest, mars 2012

miðvikudagur, 24. september 2014

Tískuvikan í Mílanó: Emilio Pucci vor 2015Það fer ekkert á milli mála að ítölsku hönnuðurnir sem sýndu vorlínur sínar á tískuvikunni í Mílanó eru með hugann við 8. áratuginn. Um daginn sýndi ég ykkur brot af línu Frida Giannini fyrir Gucci og sömu strauma mátti sjá hjá Peter Dundas fyrir Emilio Pucci tískuhúsið. Að vísu er það ekkert sem þarf að koma á óvart þegar Dundas á í hlut því það má alltaf treysta á mynstur og víða, fljótandi kjóla frá honum, eða maxi kjóla, eins og þeir kallast. Hér eru nokkar flíkur og stíliseringar sem heilluðu mig og ég verð að minnast á klútana sem mér finnst svakalega smart.


mynd:
Emilio Pucci vor 2015 af síðu Style.com

mánudagur, 22. september 2014

ný bók: Modern Country eftir Caroline Clifton-MoggUm daginn minntist ég örstutt á nýja bók sem ég var að lesa og lofaði að deila með ykkur. Hún var gefin út í síðustu viku og nefnist Modern Country: Inspiring Interiors for Contemporary Country Living eftir Caroline Clifton-Mogg. Útgefandi er Jacqui Small. Ég fékk sent eintak frá forlaginu og skrifaði um bókina á ensku útgáfu bloggsins í dag ef þið hafið áhuga á að kíkja, en hér er smá sýnishorn úr bókinni sem er virkilega falleg.


myndir:
Allar myndir frá Jacqui Small, úr bókinni Modern Country eftir Caroline Clifton-Mogg

miðvikudagur, 17. september 2014

Tískuvikan í Mílanó: Gucci - London: Paul SmithNú er tískuvikan í Mílanó hafin en ég er alltaf spennt eftir henni því ítölsku tískuhúsin geta eiginlega ekki klikkað. Gucci kynnti sína línu í dag en þar er Frida Giannini við völd og hún var innblásin af 8. áratugnum. Það var margt fallegt í línunni og mikið um föt sem eru alltaf í tísku, eða hverfa í smá stund og koma svo aftur. Litapalettan innihélt eitthvað fyrir alla og gallaefni og rússkinn voru áberandi. Og ekki má gleyma öllum fallegu aukahlutunum; dásamlegu úrvali af beltum, töskum, klútum og skófatnaði.


Mig langaði að birta þessa tvo kjóla í fullri stærð en það voru ekki til myndir af þeim í stærri upplausn, því miður. Dressið hér að neðan er svolítið skemmtilega náttfatalegt. Ég er lúmskt skotin í því og fíla mynstrið.


Ég get ekki sagt að ég sé búin að skoða allt sem birtist á tískupöllunum í London en það sem ég gaf mér tíma til að renna í gegnum höfðaði ekkert sérstaklega til mín. Það var eiginlega bara Paul Smith sem heillaði mig með alls kyns röndum og þægilegum og einföldum flíkum.


myndir:
1-5: Gucci vor 2015 | 6-11: Paul Smith vor 2015 af vefsíðunni Style.com

þriðjudagur, 16. september 2014

mánudagur, 15. september 2014

Innlit: heimili listakonunnar Pepa Poch á SpániÞegar ég rekst á heimili listamanna sem eru jafn falleg og þetta þá fæ ég allt að því skjálfta í hnén. Hið vinsæla tímarit Lonny er ókeypis á netinu og septemberútgáfan er öll hin glæsilegasta. Þau heimsóttu katalónsku listakonuna Pepa Poch sem býr í hvítmáluðu húsi á Costa Brava á Spáni með útsýni út á Miðjarðarhaf. Ég allt að því slefaði þegar ég sá pússuðu gólfborðin, svo ég minnist nú ekki á loftbitana sem hafa verið málaðir í bláum tón. Það eru einmitt þessir bláu tónar hér og þar um húsið og í listaverkum Poch sem heilla mig. Ég er auk þess ákaflega hrifin af svona hráum stíl þar sem steinn og viður leika aðalhlutverk, sérstaklega þegar hann er hlýlegur eins og á þessu heimili. Það eru fleiri myndir á vefsíðu Lonny ef þið viljið sjá meira og að sjálfsögðu smá viðtal við listakonuna.


myndir:
Albert Font fyrir Lonny, september 2014

fimmtudagur, 11. september 2014

Heimagerður hindberjasafi í boði IkeaÍ júlí rakst ég á þessa fallegu mynd á Livet Hemma, bloggi sem sænska Ikea vefsíðan heldur úti. Stílistarnir þeirra útbúa oft skemmtilegar matarmyndir þegar verið er að kynna nýja eldhúslínu eða muni og þá fylgir gjarnan uppskrift. Ég hef ekki prófað þessa uppskrift að hindberjasafa sem inniheldur 2 kíló (4 lítra) hindber, 1½ lítra vatn, 1 kíló sykur og safa úr 1 sítrónu. Mér finnst sykurmagnið alltof mikið og myndi alveg örugglega minnka það verulega og nota frekar blöndu af lífrænum hrásykri, agave sírópi og stevia dropum.

Sigrún vinkona, sem heldur úti CafeSigrun vefnum, sendi mér flösku af Via Health stevia dropunum um daginn sem ég hef verið að prufa mig áfram með og mér líst vel á þá. Eftir flutningana til Englands datt sonur okkar beint inn í bresku tehefðina og fær sér alltaf te á kvöldin í stórum bolla, rosa fínt Earl Grey te frá Clipper, sem honum þykir best. Hann notar út í það mjólk og demerara sykurmola og ég hef reynt að fá hann til að minnka sykurmagnið. Núna samþykkir hann að nota 1 mola og stevia á móti. Ég prófaði svo að baka glútenlausa súkkulaðiköku í gær þar sem hluti sætunnar var stevia og hún heppnaðist mjög vel. Sem betur fer er ekkert glútenóþol á okkar bæ en mig langar að eiga góða uppskrift ef gesti með slíkt óþol ber að garði og mig langar líka að hafa uppskriftina á matarblogginu. Ég deili henni þegar ég hef neglt hana niður.

Talandi um Sigrúnu, sáuð þið sýnishornið hér á blogginu úr uppskriftabókinni hennar? Bókin er ekki enn komin út en ég læt ykkur að sjálfsögðu vita hvenær það gerist.

mynd:
Malin Cropper fyrir Ikea Livet Hemma

miðvikudagur, 10. september 2014

Tískuvikan í New York: vor 2015Hvað segiði um tískuvikuna í New York, eruð þið að fylgjast með? Ég get ekki sagt að ég hafi legið yfir þessu en ég bíð alltaf nokkuð spennt eftir því að sjá hvað ákveðnir hönnuðir kynna. Að mínu mati eiga Olsen-systurnar, sem hanna undir heitinu The Row, eina bestu vorlínu ársins 2015. Ég deildi hluta af henni í dag á ensku útgáfu bloggsins ásamt nokkrum flíkum frá Jason Wu og Donna Karan. Ég vildi ekki endurbirta þær myndir hér heldur kaus að sýna ykkur nokkrar frá Halston Heritage, Michael Kors, Tory Burch og Diane von Furstenberg.

Marie Mazelis hjá Halston Heritage kynnti vorlínuna daginn áður en sjálf tískuvikan hófst og í henni er að finna margar virkilega fallegar flíkur fyrir þetta endurreista tískuhús, sem Roy Halston Frowick setti á fótinn á 7. áratugnum - oft kennt við Andy Warhol og Studio 54 tímabilið. Ég hefði gjarnan viljað birta fleiri myndir en það er því miður einhver tæknivilla á vefsíðu Style.com og sumar myndir tískuhússins birtast ekki í stórri upplausn. Leikkonan Sarah Jessica Parker á sennilega einhvern þátt í því að tískuhúsið var endurreist því sem dæmi klæddist hún svo til eingöngu gömlum Halston-flíkum í síðari Sex and the City kvikmyndinni, sem heldur betur vöktu athygli.


Það er alltaf hægt að treysta á að hönnuðurinn Michael Kors sýni föt sem höfði til sem flestra; fallegar og klassískar flíkur sem auðveldlega rata í fataskápinn og eru í notkun. Sýningarnar hans eru auk þess skemmtilegar að því leyti að hann sýnir alltaf herrafatnað um leið og hann kynnir kvenfatnaðinn. Ég kaus að birta bara þrjár myndir til að drekkja ykkur ekki, en í vorlínunni hans er að finna fallegar ljósblár skyrtur, nokkrar sólgular flíkur sem voru ansi smart og alls kyns mynstraðar flíkur. Kvöldfatnaðurinn einkenndist svo af svörtu.


Tory Burch telst seint til minna uppáhaldshönnuða en guli liturinn í palettunni hennar fyrir vorið 2015 finnst mér ákaflega fallegur - sjá mynstraða pilsið. Þegar mynstrum er blandað svona saman er útkoman annaðhvort virkilega smart eða ekki, það er eiginlega enginn millivegur þar, alla vega ekki að mínu mati. En þessi samsetning hér að neðan fær mitt samþykki.


Ég veit ekki hvernig ég á að lýsa því en það er yfirleitt þannig með línurnar frá Diane von Furstenberg að þær annaðhvort hrífa mig eða þá að ég finn bara eina flík sem ég gæti hugsað mér að eiga. Oftast eru það eingöngu sniðin sem höfða ekki til mín. Vorlínan hennar fyrir 2015 er þannig að ég heillaðist bara af þessum eina kjól. Og það skemmtilega er að þegar hún svo steig á tískupallinn í lok sýningarinnar þá klæddist hún sjálf einmitt þessum sama kjól. Hún er orðin 67 ára gömul en er enn svaka skvísa.


myndir:
1-4: Halston Heritage vor 2015 | 5-7: Michael Kors vor 2015 | 8-11: Tory Burch vor 2015 | 12: Diane von Furstenberg vor 2015 af vefsíðunni Style.com