Sýnir færslur með efnisorðinu fyrir heimilið. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu fyrir heimilið. Sýna allar færslur

þriðjudagur, 12. september 2017

Schuyler Samperton Textiles - ný hönnun

Schuyler Samperton Textiles, hönnun, mynstur, efni: Nellcote, Cordoba, Celandine · Lísa Stefan


Heimur textílhönnunar auðgaðist á árinu þegar Schuyler Samperton, innanhússhönnuður með aðsetur í Los Angeles, tók af skarið og kynnti sína eigin línu undir nafninu Schuyler Samperton Textiles. Með framleiðslu efnanna rættist langþráður draumur Samperton, sem hefur safnað textíl frá unglingsaldri. Orðið glæsilegt var það fyrsta sem kom upp í hugann þegar ég sá úrvalið í fyrsta sinn, en það samanstendur af átta efnum úr 100% líni, fáanlegum í mörgum litum. Í tvo mánuði hef ég dáðst að smáatriðum í mynstrunum og spurt sjálfa mig að því, Hvar byrja ég eiginlega að deila þessari fegurð?

Schuyler Samperton Textiles, hönnun, mynstur, efni: Nellcote
Nellcote/Petunia frá Schuyler Samperton Textiles

Þið kunnið að hafa tekið eftir efnum frá Schuyler Samperton Textiles á Instagram-síðunni minni í sumar, en fyrir fyrstu bloggfærsluna valdi ég Nellcote/Apricot í aðalhlutverk, bóhemískt mynstur sem fyrir mér virðist á einhvern hátt bregða á leik. (Smáatriðið að ofan sýnir efnið í litnum Petunia.)

Nellcote/Apricot er efni og litur sem mig langar að nota á einn púða eða tvo í nýju stofunni minni, þegar við höfum keypt nýjan sófa - ég er að flytja, fer bráðum að pakka í kassa! Ég hef verið að leika mér með hugmyndir og í hvert sinn er þetta mynstrið sem kallar á mig, auk þess sem litirnir í því passa vel við þann textíl sem ég á nú þegar og þann sem ég hef augastað á.

Schuyler Samperton Textiles, hönnun, mynstur, efni: Doshi
Schuyler Samperton Textiles, hönnun, mynstur, efni: Nellcote, Caledonia, Celandine · Lísa Stefan

Til vinstri: Efnið Doshi/Persimmon. Til hægri: Nellcote/Apricot í forgrunni;
Caledonia/Mandarin efst; Celandine/Sunset neðst til vinstri

Af efnunum átta er það Doshi sem er með dauflega prentuðu mynstri, einföldu blómamótífi. Það er fáanlegt í fimm litum sem má auðveldlega nota til að draga fram einhvern annan lit og skapa þannig fallega hannað rými. Fyrir þessa færslu valdi ég Doshi í litnum Persimmon en ég er líka skotin í bláu afbrigði, Doshi/Lake. Blómamynstrið sem sést í mynd minni hér að ofan kallast Celandine/Sunset.

Síðar á blogginu langar mig að fjalla um efnið Caledonia í sér færslu. Það er blómamynstrið með fiðrildinu sem einnig sést á myndinni hér að ofan, í litnum Mandarin. Efnið er einnig með fuglamótífi.
Schuyler Samperton Textiles, hönnun, mynstur, efni: Nellcote, Cordoba, Celandine · Lísa Stefan


Önnur textílhönnun frá Schuyler Samperton sem ég er líka hrifin af og langar á nota á nýja heimilinu er Cordoba, efni með paisley-mótífi, sem sést brotið saman í litnum Spice í mynd minni hér að ofan - sjá einnig nærmynd hér að neðan (það glittir í efnið í bláa litnum Indigo undir keramikvasanum). Ég á enn eftir að velja á milli Cordoba/Spice og Cordoba/Dahlia.

Ég ætla að fjalla nánar um fleiri efni síðar en á heimasíðu Schuyler Samperton Textiles má skoða línuna í heild sinni og þar er einnig að finna lista yfir sýningarsali.

Schuyler Samperton Textiles, hönnun, mynstur, efni: Cordoba
Mynstrið Cordoba/Spice frá Schuyler Samperton Textiles

Schuyler Samperton nam listasögu og skreytilist við Trinity College, NYU og Parsons School of Design, og í fjögur ár vann hún fyrir ameríska innanhússhönnuðinn Michael S. Smith. Verkefni hennar á því sviði eru aðgengileg á netinu.


Textíl- og innanhússhönnuðurinn Schuyler Samperton.
© Schuyler Samperton Textiles/Alexandre Jaras



föstudagur, 9. september 2016

Nýjar kaffiborðsbækur

Nýjar kaffiborðsbækur · Lísa Stefan


Það er nú ekki haustlegt um að litast hér við vesturströnd Skotlands en samt er ég komin í örlítinn haustgír. Ég er byrjuð að kveikja á kertum á morgnana og einstaka sinnum kveiki ég upp í arninum, bara í stutta stund. Bráðum gef ég sumarskyrtunum frí og dreg fram hlýjar peysur og sjöl í dekkri tónum. Ég er líka farin að huga að nýjum kaffiborðsbókum en útgáfa slíkra bóka er ávallt blómleg að hausti. Mig langar að deila með ykkur listanum yfir þær sem ég hef í sjónmáli.


· Nomad Deluxe: Wandering with a Purpose eftir Herbert Ypma. Þessi var að vísu gefin út fyrr á árinu en fangaði athygli mína nýverið. Þær ljósmyndir Ypma sem eru aðgengilegar á vefsíðu Assouline-útgáfunnar eru glæsilegar.
· Neisha Crosland: Life of a Pattern eftir Neisha Crosland. Bók eftir textílhönnuð full af mynstrum ... orð eru óþörf.
· Map Stories: The Art of Discovery eftir Francisca Mattéoli. Þessi bók er áreiðanlega gersemi fyrir þá sem hrífast af gömlum landakortum. Hún var gefin út á frönsku í fyrra en er loksins að koma út í enskri útgáfu. Ef þið þekkið ekki til verka Mattéoli þá getið þið kíkt á bloggið hennar, sem hún skrifar á bæði frönsku og ensku.
· Cecil Beaton at Home: An Interior Life eftir Andrew Ginger. Ég get ekki beðið að fletta í gegnum þessa. Ég held að hún eigi eftir að enda á kaffiborðinu mínu einn daginn.
· François Catroux eftir David Netto. Ég held að bók um hönnun Catroux hafi verið tímabær. Ég deildi einu sinni á ensku útgáfu bloggsins innliti á heimili Lauren Santo Domingo í París sem Catroux hannaði. Eitt af mínum uppáhaldsinnlitum er í íbúð hans í París.
· Urban Jungle: Living and Styling with Plants eftir Igor Josifovic + Judith de Graaff. Igor er kær bloggvinur minn og það er virkilega spennandi að sjá bókina hans loks koma út. Á bloggi sínu Happy Interior Blog deildi hann nokkrum myndum þar sem skyggnast má á bakvið tjöldin þegar vinnan við bókina stóð yfir.
· Wanderlust: Interiors That Bring the World Home eftir Michelle Nussbaumer. Textílhjartað mitt er þegar byrjað að slá hraðar. Sjá meira hér að neðan.
· Ottolenghi: The Cookbook eftir Yotam Ottolenghi + Sami Tamimi. Þetta er ný útgáfa af bókinni sem kom fyrst út árið 2008. Ekki beint kaffiborðsbók en bók þeirra Jerusalem er ein af þeim sem endar reglulega á mínu því hún er meira en bara uppskriftabók.

Það er ekki tilgangur minn að gera upp á milli bókanna á listanum en þegar ég sá textílinn og litapalettuna í svefnherbergi hönnuðarins Michelle Nussbaumer, á heimili hennar í Sviss, þá varð ég að deila henni hér. (Ég held að þessa mynd sé að finna í bókinni en í henni er m.a. skyggst inn á heimili hennar í Sviss og Texas.) Það er kúnst að raða mismunandi mynstrum saman þannig að útkoman verði smekkleg og það er óhætt að segja að Nussbaumer fari létt með það. Þær myndir sem ég hef séð af hönnun hennar eiga það sameiginlegt að vera ríkar af antíkmunum, mynstruðum textíl og munum frá framandi löndum. Hún rekur gríðarlega vinsæla hönnunarbúð í Dallas, Ceylon et Cie.

Mynstraður textíll í svefnherbergi hönnuðarins Michelle Nussbaumer

mynd af svefnherbergi · Melanie Acevedo af vefsíðu WSJ



miðvikudagur, 27. apríl 2016

Fjólubláir tónar og upprunalegar gólfflísar

Fjólubláir tónar og upprunalegar gólfflísar · Lísa Stefan


Ég veit ekki með ykkur en ég fæ gjarnan síður úr tímaritum á heilann og get skoðað þær aftur og aftur. Þessi er ein þeirra. Svefnherbergið er í eigu hönnuðarins Stefano Guidotti, á heimili hans við Lake Como-vatnið á Ítalíu, sem var til umfjöllunar í aprílhefti Elle Decoration UK (Como in Colour, bls. 160-169, ljósmyndari Mads Mogensen). Hann segist vera heltekin af litum og þegar hann var að innrétta heimilið þá hugsaði hann upprunalegu mynsturflísarnar sem risastórar mottur. Fjólubláu tónarnir í svefnherberginu eru fallegir, rétt eins og safnið sem hann á af skrautmunum fyrir heimilið. Ef þið komist yfir tölublaðið þá skuluð þið kíkja á leðursófann í stofunni og litinn á borðstofunni. Þetta innlit veitir innblástur!

mynd smellt af Elle Decoration UK, apríl 2016, bls. 167

þriðjudagur, 11. ágúst 2015

Náttúrulegt eldhús með réttri áferð

Náttúrulegt eldhús · Lísa Hjalt


Rétt áferð er það fyrsta sem kemur upp í hugann þegar ég skoða eldhúsið hér að ofan. Eldhús með opnum hillum einkennast yfirleitt af léttleika sem ég er hrifin af og stíliseringin á þessu, náttúruleg og hlýleg með keramiki og ýmsum munum í hlutlausum tónum, er fullkomin. Fyrir utan tvær mosagrænar eldhúseiningar er litapalettan hlutlaus sem þýðir að áferð er lykillinn að útliti sem fangar augað. Allt gengur upp hér og ábreiðan á Chesterfield-sófanum, handofið ungverskt lín, undirstrikar enn frekar hina réttu áferð. Hillur og aðrar eldhúseiningar eru smíðaðar úr ómeðhöndlaðri eik og viðarkassar eru notaðir undir ýmsa eldhúsmuni í stað þess að loka einingunum með skápshurðum.

Fyrir um þremur mánuðum síðan pinnað ég tvær myndir af þessu sama eldhúsi. Mér fannst ég kannast við myndirnar en gat ekki staðsett þær fyrr en ég fletti nýlega í gegnum bunka af tímaritum í leit að ákveðnu innliti. Í febrúartölublaði Elle Decoration UK 2015 blasti eldhúsið við mér aftur, hluti af innliti sem kallast Revival of a Classic (ljósmyndað af Michael Paul). Fyrst hélt ég að þetta væri kannski skandinavískt eldhús en það er í uppgerðu húsi í Edward-byggingarstíl við ströndina í West Sussex, í suðurhluta Englands. Ef náttúrulegur og hrár stíll höfðar til ykkar þá er þetta innlit fyrir ykkur. Eigandi hússins er Alex Legendre, sem rekur verslunina I Gigi í Brighton.

[Langar ykkur að sjá meira? Myndirnar sem ég pinnaði sína ,Butler'-vaskinn, sem var keyptur notaður, og fyrrnefnda viðarkassa. Fyrir ykkur sem notið ekki Pinterest þá getið þið séð þessar myndir á heimasíðu norska innanhústímaritsins Vakre Hjem & Interiør.]

mynd mín | heimild: Elle Decoration UK, febrúar 2015, bls. 88 · Michael Paul

miðvikudagur, 28. janúar 2015

Maður með bláan trefil | Klattar

Maður með bláan trefil eftir Martin Gayford · Lísa Stefan


Á sínum tíma sat ég í kúrsi um sjálfs/ævisögur og skrifaði BA ritgerð um sama efni þannig að ég hef nokkuð sterkar skoðanir á slíkum ritum. Ég hef enga þolinmæði fyrir höfundum ævisagna sem gleyma sér í slúðursögum um viðfangsefnið eða eru í því að skreyta textann með nöfnum þekktra einstaklinga. Að því sögðu þá langar mig að segja aðeins frá bókinni sem ég er að lesa, Man With a Blue Scarf, sem er svo til laus við slíkt. Jarðbrúnir tónar eru einnig ofarlega í huga mér og klattar. Klattar með grjónum.

Þessa dagana nýt ég þess að lesa bók eftir Martin Gayford, Man With a Blue Scarf: On Sitting for a Portrait by Lucian Freud. Hún er ekki ævisaga heldur brot úr dagbók Gayfords þann tíma sem hann sat fyrir á mynd. Hann fer með okkur inn í vinnustofu Lucian Freud og við kynnumst listamanninum betur. Lucian Freud (1922-2011) var breskur listamaður, fæddur í Þýskalandi, einn áhrifamesti sinnar kynslóðar; maður með sterkan persónuleika (Sigmund Freud var afi hans). Dagbókarfærslur Gayfords sýna okkur málarann að störfum og hvernig hann nálgast viðfangsefni sitt.


Bókin er heillandi innsýn í líf listamannsins, sem átti nokkra daga í 81 árs afmælið þegar þessi bútur var skrifaður:
In practice, we alternate between conversation and periods when his concentration is intense. During those he keeps up a constant dance-like movement, stepping sideways, peering at me intently, measuring with the charcoal. He holds it upright, and with a characteristic motion moves it through an arc, then back to the canvas to put in another stroke … he mutters to himself from time to time, little remarks that are sometimes difficult to catch: 'No, that's not it', 'Yes, a little' … Once or twice he steps back and surveys what he has done, with his head on one side. (bls. 10)
Þeir félagar áttu skemmtilegar samræður um aðra listamenn, bókmenntir (Henry James, Gustave Flaubert og Thomas Hardy voru í uppáhaldi Freuds) og þeir töluðu jafnvel um matargerð (man einhver eftir Elizabeth David? Freud var hrifinn af bókum hennar). Í bókinni eru 64 myndir: verk eftir Freud og aðra listamenn og myndir af vinnustofunni. Ég er ekki búin og stend sjálfa mig að því að lesa síðustu blaðsíðurnar hægt því ég vil einfaldlega ekki að hún endi. Ég fékk eintakið lánað á safninu en þessa bók vil ég eignast.

Í desember byrjaði ég að lesa Breakfast with Lucian eftir Geordie Greig. Bókin byrjaði vel og skrautlegar lýsingar á Freud voru ansi skemmtilegar. Svo kom að því að ég hreinlega missti þolinmæðina, þegar Greig, sem var einnig vinur listamannsins, fór að segja fullmargar sögur af elskhugum Freud og ástarþríhyrningum og -flækjum. Honum gekk ekkert illt til og tónninn var gamansamur, en allt í einu fannst mér eins og ég væri að lesa slúðurrit (hef engan áhuga á þeim) og hætti lestrinum.

Hvað fleira hef ég enga þolinmæði fyrir? Klisjur í tímaritum ná ofarlega á listann.

Ég hef alltaf sagt að mér líkar litlu hlutirnir í lífinu og kætist til dæmis í hvert sinn þegar tímarit berst inn um lúguna. Í vikunni var það marsútgáfa Elle Decoration. Ég er hrifin af umfjöllun um liti sem er fastur liður, en hún fyllir eina blaðsíðu og segir sögu litarins og t.d. hvernig listamenn hafa notað hann. Í þessu tölublaði verða djúpir, brúnir tónar fyrir valinu og greinin hefst svona: „Startling news to report from the design world: brown is back.“ Er það já? Hvarf brúnn litur af yfirborði jarðar? Og hvað er svona startling? Í september var spurt á forsíðu: „Is black the new white?“ Nei, svo er ekki, svartur er svartur og hvítur er hvítur! Nær tilgangslaus pirringur minn að skína í gegn? Hvað um það, brúna skálin í umfjölluninni er frá Nicola Tassie, borðbúnaðurinn frá Reiko Kaneko og kjóllinn í forgrunni er úr vorlínu Chloé (hönnuður: Clare Waight Keller) árið 2015.

Eigum við ekki bara að fikra okkur yfir í klattana?

Þessa dagana er ég óð í möndlusmjör með chiafræjum og nota það á klattana með bláberjasultu. Þá má bera fram með ýmsu, eins og smjöri, osti og sultu, með lífrænu súkkulaði/hnetusmjöri eða hverju sem er. Krakkarnir borða þá oft með hlynsírópi.
 Klattar með grjónum · Lísa Hjalt


Ef þið eigið afgang af grjónagraut eða soðnum grjónum í kæli er upplagt að skella í klatta með morgunkaffinu eða eftir skóla fyrir börnin. Upprunalega uppskriftin kemur frá gamalli vinkonu og ég gerði síðar glútenlausa útgáfu þegar einn lítill gutti með óþol kom í heimsókn (ég nota glútenlausa mjölið frá Doves). Í staðinn fyrir glútenlaust mjöl má nota spelti eða lífrænt hveiti og minnka þá eilítið mjólkina (og sleppa þá xathangúmmí sem er algengt í glúteinlausum bakstri). Það má líka nota örlítið af kanil eða söxuðu súkkulaði með hrásykri. Stundum nota ég fersk bláber í klattana og læt þá 3-4 bláber á yfirborð hvers klatta um leið og deigið er komið á pönnuna. Ef bláberin fara beint í skálina verður deigið bláleitt! Uppskriftin gerir 10-12 klatta.

KLATTAR MEÐ GRJÓNUM

1-2 eggjahvítur eða 1 (hamingju)egg
2 matskeiðar lífrænn hrásykur eða hlyn-/agavesíróp
1 teskeið lífrænir vanilludropar
1½-2 matskeiðar góð jurtaolía
1 bolli (2½ dl) grjónagrautur eða soðin (brún) grjón
1 bolli glútenlaust mjöl (ca. 175 g) (eða spelti/hveiti)
má sleppa: ⅛ teskeið xanthangúmmí
½ teskeið fínt sjávar/Himalayasalt
ca. 175-200 ml möndlumjólk eða önnur mjólk

Hrærið saman eggjahvítum, sykri, vanillu og olíu í skál (ef þið notið 1 egg ætti 1½ msk af olíu að duga). Hrærið grjónagraut/soðnum grjónum saman við.

Blandið saman í minni skál glútenlausu mjöli, salti og xanthangúmmíi (ef notað í glútenlausri útgáfu). Hellið svo út í hina skálina ásamt mjólkinni og hrærið saman. Það er ágætt að byrja með 175 ml af mjólk og bæta við ef þarf. Deigið á að vera nokkuð þykkt í sér.

Hitið pönnu við meðalhita og pennslið með smá olíu. Ausið deigi á pönnuna (ég geri yfirleitt 2 klatta í einu) og bakið þar til botninn er gullinbrúnn. Snúið við með spaða og bakið hina hliðina í eilítið styttri tíma. Setjið á disk og endurtakið.

Bak við tjöldin: persneskur köttur treður sér inn í mynd

miðvikudagur, 8. október 2014

Handmáluð viskustykki frá Bertozzi


Í vikunni uppgötvaði ég vefsíðu AllÓRA, sem er verslun í London sem selur hvers kyns ítalskt handverk. Ítalska orðið allóra þýðir ,í fortíðinni' og kjörorð fyrirtækisins eru ,oggi come AllÓRA' sem mætti þýðast 'í dag sem þá'. Hjá AllÓRA hafa þau myndað náið samband við handverksfólkið og þau leggja áherslu á gæði vörunnar og að hún sé ekta, að handverkið sé fallegt og unnið með ástríðu. Verslunin, sem er einnig netverslun, býður upp á gott úrval en það sem aðallega fangaði athygli mína voru handmáluðu viskustykkin frá ítalska fyrirtækinu Stamperia Bertozzi.
Handmáluð viskustykki frá Bertozzi · Lísa Hjalt


Stamperia Bertozzi er ítalskt fjölskyldufyrirtæki sem var stofnað árið 1920. Þau nota fornar handverksaðferðir til að búa til handmáluð og handprentuð efni með ástríðu. Þau blanda litina sjálf og nota blöndur sem hafa varðveist innan fjölskyldunnar, frá einni kynslóð til annarrar.

Þessi stílhreinu viskustykki - línan kallast Gradation - eru unnin úr 100% líni. Efnið sem er notað í viskustykkin er lífrænt og ofið í vefstól sem skilar efni sem er mjúkt viðkomu. Með tímanum tekur það breytingum og verður bara fallegra í útliti.

Þegar efnið er málað er það ekki bara sett til hliðar og látið þorna heldur er línið unnið þrisvar sinnum og málað með mismunandi litatón í hvert sinn. Að lokum nota þau sérstaka Bertozzi handverksaðferð til að festa litinn sem felst í því að nota gufu sem er drifin með sólarorku. Útkoman er skær eða sterkur litur sem endist lengur.

Ég féll kylliflöt fyrir viskustykkjunum í bláu (indigo) og brúnu (cacao) og myndi gjarna vilja sjá þau í mínu eldhúsi, en Gradation-línan er einnig fáanleg í grænu og bleiku.

- stærð – 70 x 55 cm - má fara í þvottavél - þarf ekki að strauja


AllÓRA | 66 Oxford Gardens | London W10 5UN
Sími: +44 (0)20 3701 4076 | Netfang: info@allorashop.com

myndir:
af vetsíðu AllÓRA

fimmtudagur, 2. október 2014

Innlit: þakíbúð með verönd í East Village, NY



Á fimmtudögum á ensku útgáfu bloggsins er ég með seríu þar sem ég birti veröndir og önnur útisvæði. Í dag var ég með stóra verönd virklega fallegrar þakíbúðar í East Village hverfinu í New York og hugsaði með mér, því ekki að deila innri rýmunum hér á íslensku útgáfunni. Það var arkitektinn Michael Neumann sem hjálpaði eigendunum að ráðast í endurnýjun og miklar breytingar á húsnæðinu. Glerhurðirnar með svörtu römmunum og bogadregnu gluggarnir sem einkenna rýmið finnst mér hafa heppnast ákaflega vel, en samtals fimm hurðir opnast út á veröndina. Stíllinn er hrár en samt hlýlegur, mikið er um muni úr náttúrulegum efnum og brúnir tónar eru einkennandi.


Einn eigandanna er einn af yfirmönnum hjá Ralph Lauren veldinu og því er að finna mikið af húsgögnum og munum fyrir heimilið frá Ralph Lauren Home, til dæmis sófann og stólana í stofunni. Rammaða prentverkið fyrir ofan arininn er eftir Richard Serra.


Persónulega langaði mig að sleppa að nota þessa mynd af borðstofunni því mér finnst borðskreytingin svo yfirdrifin eða, svo ég segi það bara hreint út, forljót. En hin myndin sem ég fann var bara of lítil. Ég vildi samt sýna ykkur rýmið því þaðan sést vel út á veröndina og myndin sýnir hurðirnar og gluggana vel. Það er annars alveg merkilegt hvað þetta er algeng stílisering í innlitum í amerískum tímaritum, eins og það þurfi alltaf að vera einhver svakalegur vasi með risastórum blómum eða greinum ofan á hringborði sem gnæfir yfir allt annað. Þess má geta að stólarnir í iðnaðar- eða verksmiðjustílnum eru gamlir Tolix stólar og eru líka notaðir við borðið á veröndinni.


myndir:
Miguel Flores-Vianna fyrir Architectural Digest, apríl 2012

þriðjudagur, 30. september 2014

Ný keramiklína: POME-POME



Eruð þið að leita að fallegum og stílhreinum munum til að prýða borðið ykkar, einhverju nýju til að safna? Nú í haust er væntanleg á markað ný keramiklína, POME-POME, frá hinni dönsku Malene Helbak, sem hún hannaði í samstarfi við sænska grafíska hönnuðinn Nygårds Maria. Þær stöllur sóttu innblástur í jurtaríkið og allir munirnir eru hvítir með sæbláum og petról-bláum (er til íslenskt heiti yfir svona lit?), mintugrænum og appelsínugulum tónum. Er það klisja að segja að það gerist varla skandinavískara? Ég veit ekki með ykkur en ég gæti vel hugsað mér að dekka mitt borð með þessum munum.

mynd:
af vefsíðu Bo Bedre

mánudagur, 8. september 2014

Innlit: ljóst, grænt og hlýlegt á Spáni



Ég var að fá í hendurnar svo fallega bók með nútímalegum sveitasetrum, sem ég ætla að segja ykkur frá síðar, og varð eiginlega að kafa aðeins ofan í möppurnar mínar í leit að nútímalegum rómantískum stíl. Þetta hús á Spáni finnst mér fallegt og hlýlegt; rómantíski stíllinn er ekki yfirgnæfandi eða of væminn eins og oft vill verða. Ég er svolítið skotin í flísunum á gólfinu þó ég myndi ekki nota þær sjálf á svona stóran flöt.

Ég man ekki eftir að hafa farið í gegnum grænt innanhússtímabil í lífinu en ég hef alltaf verið hrifin af flöskugrænum vösum og stórum grænum glervösum. En að blanda þessu saman við hvítt hefur mér hingað til þótt full Breiðablikslegt (ég vona að ég móðgi engan með þessari samlíkingu). Ég held að þessi litasamsetning gangi upp hér vegna þess að hún er brotin upp með náttúrulegum mottum ásamt munum úr basti, og húsgögnin eru ekki öll eins heldur hafa þau mismunandi áferð og ljósa/hvíta og jafnvel gráa tóna. Það er sennilega trikkið.



fimmtudagur, 4. september 2014

Merci: litrík rúmföt úr 100% líni



Þegar kemur að rúmfötum er ég týpan sem vel hlutlausa liti eða þá mjög milda tóna. Kannski vegna þess að það getur verið ansi erfitt að finna litrík rúmföt sem auk þess eru unnin úr náttúrulegum textíl. Það er staðreynd að mikið af þessum mynstruðu og litríku rúmfötum á markaðnum eru lituð með kemískum efnum sem mér finnst ekki eiga erindi í svefnrými fólks. En ef þið eruð mikið fyrir liti þá er hægt að fá náttúruleg og smekkleg rúmföt í versluninni Merci í París sem eru úr 100% líni. Þeir voru að bæta níu litum í flóruna, meðal annars þessum tónum sem sjást á myndinni, sem heldur betur  minna á haustið. Mér finnst graskersliturinn sérstaklega fallegur; það væri gaman að brjóta upp með honum. Þau hjá Merci er með vefverslun líka og senda til Íslands.

mynd:
Merci • af Facebook síðu


miðvikudagur, 30. júlí 2014

Hönnuðurinn Urte Tylaite hjá Still House í spjalli


Ef þið eruð búsett í eða á leiðinni til New York þá gæti það verið góð hugmynd að rölta um East Village hverfið og kíkja í hönnunarbúðina Still House, sem er í eigu skartgripahönnuðarins Urte Tylaite. Hún fæddist í Litháen en flutti til New York þegar hún var 18 ára og lærði í Pratt. Í búðinni er að finna fallega handgerða muni frá hinum og þessum hönnuðum og listafólki - til dæmis keramik, glervörur, skartgripi og bréfsefni - og hennar eigin skartgripalínu. Urte var svo væn að samþykkja stutt viðtal fyrir náttúruleg efni bloggseríuna mína og að sjálfsögðu spurði ég hana hvað væri að finna í kaffibollanum hennar!


Hvað varð til þess að stelpa fædd í Litháen endaði sem hönnuður í New York?
Fjölskylda mín flutti til Bandaríkjanna þegar ég var á síðasta ári í menntaskóla. Þó svo ég talaði varla ensku þá var ég staðráðin í að fara beinustu leið í háskóla. Upprunalega, þegar ég bjó enn í Litháen, ætlaði ég að verða lögfræðingur, jafnvel pólitíkus, en með enga ensku virtist það vera tímasóun. Í staðinn valdi ég listaskóla. Í mörg ár hafði ég sótt listanámskeið og hafði sett saman möppu þrátt fyrir að hafa aldrei hugsað mér að starfa við list. Þannig endaði ég í Pratt þar sem ég nam listmálun. Foreldrar mínir voru ekki sáttir við þessa ákvörðun.

Að námi loknu reyndi ég að fá vinnu í listaheiminum en það virtist ekki henta mér. Til að ná endum saman starfaði ég fyrir nokkra skartgripahönnuði í Brooklyn og féll fyrir iðninni. Ég vann eins mikið og ég gat til þess að læra allt um geirann og heildsöluna og á kvöldin sótti ég tíma í skartgripahönnun. Það kom að því að vinnan var ekki að kenna mér neitt nýtt. Ég var tilbúin fyrir nýjar áskoranir. Ég sá tvær leiðir, annaðhvort að fá vinnu hjá mun stærra fyrirtæki eða að fara út í minn eigin rekstur. Það síðarnefnda átti betur við mig.


Hvað var þér efst í huga, hverjir voru draumar þínir, þegar þú útskrifaðist frá Pratt?
Það er skrýtið að viðurkenna það, en ég hafði ekki skýra sýn á það sem ég vildi gera. Hugmyndir mínar voru meira almenns eðlis. Ég vissi að ég var tilbúinn að leggja hart að mér. Ég vildi líka finna fyrir ástríðu gagnvart vinnunni og virklega njóta hennar, og starfa með fólki sem mér líkaði við og dáði. Ég var bara í leit að spennu og gleðilegum augnablikum því í slíkum aðstæðum fékk ég alltaf nýjar hugmyndir. Ein hugmynd leiddi til annarrar og hér er ég í dag - eigandi búðar og skartgripahönnuður.

Hvaða 3 lykilorð myndirðu nota til að lýsa hönnun þinni?
Lítt áberandi, einföld, tímalaus.


Af hverju að opna búð, Still House, í East Village?
Ég var alltaf svo hrifin af East Village. Ég endaði í þessu hverfi á mínum fyrstu dögum í New York og það togaði strax í mig. Þetta er frábært hverfi til að fara út á kvöldin, en ég naut þess alltaf að koma aftur að degi til og rölta um. Og ég hafði alltaf ástæðu til að koma aftur. Ég þjónaði til borðs á veitingastað hér rétt hjá þegar ég var í skóla, ég var að hitta strák sem bjó í hverfinu, og nokkrir af mínum bestu vinum bjuggu hér. Þegar ég byrjaði að leita að húsnæði fyrir búð þá sjálfkrafa spurðist ég fyrir um rými í East Village því það var hverfið sem ég þekkti best.



Hvað er eiginlega með þig og grjót og steina?
Undarlega er það ástríða sem ég þróaði með mér á fullorðinsárum. Ég vann fyrir skartgripulínu Swallow í Brooklyn. Þau eru með úrval af fallegum hálsmenum með gimsteinum. Ég lagði nöfnin á minnið til þess að vita hvað ég væri að selja. Þegar ég byrjaði að hanna mína eigin skartgripi þá sótti ég sölusýningar með steinum og perlum, og uppgötvaði söluaðila sem buðu einnig upp á náttúrulega steina og grjót og ég féll kylliflöt fyrir þessu. Fyrir mér er þetta áminning um hversu heillandi, fallegur og dularfullur þessi heimur er. Ég elska litina, sem geta komið á óvart, og formin. Grjót og steinar eru munir sem vekja eftirtekt og viðskiptavinir mínir eru einstaklega hrifnir af því að skreyta heimili sín með þeim.

Geturðu nefnt hönnuði sem hafa haft áhrif á verk þín og af hverju?
Ég verð að segja að það er aðallega fólk sem veitir mér innblástur, ekki endilega verk þess. Þetta er ástæða þess að ég elska New York svo mikið. Við erum stöðugt umkringd ástríðufullu og sterku fólki sem elskar lífið.


Hvert ferðu til að sækja innblástur?
Ég tek frídag og slaka á. Nýju munirnir í Still House skartgripalínunni urðu til þar sem ég lá á ströndinni á Long Island fyrir nokkrum helgum síðan. Flestar hugmyndirnar að megin vörulínu minni urðu til í göngutúrum norðar í New York-fylki. Hönnun mín er ekki innblásin af náttúrunni, en ég er það. Þegar ég er úti í náttúrunni fyllist hugurinn af nýjum og ferskum hugmyndum. Strax eftir frídaga reyni ég alltaf að eyða nokkrum dögum á vinnustofunni til þess að vinna úr þessum hugmyndum.

Urte, drekkurðu kaffi, og ef já, hvað er í kaffibollanum þínum?
Ó já! Ég byrja hvern morgun á sterku uppáhelltu kaffi með smá mjólk út í. Og ég fæ mér meira kaffi þegar ég nálgast búðina mína. Við erum svo heppin að það er fullt af kaffihúsum í East Village. Abraco er langbesta kaffihúsið. Ég mæli með að þið kíkið þangað næst þegar þið eruð í grenndinni.


Still House búðin er staðsett á 117 East 7th street. Ef þið komist ekki til New York til að kíkja í búðina þá er engin ástæða að örvænta því það er líka netverslun.


myndir:
Urte Tylaite + Still House