mánudagur, 13. ágúst 2012

velkomin á íslenska útgáfu bloggsins


Það hefur togað í mig að blogga á íslensku í sama anda og ég geri á LatteLisa, bloggi sem ég hef haldið úti síðan sumarið 2010 og er mín fagurfræðilega útrás. (Nánar um það undir um LatteLísa.) Kannski má segja að tölvupóstar frá Íslandi hafi smám saman ýtt undir þessa hugmynd. Það er alltaf notalegt að fá kveðjur að heiman frá fólki sem maður þekkir ekki neitt, sem segir að það skoði bloggið í kaffipásunni til þess að fegra tilveruna og næra andann.

Ég blogga um svo til allt sem veitir mér innblástur, hvort sem það er falleg hönnun og heimili, bækur, ferðalög, tískuþættir, fagrir munir eða hvað sem gleður augað. Íslenska útgáfa bloggsins verður í þessum sama anda en ég mun ekki endilega birta það sama á báðum bloggunum í einu. Það mun gerast öðru hverju en helst vil ég brjóta þetta aðeins upp.

Fyrir ykkur sem hafið ekki fylgst með ensku útgáfunni þá er óhætt að segja að myndin að ofan lýsi mér vel, það vantar í raun bara lattebollann og kannski fersk blóm í vasa. Þar sem ég sit má ávallt finna bækur, tímarit og minnisbækur. Ég er mikil bókakona og les yfirleitt nokkrar í einu. Þessa dagana er ég að lesa bókina Paris: The Collected Traveler: An Inspired Companion Guide, ritstýrð af Barrie Kerper. Ég er að skipuleggja ferð til Parísar með vinkonu minni og ef ég tek saman allt sem mig langaði að skoða áður en ég fékk þessa bók og bæti svo við þeim hugmyndum sem fæðst hafa við lesturinn þá held ég að það væri jafnvel bara best að flytja þangað í kannski þrjú ár eða svo!

Ég er búin að setja upp síðu á Facebook fyrir bloggið og þar birtast uppfærslur sjálfkrafa. Ég deili svo einhverju skemmtilegu á þeirri síðu inn á milli án þess að drekkja fylgjendum í uppfærslum. Ég er einnig búin að skrá bloggið á Bloglovin' en það er þægilegt svæði þar sem má halda bloggsíðum til haga, flokka þær eftir efni og fylgjast með uppfærslum. Fyrir ykkur sem notið Pinterest þá er ég búin að vera þar lengi og er komin með ansi gott myndasafn.

Í dag birti ég tvær færslur svo þetta verði ekki tómlegt svona fyrst um sinn. Eigið góðan dag og verið velkomin á íslenska útgáfu bloggsins!

mynd: 
Lísa Hjalt

Follow my blog with Bloglovin

4 ummæli:

  1. æði! frábær hugmynd :) nú ertu samt búin að lengja tímann minn sem ég ver á mínu blogg - roll, svei þér :D þú ert hörkukvendi.

    SvaraEyða
    Svör
    1. það má alltaf á sig bloggum bæta! ;-)

      Eyða
  2. Hlín Bjarnadóttir13. ágúst 2012 kl. 23:34

    Jibbýjei, Lísa mín. Hlakka til að fylgjast með þér á íslensku. Það er búið að vera svo gaman að fylgjast með þér síðustu árin. Þú gerir þetta svo vel. Takk fyrir að deila fallegu, ekki veitir af.

    SvaraEyða

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.