þriðjudagur, 29. janúar 2013

listakonan sujean rim


Ég rakst á verk listakonunnar Sujean Rim um daginn og hafði samband við hana til að fá að birta nokkur á blogginu, sem hún að sjálfsögðu samþykkti.

Sujean Rim var alin upp í New York, horfði á Kalla kanínu og fylgdist með Smáfólkinu hans Charles Schulz í blöðunum. Hún var sífellt að teikna, staðráðin í að verða listamaður. Í framhaldsskóla fékk hún áhuga á tísku.

Hún útskrifaðist sem tískuhönnuður frá hinum virta skóla Parsons School of Design og hóf feril sinn á að hanna skó og aukahluti. Hún hélt samt alltaf áfram að teikna. Hún geymdi teikningarnar í bók og notaði hvert tækifæri til að sýna þær öllum listrænum stjórnendum sem á annað borð höfðu áhuga á að skoða þær.

Það var árið 1995 sem fyrsta tækifærið kom þegar Barneys New York réð hana í verkefni. Eftir það vann hún fyrir Tiffany & Co., Target, DailyCandy og fleiri fyrirtæki.

Árið 2007 rættist æskudraumur hennar þegar forlagið Little, Brown and Company hafði samband við hana og bauð henni samning. Tveimur árum síðar kom út hennar fyrsta bók, Birdie's Big-Girl Shoes, með teikningum fyrir börn. Í kjölfarið voru gefnar út bækurnar Birdie's Big-Girl Dress og Birdie Plays Dress-Up.

Á vefsíðu Sujean Rim, undir flokkunum peeps, peewees, pleasures og places, má skoða meira af verkum hennar.


myndir:
Sujean Rim
(birt með leyfi)

miðvikudagur, 23. janúar 2013

rýmið 19


- björt og falleg setustofa í uppgerðu ensku sveitasetri í eigu rithöfundarins Bella Pollen.
- sjá skemmtilega grein eftir hana um framkæmdirnar og fleiri myndir á vefsíðu Vogue US.

mynd:
François Halard fyrir Vogue US

þriðjudagur, 22. janúar 2013

parís: île saint louis


Það er Parísarstemning á báðum bloggunum í dag enda er París alltaf góð hugmynd, svo ég geri orð Audrey Hepburn að mínum. Á Bright.Bazaar blogginu í gær fann ég tengil á þessa skemmtilegu mynd af Café Louis Philippe, sem er tekin af Nichole Robertson (hún er höfundur bókarinnar Paris in Color). Hugurinn fór að sjálfsögðu strax til Parísar, nánar tiltekið í 4. hverfi þar sem ég var á fallegum haustdegi í október. Við höfðum rölt frá 1. hverfi í austurátt og enduðum í götunni Rue du Pont Louis-Philippe þar sem mig langaði að kíkja í tvær skemmtilegar búðir, Papier + og Melodies Graphiques.

Kaffihúsið sem Nichole tók mynd af er alveg við Pont Louis Philippe, eina af brúnum sem tekur mann til litlu eyjunnar Île Saint Louis, sem stendur í miðri Signu. Fyrstu tvær myndirnar í færslunni eru teknar á brúnni.


Áður en ég fór til Parísar las ég bókina Paris: The Collected Traveler eftir Barrie Kerper. Ég hef minnst á hana áður hér á blogginu og þó að bókin sé langt frá því að vera gallalaus þá fékk ég fullt af fínum hugmyndum við lesturinn. Í bókinni er meðal annars safn greina um París og ein af mínum uppáhalds er eftir Herbert Gold sem kallast 'On the Île Saint-Louis' og hefst á síðu 196. Hér er brot úr greininni á ensku:

The Ile-Saint-Louis is like France itself—an ideal of grace and proportion—but it differs from actual France in that it lives up to itself. Under constant repair and renovation, it remains intact. It is a small place derived from long experience. It has strength enough, and isolation enough, to endure with a certain smugness the troubles of the city and the world at whose center it rests.

The self-love is mitigated partly by success at guarding itself and partly by the ironic shrugs of its inhabitants, who, despite whatever aristocratic names or glamorous professions, live among broken-veined clochards (hobos) with unbagged bottles, tourists with unbagged guidebooks, Bohemians with bagged eyes.

The actual troubles of the world do not miss the Ile Saint-Louis—one doesn't string hammocks between the plane trees here—but the air seems to contain fewer mites and less nefarious Paris ozone.

The lack of buses, the narrow streets, the breeze down the Seine help. And as to perhaps the most dangerous variety of Paris smog, the Ile Saint-Louis seems to have discovered the unanswerable French reply to babble, noise, advice and theory—silence.

One can, of course, easily get off this island, either by walking on the water of the Seine or, in a less saintly way, by taking a stroll of about two minutes across the slim bridges to the Left Bank, the Right Bank, or the bustling and official neighbor, the Ile de la Cite.

Island fever is not a great danger, despite the insular pleasures of neatness, shape, control. Some people even say they never go to "Paris." (In 1924, there was an attempt to secede from Paris and France, and Ile Saint-Louis passports were issued.) Monsieur Filleul, the fishmonger, used to advertise: "Deliveries on the Island and on the Continent."

[svartur texti, minn]

Ég fann greinina í heild sinni á vef Los Angeles Times fyrir ykkur sem hafið áhuga á að lesa hana alla.


Ég á eftir að skoða Île Saint Louis betur því mig langar að eiga betri myndir af byggingunum þar og mannlífinu. Ég á líka alveg eftir að fara í sennilega eina frægustu ísbúð í heimi, Berthillon.

Þegar við vorum þarna í október þá langaði okkur ekki í ís heldur að setjast aðeins niður og hvíla okkur áður en við héldum göngunni áfram. Við fengum okkur te á Le Saint Régis, sem er á horni Rue Jean du Bellay og Rue Saint Louis en l'Île (sjá mynd til vinstri hér að neðan). Þetta var án efa dýrasti tebollinn í lífi mínu hingað til en hann var hverrar evru virði því mannlífið þarna á horninu var stórbrotið; svo gaman að sitja þarna og spjalla og fylgjast með því sem fyrir augum bar.

Eftir tebollann héldum við svo yfir Pont Saint Louis-brúna til að skoða Notre Dame-kirkjuna, sem er á Île de la Cité-eyju.


Ef þið eruð eins og ég og alltaf í stuði fyrir París þá verð ég að benda ykkur á bloggið Happy Interior Blog sem bloggvinur minn Igor skrifar. Ein sería á blogginu hans kallast From Place To Space og undanfarið er hann búinn að ferðast töluvert til Parísar. Ég ætti kannski að vara ykkur við því mig dauðlangar til Parísar í hvert sinn sem ég les Parísarfærslurnar hans.

myndir:
Lísa Hjalt

mánudagur, 21. janúar 2013

fæðingardagur balenciaga


Einn virtasti tískuhönnuður tuttugustu aldar, hinn spænski Cristóbal Balenciaga, fæddist á þessum degi, 21. janúar, árið 1895 í bænum Guetaria, í Baskahéraði Spánar. Hann lét af störfum og lokaði tískuhúsi sínu í París í maí 1968. Hann lést af völdum hjartaáfalls þann 23. mars 1972.

Í dag á ensku útgáfu bloggsins deildi ég nokkrum myndum og tilvísunum úr bókinni Balenciaga and Spain eftir Hamish Bowles. Ég var búin að minnast á þessa fallegu bók á blogginu þar sem ég fékk hana í jólagjöf. Ég ætla ekki að endurtaka færsluna hér en valdi þessar tvær myndir þar sem list Joan Miró og hönnun Balenciaga mætast. Kíkið endilega á færsluna ef þið hafið áhuga.


myndir:
Lísa Hjalt
úr bókinni Balenciaga and Spain eftir Hamish Bowles:
1: Joan Miró Peinture (Étoile Bleue), 1927 + ljósmynd e. Hiro, vetur 1967, bls. 80-81 / 2: ljósmynd e. David Bailey, sumar 1957 + El mundo de Balenciaga, forsíða sýningarskrár eftir Joan Miró, 1974, bls. 74-75

fimmtudagur, 17. janúar 2013

falleg borðskreyting


Ég fann þessa mynd á flakki mínu um netið í gær og þó að þetta sé haustþema þá fannst mér hún of falleg til að bíða fram á haust með það að pósta henni. Þið getið skoðað fleiri myndir á síðunni Sunday Suppers en tilefnið var að Aran Goyoaga, þekktur matarbloggari sem heldur úti síðunni Cannelle et Vanille, var gestakokkur hjá þeim stöllum. Aran er nýbúin að gefa út sýna fyrstu bók Small Plates and Sweet Treats: My Family's Journey to Gluten-Free Cooking.

mynd:
Karen Mordechai af síðunni Sunday Suppers

miðvikudagur, 16. janúar 2013

þriðjudagur, 15. janúar 2013

Kaffi, biscotti og franska Vogue



Flensan bankaði á dyrnar á okkar bæ í síðustu viku en sem betur fer hefur hún bara náð tökum á elsta barninu, sem liggur enn þá. Við hin sleppum vonandi. Það er gott á svona stundum að eiga eitthvað skemmtilegt að lesa og helst birgðir af biscotti til að dýfa ofan í kaffi eða te (uppskriftin er á matarblogginu).


Eiginmaðurinn færði mér eintak af franska Vogue í gær þegar hann kom heim úr búðinni (ég elska þegar hann kaupir eitthvað svona óumbeðinn) og þó ég sé ekki beint sterk í frönsku þá nýt ég blaðsins. Þetta er desember/janúar útgáfan og sérstakur gestur í blaðinu er Carla Bruni, fyrrum forsetafrú Frakklands, módel og söngkona. Hún leyfir lesendum að gægjast inn í stúdíóið sitt og deilir m.a. safni kvikmyndaplakata sem hún á. Hún situr líka fyrir í nýjum tískuþætti og við fáum að sjá gamlar tískumyndir frá módelferli hennar. Sem sagt skemmtileg blanda af menningu og tísku, nákvæmlega eins og ég vil hafa það.

fimmtudagur, 10. janúar 2013

parís: sacré coeur og útsýni


Ég hef sagt að það líði varla sá dagur að ég lesi ekki um París eða skoði myndir af borginni. Undanfarið hef ég verið að fletta fallegri ljósmyndabók eftir Henri Cartier-Bresson sem ég fékk lánaða á bókasafninu. Í henni eru myndir sem hann tók í París. Ég fékk svo tölvupóst um daginn frá vinkonu sem eyddi áramótunum í París og hún sendi mér ýmsa tengla af því sem hún skoðaði.

Ég var að hreinsa til í tölvunni um daginn og flokka myndir sem minnti mig á að ég átti eftir að deila nokkrum frá ferðinni góðu í október. Ferðin hófst í Montmartre-hverfinu, uppi á hæðinni þar sem Sacré Coeur stendur (er ekki alltaf talað um þessa kirkju sem Hvítu kirkju á íslensku? Það er eins og mig minni það). Þetta umhverfi er fallegt og útsýnið yfir borgina er dásamlegt. Þegar við komum gangandi upp tröppurnar í götunni Rue Maurice Utrillo (google map) þá blasti kirkjan við okkur í allri sinni dýrð, eins og á myndinni hér að ofan. Ég man eftir að hafa staðið þarna gapandi í smá stund áður en ég hafði rænu til að smella af mynd. Eftir að hafa virt fyrir okkur umhverfið þá fórum við inn í kirkjuna sem er ansi tignarleg. Orkan þarna inni er sérstök en ég verð að viðurkenna að það er óþolandi að sjá ferðamenn að stelast til að taka myndir inni í kirkjunni þegar það er bannað - þvílíkt virðingarleysi.

Þið sjáið útsýnið á myndum hér að neðan og líka Square Louise Michel, græna svæðið beint fyrir neðan kirkjuna. Ég skil ekki hvað þessi forljóta svarta bygging - Tour Montparnasse - er að gera þarna. Hver gaf eiginlega leyfi fyrir henni? Ef ég verð borgarstjóri í París einn daginn þá verður það mitt fyrsta verk að láta rífa hana niður. (Verst að líkur á því eru nákvæmlega engar!)


Þrátt fyrir fegurð kirkjunnar og umhverfisins þá get ég ekki sagt að þetta hafi verið uppáhaldsstaðurinn minn í borginni. Það var svo mikið um ferðamenn þarna og þegar við komum niður hæðina að götunni Place Saint-Pierre þá voru götusalar að reyna að ná athygli okkar. Þetta var of túristalegt fyrir minn smekk. Vinir mínir hafa sagt mér að ég eigi að skoða þetta svæði snemma að morgni á sunnudögum eða mjög snemma einhverja aðra daga til að virkilega njóta þess.

Ef þið eruð að rölta niður hæðina til þess að fara inn í 9. hverfi þá endilega haldið ykkur fjarri götu sem heitir Rue de Steinkerque. Það er sennilega ljótasta gatan í allri borginni, ekkert nema túristabúðir og varningurinn átakanlega hallærislegur.


Bókin sem ég minntist á hér að ofan heitir Propos de Paris (Paris à vue d'oeil á frönsku) eftir Henri Cartier-Bresson. Myndirnar í henni eru samtals 131, svarthvítar og teknar yfir langt tímabil. Mér finnst þessi af nunnunum fyrir framan Sacré Coeur svo skemmtileg. Fyrir ykkur sem hafið áhuga á ljósmyndun þá er meðal annars að finna þessa þekktu mynd af pari að kyssast á kaffihúsi.

myndir:
Lísa Hjalt
myndir frá París teknar í október 2012

miðvikudagur, 9. janúar 2013

myndlist: wendy mcwilliams


Ég var að undirbúa póst með rómantískum brúðkaupsmyndum þegar ég rakst á þessa mynd á Pinterest og hún fór ekki úr huga mér. Listakonan heitir Wendy Mcwilliams og verkin á heimasíðu hennar eru vægast sagt heillandi.

mynd:
Wendy Mcwilliams af Pinterest

þriðjudagur, 8. janúar 2013

bók: ævisaga yves saint laurent eftir alice rawsthorn


Þessa dagana er ég að lesa bók sem hefur algjörlega fangað mig, Yves Saint Laurent: A Biography eftir Alice Rawsthorn og segir frá ævi tískuhönnuðarins í máli og myndum. Bókin var gefin út árið 1996 og ég vissi af tilvist hennar en hafði aldrei flett henni. Ég sá hana á bókasafninu á laugardaginn og var fljót að kippa henni úr hillunni. Ég fjallaði aðeins um bókina á ensku útgáfu LatteLisa í dag og bætti við ýmsum tilvísunum. Ég ætla ekki þýða þá færslu og birta hér en mig langaði að segja nokkur orð um bókina.

Ég vissi að Yves Saint Laurent glímdi við kvíða og önnur andleg veikindi eftir að hafa verið kvaddur skyndilega í franska herinn árið 1960 þegar hann hafði starfað sem aðalhönnuður Dior tískuhússins í tæp þrjú ár. Ég las formálann í lestinni á leiðinni heim og gerði mér þá strax grein fyrir því að hans ástand var mun alvarlega en ég hélt.


Ég vissi ekki um veikindi hans í neinum smáatriðum og því brá mér mjög við lesturinn. Hann fékk taugaáfall eftir aðeins nítján daga í herbúðum fyrir utan París, var fluttur á hersjúkrahús og missti starfið hjá Dior í kjölfarið. Eftir fimmtán daga var hann útskrifaður og sagður tilbúinn fyrir herinn aftur. En til að komast hjá slæmri fjölmiðlaumfjöllun ef hann skyldi fá taugaáfall aftur (hann var jú þekktur í Frakklandi) þá ákvað herinn að senda hann frekar á geðsjúkrahús og þar upplifði hann hluti sem hann jafnaði sig í raun aldrei á.

Hann reis aftur sem tískuhönnuður og stofnaði sitt eigið tískuhús, YSL, ásamt Pierre Bergé, sem þá var kærasti hans, en það er augljóst að þessi lífsreynsla haustið 1960 markaði hann fyrir lífstíð.

myndir:
Lísa Hjalt

mánudagur, 7. janúar 2013

rýmið 17


- 7th St. East Village í New York
- hönnun Pulltab Design

mynd (kroppuð):
Elizabeth Felicella fyrir Pulltab Design

fimmtudagur, 3. janúar 2013

Uppskrift: sætkartöflumús með pekanhnetum



Í dag deili ég með ykkur uppskrift að sætkartöflumús með pekanhnetum sem ég ætlaði að setja á matarbloggið fyrir jól, en hafði svo ekki tíma til að útbúa sérstaklega fyrir myndatöku. Ég smellti því bara af áður en við settumst niður að borða á gamlaárskvöld. Þessa uppskrift fékk ég frá góðri vinkonu í Winnipeg þegar við upplifðum kanadísku þakkargjörðarhátíðina þar í fyrsta sinn í október 2009. Síðan þá er ekki borinn kalkúnn á okkar borð án þess að þetta meðlæti sé í boði líka. Fylgið bara tenglinum að ofan til að skoða uppskriftina.

Ég verð aftur á blogginu á mánudaginn því ég er að fá ameríska bloggvinkonu í heimsókn og ætla að sýna henni fallegar götur og torg í miðbæ Luxembourg. Ég spái sushi líka og nokkrum bollum af latte á meðan þessi heimsókn stendur yfir.

Góða helgi!

mynd:
Lísa Hjalt

miðvikudagur, 2. janúar 2013

innlit: huggulegheit í tällberg í svíþjóð


Ég var búin að ákveða að pósta allt öðru í dag en þegar ég sá þetta hús hjá einni þýskri bloggvinkonu í morgun þá hreinlega lét það mig ekki í friði. Húsið er í Tällberg í Dalarna í Svíþjóð. Mér finnst skemmtilegt hvernig er blandað saman viði og steini, nýjum munum og gömlum, og þessi einfaldleiki heillar mig.

Takið eftir útsýninu á baðherberginu. Ekki amalegt að slaka á í baði og horfa yfir sveitina.

Upphaflega byggðu eigendurnir húsið til þess að selja það en að verki loknu þá ákváðu þau að eiga það sjálf, sem er vel skiljanlegt.


myndir:
Klas Sjöberg fyrir Lantliv af bloggsíðunni Meine Dinge