fimmtudagur, 29. júlí 2021

№ 28 bókalisti | Oh, Vienna ...

№ 28 bókalistinn: Bókabunki með Matisse í baksýn · Lísa Hjalt


Þá er komið að nýjum bókalista. Mér finnst eitthvað afskaplega hrífandi við þennan bókabunka. Ég vissi ekki hvaða bók ég ætti að byrja á (er að að venja mig af því að lesa margar í einu) en valdi endanlega Max Perkins eftir A. Scott Berg, sem hlaut National Book Award verðlaunin árið 1980. Þetta er ævisaga eins mikilvægasta ritstjóra 20. aldar, bók um bækur og listina að skrifa. Perkins ritstýrði m.a. þeim F. Scott Fitzgerald, Ernest Hemingway, Thomas Wolfe og Marjorie Kinnan Rawlings. Vitandi að The Great Gatsby varð klassík er það allt að því með ólíkindum að lesa bréfin sem Perkins bárust frá Fitzgerald fyrir útgáfu hennar árið 1925, full efasemda, einkum um titilinn. Áhyggjur hans reyndust því miður sannar því bókin seldist illa í samanburði við hans fyrstu, This Side of Paradise (1920). Ef elsku karlinn - old sport - hefði nú bara vitað hver örlög hennar yrðu.

№ 28 bókalisti:

1  Essayism  · Brian Dillon
2  This Little Art  · Kate Briggs
3  Forty-one False Starts: Essays on Artists and Writers  · Janet Malcolm
4  Shuggie Bain  · Douglas Stuart
5  Unquiet  · Linn Ullmann
6  Max Perkins: Editor of Genius  · A. Scott Berg
7  The Lost: A Search for Six of Six Million  · Daniel Mendelsohn

Ensk þýðing: 5) Unquiet: Thilo Reinhard

Bókabúðin Shakespeare & Company í Vínarborg · Lísa Hjalt
Bókabúðin Shakespeare & Company í Vínarborg

Í síðustu bókalistafærslu sagði ég ykkur frá þeim takmörkunum sem við búum við í Austurríki vegna kófsins. Sumarið væri öðruvísi og líklega meira um lestarhopp ef hægt væri að skella sér á kaffihús eða út að borða hvenær sem er. En hvergi er hægt að setjast niður án vottorðs um neikvæða skimun og því þarf að plana allt með fyrirvara. Nýverið kom elsta dóttirin ásamt hollenskum kærasta í heimsókn og við eyddum m.a. degi í Vínarborg. Við fórum á Belvedere-safnið, heilsuðum Napóleon, eða Napí eins og við kölluðum hann, og störðum hvað lengst á Kossinn hans Klimts. Þrömmuðum svo um borgina, nutum hádegisverðar í almenningsgarði og enduðum í gyðingahverfinu þar sem enska bókabúðin Shakespeare & Company er til húsa, nánar tiltekið á Sterngasse. Ég elska þetta hverfi í Vín þannig að ég leyfi félögunum í Ultravox að eiga síðasta orðið, Oh, Vienna ...

myndir mínar, sú neðri birtist á Instagram 16/07/21þriðjudagur, 20. júlí 2021

Lestrarkompan: Janet Malcolm

Kápan af Unquiet eftir Linn Ullmann (Hamish Hamilton) · Lísa Hjalt


Afmælið mitt er í júlí og það ætti ekki að koma á óvart að fólk gefur mér gjarnan bækur. Sumir vilja sjá óskalista og ég sendi tengil á forgangsraðaðan lista, ekki lista yfir allar bækurnar sem mig langar í. Ef ég sýndi fólki mína sönnu bókasál þá fengi það líklega ranghugmyndir um geðheilsu mína. Auðvitað skilja margir svona bókaklikkun en það er ástæðulaust að flagga henni að óþörfu. Tenglarnir í þessari lestrarkompu voru niðurnegldir þegar tvær gjafir bárust í hús, bækur eftir Janet Malcolm og Linn Ullmann, þannig að ég breytti þeim og uppfærði einnig næsta bókalista sem var tilbúinn. Að setja þessar bækur upp í hillu og lesa síðar var óhugsandi.

Elsta dóttirin gaf mér Forty-one False Starts: Essays on Artists and Writers eftir rithöfundinn og blaðakonuna Janet Malcolm, sem aðallega skrifaði fyrir The New Yorker. Malcolm lést fyrr í sumar, 86 ára að aldri. Hún fæddist í Prag árið 1934 en fjölskyldan flúði til Bandaríkjanna fimm árum síðar þegar ofsóknir nasista gegn gyðingum voru hafnar. Greinar hennar birtust í ýmsum ritum og einnig skrifaði hún bækur, m.a. þessar þrjár sem mig langar að lesa: The Silent Woman: Sylvia Plath and Ted Hughes, Reading Chekhov: A Critical Journey og Two Lives: Gertrude and Alice.
Kápan af Forty-one False Starts eftir Janet Malcolm (FSG) · Lisa Hjalt


Kær vinkona gaf mér skáldsöguna Unquiet eftir hina norsku Linn Ullmann, sem þið sjáið á fyrstu myndinni (upprunalegur titill er De Urolige; Thilo Reinhard þýddi á ensku). Sagan er sjálfsævisöguleg en foreldrar hennar voru norska leikkonan Liv Ullmann og sænski leikstjórinn Ingmar Bergman. Í fyrra var hún gestur alþjóðlegu bókmenntahátíðarinnar Edinburgh International Book Festival, sem var streymt á netinu vegna heimsfaraldursins. Ég hafði þegar sett bókina á langar-að-lesa listann en þegar ég heyrði Ullmann tala um hana þá var ekki aftur snúið. Bókina skyldi ég eignast og lesa.

Ég gaf sjálfri mér nokkrar bækur í afmælisgjöf (m.a. tvær fyrstu hér að neðan) sem höfðu þegar ratað í lestrarkompufærslu. Má þar nefna This Little Art eftir Kate Briggs og ævisöguna um Elizabeth Hardwick sem kemur út í nóvember.

Bókamerki & kompuskrif

Nýlega keypti ég:
  Essayism · Brian Dillon
  The Lost: A Search for Six of Six Million · Daniel Mendelsohn

... bætti á óskalistann:
  Damned to Fame: The Life of Samuel Beckett · James Knowlson
  Words in Air: The Complete Correspondence Between Elizabeth Bishop og
Robert Lowell · ritstj. Saskia Hamilton

... bætti á langar-að-lesa listann:
  Edge of Irony · Marjorie Perloff
  Letters to Camondo · Edmund de Waal

... forgangsraðaði á langar-að-lesa listanum:
  The Snow Lepard · Peter Matthiessen

Liv Ullmann á íslensku:
  Bjartur gaf út bókina Hin órólegu í þýðingu Ingibjargar Eyþórsdóttur, sem hlaut tilnefningu til íslensku þýðingaverðlaunanna árið 2019. Í fyrrasumar var hún bók vikunnar á RÚV.

Janet Malcolm tenglar:
  Í skemmtilegum samræðum við Ian Frazier á New Yorker Festival 2011.
  The Art of Nonfiction No. 4, viðtal í bókmenntaritinu The Paris Review vorið 2011.
  A life in writing: Janet Malcolm, viðtal í The Guardian, júní 2011.
  Útdráttur úr bókinni Forty-one False Starts, titilritgerðin eða prófíll hennar um málarann David Salle fyrir The New Yorker, tbl. 11. júlí 1994.
  Tveir atburðir: Brönsj og samræður við Janet Malcolm í mars 2013 á vegum Kelly Writers House við Háskólann í Pennsylvaníu. Kvöldið áður var hún með upplestur.
  Hún var einnig listakona og þekktust voru collage-verkin hennar, innblásin af ljóðum Emily Dickinson.
  Að lokum, minningarorðin um hana í The Guardian.

myndir mínar, birtust á Instagram 14/07/21 og 19/07/21