mánudagur, 1. október 2018

№ 16 bókalisti | Black History Month (UK)

№ 16 bókalisti · Lísa Hjalt


Bókasöfn eru hamingjustaðurinn minn. Eða svo hélt ég. Í síðustu viku var ég á safninu með minnisbók, þá sem ég nota fyrir bókatitla sem mig langar að lesa. Eins og þið getið ímyndað ykkur var ég eins og lítill krakki á leið í Disneyland. Ég gekk upp þrepin og inn á hæð hugvísinda (þetta er háskólabókasafn, það er stórt) þar sem ég í sæluvímu gekk á milli hárra bókarekka. Skoðaði bækur, snerti bækur. Fjarlægði bækur af bókalistanum sem ég hafði þegar í huga til að skapa pláss fyrir þær sem kröfðust þess að vera á honum. Setti bækur aftur á listann, kannski til þess eins að taka þær af honum aftur stuttu síðar. Bara eðlileg bókasafnshegðun.

En svo gerðist eitthvað, eitthvað sem ég var ekki búin undir: ég upplifði augnabliks hræðslukast. Í nokkrar sekúndur, þar sem ég stóð við fyrstu hillurekkana með bandarískum skáldskap, gerði ég mér skyndilega grein fyrir því hversu margar bækur voru þarna á hæðinni, í öllum þessum hillum: Í þessu lífi kæmist ég aldrei yfir það að lesa allar bækurnar á langar-að-lesa listanum því hann verður alltaf lengri. Ég get ekki verið eini bókaunnandinn sem hefur upplifað þennan ótta. Getur ekki verið. Það er eins gott að það sé líf á eftir þessu, þar sem okkar bíður bókasafn með öllum ólesnu bókunum sem okkur langar að lesa. Það er eins gott.

№ 16 bókalisti:
· Blue Nights  eftir Joan Didion
· Go Tell It on the Mountain  eftir James Baldwin
· Sing, Unburied, Sing  eftir Jesmyn Ward
· The Human Stain  eftir Philip Roth
· Stet  eftir Diana Athill
· Train Dreams  eftir Denis Johnson
· The Bookshop  eftir Penelope Fitzgerald
· Do Not Say We Have Nothing  eftir Madeleine Thien
· The Collected Essays of Elizabeth Hardwick  (ritstj. D. Pinckney)


Á laugardaginn - kannski hafið þið þegar séð það á Instagram - las ég æviminningar Didion, Blue Nights, í einum rykk. Hún skrifaði bókina eftir andlát dóttur sinnar, Quintana, sem var aðeins 39 þegar hún lést. (Hún skrifaði The Year of Magical Thinking eftir andlát eiginmannsins, rithöfundarins John Gregory Dunne). Mér líkaði Blue Nights. Þetta er ekki sorgarsaga sem kallar á bréfþurrku við lesturinn. Stíll Didion er ekki ofurhlaðinn tilfinningum. Hún er bara að reyna að ná utan um þetta allt. Að reyna að finna svör við spurningum sem ekki er hægt að svara.

Okótber er Black History Month í Bretlandi, mánuður tileinkaður sögu blökkumanna (febrúar í BNA). Ég sýni stuðning minn með tveimur skáldsögum á listanum, eftir James Baldwin og Jesmyn Ward. Hún hlaut National Book-verðlaunin 2017 fyrir Sing, Unburied, Sing. Það var í annað sinn sem hún hlaut þau, árið 2011 fyrir skáldsögu sína Salvage the Bones.