þriðjudagur, 25. ágúst 2015

Hortensíur og septemberhefti

Hortensíur og septemberhefti · Lísa Hjalt


Þessir síðustu dagar ágústmánaðar eru dásamlegir: morgunkaffi, göngutúrar, aðallega til að njóta hortensía, eilítið dimmari síðdegi og bóklestur undir kertaljósi í rigningu eða þrumuveðri. Svo eru það tölublöð septembermánaðar. Í mínu tilviki er einungis eitt þeirra tískutengt. The World of Interiors stendur alltaf fyrir sínu; mér finnst ég alltaf eilítið ríkari eftir lesturinn.
Hortensíur · Lísa Hjalt


Fyrir nokkrum árum síðan hefði ég mjög líklega keypt ýmsar Vogue útgáfur (í hillunum er að finna gömul septembertölublöð þess ameríska, breska, franska, ítalska og þýska) en á einhverjum tímapunkti hætti ég því. Ég ætlaði ekki að kaupa Harper's Bazaar UK en þegar ég blaðaði í því í tímaritabúð þá fangaði ein tiltekin umfjöllun athygli mína, um Amanda Brooks og fallega sveitasetrið hennar í Oxfordshire. Brooks var áður tískustjóri Barneys í New York.
Septemberhefti · Lísa Hjalt


Ég held að Vita Kin-kjóllinn sem Brooks klæðist á einni myndinni hafi haft töluvert með það að gera að ég keypti tímaritið. Ég er heilluð af hönnun, mynstri og bróderingu, þessara hefðbundnu úkraínsku flíka - vyshyvanka. Ég velti því fyrir mér hvort ég fengi leið á þeim núna þegar svo til allir virðast klæðast þeim en svo er ekki raunin. Þær eru klassík.



Fyrir utan fallega stíliseraða og ljósmyndaða tískuþætti sem segja sögu (oft erfitt að finna þá) þá er ekki mikið í tískutímaritum sem lengur höfðar til mín. Ég á þá við tískuhlutann. Ég held að þessi tímarit hafi elst af mér og ég er orðin þreytt á því hvernig fjallað er um tísku. Hvað er með þessar endalausu síður með myndum af flíkum og aukahlutum haust- eða vorlína sem alltaf eru eins uppsettar og áherslan að mestu á merkjavöru? Ég er mun hrifnari af hönnunarferlinu sjálfu og hvert tískuhönnuðurinn sækir innblástur þegar hann hannar nýja línu. Það er akkúrat þess vegna sem viðtal við Maria Grazia Chiuri og Pierpaolo Piccoli, listræna stjórnendur Valentino-tískuhússins, kom mér skemmtilega á óvart. Lítið bara á safn myndanna hér að neðan sem sýnir hvert þau sóttu innblástur fyrir haustlínuna í ár. Þetta er það sem ég vil sjá.


Í viðtalinu er komið inn á sambandið við saumakonurnar og þá virðingu sem þau bera fyrir þeim. Þær „setja ástríðu sína og umönnun í hverja línu ... Mikil vinna og natni er lögð í hvern kjól, í hvert smáatriði, og það má finna hversu dýrmætt þetta er“ (bls. 313). Þau hafa sett upp þriðju hátískuvinnustofuna og kenna ungu fólki iðnina. Chiuri bendir á: „Það er virðing í þessu starfi en það er líka gaman að sjá pönkklædda stelpu í Doc Martens-skóm vinna við hlið sextugrar konu í inniskóm - tvær kynslóðir saman sem deila þekkingu og sérhæfni“ (bls. 314). Þið getið skoðað nokkur smáatriði í hönnun Valentino á Tumblr-síðunni minni.
Bækur og septemberhefti · Lísa Hjalt


Önnur skemmtileg grein var um Diana Vreeland, hina frægu tískuritstýru, sem skrifuð er af breska sagnfræðingnum Kathryn Hughes (ævisaga hennar um George Eliot er á óskalistanum). Ný bók um Vreeland kemur út hjá Rizzoli-forlaginu í október, Diana Vreeland: the Modern Woman: The Bazaar Years, 1936-1962, í ritstjórn sonarsonar hennar Alexander Vreeland.



Það var fullt af umfjöllunum í The World of Interiors sem höfðuðu til mín. Ein þá sérstaklega um búgarð í Mexíkó, við landamæri Arizona í Bandaríkjunum, í eigu hönnuðanna Jorge Almada og Anne-Marie Midy sem reka Casamidy, húsgagnahönnunarfyrirtæki. Sjáið fyrir ykkur hefðbundnar, demantamynstraðar mottur og leðurstóla. Midy lýsir landslaginu sem „grænu eftir sumarregnið, en að haustið bleiki það fölum gylltum tón“ (bls. 130). Mig langar að sitja á þessari verönd og njóta dýrðarinnar.



Grein um kaffihúsið Caffè Stern sem er til húsa í Passage des Panoramas í París fékk hjartað til að slá örlítið hraðar vegna Picasso-púðanna sem notaðir eru til að skreyta staðinn (einn sést á myndinni hér að ofan til vinstri). Ég man ekki hvenær ég féll fyrir þeim fyrst. Púðaverin eru handofin og -unnin í Flæmingjalandi (norðurhluti Belgíu) og hönnuð í samvinnu við Picasso-stofnunina. Nokkrar ábreiður eru fáanlegar í versluninni The Conran Shop í London.

Bráðum fara krakkarnir aftur í skólann og skærir litir hortensíanna taka að fölna. Endanlega skipta lauf trjánna litum. Hluti af mér hlakkar til að njóta kaldari haustmorgna; annar hluti vonast eftir indjánasumri, eins og þurr og hlý haust kallast í enskri tungu.


[Uppfærsla: Vegna athugasemdar á ensku útg. bloggsins um ólífugrænu textílprufuna undir latteskálinni og tölvupósts sem mér barst um þá rauðu: Allar prufur í færslunni eru frá Fermoie. Sú ólífugræna er Rabanna (L-077), rauða Marden (L-275) og þessar með röndunum á einni mynd eru York Stripe (bláa L-173, rauða L-016). Allar eru 100% bómull. Allar uppl. um þá gulu sem glittir í á nokkrum myndum eru í bloggfærslunni gul efni frá Fermoie.]



fimmtudagur, 20. ágúst 2015

Innbyggðir setkrókar

Innbyggðir setkrókar · Lísa Hjalt


Í sumar hefur aðdáun mín á innbyggðum setkrókum færst upp á alveg nýtt stig. Ég held að það hafi byrjað með innliti á heimili í Ibiza sem birtist í Elle Decoration UK  og ég deildi í bloggfærslu í júní. Síðan þá hafa slíkir setkrókar verið að fanga athygli mína úr öllum áttum; einnig textíllinn, ábreiðurnar og púðarnir sem gera þá þægilegri. Ég á eintak af franska Elle Decoration frá síðasta sumri sem er stútfullt af innbyggðum setkrókum. Það hefur legið á borðinu mínu í sumar og ég varð að taka nokkar myndir fyrir bloggið. Sjáið til, ég lít á bloggið sem dagbók. Ég held ekki dagbók í kæra dagbók-stíl en er alltaf með skrifblokk innan handar. Myndræni þátturinn er mér líka mikilvægur; mér líkar að geta haldið til haga myndum á blogginu sem aðrir geta notið og sem ég get flett upp síðar meir.

Við skulum byrja á nokkrum setkrókum sem birtust í grein um gististaðinn Scorcialupi í Puglia-héraði á Ítalíu. Mér finnst svæðið utandyra hér að ofan glæsilegt og krókarnir tveir innandyra eru líka snotrir.


1-3: Scorcialupi, Elle Decoration (franska), júlí/ágúst 2014, bls. 108-117/Christian Schaulin

Eins og mér líkar setkrókurinn hér að neðan - það er jafnvægi í mildri litapalettunni - þá er ég ekki viss um að ég myndi vilja hafa svona borðkrók á veröndinni, sérstaklega ef ég væri með gesti. Ef einn þarf að standa upp þá þurfa fleiri að færa sig eða hliðra til fyrir viðkomandi. En svona hrár stíll er mér að skapi og mér finnst smart hvernig iðnaðarstíll Tolix-stólanna skapar mótvægi (þessi mynd sínir bara einn). Krókurinn tilheyrir fallegu og stílhreinu húsi á grísku eyjunni Mykonos.

4: Mykonos innlit, Elle Decoration (franska), júlí/ágúst 2014, bls. 130-141/Giorgio Baroni

mánudagur, 17. ágúst 2015

Marengstoppar og súkkulaðisósa

Marengstoppar og súkkulaðisósa · Lísa Hjalt


Ég man eftir þegar Nigella sagði í gríni í einum sjónvarpsþætti að allt virkaði miklu hollara með jarðarberjum. Hún var í náttslopp að gera pönnukökur í morgunmat í húsi við ströndina, að mig minnir. Þetta festist í huganum. Ég þarf að fá orð hennar lánuð því af öllum uppskriftunum mínum eru marengstopparnir sú uppskrift sem inniheldur hvað mest sykurmagn. Í mörg ár gerði ég reglulega tilraunir og játaði mig sigraða að lokum og sættist við það að hollari útgáfa af marengs var óskhyggja. Það þarf ákveðið magn af sykri á móti eggjahvítunum til að áferð marengsins verði rétt. Það er kannski örlítil huggun að nota lífrænan hrásykur en sykur verður alltaf sykur. Ég ber marengstoppana fram með þeyttum rjóma, súkkulaðisósu, jarðarberjum og bláberjum, og að sumri til nota ég gjarnan nektarínur eða ferskjur líka.

Þetta er uppskrift sem ég hef þegar deilt á gamla matarblogginu en þegar ég var að baka toppana í gær þá hugsaði ég með mér, af hverju ekki að smella af nýjum myndum. Í raun var ég búin að aðskilja egg og ætlaði að gera belgískar vöfflur þegar krukkan með kókosolíunni kom fljúgandi út úr baksturskápnum og brotnaði á gólfinu. Ég átti ber í kælinum þannig að það var eðal hugmynd að gera marengstoppa í staðinn.
Marengstoppar og súkkulaðisósa · Lísa Hjalt


Í samanburði við aðrar uppskriftir mínar eru marengstopparnir með hátt sykurinnihald en samt er bragðið ekki dísætt. Það er sagt að trefjar og frúktósi jarðarberja hjálpi við að koma jafnvægi á blóðsykur sem gæti verið skýringin á því að við finnum ekki fyrir sykurkikki eftir að hafa neytt toppanna. En athugið að þetta er ekki uppskrift sem ég baka vikulega, topparnir eru bara spari. Ég átti einu sinni KitchenAid hrærivél en í mörg ár hef ég ekki notað hrærivélar nema til að þeyta rjóma og eggjahvítur. Núna nota ég bara handþeytara á standi og finnst því best að bæta hrásykrinum í smáum skömmtum út í skálina, ekki öllum í einu. Í marengstilraunir mínar notaði ég lyftiduft, sítrónusafa, vínstein (e. cream of tartar) og alls kyns blöndur af þessu en endaði á því að blanda bara örlitlu maísmjöli saman við sykurinn. Ef þið eruð óvön marengsgerð passið þá bara að það fari engin eggjarauða í hræriskálina (sjá ráð hér að neðan).

MARENGSTOPPAR (SÚKKULAÐI)

4 eggjahvítur (notið stór egg, við stofuhita)
185 g lífrænn hrásykur (notið eins fínan og hægt er)
½ teskeið maísmjöl
klípa fínt sjávarsalt
ef súkkulaðimarengstoppar: ½ matskeið kakó

Aðskiljið eggin. Setjið hvíturnar í hræriskál ásamt klípu af salti. Blandið saman hrásykri og maísmjöli í sér skál.

Þeytið eggjahvíturnar þar til það fer að myndast froða. Bætið hrásykrinum smátt og smátt út í (ég geri þetta á ca. 10-12 mínútum) þar til þið fáið nokkuð stífa áferð á marengsinn. Ef þið viljið súkkulaðimarengstoppa sigtið þá kakóið út í og blandið rólega saman með sleikju til að fá marmaraáferð.

Setjið bökunarpappír á ofnplötu og notið sleikju til að mynda 6 marengstoppa með hringsnúningi.

Bakið við 140°C (125°C ef blástursofn) í ca. 80 mínútur, slökkvið þá á ofninum, opnið ofnhurðina og látið toppana vera í ofninum í 10 mínútur til viðbótar.

Berið fram með þeyttum rjóma og ferskum berjum og jafnvel súkkulaðisósunni hér að neðan.

Recipe in English.

Ef þið eruð óvön marengsbakstri eða klaufsk þá er kannski betra að aðskilja köld egg og bara eitt egg í einu: Notið sér skálar fyrir hvítur og rauður og setjið eggjahvítuna strax í hræriskálina áður en þið aðskiljið næsta egg. Ef þið notið köld egg setjið þá plastfilmu/disk á hræriskálina og þeytið hvíturnar eftir 30 mínútur.


Marengstoppar tilbúnir fyrir bakstur

Súkkulaðisósan er afbrigði af súkkulaðikremi sem ég gerði fyrir uppskrift að skúffuköku. Ég jók bara vatnið til að breyta því í sósu (það má líka nota sósuna á ís). Notið alltaf gæða kakó í bakstur, helst lífræna eða velferðarframleiðslu (e. fair-trade). Útbúið sósuna á meðan topparnir bakast í ofninum svo hún nái að kólna.

SÚKKULAÐISÓSA

3 matskeiðar kakó
1½ matskeið lífrænn hrásykur
2½ matskeið hreint hlynsíróp eða agavesíróp
4½-5 matskeiðar vatn (ca. 75 ml)
lítill bútur lífrænt dökkt súkkulaði eða mjólkursúkkulaði (15-20 g)
má sleppa: klípa fínt sjávarsalt

Setjið allt hráefnið í lítinn pott eða pönnu. Hitið við meðalhita upp að suðu og hrærið rólega á meðan. Þegar suðan er komin upp þá fjarlægið þið pottinn af hellunni.

Hellið kreminu í skál og leyfið því að standa í 30-40 mínútur fyrir notkun.


Recipe in English.




fimmtudagur, 13. ágúst 2015

Þáttaröðin Ferkantað líf

Þáttaröðin Ferkantað líf · Lísa Hjalt


Nú veit ég ekki hvort byrjað er að sýna seríuna Ferkantað líf (Life in Squares) á Íslandi en síðasti þátturinn var sýndur á BBC í vikunni. Hún var kynnt sem dramaþáttaröð í þremur hlutum um sambandið á milli ensku listakonunnar Vanessu Bell og systur hennar, rithöfundarins Virginiu Woolf. Mér fannst sagan fjalla meira um sambandið á milli Bell og listamannsins Duncans Grants. Ekki það að ég sé að kvarta, ég hafði virklega gaman af þáttunum, fallegri sviðsmyndinni og búningunum. Leikkonan Phoebe Fox leikur hina yngri Bell og Eve Best þá eldri. Ég hafði ekki séð Fox leika áður og mér þótti hún standa sig vel. Hún smellpassaði við þá mynd sem ég hef af Bell í huganum. James Norton skilar sínu hlutverki sem yngri Grant vel (ég sá hann fyrst sem Tommy í seríunni Happy Valley) og það gerir einnig Rupert Penry-Jones sem leikur eldri Grant. Ég vil bæta því við að allir leikararnir eiga lof skilið. Þarna eru komnir saman frábærir breskir leikarar sem eiga góða frammistöðu og vekja til lífs á skjánum hinn þekkta Bloomsbury-hóp og bóhemískan lífsstílinn. Handrit skrifar Amanda Coe og hinn sænski Simon Kaijser leikstýrir.
Lavender · Lísa Hjalt


Enn er hægt að horfa á þáttaröðina í sjónvarpinu hér í Englandi og fljótlega verður hún fáanleg á mynddiski. Ef þið eigið eftir að sjá hana þá verð ég eiginlega að vara ykkur við fyrsta þættinum. Það er mjög miklu efni komið til skila í honum - ástarsambönd og andlát - sem fólk tengir betur við ef það þekkir þegar sögu þeirra einstaklinga sem kenndir eru við Bloomsbury-hópinn. Það er mín skoðun að þættirnir hefðu átt að vera fjórir í stað þriggja til að kynna betur þessa einstaklinga. Í öðrum þætti er sagan farin að flæða mun betur og það er auðveldara að fylgja henni.


Kannski er það klisja að kalla lífsstíl Bloomsbury-hópsins bóhemískan, eins og ég gerði hér að ofan, en leikmyndin (mise en scène) er það svo sannarlega. Sjáið fyrir ykkur listaverk, tæki og tól listamanna, skrifborð, bækur, bréf, o.s.frv. Þegar fyrri heimsstyrjöldin stóð yfir kom Vanessa Bell upp heimili á Charleston House setrinu í Sussex, þar sem meginhluti þáttanna gerist. Þið getið skoðað fallegar myndir af listamannalegum stíl setursins á heimasíðu House & Garden.

To the Lighthouse eftir Virginia Woolf · Lísa Hjalt


Fyrir mig er tímasetning þáttanna athyglisverð því í byrjun sumars tók ég úr hillunni bókina To the Lighthouse (Út í vitann á ísl.) eftir Woolf, en ég á það til að lesa hana á sumrin. Á meðan lestrinum stóð var ég að hugsa um þær systur, horfði á kvikmyndina The Hours (2002) í hundraðasta sinn og pantaði fyrirfram vasabrotsútgáfu ævisögunnar Vanessa Bell eftir Frances Spalding. Ég áttaði mig á því að minn fókus var alltaf á Woolf og hennar sögu og ég vissi minna um Bell. Þáttaröðin gaf mér betri mynd af hennar lífshlaupi og nú er ég spenntari að fá ævisöguna inn um lúguna.

The World of Interiors, september 2014, bls. 146

Í langan tíma hef ég verið heilluð af Virginiu Woolf. Ég man ekki hvenær sá áhugi gerði fyrst vart við sig eða hvaða verk hennar ég las fyrst. Svo margt hefur verið skrifað um ævi hennar og ég get mælt með bókinni Moments Of Being: Autobiographical Writings. Frændi hennar Quentin Bell (sonur Vanessu og Clive Bell) skrifaði ævisögu um hana sem spannar yfir tímabilið 1912 til 1941, Virginia Woolf: A Biography. Eiginmaður hennar Leonard Woolf ritstýrði dagbókum hennar og gaf þær út eftir andlát hennar (sjá A Writer's Diary: Being Extracts from the Diary of Virginia Woolf).

Eftir að hafa horft á Ferkantað líf þá er ég í stuði til að dýfa mér aðeins ofan í Bloomsbury-hópinn. Ég hlakka til að lesa fyrrnefnda ævisögu um Bell og svo langar mig að horfa aftur á myndina Carrington (1995), en tveir af mínum uppáhalds leikurum fara með aðalhlutverk í henni, Emma Thompson sem Dora Carrington og Jonathan Pryce sem Lytton Strachey (sjáið stikluna). Í gerð er kvikmynd eftir hollenska leikstjórann Sacha Polak sem kallast Vita & Virginia og er um samband Woolf og Vitu Sackville-West. Ég býð spennt.




þriðjudagur, 11. ágúst 2015

Náttúrulegt eldhús með réttri áferð

Náttúrulegt eldhús · Lísa Hjalt


Rétt áferð er það fyrsta sem kemur upp í hugann þegar ég skoða eldhúsið hér að ofan. Eldhús með opnum hillum einkennast yfirleitt af léttleika sem ég er hrifin af og stíliseringin á þessu, náttúruleg og hlýleg með keramiki og ýmsum munum í hlutlausum tónum, er fullkomin. Fyrir utan tvær mosagrænar eldhúseiningar er litapalettan hlutlaus sem þýðir að áferð er lykillinn að útliti sem fangar augað. Allt gengur upp hér og ábreiðan á Chesterfield-sófanum, handofið ungverskt lín, undirstrikar enn frekar hina réttu áferð. Hillur og aðrar eldhúseiningar eru smíðaðar úr ómeðhöndlaðri eik og viðarkassar eru notaðir undir ýmsa eldhúsmuni í stað þess að loka einingunum með skápshurðum.

Fyrir um þremur mánuðum síðan pinnað ég tvær myndir af þessu sama eldhúsi. Mér fannst ég kannast við myndirnar en gat ekki staðsett þær fyrr en ég fletti nýlega í gegnum bunka af tímaritum í leit að ákveðnu innliti. Í febrúartölublaði Elle Decoration UK 2015 blasti eldhúsið við mér aftur, hluti af innliti sem kallast Revival of a Classic (ljósmyndað af Michael Paul). Fyrst hélt ég að þetta væri kannski skandinavískt eldhús en það er í uppgerðu húsi í Edward-byggingarstíl við ströndina í West Sussex, í suðurhluta Englands. Ef náttúrulegur og hrár stíll höfðar til ykkar þá er þetta innlit fyrir ykkur. Eigandi hússins er Alex Legendre, sem rekur verslunina I Gigi í Brighton.

[Langar ykkur að sjá meira? Myndirnar sem ég pinnaði sína ,Butler'-vaskinn, sem var keyptur notaður, og fyrrnefnda viðarkassa. Fyrir ykkur sem notið ekki Pinterest þá getið þið séð þessar myndir á heimasíðu norska innanhústímaritsins Vakre Hjem & Interiør.]

mynd mín | heimild: Elle Decoration UK, febrúar 2015, bls. 88 · Michael Paul