Sýnir færslur með efnisorðinu vanessa bell. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu vanessa bell. Sýna allar færslur

miðvikudagur, 8. febrúar 2017

№ 7 bókalisti | Vanessa Bell sýning

№ 7 bókalisti | Vanessa Bell-sýning · Lísa Stefan


Í gamla minnisbók hef ég skrifað tilvitnun sem fær mig alltaf til að hlæja. Leikkonan Emma Thompson var í NYT-dálkinum By the Book og þegar hún var spurð út í síðustu bókina sem fékk hana til að gráta svaraði hún: „I was on holiday years ago with “Corelli’s Mandolin.” Rendered inconsolable and had to be put to bed for the afternoon“ (Sunday Book Review, 23.09.2012). Ég dýrk'ana. Það er kominn tími á annan bókalista og bók Bernières er á honum, Vintage Books útgáfa, fallega myndskreytt af Rob Ryan. Þarna er líka skáldsaga eftir Sigurð Pálsson, sem er í miklu uppáhaldi. Ég sá hann stundum á kaffihúsum í Reykjavík, alltaf svo smart til fara, gjarnan með mynstraðan silkihálsklút eða alpahúfu (hann lærði í Frakklandi). Ég hef þegar minnst á Doris Lessing og að ég væri að endurlesa Little Women. Hér er № 7 bókalistinn, sá fyrsti árið 2017 (til þæginda hef ég númerað listana):

1  Fictions  · Jorge Luis Borges
2  The Grass is Singing  · Doris Lessing
3  The Golden Notebook  · Doris Lessing
4  Captain Corelli's Mandolin  · Louis De Bernières
5  Instead of a Book: Letters to a Friend  · Diana Athill
6  Local Souls  · Allan Gurganus
7  Parísarhjól  · Sigurður Pálsson
8  Little Women  · Louisa May Alcott
9  In Montmartre: Picasso, Matisse and Modernism in Paris, 1900-1910  ·
Sue Roe


Ég er næstum því með samviskubit yfir því að hafa ekki lesið æviminningar Athill, Instead of a Letter, en þegar ég sá Instead of a Book á útsölu í Waterstones vissi ég að hún færi á listann minn. Í bókinni eru bréf sem hún skrifaði í yfir þrjátíu ár til ameríska ljóðskáldsins Edward Field, sem geymdi þau og vildi gefa út. Í innganginum bendir Athill gamansamlega á:
Usually when someone's letters are published the writer is dead. In this case there was a problem: Edward is six years younger than I am, but since I'm ninety-three that doesn't make him young. If he waited until I was dead he might be dead too. (bls. vii)
Hrós til rithöfunda sem fá mann til að skella upp úr í bókabúð! Ég hef aldrei lesið bók eftir höfundinn Gurganus. Ég keypti bókina hans eftir að hafa hlustað á samræður hans og Michael Silverblatt í Bookworm (þætti frá nóv. 2013) og endaði á því að hlusta á allar samræður þeirra. Ég var að hugsa um að setja hana upp í hillu og lesa fyrst Oldest Living Confederate Widow Tells All, en hún togaði í mig og fór á listann. Það gladdi mig að finna bók Roe á bókasafninu. Það eina sem ég get sagt um hana núna er að ég vildi að í henni væru fleiri myndir (á myndinni minni hér að ofan sést í málverk Modigliani, Caryatid, 1911).

Listaverk: Vanessa Bell, Nude with Poppies, 1916
Vanessa Bell, Nude with Poppies, 1916

Stundum vildi ég óska að ég byggi nær London. Þá gæti ég tekið næstu lest til að sjá Vanessa Bell sýninguna í Dulwich Picture Gallery sem opnar í dag (þangað er stutt lestarferð frá miðri London). Listakonan Vanessa Bell (1879–1961) tilheyrði bóhemíska Bloomsbury-hópnum og var systir Virginiu Woolf (ljósmyndin af henni sem sést á myndinni minni er tekin fyrir utan Charleston-setrið árið 1925). Sýningunni lýkur 4. júní. Í tengslum við sýninguna kemur út bókin Vanessa Bell (ritstj. Sarah Milroy, Philip Wilson Publishers) sem mig langar að eiga. Ef þið eruð Bell-aðdáendur þá langar mig að benda ykkur á safnaratölublað Harper's Bazaar UK, mars 2017, sem er eingöngu fáanlegt í gegnum Dulwich-safnið.

Ljósmynd af Vanessu Bell sem sést á minni mynd er úr bókinni Charleston: A Bloomsbury House & Garden og málverk Amedeo Modigliani úr bókinni In Montmartre á bókalistanum (© Musée d'Art Moderne de la Ville de Paris) | Vanessa Bell listaverk af vefsíðu Art UK (© 1961 estate of Vanessa Bell, Henrietta Garnett, Swindon Art Gallery)



miðvikudagur, 16. september 2015

Bókin Charleston: A Bloomsbury House & Garden

Umfjöllun um bókina Charleston: A Bloomsbury House & Garden · Lísa Stefan


Í sumar fékk ég góða viðbót í safnið, bókina Charleston: A Bloomsbury House and Garden eftir Quentin Bell og dóttur hans Virginiu Nicholson. Quentin var sonur listakonunnar Vanessu Bell (systir Virginiu Woolf) og eiginmanns hennar Clive. Bókin rekur sögu Charleston-setursins í Sussex, sem Vanessa tók á leigu á tímum fyrri heimsstyrjaldarinnar - á þeim tímapunkti var hjónaband hennar og Clive bara að nafninu til. Auk sona hennar bjuggu hjá henni listamaðurinn Duncan Grant og vinur hans David Garnett, en þeir voru elskendur. Það vill svo til að Vanessa og Duncan eignuðust dótturina Angelica, sem fæddist í húsinu. Fyrrnefndur David kvæntist Angelicu síðar á ævinni. Það er ekki efni þessarar færslu en það er óhætt að segja að sambönd gátu oft verið örlítið flókin, eða eigum við að segja skrautleg, innan Bloomsbury-hópsins, eins og vinahópurinn var kallaður (sjá einnig færsluna Þáttaröðin Ferkantað líf ). Bókin um Charleston er skemmtileg og smáatriðin í stílnum eru endalaus uppspretta innblásturs; bóhemískur stíll með dásamlegum persónulegum og listrænum snúningi.

Svefnherbergi Vanessu Bell

Í bókinni fær hvert rými sinn kafla og rekin er saga þess, hvernig það var notað og innréttað. Quentin var 85 ára gamall þegar hann byrjaði á skrifunum og hafði lokið fyrsta uppkastinu þegar heilsu hans hrakaði. Þegar hann gat ekki lengur skrifað var það dóttir hans Virginia sem sat og hlustaði á sögur hans af húsinu og tók þær upp, en hún þekkti húsið einnig vel. Hann lést árið 1996 og hún kláraði að skrifa bókina. Köflunum er skipt niður í hluta merktum upphafsstöfum þeirra þannig að lesandinn veit alltaf hver skrifar. Ljósmyndir af rýmunum eru eftir Alen MacWeeney og í myndatexta má finna ýmis smáatriði. Það eru einnig gamlar svarthvítar ljósmyndir af heimilisfólki og vinum þeirra, en húsið varð vinsæll dvalarstaður Bloomsbury-hópsins.

Vanessa átti herbergið sem sést hér að ofan. Það var áður matargeymsla en árið 1939 var henni breytt og í stað lítils glugga komu franskir gluggar sem opnast út í garðinn. Ég hef aldrei farið að skoða Charleston en þetta horn er nú þegar í uppáhaldi. Skrifborðið hennar er franskt frá 19. öld og gluggatjöldin hannaði hún fyrir Omega-vinnustofurnar árið 1913. Þau sem sjást á myndinni eru endurgerð Laura Ashley frá árinu 1986.

Setustofa Duncans í vinnustofunni

Eftir samningsviðræður tók Vanessa húsið á langtímaleigu. Það þýddi að hún og Duncan gátu byggt alvöru vinnustofu sem var tilbúin árið 1925 með nægu plássi til að mála, góðu rými fyrir þá sem sátu fyrir á myndum og setustofu fyrir Duncan. Roger Fry, sem tilheyrði Bloomsbury-hópnum og var stofnandi Omega-vinnustofanna, aðstoðaði við bygginguna. Duncan skreytti skilrúmin á bak við stólinn og panilana í kringum arininn upp úr 1930. Síðar, eða árið 1939, breytti Vanessa herbergi á efstu hæðinni í vinnustofu sem hún hafði út af fyrir sig.

Glugginn í svefnherbergi Duncans

Quentin segir í bókinni að hann hafi sofið í öllum herbergjum í Charleston en að svefnherbergið sem Duncan átti hafi verið í mestu uppáhaldi, en í því herbergi var skemað hvað mest útpælt. Vanessa málaði skreytingarnar í kringum gluggann og hún hannaði einnig ábreiðuna á franska gluggasætinu.

Í skrifstofuherbergi Clive Bell

Myndin hér að ofan sýnir skrifstofuherbergi Clive Bell, sem var áður notað sem stofa. Clive hafði verið tíður gestur í húsinu en árið 1939 flutti hann inn. Vanessa málaði skreytingarnar í kringum gluggann árið 1916-17. Duncan málaði flísarnar í borðplötunni upp úr 1920 eða 1930.

Þar til ég get farið að skoða Charleston-setrið (á vefsíðunni er að finna upplýsingar um hvenær það er opið almenningi) þá verð ég bara að njóta herbergjanna og skrautmunanna í bókinni minni. Eina eftirsjáin er að eiga ekki innbundið eintak því þessi bók er ein af þeim í safninu sem mér á eftir að þykja meira og meira vænt um.

Svo sannarlega endalaus uppspretta innblásturs!

Zarafshan efni úr líni frá Lewis & Wood

Að lokum: Allar textílprufurnar sem ég notaði í stíliseringunni eru frá Lewis & Wood. Efnið, sem er innblásið af hinni austrænu Suzani-hefð, kallast Zarafshan og er úr 100% líni. Það er til í nokkrum litum og sjást þrír þeirra hér: Í fyrstu tveimur myndunum Indigo/Cranberry, í þeirri þriðju Turquoise/Lime og í síðustu tveimur Rust/Slate. Meira um Lewis & Wood síðar.



fimmtudagur, 13. ágúst 2015

Þáttaröðin Ferkantað líf

Þáttaröðin Ferkantað líf · Lísa Stefan


Nú veit ég ekki hvort byrjað er að sýna seríuna Ferkantað líf (Life in Squares) á Íslandi en síðasti þátturinn var sýndur á BBC í vikunni. Hún var kynnt sem dramaþáttaröð í þremur hlutum um sambandið á milli ensku listakonunnar Vanessu Bell og systur hennar, rithöfundarins Virginiu Woolf. Mér fannst sagan fjalla meira um sambandið á milli Bell og listamannsins Duncans Grants. Ekki það að ég sé að kvarta, ég hafði virklega gaman af þáttunum, fallegri sviðsmyndinni og búningunum. Leikkonan Phoebe Fox leikur hina yngri Bell og Eve Best þá eldri. Ég hafði ekki séð Fox leika áður og mér þótti hún standa sig vel. Hún smellpassaði við þá mynd sem ég hef af Bell í huganum. James Norton skilar sínu hlutverki sem yngri Grant vel (ég sá hann fyrst sem Tommy í seríunni Happy Valley) og það gerir einnig Rupert Penry-Jones sem leikur eldri Grant. Ég vil bæta því við að allir leikararnir eiga lof skilið. Þarna eru saman komnir frábærir breskir leikarar sem vekja hinn þekkta Bloomsbury-hóp til lífs á skjánum og bóhemískan lífsstílinn. Handrit skrifar Amanda Coe og hinn sænski Simon Kaijser leikstýrir.
Lavender · Lísa Stefan


Ef þið hafði ekki horft á þættina þá verð ég eiginlega að vara ykkur smá við fyrsta þættinum. Það er mjög miklu efni komið til skila í honum - ástarsambönd og andlát - sem fólk tengir betur við ef það þekkir þegar sögu þeirra einstaklinga sem kenndir eru við Bloomsbury-hópinn. Það er mín skoðun að þættirnir hefðu átt að vera fjórir í stað þriggja til að kynna betur þessa einstaklinga. Í öðrum þætti er sagan farin að flæða mun betur og auðveldara að fylgja henni.


Kannski er það klisja að kalla lífsstíl Bloomsbury-hópsins bóhemískan, eins og ég gerði hér að ofan, en leikmyndin (mise en scène) er það svo sannarlega. Sjáið fyrir ykkur listaverk, tæki og tól listamanna, skrifborð, bækur, bréf, o.s.frv. Þegar fyrri heimsstyrjöldin stóð yfir kom Vanessa Bell upp heimili í Charleston House í Sussex, þar sem meginhluti þáttanna gerist. Þið getið skoðað myndir af listamannalegum stíl setursins á heimasíðu House & Garden.

To the Lighthouse eftir Virginia Woolf · Lísa Hjalt


Fyrir mig er tímasetning þáttanna athyglisverð því í byrjun sumars tók ég úr hillunni bókina To the Lighthouse (Út í vitann á ísl.) eftir Woolf, en ég á það til að lesa hana á sumrin. Á meðan lestrinum stóð var ég að hugsa um þær systur, Virginiu og Vanessu, horfði á myndina The Hours (2002) í hundraðasta sinn og pantaði ævisöguna Vanessa Bell eftir Frances Spalding. Ég áttaði mig nefnilega á því að minn fókus var alltaf á Woolf og hennar sögu. Ég vissi minna um Bell en þættirnir gáfu mér innsýn í hennar lífshlaup.

The World of Interiors, september 2014, bls. 146

Í langan tíma hef ég verið heilluð af Virginiu Woolf. Ég man ekki hvenær sá áhugi gerði fyrst vart við sig eða hvaða verk hennar ég las fyrst. Svo margt hefur verið skrifað um ævi hennar. En ég get mælt með bókinni Moments Of Being, sem er safn af hennar sjálfsævilegu skrifum (las hana í kúrsi í háskólanum á sínum tíma) . Frændi hennar Quentin Bell (sonur Vanessu og Clive Bell) skrifaði ævisögu hennar sem spannar tímabilið 1912 til 1941, Virginia Woolf: A Biography. Eiginmaður hennar, Leonard Woolf, ritstýrði dagbókunum og gaf út eftir andlát hennar, A Writer's Diary: Being Extracts from the Diary of Virginia Woolf.

Eftir að hafa horft á Ferkantað líf þá er ég í stuði til að dýfa mér aðeins ofan í Bloomsbury-hópinn. Ég hlakka til að lesa fyrrnefnda ævisögu um Bell og svo langar mig að horfa aftur á myndina Carrington (1995), en tveir af mínum uppáhalds leikurum fara með aðalhlutverk í henni, Emma Thompson sem Dora Carrington og Jonathan Pryce sem Lytton Strachey (sjáið stikluna). Í gerð er kvikmynd eftir hollenska leikstjórann Sacha Polak sem kallast Vita & Virginia og er um samband Woolf og Vitu Sackville-West. Ég býð spennt.