Sýnir færslur með efnisorðinu listabækur. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu listabækur. Sýna allar færslur

sunnudagur, 19. apríl 2020

Art of Native America: The Charles and Valerie Diker Collection · The Met Museum

Bókarkápa: Art of Native America: The Charles and Valerie Diker Collection - The Met Museum


Ég var innblásin af náminu mínu í safnafræði þegar ég valdi bókarkápu Art of Native America: The Charles and Valerie Diker Collection (2018) fyrir þessa fyrstu bloggfærslu eftir margra vikna hlé. Á önninni sat ég í kúrsi sem kallast „Safn og samfélag: Sirkus dauðans?“ þar sem við lásum meðal annars um safnastarf í samfélögum Hopi- og Zuni-frumbyggja í Norður-Ameríku. Fyrir utan að lesa námsbækur og fræðigreinar skoðaði ég efni um varðveislu á vefsíðum safna og í þeirri leit fann ég þessa fallegu útgáfu frá Metropolitan Museum of Art. Í safneign Charles og Valerie Diker eru gripir frá meira en fimmtíu menningarheimum N-Ameríku, sem spanna tímabilið frá því áður en hvíti maðurinn nam land til fyrri hluta 20. aldar. Bókin veitir innsýn í list, menningu og daglegt líf í frumbyggjasamfélögum.

Kápumynd, smáatriði: mussa/kyrtill og legghlífar eftir Tlingit-listamann.


Art of Native America: The Charles and Valerie Diker Collection
Höf. Gaylord Torrence, Ned Blackhawk og Sylvia Yount
Innbundin, 232 blaðsíður, myndskreytt
ISBN: 9781588396624
Metropolitan Museum of Art



Hluti af yfirhöfn karlmanns, ca 1820, Innu (Naskapi), frumbyggjar N-Ameríku/The Met
Hluti af yfirhöfn karlmanns, ca. 1820, Innu (Naskapi), frumbyggjar N-Ameríku/The Met

Í desember þegar ég deildi fyrstu bókarkápufærslunni hélt ég í alvörunni að ég gæti notað þessar færslur til að halda blogginu lifandi á meðan ég væri í námi. En ég hef áttað mig á því að það er ómögulegt þegar lífið einkennist af skiladögum verkefna ofan á lestur fyrir hvern fyrirlestur. Það koma tímabil þar sem tilfinningin er sú að maður komi varla upp til að anda.

Bókarkápa: Museum as Process eftir Raymond A. Silverman · Lísa Stefan

Vegna kórónuveirufaraldursins hefur þessi önn verið skrýtin. Hún er næstum búin og hér í Austurríki hefur aðeins verið slakað á reglum um samkomubann. Því miður eru öll söfn enn lokuð þannig að ég hef hætt að gera mér vonir um að starfa sem nemi á safni í sumar. En góðu fréttirnar eru þær að enginn náinn mér hefur smitast og ég vona að blogglesendur mínir geti sagt hið sama. Farið vel með ykkur!

Mynd af yfirhöfn karlmanns af vefsíðu The Met



miðvikudagur, 8. janúar 2020

Legacy of the Masters: Painting and Calligraphy from the Islamic World · Will Kwiatkowski

Legacy of the Masters: Painting and Calligraphy from the Islamic World (PHP) eftir Will Kwiatkowski · Lísa Hjalt


Ég vil byrja nýja árið á blogginu með bókarkápu sem fékk hönnunarhjartað til að slá aðeins hraðar. Legacy of the Masters: Painting and Calligraphy from the Islamic World eftir Will Kwiatkowski var gefin út í október síðastliðnum af bókaútgáfunni Paul Holberton Publishing. Bókin hefur að geyma 75 myndir í lit af málverkum, teikningum og skrautskrift frá Safavíd-, Úsbek-, Ottóman- og Mógúl-veldunum frá 16. öld þar til snemma á 19. öld. Þessi bók nyti sín vel á kaffiborði alls áhugafólks um skreytilist og íslamska menningu.

Legacy of the Masters: Painting and Calligraphy from the Islamic World
Höf. Will Kwiatkowski
Innbundin, 192 blaðsíður, myndskreytt
ISBN: 9781911300731
Paul Holberton Publishing



föstudagur, 26. apríl 2019

№ 20 bókalisti | Lee Krasner sýning í London

№ 20 bókalisti | Sýningin Lee Krasner: Living Colour · Lísa Stefan


Ég sit undir markísu á veröndinni og anda að mér vorinu, ilmi fjólublárra og hvítra sýrena úr horni garðsins. Bókahlaðvörp spilast eitt af öðru í tölvunni. Eigum við að kíkja á verkin á bókalistanum? Í fyrra kom út í nýrri þýðingu, eftir ljóðskáldið Michael Hofmann, klassíkin Berlin Alexanderplatz eftir Alfred Döblin, gefin út af New York Review Books. Ég er hrifin af bókahönnun þeirra og margir titlar hafa ratað á óskalistann. Ég las aldrei gömlu þýðinguna þannig að ég hef engan samanburð. Undirheimar Berlínar eru sögusviðið, Weimar-lýðveldið upp úr 1920, og í upphafi bókar er hinn skrautlegi Franz Biberkopf að koma úr fangelsi, staðráðinn í að snúa blaðinu við. Hin bókin sem ég keypti til að setja á listann er The Years eftir Annie Ernaux, sem ég minntist á síðustu færslu. Aðrar koma úr hillum bókasafnsins.

№ 20 bókalisti:
1  The Years  · Annie Ernaux
2  Berlin Alexanderplatz  · Alfred Döblin
3  The Wife  · Meg Wolitzer
4  The Mexican Night  · Lawrence Ferlinghetti
5  The Garden Party  · Katherine Mansfield
6  It All Adds Up  · Saul Bellow
7  The Diary of Anaïs Nin 1931-1934 

Enskar þýðingar: 1) The Years: Alison L. Strayer; 2) Berlin Alexanderplatz:
Michael Hofmann

Það eru ár síðan ég las bindi af dagbókum Anaïs Nin og mér fannst eitthvað notalegt við að grípa ofan í það sem er á listanum, sem byrjar árið 1931. Ég hef lengi ætlað mér að lesa sögur eftir Katherine Mansfield en henni kynntist ég í gegnum dagbækur og bréfaskrif Virginiu Woolf. Smásögusafnið The Garden Party byrjar vel og mér líkar strax ritstíllinn. Mansfield var ekki nema 34 ára þegar hún lést og maður getur rétt ímyndað sér hverju hún hefði getað áorkað sem rithöfundur.

Listaverk: Lee Krasner, Desert Moon, 1955. LACMA. © The Pollock-Krasner Foundation
Lee Krasner, Desert Moon, 1955

Mig langar í menningarferð til London í sumar, til að sjá sýninguna Lee Krasner: Living Colour í listagalleríi Barbican Centre, sem opnar 30. maí. Lee Krasner (1908–1984) var amerísk listakona, fædd í Brooklyn, og var brautryðjandi abstrakt expressjónisma. Í kynningarskrá segir að í „kraftmiklum verkum hennar endurspeglist andi tækifæranna í New York eftirstríðsáranna“ og að sýningin „segi sögu stórkostlegs listamanns, hvers mikilvægi hefur of oft fallið í skugga hjónabands hennar og Jackson Pollock.“

Þetta er fyrsta stórsýningin á verkum Lee Krasner í Evrópu í meira en 50 ár, skipulögð af Barbican Centre í samvinnu við listasöfnin Schirn Kunsthalle Frankfurt, Zentrum Paul Klee í Bern og Guggenheim Bilbao. Samhliða sýningunni kemur út bókin Lee Krasner: Living Colour eftir Eleanor Nairne, í útgáfu Thames & Hudson.

Í október verður hægt að njóta verka Lee Krasner hér í Þýskalandi, á safninu Schirn Kunsthalle Frankfurt.

Listakonan Lee Krasner í vinnustofu sinni. Kasmin Gallery, NY. © 2017 The Pollock-Krasner Foundation
Listakonan Lee Krasner í vinnustofu sinni

Listaverk: Lee Krasner, Palingenesis, 1971. Kasmin Gallery, NY. © The Pollock-Krasner Foundation
Lee Krasner, Palingenesis, 1971

efsta mynd mín | Lee Krasner listaverk af vefsíðu Barbican Centre: 1) LACMA (Los Angeles County Museum of Art) 2) Kasmin Gallery, NY | Krasner í vinnustofu sinni: Kasmin Gallery af síðunni Artsy. © The Pollock-Krasner Foundation



föstudagur, 20. janúar 2017

Kaffiborðsbækur | Bitten by Witch Fever

Kaffiborðsbækur | Bitten by Witch Fever · Lísa Stefan


Nýverið nefndi ég að ég væri með nokkrar kaffiborðsbækur í augsýn. Sumar eru þegar fáanlegar, aðrar koma fljótlega eða í vor, eins og Hokusai: Beyond the Great Wave. Á listanum er ein sem ég er þegar byrjuð að lesa með miklum áhuga, Bitten by Witch Fever: Wallpaper & Arsenic in the Victorian Home eftir Lucinda Hawksley, sem var jólagjöf frá vinkonu. Í bókinni eru kynntar 275 prufur af veggfóðri sem voru rannsakaðar og reyndust innihalda arsenik.

Mig hefur langað að bæta við nýrri listabók á kaffiborðið mitt og ég held að ég hafi fundið þá réttu, Hokusai: Beyond the Great Wave. Í bókinni eru 300 myndir af verkum japanska listamannsins Katsushika Hokusai (1760–1849), sem hann skapaði á síðustu þrjátíu árum ævi sinnar. Útgáfa bókarinnar (snemma í maí) á sér stað samhliða sýningu sem opnar í British Museum þann 25. maí, og lýkur í ágúst. Það sem mig langar að komast til London til að sjá sýninguna og eyða nokkrum dögum í Bloomsbury-hverfinu.

Listaverk: Katsushika Hokusai
Katsushika Hokusai, Clear day with a southern breeze (Red Fuji), 1831

Við skulum kíkja á listann yfir kaffiborðsbækurnar, í handahófskenndri röð með stuttum athugasemdum við hverja (kannski hafið þið séð einhverjar hér til hliðar á blogginu):


· The Japanese House: Architecture and Life: 1945 to 2017  eftir Pippo Ciorra og Florence Ostende (Marsilio). Ef arkitektúr er ástríða ykkar þá tekur þessi yfirgripsmikla bók fyrir japanskan arkitektúr frá tímum síðari heimsstyrjaldarinnar til nútímans.
· The Long Life of Design in Italy: B&B Italia. 50 Years and Beyond  eftir Stefano Casciani (Skira). Árið 1966 stofnaði Piero Ambrogio Busnelli ítalska húsgagnafyrirtækið B&B Italia og núna getum við notið sögu þess í fallegu riti (sjá stutt myndband á vefsíðu þeirra).
· Blumarine: Anna Molinari eftir Elena Loewenthal, í ritstjórn Maria Luisa Frisa (Rizzoli). Drottning rósarinnar, hönnuðurinn Anna Molinari, hjá ítalska tískuhúsinu Blumarine á marga aðdáendur. Ég held að margt áhugafólk um tísku bíði eftir útgáfu þessarar bókar, sem inniheldur ljósmyndir eftir menn eins og Helmut Newton, Tim Walker, Albert Watson og Craig McDean. Ég myndi kaupa hana bara vegna bókarkápunnar!
· Adobe Houses: House of Sun and Earth  eftir Kathryn Masson (Rizzoli). Mig langar að komast yfir þessa sem sýnir 23 heimili í Kaliforníu, innan- og utandyra. Adobe-hús með hvítþvegnum veggjum og sýnilegum bjálkum ... já takk.
· Art House: The Collaboration of Chara Schreyer & Gary Hutton  eftir Alisa Carroll (Assouline). Myndræn veisla: fimm heimili hönnuð með það að markmiði að rúma 600 listaverk, samstarf listaverkasafnarans Schreyer og innanhússhönnuðarins Hutton.
· Flourish: Stunning Arrangements with Flowers and Foliage  eftir Willow Crossley (Kyle Books). Ef ykkur langar að endurskreyta heimilið með blómum þá er ég viss um að þið getið sótt innblástur í bók Willow Crossley, sem Emma Mitchell ljósmyndaði fallega.
· Around That Time: Horst at Home in Vogue  eftir Valentine Lawford og Ivan Shaw (Abrams Books). Ég hef ekki enn fundið þessa í bókabúð, bara séð umfjöllun í tímaritum (það glittir í eina á neðstu myndinni). Bókin inniheldur, meðal annars, ljósmyndir eftir Horst P. Horst sem birtust í Vogue's Book of Houses, Gardens, People frá árinu 1968 (lífsförunautur hans Valentine Lawford skrifaði textann). Formála bókarinnar skrifar Hamish Bowles hjá Vogue. Sjá meira hér.
· Bitten by Witch Fever: Wallpaper & Arsenic in the Victorian Home  eftir Lucinda Hawksley (Thames & Hudson, gefin út í samstarfi við The National Archives). Fyrrnefnd bók sem sýnir 275 prufur af veggfóðri eftir hönnuði eins og Corbière, Son & Brindle, Christopher Dresser og Morris & Co. (Sjá meira hér að neðan.)
· Hokusai: Beyond the Great Wave  eftir Timothy Clark, Shugo Asano og Roger Keyes (Thames & Hudson). Fyrrnefnd bók um japanska listamanninn Katsushika Hokusai sem inniheldur verk sem hann skapaði á síðustu þrjátíu æviárunum. Í bókinni fær dóttir hans Eijo (Ōi) löngu tímabæra athygli, en hún telst til listamanna Edo-tímabilsins, á síðari hluta 19. aldar. Útgáfa bókarinnar á sér stað samhliða sýningu í British Museum sem opnar í maí.

Listaverk: brot af verki eftir Hokusai
Brot af verki Hokusai, The poet Rihaku lost in wonder at the majesty of the great waterfall

Ég varð að birta hér myndir af tveimur verkum Hokusai í því sem líklega útleggst á íslensku sem viðarprent (e. woodblock printing). Ferill hans spannaði sjö áratugi en flestir þekkja til verkanna sem hann skapaði á síðari hluta ævinnar. Blái liturinn, hinn prússneski blái, eins og hann kallast, hefur alltaf heillað mig og laðað mig að verkum Hokusai.

Fyrir þá sem hafa áhuga á skoða fleiri verk eftir Hokusai (eða annað listafólk) þá má finna gott yfirlit verka hans á vefsíðu Artsy og ritstjórnargrein með skemmtilegum staðreyndum. Artsy er vefsíða sem ég bætti bara nýlega á listann minn og varð strax í uppáhaldi (þau eru líka með hlaðvarp). Stefna Artsy er að gera alla list heimsins aðgengilega þeim sem hafa netaðgang.

„Blue Bird Amongst the Strawberries“, mynstur eftir Charles F. A. Voysey, minnir á hið þekkta
„Strawberry Thief“ frá 1883 eftir William Morris. Úr bókinni Bitten by Witch Fever, bls. 131

Við lestur Bitten by Witch Fever: Wallpaper & Arsenic in the Victorian Home, sem ég er enn að lesa, hef ég gert mér grein fyrir því að ég hafði ekki hugmynd um að eitraðir litir hefðu verið notaðir til að hanna veggfóður án þess að það teldist hættulegt (það var Carl Wilhelm Scheele sem árið 1775 notaði arsenik til að búa til grænan lit, Scheele's Green, sem varð vinsæll og var t.d. notaður til að búa til skæran grænan lit fyrir veggfóður):
Many dismissed as ludicrous the doctors who held that the wallpapers were poisonous, including English wallpaper designer William Morris, who stated that they 'were bitten as people were bitten by the witch fever'. (bls. 7)
Ég varð að fletta upp í síðasta kaflanum til að komast að því að veggfóður laus við arsenik voru ekki framleidd í Bretlandi fyrr en 1859, án þess að almenningur veitti því sérstaka eftirtekt. Þar var ekki fyrr en upp úr 1870 að Morris & Co. „létu loksins undan þrýstingi almennings“ og þá varð það „stórfrétt“ (bls. 226). Þessi bók er svo sannarlega áhugaverð svo ekki sé minnst á fallega hönnun: Það eru sjö stuttir kaflar - í útliti eins og bæklingar - á milli kafla með mynstrum í litaröð, sem sýna veggfóðrin sem voru rannsökuð.

Kaffiborðsbækur | Bitten by Witch Fever, veggfóður · Lísa Stefan
Ljósgrænn. Corbière, Son & Brindle, London, UK, 1879. Bitten by Witch Fever,
Mynsturkafli V, bls. 141

Katsushika Hokusai listaverk af vefsíðum: 1. The British Museum, 2. Thames & Hudson Útgáfulisti vor 2017



miðvikudagur, 16. september 2015

Bókin Charleston: A Bloomsbury House & Garden

Umfjöllun um bókina Charleston: A Bloomsbury House & Garden · Lísa Stefan


Í sumar fékk ég góða viðbót í safnið, bókina Charleston: A Bloomsbury House and Garden eftir Quentin Bell og dóttur hans Virginiu Nicholson. Quentin var sonur listakonunnar Vanessu Bell (systir Virginiu Woolf) og eiginmanns hennar Clive. Bókin rekur sögu Charleston-setursins í Sussex, sem Vanessa tók á leigu á tímum fyrri heimsstyrjaldarinnar - á þeim tímapunkti var hjónaband hennar og Clive bara að nafninu til. Auk sona hennar bjuggu hjá henni listamaðurinn Duncan Grant og vinur hans David Garnett, en þeir voru elskendur. Það vill svo til að Vanessa og Duncan eignuðust dótturina Angelica, sem fæddist í húsinu. Fyrrnefndur David kvæntist Angelicu síðar á ævinni. Það er ekki efni þessarar færslu en það er óhætt að segja að sambönd gátu oft verið örlítið flókin, eða eigum við að segja skrautleg, innan Bloomsbury-hópsins, eins og vinahópurinn var kallaður (sjá einnig færsluna Þáttaröðin Ferkantað líf ). Bókin um Charleston er skemmtileg og smáatriðin í stílnum eru endalaus uppspretta innblásturs; bóhemískur stíll með dásamlegum persónulegum og listrænum snúningi.

Svefnherbergi Vanessu Bell

Í bókinni fær hvert rými sinn kafla og rekin er saga þess, hvernig það var notað og innréttað. Quentin var 85 ára gamall þegar hann byrjaði á skrifunum og hafði lokið fyrsta uppkastinu þegar heilsu hans hrakaði. Þegar hann gat ekki lengur skrifað var það dóttir hans Virginia sem sat og hlustaði á sögur hans af húsinu og tók þær upp, en hún þekkti húsið einnig vel. Hann lést árið 1996 og hún kláraði að skrifa bókina. Köflunum er skipt niður í hluta merktum upphafsstöfum þeirra þannig að lesandinn veit alltaf hver skrifar. Ljósmyndir af rýmunum eru eftir Alen MacWeeney og í myndatexta má finna ýmis smáatriði. Það eru einnig gamlar svarthvítar ljósmyndir af heimilisfólki og vinum þeirra, en húsið varð vinsæll dvalarstaður Bloomsbury-hópsins.

Vanessa átti herbergið sem sést hér að ofan. Það var áður matargeymsla en árið 1939 var henni breytt og í stað lítils glugga komu franskir gluggar sem opnast út í garðinn. Ég hef aldrei farið að skoða Charleston en þetta horn er nú þegar í uppáhaldi. Skrifborðið hennar er franskt frá 19. öld og gluggatjöldin hannaði hún fyrir Omega-vinnustofurnar árið 1913. Þau sem sjást á myndinni eru endurgerð Laura Ashley frá árinu 1986.

Setustofa Duncans í vinnustofunni

Eftir samningsviðræður tók Vanessa húsið á langtímaleigu. Það þýddi að hún og Duncan gátu byggt alvöru vinnustofu sem var tilbúin árið 1925 með nægu plássi til að mála, góðu rými fyrir þá sem sátu fyrir á myndum og setustofu fyrir Duncan. Roger Fry, sem tilheyrði Bloomsbury-hópnum og var stofnandi Omega-vinnustofanna, aðstoðaði við bygginguna. Duncan skreytti skilrúmin á bak við stólinn og panilana í kringum arininn upp úr 1930. Síðar, eða árið 1939, breytti Vanessa herbergi á efstu hæðinni í vinnustofu sem hún hafði út af fyrir sig.

Glugginn í svefnherbergi Duncans

Quentin segir í bókinni að hann hafi sofið í öllum herbergjum í Charleston en að svefnherbergið sem Duncan átti hafi verið í mestu uppáhaldi, en í því herbergi var skemað hvað mest útpælt. Vanessa málaði skreytingarnar í kringum gluggann og hún hannaði einnig ábreiðuna á franska gluggasætinu.

Í skrifstofuherbergi Clive Bell

Myndin hér að ofan sýnir skrifstofuherbergi Clive Bell, sem var áður notað sem stofa. Clive hafði verið tíður gestur í húsinu en árið 1939 flutti hann inn. Vanessa málaði skreytingarnar í kringum gluggann árið 1916-17. Duncan málaði flísarnar í borðplötunni upp úr 1920 eða 1930.

Þar til ég get farið að skoða Charleston-setrið (á vefsíðunni er að finna upplýsingar um hvenær það er opið almenningi) þá verð ég bara að njóta herbergjanna og skrautmunanna í bókinni minni. Eina eftirsjáin er að eiga ekki innbundið eintak því þessi bók er ein af þeim í safninu sem mér á eftir að þykja meira og meira vænt um.

Svo sannarlega endalaus uppspretta innblásturs!

Zarafshan efni úr líni frá Lewis & Wood

Að lokum: Allar textílprufurnar sem ég notaði í stíliseringunni eru frá Lewis & Wood. Efnið, sem er innblásið af hinni austrænu Suzani-hefð, kallast Zarafshan og er úr 100% líni. Það er til í nokkrum litum og sjást þrír þeirra hér: Í fyrstu tveimur myndunum Indigo/Cranberry, í þeirri þriðju Turquoise/Lime og í síðustu tveimur Rust/Slate. Meira um Lewis & Wood síðar.



fimmtudagur, 15. janúar 2015

Nýtt! Lestur & Latte

Nýtt blogg! Lestur & Latte · Lísa Hjalt


Sæl öllsömul og gleðilegt ár! Ég vona að þið hafið átt notalega frídaga yfir hátíðirnar. Ég hefði gjarnan viljað byrja fyrsta póstinn á nýju ári, eftir langt blogghlé, á jákvæðum nótum en þar sem París er í miklu uppáhaldi þá verð ég að segja að hugur minn hefur verið með íbúum borgarinnar. Fyrst var það gíslatakan í Sydney fyrir jól og svo þessi hryllingur í París í síðustu viku. Eins og John Lennon leyfi ég mér að dreyma, samstöðugangan á sunnudaginn gaf mér von. Ég skrifaði þennan póst með lag hans, Imagine, í bakgrunni:

Nothing to kill or die for, And no religion too,
Imagine all the people, Living life in peace…

~ • ~
Í lok október í fyrra tilkynnti ég breytingar á blogginu og tók hlé og nú er kominn tími til að bjóða ykkur velkomin á „nýja“ Lestur & Latte. Ég breytti sem sagt nafninu og vefslóðinni líka en útlitið tók engum drastískum breytingum. Ég vildi ekki byrja að blogga aftur fyrr en eiginmaðurinn hefði lokið smíði á borði sem mig hefur dreymt um fyrir myndatökur. Það er sérsniðið fyrir eldhúsið og ég hef nóg pláss fyrir tölvuna, skrifblokkir, matreiðslubækur og aðra hluti þegar ég er að stússast í eldhúsinu - ég er þakklát fyrir að eiga laghentan mann. Megin breytingin á blogginu verður sú að héðan í frá birti ég bara mínar eigin myndir sem þýðir að ég hætti öllum bloggseríum. Ég mun auk þess birta færslur sjaldnar.

Edgar Degas, The Rehearsal, 1874 - bls. 171 í bókinni Masterworks eftir Iian Zaczek

Upphaflega var hugmyndin að nota bara Pinterest fyrir myndir frá öðrum, en mér líkar að skrolla niður síður með stórum myndum og vissi að hluti af mér kæmi til með að sakna þess að blogga eins og ég gerði áður. Ég opnaði því nýlega Tumblr-síðu undir Lunch & Latte heitinu. Þar verður að finna myndir sem hefðu líklega endað á blogginu, en án bloggtexta og bara með stuttri lýsingu og vísun í heimildir.

Ég hugsaði með mér að lesendur bloggsins væru líklega ekki allir á Pinterest og sá hópur saknaði þess kannski að skoða síðu með stærri myndum af fallega hönnuðum og stíliseruðum heimilum og slíku. Ef þið hafið notað bloggið sem slíkan innblástur („rýmið“ bloggserían var alltaf vinsæl) þá ætti Tumblr-síðan að vera eins konar sárabót. Ég hef þegar birt góðan slatta af myndum, bara svo síðan virkaði ekki tóm í upphafi (sjá yfirlitið). Hversu oft og hvenær ég deili myndum á Tumblr mun bara velta á skapinu; eitthvað til að gera yfir lattebollanum þegar það hentar.



Á blogginu verður eitt og annað í gangi og þessi fyrsti póstur ætti að gefa ykkur tóninn. Hér verða færslur um það sem ég er að bralla í eldhúsinu, um það sem ratar á borðið mitt góða. Suma daga kem ég til með að fjalla um bækurnar sem ég er að lesa eða bæta í safnið (þessa dagana er ég aðallega að fá lánaðar listabækur á bókasafninu), eitthvað sem höfðar til mín í tímaritunum sem ég er að fletta (ég er loksins að gerast áskrifandi að The World of Interiors þar sem má alltaf finna fallegan textíl). Aðra daga deili ég kannski því sem ég er að elda eða baka, uppskrift sem ég er að setja saman þá stundina og hvaðan ég sótti innblástur (ein af þeim nýjustu varð til dæmis til við lestur á skáldsögu sem ég las nýverið). Til að auðvelda hlutina þá ætla ég að hætta að uppfæra matarbloggið (uppfærði það einu sinni í fyrra!) og nota bara þetta blogg til að deila uppskriftum héðan í frá.

Bráðum er ég að byrja í kúrs um arkitektúr í gegnum netið og kannski fjalla ég eitthvað um hann (ég hef engin plön um að taka gráðu, aðrir verða að gerast Einar Sveinssynir eða Guðjón Samúelssynir framtíðarinnar). Þegar vorið kemur má treysta því að ég rölti um eða hjóli með myndavélina til að fanga kirsuberjatré og magnólíur í blóma. Þetta verður fyrsta vorið mitt í South Yorkshire! Kannski það síðasta svona í ljósi þess hversu títt við höfum fært okkur um set á síðustu árum! (Elskan, eigum við nokkuð að vera að henda kössunum, er ekki betra að geyma þá bara?) Hvað fleira? Já, alveg rétt, á þessu ári kemur út uppskriftabókin hennar (Cafe)Sigrúnar vinkonu sem ég var búin að segja ykkur frá. Þessa dagana erum við einmitt að lesa yfir lokahandritið. Við erum búnar að sjá prufur af umbrotinu og bókin verður glæsileg. Það sem ég hlakka til að fletta henni og deila með ykkur.

Í raun þá hef ég engin niðurnegld plön fyrir bloggið. Ég ætla bara að fikra mig áfram með breyttar áherslur og sjá hvert þær leiða mig. Að lokum vil ég þakka ykkur fyrir heimsóknirnar á liðnum árum. Ég vona að 2015 verði árið þar sem þið komið auga á og verið óhrædd við að grípa tækifærin sem birtast ykkur. Og munið, lífið er of stutt fyrir annað en gæðakaffi.

PS. Ef einhverjir tenglar á blogginu virka ekki þá bið ég ykkur bara að sýna því þolinmæði því sumt þarf að uppfæra eftir breytingar. Athugið líka að héðan í frá birtast alltaf sömu færslurnar á ensku og íslensku útgáfunni á sama tíma.